Þjóðviljinn - 15.09.1989, Blaðsíða 24

Þjóðviljinn - 15.09.1989, Blaðsíða 24
Um heimsókn Oskars Lafontaines og nýtt og gamalt vín á pólitískum belgjum vinstrimanna Það var núna í byrjun mánað- arins að Sigurður A.Magnússon rithöfundur skrifaði snöfurlegan pistil hér í Helgarblaðið þar sem hann meðal annars kvartaði yfir „gatslitnum frösum“ í stjórn- málaumræðunni. í leiðinni fagn- aði hann nýju pólitísku félagi, Birtingu, sem hann vonaði að opna mundi gáttir og hleypa inn fersku lofti í pólitískri umræðu milli vinstrisinna. Birna Þórðardóttir var lítið hrifin af þessum lestri og með því að hún ber ekki harm sinn í hljóði (en það gera alltof margir sem láta einhver skrif fara í taugarnar á sér), þá greip hún pennann og lýsir þeirri skoðun skorinort í öðrum Helgarblaðspistli að sér finnist lítið til Birtingar koma, það sé erfitt að sjá eitthvað nýtt og ferskt við þær kratahugmyndir sem þar eru viðraðar, þær séu ekki annað en gamalt vín í gömlum belg. Jamm það held ég. Séð hefur maður annað eins Þessar orðsendingar minntu mig fyrst á hugsun sem æ oftar skýtur upp sínum selshaus - og hún er blátt áfram sú, að það er ákaflega fátt nýtt undir hinni pól- itísku sól. Hafi maður lifað fram á miðjan aldur og nennt þar að auki að lesa eitthvað um pólitísk- an boðskap þá kemur þar að fyrr en síðar, að manni finnst að allt hafi það heyrst áður. Líka það sem Birting fer með, líka þær hugmyndir að allt sé ónýtt til vinstri nema sú harða kjarabar- átta sem hagkerfið stynur undir (og springur helst). Að maður ekki tali um hinn eilífa vanda stjórnmálahreyfinga þar sem þær standa milli kröfunnar „eigi víkja“ ( að öðrum kosti týnir þú sjálfum þér) og þeirrar hagnýtu visku að „stjórnmál eru list hins mögulega" (að öðrum kosti mundi frjósa úti á hálum ís óraun- sæis). Það gerist fátt nýtt - en þó er það sem gerist aldrei nákvæm endurtekning á því sem áður var. Sem betur fer. Þegar Óskar sjálfur kom Vendum okkar kvæði í kross og snúum okkur að félaga Oskar Lafontaine ( skrýtið að Alþýðu- flokksmenn sem honum buðu hingað áttuðu sig ekki á því, að þessi varaformaður þýskra sósí- aldemókrata vildi heita félagi en ekki herra á opnum fundi sem efnt var til með honum). í kynningarbréfi um Oskar Lafontaine var mjög mikil áhersla lögð einmitt á það, að hann væri endurnýjunarmaður, hann færi með ný tíðindi í pólitík, hann væri einn þeirra sem stund- uðu nýsköpun sem kæmi evr- ópskri vinstrihreyfingu að góðu haldi nú, þegar deilur um komm- únisma væru úr sögunni og frekjulæti nýfrjálshyggjunnar til hægri kölluðu á skelegg við- brögð. Vonandi er þetta allt satt og rétt - síst ætla ég að mæla á móti því. Ég get meira að segja stært mig af því að hafa fyrir tveim- þrem misserum kynnt hér í Helg- arblaðpinu allítarlega hugmyndir sem Oskar Lafontaine hefur viðr- að um styttingu vinnutíma sem jafnframt er notuð til að jafna tekjur, um endurmat á launa- vinnu og ólaunaðri vinnu, um að losa um þau tök sem nauðung launavinnunar hefur á manneskj- unni og tíma hennar, um meira lýðræði í velferðarkerfinu og ým- islegt fleira. Þetta er ekkert nýtt! En ég varð fyrir skrýtinni reynslu eftir fundinn með Oskar Lafontaine. Ágæt kona í Alþýðu- flokknum hafði samband við mig og var gröm yfir þeirri samkomu. Og hvers vegna? Jú - henni fannst að Oskar Lafontaine hefði ekki sagt neitt nýtt. Hann talar um jafnrétti og um- hverfismál og tekur svona sitt af hverju frá græningjum eða fem- ínistum, sagði hún. Og svo var annað: þegar við konur í Alþýðu- flokki fitjum upp á ýmsu sem er skylt hans málflutningi (Oskar talaði m.a. talsvert um jafnrétti kynjanna) þá fáum við kannski að heyra að við förum með van- hugsað mál og sukkum í óraun- sæi. En þegar frægur karl út- lendur kemur, þá eru allir svo óskaplega hrifnir, þá er tal hans örvandi og ögrandi og guð má vita hvað. Og satt að segja þá má vel til sanns vegar færa það sem hin kratíska vinkona mín sagði. Osk- ar Lafontaine sagði kannski ekki neitt nýtt. Kannski bakaði hann bara gamlar lummur. En samt var nýmæli að málflutningi hans- og ekki bara vegna þess hve gam- an það var að sjá yfirmáta hag- ræna krata