Morgunblaðið - 24.12.2000, Síða 9
MORGUNBLAÐIÐ
SUNNUDAGUR 24. DESEMBER 2000 B 9
Af ein-
skærri
forvitni
AUGNLÆKNIRINN kom í héraðið
á hverju sumri með glerin sín í
kassa og spjald með misstórum
bókstöfum á. Magurt telpukorn á
ellefta ári var sent til hans, hún sá
ekki lengur á grænu krítartöfluna.
Nokkrum vikum síðar fékk hún
pakka með póstinum. í honum voru
fyrstu gleraugun, bleik og falleg.
Eftir þetta fékk hún ný gleraugu á
hverju sumri, svolítið sterkari en
þau sem hún fékk árið áður. Alltaf
varð hún jafnánægð. Henni var
sama um rispur og móðu og hún
kippti sér lítið upp við það þótt
armarnir væru skakkir og skældir.
Henni var líka sama um uppnefnin.
Hverju skiptu þau þegar valið stóð
um að sjá skýrt eða í þoku.
Það var að vísu dýrt spaug þegar
gleraugun brotnuðu í þrígang árið
sem hún fermdist. Eftir það fór hún
sér hægt. fþróttir og ærsl heyrðu
fortíðinni til. Þykkar bækur urðu
að ómótstæðilegum freistingum.
Gleraugun urðu með tímanum
bæði skjól og vörn. Aldrei hvarflaði
að henni að til væri líf án gler-
augna. Hún fór meira að segja í
sund og steypibað með þau á nef-
inu. Fáir fengu að sjá hana án
þeirra og hún sneri sér undan til að
pússa glerin.
Tæpum þijátíu árum og mörgum
gleraugum síðar bárust fréttir af
sársaukalitlum augnaðgerðum í
Ármúlanum í Reykjavík. Það var
eitthvað fyrir aðra, hún ætlaði ekki
að reisa sér skýjaborgir um gler-
augnalaust líf. Af rælni var samt
spurt á árlegu stefnumóti við augn-
lækni með gler í kassa hvort þetta
væri eitthvað sem gefa ætti gaum.
Því ekki það, sagði læknirinn.
Eitt leiðir af öðru. Án þess að
málið væri hugsað til hlítar var
ákveðið að láta til skarar skriða.
Forvitnin tók yfir höndina.
Það er satt að aðgerðin er sárs-
aukalaus. Tveir dropar af stað-
deyfilyfi sjá til þess. Á meðan lækn-
irinn skar horfði hún róleg í fallegt,
rautt ljós.
Það sveið ofurlitið í augun þegar
deyfingin var að fara. Það var ekki
verra en í sundi. En í marga daga
saknaði hún gleraugnanna sárt og
fannst hún nakin og berskjölduð.
Hún varð aftur 10 ára gömul.
Hálfum mánuði síðar var hún far-
in að þekkja konuna í speglinum.
Hún prófaði gömlu gleraugun sín
og fannst þau í fyrsta skipti á æv-
inni óþægileg. Þau voru eins og
heftiplástur yfir nefið þvert.
Morgunblaðlð/Ásdís
,Ég gat lesið á hvert einasta skilti í versluninni.
■ .J
Nærsýni, fjarsýni
og sjónskekkja
Um 25-30% Vesturlandabúa eru
háðir því að nota gleraugu til að
geta séð skýrt. Þrennt ákvarðar
sjónlag, sem sé hversu kröpp
hornhimnan er, ljósbrot auga-
steinsins og lengd augans. I aug-
um nærsýnna, þ.e.a.s. þeirra sem
sjá illa frá sér, er myndin skörpust
fyrir framan sjónhimnuna. Fólk
verður yfirleitt nærsýnt á tánings-
árum. Augu fjarsýnna eru þannig
að myndin er skörpust fyrir aftan
sjónhimnuna. „Öll fæðumst við
fjarsýn en augasteininn getur
framan af ævinni leiðrétt hana.
