Morgunblaðið - 24.12.2000, Side 38
38 B SUNNUDAGUR 24. DESEMBER 2000
MORGUNBLAÐIÐ
hreint afbragð. í Steingrímsfirði
kenndi ég í Heydalsá, en þar var
einn elsti heimavistarskóli lands-
ins. Þar kenndi ég eftir áramótin.
Þarna voru um það bil tuttugu
böm og auk kennslu varð ég að sjá
um gæslu á þeim. En ráðskona var
þarna, sem annaðist matargerðina.
^ Auðvitað gerðist svo sem eitt og
annað í þessum stóra hópi. En allt
gekk þetta áfallalaust. Eitt var það
þó, sem mér líkaði ekki, en það var,
að um vorið fóru krakkarnir að
laumast til að fá lánaða báta og róa
á þeim út á fjörð til að veiða hrogn-
kelsi. Ég var hræddur um, að þau
færu sér að voða. Þess vegna brá
ég á það ráð, að bjóðast til að taka
þau með mér í róður einhvern dag-
inn. Og það gerði ég og við fisk-
uðum vel. En ég hélt því vandlega
leyndu, að ég hefði aldrei áður róið
, til fiskjar.“
• En hvemig var það, fékkstu
greidd kennaralaun á sumrin?
„Nei, það fengu aðeins réttinda-
kennarar. Á sumrin var ég heima í
Hítardal og hjálpaði foreldrum
mínum við búskapinn. Hann hafði
reyndar dregist saman hjá þeim,
því Leifur bróðir minn var tekinn
við hálfri jörðinni. Nú, en veturinn
eftir að ég kenndi í Strandasýslu,
vantaði kennara á Snæfellsnes, það
er að segja á Grundarfjörð. Og þar
réðst ég til starfa. Ég fékk að fljóta
þangað með þeim Hermanni Jón-
assyni og Páli Zophaníussyni, en
þeir vom að fara að halda fundi á
Snæfellsnesi. Auðvitað hlustaði ég
með andakt á þessa höfðingja á
leiðinni.," segir Bergþór og er ekki
laust við að brúnin léttist. Nei, að-
spurður kveðst hann ekki hafa þeg-
ið skoðanir sínar frá þessum ferða-
félögum sínum. „Það var ekki íyrr
en seinna, að ég fór að leiða hug-
ann að pólitík. En hvað um það, að-
koman á Gmndarfirði var ekki
glæsileg,“ segir Bergþór. „Ég átti
að kenna um fjömtíu krökkum í
gamalli verbúð. Allur þessi skari
átti að vera í einni kös, en ég skipti
honum niður eftir getu. Og það
-í-.skipti sér enginn af því. En það var
ekki auðvelt að koma þessu öllu
saman. Ungmennafélagið var að
byggja þarna félagsheimili og mér
hafði verið lofað að fá þar inni fyrir
skólann eftir áramót. Og það
stóðst. Það urðu mikil og góð um-
skipti á andlegri líðan minni, þegar
kennslan var flutt í það hús.“
En Bergþór, varstu ekkert far-
inn að huga að kennaranámi?
„Jú, það var þannig, að úti í sveit
var gamall réttindakennari, sem
kenndi tveimur eða þremur börn-
um, meðan ég kenndi um fjömtíu
bömum á Gmndarfirði. En vegna
þess að hann hafði réttindin, þá var
hann á tvöföldu ef ekki þreföldu
kaupi á við mig. Þetta varð kveikj-
> an að því, að ég fór að huga að því,
hvemig ég gæti orðið mér úti um
kennararéttindi. Það var nú ekki
hlaupið að því fyrir eignalausan
mann, síst vegna þess, að í Reykja-
vík sat herinn um allt húsnæði,
sem losnaði. En sumarið eftir
Gmndarfjarðardvölina, gerðist ég
vegavinnuverkstjóri við sýsluveg,
sem verið var að leggja frá Stað-
arhrauni og efst upp í Hítardal.
