Þjóðviljinn - 15.09.1989, Blaðsíða 11

Þjóðviljinn - 15.09.1989, Blaðsíða 11
Eftir miklar spekúlasjónir komust mannfræðingar einu sinni að þeirri niðurstöðu, að náttúrulegur og eðlilegur fengi- tími mannskepnunnar væri í sept- embermánuði eða þar í grennd: gætu fyrstu tilhleypingarnar kannske hafist í kringum verslun- armannahelgina en síðan næðu aðgerðirnar hámarki í tvímánuði og stæðu yfir þangað til fyrstu vetrarkuldarnir í byrjun október færu að kæla brímann. Kostir þessa fyrirkomulags fyrir dýra- tegundina eru nokkuð augljósir: þannig væru aðgerðirnar sem sé yfirstaðnar um það leyti sem skólahald er að hefjast fyrir al- vöru og ungviðið sæi síðan dags- ins ljós í hækkandi sól, þegar grösin spretta, lækirnir skoppa og krían kemur. Samt sem áður hefur homo sapiens breytt út af þessari vís- dómslegu tilhögun og komið ár sinni þannig fyrir borð að nú stendur fengitíminn allan ársins hring með þeirri róttæku röskun sálar og líkama sem honum hlýtur að fylgja. Er býsna erfitt að sjá nokkra skynsamlega á- stæðu fyrir þessari breytingu, nema ef vera skyldi að einhver ■ ríkisstjórn skyldi hafa lofað henni í kjarasamningum til að tryggja ljósmæðrum nokkurn veginn jafna atvinnu á öllum árstímum. Hins vegar bendir hún til þess að maðurinn hafi meira vald yfir æxluninni en margur skyldi halda og nú þegar hinn náttúrulegi fengitími ætti að vera að ná há- marki er ekki úr vegi að huga að því hvernig mannlífið gæti orðið ef gengið væri að því á kerfis- bundinn og vísindalegan hátt að endurskipuleggja frá rótum fyrir- komulag tímgunarinnar. Tilfærsla eða aðrar breytingar á fengitíma skipta vitanlega litlu máli til eða frá og þótt þær kunni að vera til hagræðingar um ein- stök atriði valda þær engum um- skiptum í lífi mannskepnunnar. Ef menn vilja stefna að verulegri nýskipan tilverunnar verða þeir því að hugsa stærra og hverfa með öllu frá þeim meingölluðu tímgunarháttum sem eru sam- eiginlegir manninum og öðrum hryggdýrum. Ekki þarf annað en líta á náttúruna til að finna miklu fullkomnari aðferð, sem reyndar er til staðar í manninum sjálfum, og má vera að það stafi af ein- hverjum ótta ljósmæðra við atvinnuleysi að hún skuli aldrei hafa komið til tals og enginn skuli hafa reynt að opna í huganum þær ótalmörgu dyr sem hún býð- ur upp á. En þrýstihópar ljósm- æðra þurfa ekkert að óttast, eins og síðar verður vikið að, og því er rétt að huga að spurningunni: hvernig væri mannlffið ef homo sapiens tímgaðist með því að skipta sér í tvennt eins og amöb- urnar - og svo frumurnar í hans eigin líkama? Ýmsir kynnu að ætla að þessi aðferð hentaði illa jafn flókinni lífveru og mannskepnunni, sem getur ekki talist teygjudýr nema í nokkuð óeiginlegri merkingu. En samt er auðvelt að sjá fyrir sér hvernig slíkt gæti gerst. Þegar skipting væri í aðsigi færi einstak- lingurinn fyrst að breikka smá- vegis, en síðan myndi fara að vaxa á honum einhvers konar skotlappir, sem yrðu smám sam- an að aukafótum, og svo einnig lítill en sívaxandi vísir að auka- höfði við hliðina á því sem hann hafði fyrir. í fyrstu er líklegt að þetta aukahöfuð yrði einungis smækkuð mynd af höfði einstakl- ingsins sjálfs, með sömu andlits- drætti, svipbrigði og jafnvel kæki en aðeins miklu minni, og myndu HUGVEKJA þá bæði höfuðin tala sömu röddu - þessi tvíbreiði einstaklingur yrði einungis frábrugðinn