Hæfni hans til þess dvín með ár-
unum, sbr. aldursfjarsýni,“ segir
Þórður.
„Augað á að virka eins og hin
fullkomna hálfkúla. Allir geislar
sem skína á hana fókuserast í einn
punkt, brennipunkt. Hornhimnan í
þeim sem hafa sjónskekkju er mis-
kröpp þannig að myndin fókus-
erast ekki í einum punkti,“ út-
skýrir hann enn frekar.
Sjónlag erfist, „eins og sjá má
t.d. í giftingarveislum," bendir
Þórður á brosandi. „Auðvelt er að
greina hver tilheyrir hvorri ætt,
því allir eru með gleraugu í ann-
arri ættinni en enginn í hinni.“
Kínverjar eru sagðir hafa tekið
sjóngler í sínar þarfir löngu áður
en þau sáust á Vesturlöndum. At-
ÚTSÝNIÐ frá kaffistofunni í Grafarholti í
Reykjavík, þar sem Egill Rúnar Iljartarson
sýpur á kaffinu sínu í hádegishléinu, hefur
aldrei verið fallegra en í haust. Svo er að
minnsta kosti í augum Egils Rúnars, sem í
september fór í leysiaðgerð á augum til að
láta laga í sér nærsýni. „Ég get talið húsin
uppi á Kjalarnesi og greini húsin í sundur á
Akranesi," segir hann og bætir við að hann
sjái Snæfellsjökul svo vel að „það liggur við
að ég sjái snjósleðana fara upp á jökulinn".
Egill Rúnar fékk fyrstu gleraugun sín
þrettán ára. Hann notaði mikið linsur þegar
hann var unglingur í skóla en eftir að hann
komst á fullorðinsár hefur hann verið háður
því að nota gleraugu.
„Ég hef alltaf unnið vinnu þar sem óhrein-
indi eru mikil og það gekk ekki upp að vera
með linsur. Ég hef lengi fylgst með og beðið
eftir því að farið yrði að gera þessar aðgerðir
hérna. Ég vissi af fólki sem fór í aðgerð til
Noregs og Danmerkur en það var auðvitað
mjög dýrt. Konan mín sá síðan frétt í sjón-
varpinu um að nú væri farið að gera aðgerð á
augum hér heima og ég pantaði mér tíma um
leið og ég komst að því hvað læknarnir hétu.“
Egill Rúnar segir að það hafi komið sér
verulega á óvart hversu vel hann sá strax eft-
*
ir aðgerðina. „Ég hefði getað keyrt heim
sjálfur. Við hjónin fórum í Hagkaup til að
kaupa augndropa og þá strax gat ég lesið á
hvert einasta skilti í versluninni."
Egill Rúnar frestaði aðgerðinni í haust þar
sem hann þurfti að fara i göngur norður í
Húnavatnssýslu. „Þá hefði ég viljað vera bú-
inn að fara í aðgerðina. Veðrið var afleitt,
rigning, norðanátt og vindurinn 25 m/sek.
Ég sá ekki neitt í gegnum gleraugun."
Egill Rúnar fór til vinnu sinnar strax dag-
inn eftir aðgerðina. Hann ók m.a. upp á Sand-
skeið og naut þess að horfa í kring um sig.
„Það var geggjað. Ég sé svo miklu lengra en
áður. Konan mín kom alltaf auga á hluti í um-
hverfinu löngu á undan mér en nú er það ég
sem er á undan henni,“ segir hann.
„Ég hef ekki fundið fyrir neinum óþæg-
indum nema fyrst, þá fann ég stundum eins
og til þreytu í augunum. Ég fer stundum með
fingurna upp undir gleraugnaspöngina en
þegar ég átta mig á að ég hef engin gleraugu
klóra ég mér bara á nefinu í staðinn. Maður
er svo ótrúlega fljótur að aðlagast þessu.
Ég færi frekar í þessa aðgerð en til tann-
læknis. En þetta er auðvitað dýrt og Trygg-
ingastofnun tekur engan þátt í kostn-
aðinum."