Þarna sá ég sem sagt um vegalagn-
ingu yfir hraun og mýrar. Við feng-
um nýjan vömbíl úr Borgarnesi og
auðvitað bílstjóra með, til að bera
ofan í veginn. Það var nú enginn
annar en Teitur Jónasson. Nú, en
allt þetta sumar var ég að hugleiða
~<það, hvemig ég kæmist í kenn-
aranám. Og þegar Helgi Elíasson
hafði samband við mig, til að fá mig
í farkennslu, þá réð ég mig vestur
á Dýrafjörð, bæði í Brekkudal, sem
gengur upp af firðinum og á Þing-
eyri. Þetta var ekki alveg full
staða, svo ég hafði rúman tíma til
að lesa og undirbúa mig undir það
að taka kennaranámið í áföngum.
Um vorið fór ég svo suður og tók
þrjú próf við Kennaraskólann, þar
af eitt lokapróf. Þó að erfitt væri
um húsnæði í Reykjavík, þrátt fyr-
ir að stríðinu væri lokið þegar hér
*var komið sögu, tókst mér að koma
mér þar fyrir. Ég fékk vinnu við
Andakílsvirkjun, varð það sem
kallað var matarstjóri þar. Það
starf var fólgið í því, að sjá um inn-
kaup fyrir matarfélag starfsmanna
þarna. Þetta var sumarið, sem
Norðmenn endurreistu Snorra á
_ Reykholti, eftir að hafa látið fella
hann þar forðum tíð, það er að
segja sumarið 1947. Ég komst á
Snorrahátíðina, en var veikur og lá
þarna á túninu á meðan á Snorra-
hátíðinni stóð. Best gæti ég trúað
því, að fólk hafi haldið að ég væri
drukkinn," segir Bergþór hlæjandi.
„En þessi veikindi voru nokkuð
þrálát, svo ég gat lítið stundað
námið veturinn eftir. Nú, en lífið
heldur áfram þótt einhver veikist
og allt þokaðist þetta áfram. Ég
gat lesið mér til. Freysteinn Gunn-
arsson, skólastjóri Kennaraskól-
ans, var mjög liðlegur við mig og
lofaði mér að taka próf, þegar ég
gat. Og árið 1949 tók ég svo loka-
próf úr Kennaraskólanum.“
„En áður en lengra er haldið,"
segir Bergþór, „langar mig til að
segja frá nokkru, sem gerðist í far-
kennslunni. Það skiptir ekki máli,
hvar þetta gerðist, en undarlegt
þótti mér það. Þannig var, að for-
maður skólanefndar, þar sem ég
var að kenna, úthlutaði mér til-
teknu heimili til kennslu. En þar
stóð þannig á, að þar lá berkla-
sjúklingur. Ég var auðvitað sér-
staklega viðkvæmur varðandi þann
sjúkdóm, eftir að Pétur bróðir
minn hafði dáið úr honum. Og ég
neitaði að kenna á þessu heimili.
Skólanefndarformaðurinn ætlaði að
þvinga mig til þess, svo ég brá á
það ráð, að látast taka vel í það
með einu skilyrði þó. Hann vildi
auðvitað vita, hvert það skilyrði
væri. Ég sagði honum þá, að ég
skyldi kenna þarna, ef dóttir hans
kæmi með mér. Þá tók kona
skólanefndarformannsins af skarið
og sagði, að það skyldi aldrei
verða. En þetta sýnir, að berkl-
arnir gátu breiðst út eftir ólíkleg-
ustu leiðum, ef fólk hélt ekki vöku
sinni. En þetta var nú útúrdúr,"
segir Bergþór, og snýr sér aftur að
þeim tíma, sem hann lauk kenn-
araprófinu. „En nú þegar ég var
kominn með full réttindi, þá var
það nú einhvern veginn svo, að mig
langaði ekkert að halda áfram
kennslu í bili,“ segir hann. „Ég
sótti því um námsdvöl við Norræna
lýðháskólann í Voss í Norgei, ekki
langt frá Bergen. Guðlaugur Rós-
enkranz, sem einmitt varð Þjóð-
leikhússtjóri þetta sama ár, ann-
aðist þá norræna samvinnu á þessu
sviði fyrir Islands hönd. Ég ræddi
við hann og það varð sem sagt úr,
að ég færi til Voss. Þetta var ekki
erfitt nám, en dvölin þarna var
ákaflega skemmtileg. Þarna var ég
veturinn 1950 til 1951. Þegar ég
ætlaði að halda heim á leið hafði
Rósenkranz samband við mig og
bað mig að fara sem fulltrúi Is-
lands til Genfar í Sviss, en þar var
rekinn norrænn sumarskóli. Dvöl
mín þar varð nokkuð endaslepp,
því móðir mín lést þá um sumarið
og ég varð auðvitað að komast
heim til að fylgja henni til grafar.
