Þjóðviljinn - 15.09.1989, Blaðsíða 13

Þjóðviljinn - 15.09.1989, Blaðsíða 13
Tímamót í Suður-Afríku? De Klerk segist staðráðinn í að afnema apartheid en ekki er að fullu ljóst hvernig hann hyggst fara að því og hvað stjórn hans vill láta koma í staðinn. Forustumenn blökkumanna telja þeim fullan sigur vísan innan skamms Allan Boesak með konum er syrgja drepið mótmælafólk - telur fullan sigur apartheidandstæðinga standa fyrir dyrum. ann 6. þ.m. fóru fram í Suður-Afríku þingkosningar, sem að sumra hyggju kunna að marka tímamót í sögu landsins. Varla þarf að taka fram að í kosn- . ingum til þess hluta þingsins þar- lendis, sem teljandi völd hefur, hafa hvítir menn cinir kosninga- rétt. Suður-Afríkumenn þeir, sem bókaðir eru hvítir, eru 4,5 miljónir talsins. Um tölu annarra landsmanna ber heimildum ekki saman, en líklega eru þeir ein- hversstaðar á bilinu 20-28 miljón- ir, flestir þeirra blökkumenn af bantúuppruna. í kosningunum um daginn voru það einkum þrír flokkar, sem kepptu um fylgi hvítra. Þeir eru Þjóðernisflokkurinn, sem farið hefur með völd í landinu síðan 1948, íhaldsflokkur og Lýðræðisflokkur. Sá fyrstnefndi hélt þingmeirihluta sínum eina ferðina enn, en tapaði miklu til hinna tveggja og hefur að sögn aldrei farið verr út úr kosningum, frá því að hann kom til valda fyrir rúmum 40 árum. „Apartheid skal hverfa Það var upphaflega Þjóðernis- flokkurinn, sem beitti sér fyrir því samfélagskerfi, er löngu er þekkt og alræmt undir nafninu apartheid og innleiddi það eftir að hann kom til valda. Nú brá hinsvegar svo við í kosningabar- áttunni að flokkurinn kvað sig andstæðan apartheid. „Apart- heid skal hverfa, misréttinu skal útrýmt, um annað er ekki að velja,“ sagði hinn nýi leiðtogi floicksins, Frederik Willem de Klerk í einni ræðunni. Hinsvegar er frekar óljóst, hvað hann ætlar að innleiða í staðinn og hvernig. Hann lofar blökkumönnum kosningarétti, en vill að samfé- lagið verði áfram skipt eftir kyn- þáttum, að hvítir hafi áfram einir rétt til búsetu á svæðum frátekn- um fyrir þá og skóla og sjúkrahús út af fyrir sig. Helst er svo að sjá að de Klerk stefni að því að fé- lagslega séð verði samfélagið áfram sundurgreint eftir kynþátt- um, en jafnframt verði fólk af öllum kynþáttum jafnréttháir borgarar. Svo er eftir að sjá hvernig þetta á að verða fram- kvæmanlegt. íhaldsflokkurinn vill í engu hvika frá apartheidinu en Lýð- ræðisflokkurinn, sem er nýr af nálinni, vill afnema það með öllu. Hann er að vissu marki pólitískur arftaki Sambandsflokksins gamla, en að honum stóðu þau öfl er mestu réðu í landinu frá því að það kom til sögunnar sem ríki fram að valdatöku Þjóðernis- flokksins. Aldagamall fjandskapur í framhaldi af þessu er ekki nema eðlilegt að á það sé minnt að Suður-Afríka á sér ekki langan aldur sem „land“ í evrópskum skilningi orðsins, þó að það sé sem ríki nokkrum ára- tugum eldra en flest önnur Afrík- uríki. Landsvæði þetta varð sem sé ekki ríki fyrr en 1910, fyrir tæp- um 80 árum. Umbrotasöm saga þess næstu aldirnar á undan lagði grunninn að núverandi samfé- lagsfyrirkomulagi Suður-Afríku, sem orðið hefur til þess að ekkert annað ríki hefur sætt harðari for- dæmingu á alþjóðavettvangi á tímabilinu eftir heimsstyrjöldina síðari. Hollendingar stofnuðu ný- lendu á Góðrarvonarhöfða um miðja 17. öld og hollenskættað fólk, kallað Búar, fikaði sig síðan smámsaman þaðan inn í land og De Klerk - sleipur og harðsnúinn austur eftir ströndinni. Þar mættu þeir á 18. öld þjóðflokkum af bantústofni, sem á undanförnum öldum höfðu lagt undir sig það mesta af sunnanverðri Afríku og útrýmt frumbyggjum þar af kho- isanstofni eða aðlagað þá sér. Búar fyrir sitt leyti hröktu á brott eða undirokuðu khoisanfólk það, er fyrir þeim varð í Höfðalandi. Með