Þjóðviljinn - 15.09.1989, Blaðsíða 15

Þjóðviljinn - 15.09.1989, Blaðsíða 15
Var illa við Dani „Það var afdrifaríkt, því þarna kynntist ég manninum mínum, Kristjáni Olafssyni sem er dansk- ur. Geldingalækur var stórbú og þar unnu um 40 manns og þar á meðal nokkrir Danir. Tilhuga- lífið var náttúrlega alveg dásam- legt, þessi yndislega sveitaróm- antík, farið á sveitaböll á traktor og allt það. Það var nú svolítið skrýtið að ég skyldi þarna kynn- ast einmitt Dana, því þegar ég var í skóla var mér ekkert sérstaklega vel við Dani af því að mér fannst danska vera svo hroðalegt hrognamál. Og skólasystur mínar voru alltaf að segja að ég ætti eftir að giftast Dana af því að mér væri svo illa við dönskuna, og það kom svo á daginn. Við fórum svo saman í bæinn og þá tók alvara lífsins við. Það var erfitt að fá leiguíbúðir í þá daga, en okkur tókst að fá íbúð í gegnum systur mína. Kristján fékk vinnu í fiskverkunarstöð, en ég réð mig aftur til Andrésar. Eftir nokkurn tíma varð sam- dráttur og það varð að grípa til uppsagna, og að sjálfsögðu var vesalingunum sagt upp fyrst. Ég gafst þó ekki upp og réð mig í skógerð hjá Kristjáni Guð- mundssyni á Spítalastíg. Ég vann þar nokkuð lengi, eða í þrjú ár. Á þessum tíma fór ég að læra að mála og ætlaði raunar að verða módelteiknari. Langaði að teikna föt og sauma. Ég hef reyndar gert það síðan, og sauma og hanna föt fyrir vini og kunn- ingja. Ég hafði líka, og hef, mjög gaman af söng og lærði því að spila á gítar hjá Sigurði Briem. Ég er ein af þeim sem taka svona skorpur, fer á allskonar nám- skeið. En þetta dæmi gekk ekki upp, því þetta var svo dýrt. Ég var í Myndlista- og handíðaskól- anum í tvo vetur, en varð að hætta því vegna peningaskorts. Það var svo árið 1963 að við fluttum út á Seltjarnarnes og árið eftir eignuðumst við þessa einu dóttur sem við eigum. Við keyptum sem sagt íbúð á Nesinu og vorum ein af frumbyggjum Seltjarnarness. Það var auðvitað stofnað kvenfélag og á einum fundinum spyr ég konurnar hvort við eigum ekki að stofna kór. Mér fannst alveg vanta söng þarna. Upp úr því var Selkórinn stofnaður og ég söng í honum al- veg þar til íþróttirnar komu til sögunnar. Mottóiö að keppa fyrir sjálfa mig Hvernig kom það til að þú fórst að œfa sund? - Ég fór nú upphaflega að synda með íþróttafélagi fatlaðra, sem þá var nýstofnað og fór með því hugarfari að hafa það bara huggulegt með hinum. Ég ætlaði aldrei að fara að keppa. Það varð hins vegar til þess að mér var att út í keppni. Þá var ég komin yfir fertugt og eftir það fer boltinn af stað. Ég hætti í kórnum og fer að starfa fyrir íþróttafélagið og varð m.a. formaður. Það var líka til að þroska sjálfa mig, ég varð að standa á eigin fótum og vinna fyrir þetta fólk. Eftir að ég fór að æfa sund tók ég miklum framför- um í þjálfuninni og batnaði stöðugt og mér finnst að allir ættu að vera í íþróttum. Hvort sem er gamalt fólk eða ekki, því þetta er mesta endurhæfing sem nokkur manneskja getur fengið. Og nátt- úrlega sérstaklega fyrir fatlaða. En keppnisferillinn byrjaði með því að það voru allir að það semégvil hvetja mig til að fará út í keppni og ég var einn veturinn send á Solnarleikana. Þar gekk mér svona líka