Faðir minn lést svo síðar þetta
sama sumar, svo það varð stutt á
milli þeirra. En hvað um það, ég
kom flugleiðis heim, en fyrst varð
ég að koma farangrinum um borð í
skip. Á þessum árum voru flugvél-
arnar svo litlar, að það var ekki
hægt að hafa mikinn farangur með
í þeim. Ég man, að þegar við flug-
um inn yfir Island var komið með
vínglös handa farþegum. Það var
víst siður þá. Ég sat þarna með
tveimur sænskum stúlkum og þær
voru svo heillaðar af landinu, að
þær horfðu bara út um gluggann.
Svo ég fékk þrjú glös í staðinn fyr-
ir eitt,“ segir Bergþór, og reynir
ekki að ráði, að hemja hláturinn.
Og hann heldur áfram. „Enda þótt
stríðinu væri lokið fyrir sex árum,
gætti áhrifa þess enn. T.d. var ekki
hægt að ferðast að vild um Evrópu,
hvorki vestan né austan við járn-
tjaldið. Ég lenti í mesta basli með
að fá vegabréfsáritun í gegnum
Þýskaland. En allt hafðist þetta að
lokum. Þegar ég kom heim, fór ég
svona að huga að því hjá fræðslu-
stjóra, hvort hann hefði nú ekki
eitthvað annað handa mér en far-
kennslu. Jú, jú, hann hafði svona
eitt og annað. Það fór svo, að mér
var skipað til sætis norður á
Skagaströnd, eða Höfðakaupstað,
eins og það hét þá. Skólinn þarna
var í mótun og heldur mikill los-
arabragur á hlutunum. Ég átti að
kenna í unglingadeildinni. En raun-
in varð sú, að þangað voru sendir
böldnustu nemendurnir. Þarna
Pólitíkin
hörð
Áður en ég skil við dvölina í
Vík, langar míg að segja frá
því, að þar voru tvær versl-
anir. Kaupfélagið rak aðra
og þar réðu auðvitað fram-
sóknarmenn. Hin verslunin
var pöntunarfélag, sem
Ragnar Jónsson, bróðir Ing-
ólfs á Hellu, rak. Þar
versluðu íhaldsmenn. En
ég, sem hvorki var íhald né
framsóknarmaður, gekk í
bæði félögin. Þetta þótti
sumum svo undarlegt, að
menn voru víst að velta því
fyrir sér, hvort það væri lög-
legt. Og vel var fylgst með
því, á hvorum staðnum var
verslað. Svona var nú póli-
tíkin hörð þá. Til allrar ham-
ingju er þetta liðin tíð.
hafði fólk meiri áhuga á fiski en
námi. Svona staðir voru fiskiþorp
en ekki menntasetur, það var á
hreinu."
Stjórnmálin
Þar sem spyrill er ekki alveg
grunlaus um, að Bergþór hafi haft
einhver afskipti af póhtík, leiðir
hann talið að upphafi þeirra af-
skipta.
„Jú,“ segir Bergþór, „það var
þannig, að ég hafði hjálpað Þor-
steini Þorsteinssyni, sýslumanni í
Dalasýslu, við að afla gagna í Ár-
bók Éerðafélags Islands, 1953, en
hún fjallar um Mýrasýslu. Þor-
steinn var nefnilega Mýramaður.