verða langleita yfir tali hans, sem í rauninni minnir miklu meira á margt það sem maður heyrir í Alþýðubandalag- inu en það sem stendur upp úr þeim tveim höfuðjónum sem stýra Alþýðuflokknum. Aö hressa upp á sósíal- demókratíið Gamalt og þó nýtt segirðu - hvernig ber að skilja það. Sjáum nú tii. Oskar Lafontaine fór í stuttu máli yfir vítt svið. En þegar allt er saman dregið fannst mér boð- skapur hans vera á þessa leið: Það er nauðsyn að hressa upp á hefðbundinn og nokkuð þreyttan kratisma. Og til að gera það er við aðstæður okkar tíma ástæða til að rifja upp ýmsar fornar dyggðir jafnaðarstefnunnar, ganga í smiðju til græningja og kvennabaráttunnar, einnig til þeirra róttæku menntamanna sem á liðnum áratugum hafa efast um hagvaxtarhyggjuna. Kannski má svo bæta í þessa blöndu nokkrum dropum af forsjár- hyggju, sem menn mega jafnvel tengja við nafn erkibolsans Len- íns ef vill. Það er í anda hinna fornu dyggða að rifja það upp, að verk- lýðshreyfingin ætlaði að frelsa lýðinn undan oki launavinnunn- ar, stytta „samfélagslega nauðsynlegan" vinnutíma, og skapa þar með frjálsan tíma svo menn geti fremur þroskað sig og skipt sér af þeim málum er þá nokkurs varða. Það er í anda græningja að Oskar Lafontaine leggur höfuð- áherslu á að samstöðukrafan á okkar tímum sé krafa um sam- stöðu með þeim kynslóðum sem á eftir koma: við getum ekki sól- undað orku og auðlindum jarðar eins og ekkert eyðist þegar af er tekið. Það er í anda femínista að Osk- ar leggur miklar áherslur á jafnréttishugmyndir og þá sér- staklega á mat á þeirri miklu ólaunuðu vinnu við umönnun barna og gamalmenna sem unnin er á heimilum og fellur mestan part í hlut kvenna. Það er í anda ýmissa róttækra gagnrýnenda hagvaxtarhyggj- unnar (Schumacher, Ivan Illich og fleiri) að Oskar Lafontaine leggur þunga áherslu á að fram- farir séu ekki endilega fólgnar í því að framleiða meira og meira og spenna neyslukröfurnar hærra og hærra. Minna geti verið betra, lífsgæði eru ekki spurning um magn fyrst og síðast. Og þegar hann ræðir um að- ferðir til að koma á auknum jöfnuði, auknu jafnrétti, bæta „gæði lífsins“ með því að spara orku og jafnvel framleiða minna af ýmsum hlutum, þá grípur hann til „forsjárhyggju". Hið kapítal- íska kerfi, segir hann, á sér engar innbyggðar hömlur. Því verður pólitíkin að sveigja undir sig hin hagrænu sjónarmið en ekki öfugt. Sérstaða Oskars Með þessari upptalningu er alls ekki verið að halda því fram, að varaformaður vesturþýskra sósí- aldemókrata og líklegt kanslara- efni þeirra sé skelfilega ófrum- legur í hugsun eða eitthvað þess- háttar. Þvert á móti: hann er reyndar mjög sérstæður stjórnmálamaður. Og sérstaða hans felst í því, á hvaða hug- myndir hann hefur helst hlustað, úr hverju hann hefur helst kosið að vinna. Hið nýja við Oskar Laf- ontaine er ekki fólgið í sjálfum þeim boðskap sem hann fer með. Það sem er nýtt og merkilegt við hann er blátt áfram þetta: að til mikilla valda og áhrifa er kominn í jafn stórum flokki og vestur- þýski sósíaldemókrataflokkurinn maður, sem setur á oddinn um- hverfisvernd, samtstöðu með börnum okkar og það, að „minna“ geti verið „betra“. Og treystir sér væntanlega til að safna fjöldafylgi út á þær skoðan- ir í þjóðfélagi, þar sem allir hafa hingað til verið að keppa við að lofa öllum meiru af öllu. Ekki hann einn Það er þetta sem er nýtt: sjálfar áherslurnar. Vitanlega er það ekki gefið, að hugmyndir Oskars Lafontaines muni sigra í hans flokki. Hann hefur komist alllangt þar m.a. vegna þess að vesturþýskir jafnaðarmenn þurftu á manni að halda sem stöðvaði flótta frá þeim til græn- ingja, en vafalaust er að margir öflugir hægrikratar munu telja Oskar rómantískan skýjaborga- mann eða þaðan af verra. En hvað um það: hér er um að ræða fyrirbæri sem er hægt og bítandi að breyta hugmyndum og áhersl- um vesturevrópskra vinstri- manna - jafnhliða þróuninni í flokki Oskars Lafontaines gerist sitthvað sem svipað er bæði hjá sænskum krötum og ítölskum kommúistum, svo aðeins tvö dæmi séu nefnd. HELGARPISTILL ÁRNI BERGMANN 24 SÍÐA - NÝTT HELGARBLAÐ

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.