vel og vann hverja medalíuna á fætur annarri og eftir það tek ég þátt í hverju mótinu á fætur öðru. Og er alltaf að vinna þannig að það var ákveðið að senda mig á Heimsleika fatlaðra. Mitt mottó í allri keppni er að keppa fyrir sjálfa mig. Ég er búin að finna út aðferð í sundinu sem hentar mér vel. Ég byrja alltaf rólega og keyri svo meira og meira upp. f lokin gef ég allt í botn. Svoleiðis hef ég alltaf synt og á því hef ég unnið allar mínar medalíur. Syndi kílómetra í upphitun í öllum þeim keppnum sem ég tók þátt í var ég auðvitað öldung- urinn og var að keppa við 17-18 ára stelpur. Það fannst mörgum það skrýtið, enda sagði einn Svíi við mig einu sinni „að svona kerl- ingar ættu ekki að vera að keppa.“ En ég sagði þá við hann að ég skyldi bara sýna honum það, að svona kerlingar gætu líka keppt, og ekki nóg með það held- ur skyldi ég vinna þessar píur hans. Sem ég og gerði. Þetta var á Heimsleikum fatlaðra 1982 sem er langminnisstæðasta mótið sem ég hef tekið þátt í. Þá skráði þjálf- arinn mig í 400 metra skriðsund, en ég hafði aldrei æft slíkt sund. Ég hélt að þjálfarinn væri orðinn vitlaus, en synti samt. Og ég vann. Enda er ég best í 1 angsundi. Og til dæmis þegar ég er að æfa mig í dag, þá syndi ég einn kfló- metra, bara með höndunum, svona til upphitunar. Enda er ég orðin eins og Skúli Óskarsson að ofan! - Hvenær hœttirðu að keppa í sundi? - Það eru þrj ú ár síðan. Ég varð að hætta vegna aldurs og það sit- ur svolítið í mér að þurfa að hætta. Annars var það allt í lagi, því ég stofnaði minn eigin klúbb, Trimmklúbb Eddu. Það var fyrsti trimmklúbbur fyrir fatlaða á landinu. Fékk gagnrýni frá íþróttafélagi fatlaðra Þegar ég var formaður íþrótta- félags fatlaðra þroskaði ég mig í því að stjórna og ég fór að hugsa um hvað ég gæti gert fyrir fatlað fólk. Það er nefnilega svo margt fólk í þjóðfélaginu sem vantar hjálp og endurhæfingu. Þegar ég hætti formennskunni langaði mig ekki til að hætta í íþróttunum, þannig að ég stofnaði trimm- klúbbinn. Og mér fannst blinda fólkinu sérstaklega vanta hjálp. Það er Iokað inni og getur varla farið út. Ég fór þess vegna inn í Blindraheimilið í Hamrahlíð og fékk blinda fólkið út og fékk mjög góð viðbrögð. Hins vegar fékk ég gagnrýni frá íþróttaféiagi fatlaðra um að ég væri að kljúfa félagið. Það var gagnrýni sem ég bjóst alls ekki við, því það var síst af öllu mark- mið mitt að kljúfa félagið. Mér fannst þetta bara vanta. Ég vinn hins vegar eins og ég vil vinna og hlusta þess vegna ekki á þetta. Mér er alveg sama þótt verið sé að tala um mig, því eins og sagt er: illt umtal er betra en ekkert. Samt sem áður sárnaði mér þessi gagnrýni fyrst í stað, en ég hef lært á þessu. Og núna eru allir búnir að viðurkenna þetta og finnst ég hafa gert góða hluti. Það er nefnilega ekkert sniðugt að ýta fólki beint út í íþróttirnar, það þarf fyrst að byggja það upp á annan hátt. Fá fólkið út úr skel- inni. Fatlað fólk er með gífurlega minnimáttarkennd og byrgir allt inni. Þess vegna þarf að byrja rétt. Ég ákvað því þegar ég stofn- aði klúbbinn, að fara út tvisvar í viku að trimma. Ég fékk í lið með mér ófatlað fólk til að hjálpa blinda fólkinu og leiða það og nú er þetta orðinn