Nú brá svo við, að erfitt reyndist
að fá kennslu. En Þorsteinn vildí
launa mér greiðann í sambandi við
Ferðafélagsbókina og kom mér í
vinnu á Vellinum. Ég átti að vera
offiserabílstjóri. En til að geta
fengið það starf varð ég að gangast
undir bílpróf, enda þótt ég hefði
löngu tekið það og væri ágætis bíl-
stjóri, þótt ég segi sjálfur frá. Og
ég varð að fara í skoðun, þ.ám.
augnskoðun. Þar kom í ljós, sem ég
hafði svo sem alltaf vitað, að ég var
ekki með jafna sjón á báðum aug-
um. Þetta er fæðingargalli. En sá
sem stjórnaði prófinu, sagði að
þetta kæmi í veg fyrir, að ég gæti
ekið offiserum. Þessi maður var ís-
lendingur í vinnu hjá ameríska
hernum. Og hann þurfti að sanna
sig. Þess vegna gerði hann svona
mikið mál úr þessum ómerkilega
sjóngalla. Mér sárnaði þetta;
fannst landi minn hafa lagst lágt
fyrir útlendan her. Það getur verið,
að ég hafi eitthvað verið farinn að
leiða hugann að pólitík áður, en
þetta atvik varð að minnsta kosti
til að beina þeim hugsunum í
ákveðinn farveg. En ég var nú
samt ráðinn á Völlinn. Ég fór að af-
greiða varahluti í flugyélar; til þess
þurfti ekki fulla sjón. Ég sá líka um
matarinnkaup fyrir eldhúsið. í því
sambandi þurfti ég oft að fara út af
flugvellinum. Og þá sá ég alla
þessa spillingu, sem fylgdi hernum.
Menn stálu frá honum eins og þeir
mögulega gátu. Sumir stálu t.d. svo
miklu timbri, að þeir byggðu sér
hús úr því, þarna í Keflavík. Einum
kynntist ég, sem alltaf var að keyra
drasl út af Vellinum í hjólbörum.
Kanarnir voru alveg vissir um, að
eitthvað væri gruggugt við þessar
ferðir hans, en höfðu ekkert á
hann. Hann trúði mér fyrir því, að
það væri nú ekki draslið í hjólbör-
unum, sem máli skipti, heldur hjól-
börurnar sjálfar. Þeim stal hann
sem sagt frá hernum og var auðvit-
að alltaf að keyra nýjar hjólbörur
gegnum varðhlið Ámeríkananna.
Sjálfur keypti ég einu sinni út-
varpstæki þarna á Keflavíkurflug-
velli og smyglaði því út, með því að
smokra því undir girðingu. Þannig
slapp ég við að greiða tollinn, en
hann var talsvert hár. Nú, en hvað
um það; mér leiddist alltaf að vinna
þarna á Vellinum.“
Hreinar línur í Vík í Mýrdal
- haldið á Selfoss
Varstu kominn með fjölskyldu á
þessum árum?
„Jú, ég gekk í hjónaband árið
1953. Konan mín heitir María Jak-
obína Friðriksdóttir, Júlíussonar
og er frá Sauðárkróki. Við eigum
tvö börn, Teit og Kristínu Fjólu.
Og þau eru bæði kennarar, eins og
svo margir í ættinni. En spurðu
mig ekki um ættfræði; ég veit ekk-
ert um hana.“
Varla hefur þér hentað flakkið
lengur, fjölskyldumanninum?
„Nei, ég sótti um skólastjóra-
stöðu í Vík í Mýrdal og fékk hana.
Okkur líkaði mjög vel þarna að
öðru leyti en því, að húsakosturinn
var mjög þröngur. Við höfðum eina
stofu og deildum eldhúsi með öðr-
um. Við vorum orðin þrjú, því son-
ur okkar Teitur fæddist þetta sum-
ar. Og þarna var svo mikil
húsnæðisekla, að það var ekki
nokkur leið að ráða bót á þessu.
Þess vegna vorum við aðeins einn
vetur í Vík. Ég sé alltaf eftir því,
að hafa ekki verið þar lengur. En
það þýðir ekki að tala um það. Áð-
ur en ég skil við dvölina í Vík, lang-
ar mig að segja frá því, að þar voru
tvær verslanir. Kaupfélagið rak
aðra og þar réðu auðvitað fram-
sóknarmenn. Hin verslunin var
pöntunarfélag, sem Ragnar Jóns-
son, bróðir Ingólfs á Hellu, rak.