öðrum að því leyti að hann væri stereó- fónískur. En það væri síðan stór liður í þeirri þróun eða gerjun sem leiddi til skiptingar að þetta nýja höfuð fengi smám saman sjálfstæði, eða færi með öðrum orðum að syngja með eigin nefi. • • • Hér er vitanlega ekki verið að tala í óeiginlegri merkingu: til að forðast þau skelfilegu vandamál sem upp hlytu að koma ef höfuð- in tvö þyrftu að tala saman og þróunin til sjálfstæðis væri fólgin í því að nýja höfuðið færi að hafa allt aðrar skoðanir á hlutunum en hið fyrra er ekki nema ein lausn til og hún er sú að virkja söng og tónlist í gerjuninni. í stað þess að tala saman myndu höfuðin syngja saman og væri þróunin þá fólgin í því að raddirnar hættu að syngja sömu laglínuna mónódískt og fengju sjálfstæði hvor gagnvart annarri með því að ganga í gegn- um hin ýmsu stig kontrapunkts- ins, þannig að fyrst hljómaði frá þeim ars prima, síðan ars secunda og ars tertia og loks contrapunct- us floridus, og gæti orðið úr þessu nokkurs konar framsókn- ar-madrígal. Á síðasta stiginu væri vitanlega skiptingin sjálf í nánd, en þar sem hún væri ekki með öllu átakalaus þyrfti hún að fara fram á sérstökum stofnun- um, einhverjum „skiptingar- heimilum“ eða ,,-deildum“, og kæmi þá til kasta ljósmæðra, sem hefðu þannig nóga atvinnu en yrðu kannske að afla sér ein- hverrar endurmenntunar og taka upp annað starfsheiti. Gætu þær t.d. kallast „klofningsfreyjur" eða eitthvað annað af því taginu, og væri þeim í lófa lagið að hefja þjálfun sína þegar í stað með því að starfa innan ákveðinna stjórnmálaflokka. Með þessu fyrirkomulagi yrði mannlífið að sjálfsögðu allt ann- að en það sem við þekkjum nú. Þótt hinir nýju einstaklingar sem yrðu til við klofning yrðu kannske dálítið vankaðir svona rétt í byrjun og þá réttnefndir „skiptingar“, myndi fyrirbærið „unglingur" alveg hverfa úr sög- unni og þá um leið öll unglinga- vandamál hverju nafni sem þau nefnast. Sennilega yrði ekki held- ur nein elli í þeirri merkingu sem það orð hefur nú, þar sem hver einstaklingur myndi skipta sér og verða að tveimur nýjum áður en hann næði nokkrum gamalsaldri. Þannig myndi kynslóðabilið hverfa úr sögunni. Því má bæta við í leiðinni, að kynlíf yrði náttúrulega einnig óþarft með öllu og myndi því leggjast niður og gleymast mjög fljótlega, þannig að jafnvel ást- arljóð yrðu sett á byggðasöfn þar sem þau myndu rykfalla við hlið- ina á serenöðum. Við þetta myndi alveg ótrúlegt og áður óþekkt sköpunarafl losna úr læð- ingi, sem mannkynið gæti t.d. notað til að leggja undir sig plán- etuna Venus og manna hana með völdum hópi skiptinga til að losna við offjölgun á jörðinni. • • • En umskiptin á ýmsum öðrum sviðum yrðu kannske ennþá rót- tækari. Framhaldslíf og endur- holdgun myndu hætta að vera nokkurt vandamál fyrir heimspeki eða trúarbrögð: það er nefnilega bein afleiðing af þessu nýja tímgunarfyrirkomulagi að dauðinn sjálfur - það óheyrilega verð sem mannskepnan þarf nú eins og allar aðrar kynjaðar líf- verur að greiða fyrir sitt stopula stundargaman - muni hverfa burtu. Með honum verða úr sög- unni öll afbrigði sálnaflakks svo og draugar, og má vera að ein- hverjum þyki sjónarsviptir af því hérna á skerinu, en ekki verður á allt kosið. Meira er um það vert að við klofninginn deyr einstak- lingorinn nefnilega ekki, heldur skiptist hann í tvo nýja einstak- linga