Búum og bantúmönnum tókst fljótlega fjandskapur, sem enst hefur til þessa dags. Drjúg ástæða til þess var að báðir stund- uðu mjög kvikfjárbúskap, þurftu til þess mikið landrými og voru að því skapi útþenslugjarnir. Bantú- menn voru of margir og vel skipu- lagðir til að Búar gætu undirokað þá eða stökkt þeim á brott líkt og khoisan, og Búar voru of vel vopnaðir til að bantúmenn gætu útrýmt þeim eða aðlagað þá sér. Einangrunar- fangabúðir Búastríðs Nýr þáttur hófst í sögu svæðis- ins er Bretar lögðu Höfðaný- lenduna undir sig í Napóleons- stríðunum. Margir Búa undu ekki yfirráðum Breta og fluttu því út fyrir mörk nýlendunnar, til svæða sem Evrópumenn nefndu Óraníu og Transvaal. Eftir mikið vopnað stímabrak, bæði við bantúmenn og innbyrðis, stofn- uðu þeir tvö lýðveldi með þessum nöfnum. Eftir að gull fannst við Jóhannesarborg í Transvaal seildust Bretar þar mjög til ítaka, og leiddi það til Búastríðsins 1899-1902. Stóðu lýðveldinTran- svaal og Óranía í því gegn Bret- um, sem höfðu sigur um síðir í krafti ofureflis liðs og vopna, þrátt fyrir frækilega vörn Búa. Hlutu Bretar af þessu landvinn- ingastríði mikið ámæli og skáld kölluðu þá t.d. „níðinginn sem Búa bítur.“ Á lokaskeiði stríðsins háðu Búar skæruhernað og Bretar svöruðu með því að smala konum þeirra og börnum í fangabúðir, til þess að skyldulið skæruliðanna gæti ekki hjálpað þeim um nauðsynjar. Hér var sem sé verið að svipta fiskinn vatninu, svo vitnað sé á ská í Maó formann. Fangagirðingar þessar voru kall- aðar einangrunarfangabúðir (concentration camps). Þetta er upphaf þess heitis, er alræmt varð fjórum áratugum síðar. Þessar stofnanir Breta voru litlu heilsu- samlegri en fangabúðir nasista sem sama nafni voru kallaðar, því að yfir 20.000 konur og börn dóu þar af völdum illrar meðferðar og slæms aðbúnaðar. Var það mannfall fimmfalt meira en það, sem Búar biðu á vígvöllunum. Alls höfðu Búar í lýðveldunum báðum varla verið fleiri en 130.000-140.000 fyrir stríðið. Þetta lét eftir sig hatur Búa í garð Breta, sem varla er enn fullgróið yfir. Klofningur meðal Búa Stríðið lét einnig eftir sig klofn- ing meðal Búa sjálfra. Hollensk- ættaðir íbúar Höfðalands höfðu engan stuðning veitt þjóð- bræðrum sínum í lýðveldunum í stríðinu og raunar frekar stutt Breta. Þetta fólk er oft í Suður- Afríku kallað Höfða- Hollendingar (Cape Dutch) og oft ekki talið með hinum „eigin- legu“ Búum í Transvaal og Óran- íu. Suður-Afríkulýðveldið var stofnað að tilstuðlan Breta með stuðningi breskættaðra lands- manna og nokkurs hluta Búa, sem töldu úr því sem komið var affarasælast að aðlagast breska heimsveldinu. En andstaðan við þá samvinnu var alltaf mikil með- al Búa og hún varð grunnurinn að Þjóðernisflokknum. Aðilar að þeim flokki stefndu að því að segja Suður-Afríku úr breska samveldinu, sem og varð raunin eftir að þeir voru komnir til valda. De Klerk og aðferðir hans Umræddar andstæður endur- speglast enn í úrslitum nýafstað- inna kosninga. íhaldsflokkurinn er fylgismestur í dreifbýli í Tran- svaal, hinir flokkarnir hinsvegar meðal breskættaðra manna og Höfða-Hollendinga. Þegar litið er á ástandið í Suður-Afríku í heild sinni eins og það er í dag verður ekki séð að friðvænlega horfi, þar eð sam- lyndi meðal landsmanna virðist ekki meira en það hefur lengst af verið svo langt aftur sem saga þess nær. Milli hvítra og svartra er djúpstæð gagnkvæm tor- tryggni og fjandskapur og af sumra hálfu glóandi hatur, svartir skiptast innbyrðis og fjand- skapast eftir þjóðflokkum og stjórnmálaskoðunum og kosn- ingaúrslitin benda til þess að óeiningin meðal hvítra fari vax- andi fremur en hitt. Á það er þó að líta að sumir binda vissar vonir við stjórn de Klerks, hins nýja Suður- Afríkuforseta. Lögmaður þessi Búaættar, sem