Þar versluðu íhaldsmenn. En ég,
sem hvorki var íhald né framsókn-
armaður, gekk í bæði félögin. Þetta
þótti sumum svo undarlegt, að
menn voru víst að velta því fyrir
sér, hvort það væri löglegt. Og vel
var fylgst með því, á hvorum staðn-
um var verslað. Svona var nú póli-
tíkin hörð þá. Til allrar hamingju
er þetta liðin tíð. Eftir kennsluna í
Vík, sótti ég um kennarastöðu í
barnaskólanum á Selfossi og fékk
hana. Það voru tvær kennarastöður
lausar og mig minnir að umsókn-
irnar hafi verið fimmtíu og fjórar.
Þú sérð hvernig atvinnuástandið
hefur verið á þessum árum. Og hér
hef ég verið síðan og líkað vel.
Seinustu þrjá veturna, sem ég
kenndi, starfaði ég þó ekki hér á
Selfossi,“ segir Bergþór. „Ég
kenndi tvo vetur í Hveragerði og
síðasta veturinn áður en ég fór á
eftirlaun, var ég skólastjóri austur
á Bakkagerði. Það þorp þekkja
flestir sem Borgarfjörð eystri. Nú,
nú, en hvað um það; bróðir minn,
Kristján, bjó hér á Selfossi þegar
við komum hingað og til að byrja
með fengum við inni hjá honum,
þar til við höfðum komið okkur fyr-
ir. Fljótlega fórum við út í það að
byggja, ekki langt frá þar sem við
búum nú. Síðar seldum við þar og
byggðum þetta hús. Auðvitað var
fjárhagslegt basl á manni og við
gátum ekki leyft okkur mikið. Þó
komumst við einu sinni á þjóðhátíð
í Vestmannaeyjum og sigldum í
kringum eyjarnar."
Stjórnmálavafstur
á Suðurlandl
Og pólitíkin?
„Já,“ svarar Bergþór, „það er
þetta með pólitíkina. Ég gekk í það
ásamt ýmsu góðu fólki, að stofna
Alþýðubandalagsfélag hér á Sel-
fossi. Það var árið 1959. Það féll í
minn hlut að gegna formennsku í
félaginu, auk þess, sem ég var
lengi formaður kjördæmaráðs Al-
þýðubandalagsins á Suðurlandi. Ég
var formaður Alþýðubandalagsins
á Selfossi fram til ársins 1972. Árið
1961 eða 1962 sat ég sem varamað-
ur Karls Guðjónssonar á Alþingi í
nokkrar vikur.“
Hvort Bergþór hafi flutt ein-
hveija tillögu meðan hann sat á Al-
þingi?
„Jú, ég gerði það nú, þó að ég
færi óundirbúinn á þing. A þessum
árum var vegakerfið enn mjög
óburðugt og hvergi varanlegt slit-
lag á vegum, nema á Keflavíkur-
vegi, sem var malbikaður um þetta
leyti. En ríkið rak Ríkisskip, sem
þjónustaði þorp og bæi við strönd-
ina. Ég flutti því tillögu um að ríkið
tryggði lágmarks flutninga til
þorpa inni í landi. En auðvitað var
hún svæfð í nefnd,“ segir Bergþór
og vindur sér í annað Viðeyjar-
klaustur. „Nú, en það er nú þannig
með pólitíkina, að þar leiðir eitt af
öðru. Ég lenti í hreppsnefndinni
hér á Selfossi og sat þar eitt kjör-
tímabil, 1970 til 1974. Og ég var
lengi ritstjóri Jötuns, málgagns Al-
þýðubandalagsins hér á Suðurlandi
og raunar stofnandi þess blaðs. Það
var oft æði erfitt, að halda því
gangandi. Til þess þurfti auglýs-
ingar og mörg fyrirtæki vildu ekki
auglýsa hjá okkur kommunum.