sem eru báðir með sama rétti hann sjálfur. Á vissum punkti í tímans rás verður hann að tveimur mönnum sem hafa ná- kvæmlega sömu fortíð og sama minni og eru þess vegna að því leyti sama persónan, en þróast svo upp frá því eftir sjálfstæðum brautum, sem eru þó væntanlega rökrétt framhald eiginleika, lang- ana og lífsstefnu „frumpersón- unnar“. Einnig má orða þetta þannig, að á vissum punkti í tím- ans rás geti einstaklingurinn, án þess að hætta að vera hann sjálf- ur, tekið samtímis tvær ólíkar lífsstefnur, andstæðar eða sam- virkandi eftir atvikum, sem sam- svari ólíkum eðlisþáttum hans sjálfs, - hann gæti orðið í senn lögregluþjónn og bófi, fjármála- maður og rannsóknarblaðamað- ur eða heildsali og skáld, eða þá Ingjaldsfífl sem deildist víða. Möguleikarnir eru ótæmandi. Allt söguskyn mannkynsins myndi vitanlega breytast mjög mikið. Sami einstaklingurinn lifði sem sé endalaust öldum sam- an eða fram að heimsendi, fyrst tvískiptur, síðan fjórskiptur og svo þar fram eftir götunum, og þótt gera mætti ráð fyrir því að minnið sljóvgaðist eitthvað þegar aldirnar færu að líða hjá, og skiptingunum fjölgaði, hverjum með sína sérstöku stefnu í lífinu, verður að gera ráð fyrir því að talsvert sitji eftir: einstaklingur- inn hafi skýrar og lifandi endur- minningar um nokkur hundruð ára gamla atburði, skynjanir eða hugsanir úr sínu eigin lífi. Og þar sem einstaklingur sem var fyrir nokkrum öldurn væri orðinn að fjölmörgum einstaklingum í dag, mætti jafnvel búast við þvf að hver þeirra varðveitti brot úr endurminningum sem rynnu saman í eina mósaíkmynd ef þær væru lagðar saman. í staðinn fyrir þau niðjamót sem nú tíðkast gæt- um við því hugsað okkur mót eða ráðstefnur, þar sem saman kæmu allir skiptingar einhvers einstakl- ings sem var og starfaði nokkrum öldum áður. Gætu þeir þá rifjað í sameiningu upp endurminningar sínar með aðstoð hvers annars, þannig að skýr mynd fengist af þessari sameiginlegu fortíð þeirra, og jafnframt gætu þeir reynt að skýra út frá henni lífs- stefnu og feril skiptinganna síðar, eða leggja saman alla þá lífsreynslu sem þeir hefðu öðlast út frá sameiginlegum upphafs- punkti. Ljóst er nefnilega að hug- takið „persóna“ myndi hafa allt aðra merkingu en nú, þar sem hver einstaklingur er beint fram- hald af öðrum einstaklingi - eða kannske réttara af sjálfum sér á eldra stigi - með sömu eðlisþætti en ótalmargar hliðstæður sem hefðu klofnað frá honum á ýms- um stigum (því hver og einn gæti litið svo á að hann væri uppruna- legi einstaklingurinn og aðrir skiptingar aðeins mismunandi hliðargreinar). Væri þetta allt ekki ólíkt vísindalegra og frjórra en okkar frumstæða sagnfræði og sálfræði? Eftir því sem tímar liðu fram myndi þetta mannlíf þróast áfram eftir leiðum sem hæpið er að nokkur geti séð fyrir og orðið æ inargbreytilegra og auðugra. Á meðan myndu ástarljóðin og ser- enöðurnar halda áfram að ryk- falla á byggðasöfnum, þangað til það væri löngu gleymt, að í fyrnd- inni hefði æxlunin verið með öðr- um hætti. Og þá myndi kannske einhver andlaus blaðamaður varpa fram þeirri spurningu sem fráleitt væri að hann hefði nokk- urt hugmyndaflug til að svara: hvernig væri nú ástandið ef mannskepnan tímgaðist eins og önnur hryggdýr? e.m.j. Föstudagur 15. september 1989 'nÝTT HELGARBLAÐ - SÍÐA 11

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.