er rúmlega fimm- tugur að aldri, hefur a.m.k. þegar sýnt að hann er bæði sleipur, harðsnúinn og duglegur. Það sýndi hann þegar hann bolaði á dögunum úr embætti fyrirrenn- ara sínum, þeim nú rúmlega sjö- tuga P.W. Botha, og beitti við það slíkri hörku að sumir kölluðu jaðra við valdarán. í taflinu um ríkiserfðir tókst honum einnig að snúa á menn sér reyndari í stjórnmálum og vinsælli meðal almennings, þá Barend du Plessis fjármálaráðherra, sem Botha gamli hafði fyrirhugað að tæki við af sér, og Pik Botha utanríkisráð- herra, sem vinsælastur er hvítra stjórnmálamanna þarlendis. Suðurafrískur stjórnmálafræð- ingur spáir því að de Klerk muni að líkindum beita svipunni og sætabrauðinu jöfnum höndum, gera vissar ráðstafanir sem líklegt sé að blökkumönnum falli vel og berja af hörku niður mótmælaað- gerðir af ofsafengnara tagi. í samræmi við það eru grimmdar- aðfarir suðurafrísku lögreglunn- ar gegn blökkumönnum og kyn- blendingum, sem mótmæltu kosningunum, en í þeim átökum voru yfir tuttugu manneskjur af mótmælafólkinu drepnar, ef til vill fleiri. Hinsvegar leyfði stjórn- in mótmælagöngu apartheidand- stæðinga, gengna til að mótmæla drápunum, og brá í því út af venju. Helstu forustumenn göng- unnar voru Desmond Tutu erki- biskup og Allan Boesak, sem báðir eru þekktir sem friðarins menn, enda fór sú ganga að öllu leyti friðsamlega fram og varð einhver sú fjölmennasta af slík- um í sögu landsins. Viðræöur við ANC? Ummæli þessara klerka tveggja benda hinsvegar ekki til þess, að þeir sjái ástæðu til að koma til móts við de Klerk eða auðsýna stjórn hans langlundar- geð. Þeir túlka úrslit kosning- anna svo, að mikill meirihluti hvítra manna í landinu sé uppgef- inn á að framfylgja apartheidi. Blökkumenn muni því fá öllum kröfum sínum framgengt innan tíðar, og því sé ástæðulaust að auðsýna stjórn de Klerks sveigjanleika. Ekkert bendir heldur beinlínis til þess að de Klerk hyggist taka upp viðræður við ANC, útlæg baráttusamtök blökkumanna sem hafa viðhaft tilburði til vopn- aðrar baráttu gegn stjórnvöldum hvítra manna, né þau við hann. Þó telja menn sérfróðir um suðurafrísk stjórnmál að þetta sé ekki útilokað. Þetta gæti gerst að því tilskildu að ANC hafnaði vopnaðri baráttu (sem hvort eð er hefur aldrei verið mikið meira en í orði kveðnu) og stjórnin léti lausa alla pólitíska fanga og af- næmi gildandi neyðarástandslög. Vissar líkur eru á að ANC gæti í bráðina orðið samningalipurri við de Klerk en sennilegt er að samtök blökkumanna innanlands verði. Sovétsinnaðir kommúnist- ar hafa mikil ítök innan ANC og Sovétríkin hafa lengi stutt sam- tökin og haft Suður-Afríku í al- geru baniii. En það hefur breyst eins og svo margt annað með Gorbatsjov. Nú hefur það gerst, sem engum hefði dottið í hug fyrir fáum árum, að sovéska stjórnin hefur tekið upp sambönd við þá suðurafrísku og leggur jafnframt fast að vinum sínum í ANC að ganga til samninga við hana. Geta má þess að Sovétríkin og Suður-Afríka eru tveir helstu gullframleiðendur heims og því er talsvert atriði fyrir þau að sæmilegt samband sé þeirra á milli. Oliver Tambo, leiðtogi ANC í áratugi, er nú farinn að heilsu og valdabarátta meðal yngri for- ustumanna gerir að verkum, að samtökin virðast í bráðina lítt í stakkinn búin til að sameinast um viðurhlutamikla ákvarðanatöku. Þá hefur heyrst að Nelson Mand- ela verði látinn laus innan skamms, jafnvel næstu daga. Hann hefur lengi verið tákn and- stöðunnar gegn apartheid, en hann er aldraður og heilsutæpur og óvíst hvaða pólitíska þýðingu það hefði, ef hann nú loks yrði frjáls ferða sinna eftir 27 ára fang- elsisvist. AÐ UTAN DAGUR ÞORLEIFSSON Föstudagur 15. september 1989 NÝTT HELGARBLAÐ - SÍÐA 13

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.