Þetta átti meira að segja við um
opinberar stofnanir, þó ekki sýslu-
mannsembættið hér í Árnessýslu.
Sýslumaðurinn hér var að vísu
stækur íhaldsmaður, en hann aug-
lýsti alltaf í Jötni. Svo var ég líka
að vafstra í félagsmálum kennara
og var lengi formaður Kennara-
félags Suðurlands, eftir að hafa
gengist fyrir stofnun þess. En ég
hafði mig lítið í frammi í pólitíkinni
út á við. Það þýðir ekki, að sama
fólkið sjái um innra starf stjórn-
málaflokka og hitt, sem út snýr. Til
þess vinnst einfaldlega ekki tími.“
Hvernig var þvi tekið, að barna-
kennari væri að vafstra í pólitík?
„Það var nú þannig á þessum ár-
um, að við alþýðubandalagsmenn
vorum kallaðir kommúnistar og
höfðum því á okkur misjafnt orð.
Ég vissi, að sumum foreldrum var
það ákaflega erfitt, að senda börnin
í skóla til kommúnista. Það er ekki
auðvelt fyrir fólk að trúa þessu nú,
en svona var þetta hér áður fyrr.“
Nú voru þingmenn Alþýðu-
bandalagsins á Suðurlandi lengst
af úr Vestmannaeyjum. Kom það
niður á samstarfi við þá?
„Nei, við Karl Guðjónsson áttum
ágætis samstarf, þar til hann gafst
upp 1971 og fór yfir til Hannibals.
Jóhann Hafstein var þá forsætis-
ráðherra og orðinn fársjúkur. Það
þótti því einsýnt, að hann leiddi
ekki ríkisstjórn eftir kosningarnar
1971. Hugur Hannibals var aldrei
fjarri krötum. Ég held, að Gylfi Þ.,
sem þá var menntamálaráðherra
og viðskiptaráðherra, hafi gert sér
vonir um að verða forsætisráð-
herra eftir kosningar og þá m.a.
með aðstoð Hannibals. Karl hefur
þá væntanlega gert sér vonir um
menntamálaráðherrastólinn. En
þetta eru nú bara mínar tilgátur.
Þó held ég að eitthvað sé til í þeim.
En svo aðeins sé vikið að Alþýðu-
bandalaginu hér á Suðurlandi, þá
leið starf þess lengi fyrir það, að
1959 var gerð kjördæmabreyting,
þannig m.a., að Vestmannaeyjar og
sýslurnar á Suðurlandi urðu eitt
kjördæmi. Og þá voru samgöng-
urnar til Eyja ekki eins góðar og
síðar varð, auk þess sem aðstæður
voru þar allt aðrar. Sko, það er
ekki nóg að sameina kjördæmi -
það þarf líka að sameina fólkið sem
í þeim býr.“
Finnst þér ekki hafa verið hugað
að því, við yfirstandandi kjör-
dæmabreytingar?
„Nei,“ svarar Bergþór, „ég er
hræddur um ekki.“
En nú vill spyrill vita hvernig á
því hafi staðið, að á meðan allt log-
aði í illdeilum í Alþýðubandalaginu
í Reykjavík, ríkti „drottins dýrðar
koppalogn“ í flokksfélögunum úti á
landi.
Bergþór lætur ekki lengi bíða
svars: „Ætli það hafi nú ekki bara
verið vegna þess, að úti á landi
nennti fólk ekki að koma saman til
að rífast. Oft var deyfðin svo mikil,
að ég var alveg að gefast upp á
þessu. En svo kom að kosningum
og þá varð maður auðvitað að láta
hendur standa fram úr ermurn."
Ertu trúaður á sameiningu
vinstri manna?
„Nei, ég sé ekki um hvað menn
þykjast vera að sameinast. Vinstri
stefna virðist mér það alla vega
ekki vera. Sjálfur gekk ég til liðs
við Vinstri græna í síðustu kosn-
ingum og var á lista hjá þeim. En
mér var það ekkert kappsmál,“
segir sá gamli baráttujaxl Bergþór
Finnbogason að lokum.