mjög öflugur klúbbur. Síðan fór ég að huga að félagslegu hliðinni, fá fólkið til að vera með í lífinu. Ég held fundi og jólaboð, og í síðasta jólaboði vorum við 60. Þá bauð ég for- manni trimmnefndar ÍSÍ, Ást- björgu Gunnarsdóttur og þá fékk ég einn mesta glaðning sem ég hef fengið í lífinu, því þá var klúbburinn viðurkenndur innan ÍSÍ. Það var mér mjög mikils virði. Og nú er í undirbúningi hjá okkur haustskemmtun, þannig að það er mikið um að vera hjá okkur. Það kostar ekkert að vera í klúbbnum, þetta er allt unnið í sjálfboðavinnu og félagsgjöld eru engin. Ég er nú að hugsa um að breyta því, vegna þess að sumir hugsa sem svo, að þeir séu ekki í klúbbnum af því að þeir fái ekki að borga. Það er allt metið út frá peningum, en það finnst mér vera svo rangt. Við erum öll að berjast í lífinu og við eigum bara að koma saman og njóta þess að vera til. Við í klúbbnuin tökum þátt í öllu sem er um að vera, hvort sem það er Krabbameinshlaupið, Maraþonhlaupið eða Reykja- lundarhlaup. Við viljum bara vera með þótt við trimmum í hjólastólum. Vilfá ellilífeyris- þegana út með mér - Hvernig er aðstaðan fyrirfatl- aða íþróttamenn í dag? - Hún er erfið. Það er verið að byggja íþróttahús hjá íþróttafé- lagi fatlaðra í Hátúni 12, og um leið og það verður tilbúið lagast aðstaðan. En það vantar alltaf fjármagn. Svo er sundlaugin í Hátúninu biluð og þá hafa fatlað- ir bara eina sundlaug sem er Grensáslaugin. Mérfinnst samfé- lagið bregðast þarna, því mér finnst að það ætti að halda þess- um sundlaugum opnum og stjórnvöld þá að hjálpa til. Það er svo mikið af fötluðu fólki sem kemst ekki í aðrar laugar, en sundið er svo mikilvæg endurhæf- ing, þannig að mér finnst að borg- in, eða stjórnvöld ættu að koma til móts við fatlaða og borga til að halda laugunum opnum. Ég væri til dæmis ekki komin svona langt í dag og orðin svona góð ef ég hefði ekki stundað sund. Ég er líka með eina hugmynd í sambandi við ellilífeyrisþegana. Ég held að það væri mjög sniðugt að fá þetta fólk, sem er lokað inni á elliheimilum eða einhverjum stofnunum, í lið með mér. Fá það til að sækja til dæmis blinda fólk- ið eða hjálpa fötluðum og fara út að trimma með það. Þá fær gamla fólkið félagsskap, kemst út og er að hjálpa einhverjum. Það eru nefnilega svo margir sem vilja hjálpa öðrum, byggja sjálfa sig upp og finna gleði yfir því að geta hjálpað. Ég fínn svo mikla gleði þegar ég er að hjálpa öðrum, þótt ég sé svona á mig komin. Ég er þannig að byggja sjálfa mig upp um leið og ég hjálpa öðrum. En eins og ég sagði áðan, þá eru fatlaðir með mikla minni- Edda með hluta þeirra verð- launapeninga og skjala sem hún hefur unnið til. Myndir: Jim Smart. máttarkennd og það er mjög erf- itt að fá þá til að koma út. Það liggur við að maður þurfi að krjúpa á kné og biðja fatlað fólk að vera með. Það er líka oft mjög gagnrýnið á þjóðfélagið og sjálft sig, en þegar manni hefur tekist að fá þetta fólk til að vera með, þá breytist það alveg gífurlega mikið. Það verður miklu léttara, ekki eins gagnrýnið og áður og það hættir að hugsa eins neikvætt og það gerði. Það hugsa nefnilega margir fatlaðir sem svo: Ég er fatlaður og kemst ekki neitt og get ekki neitt og er bara geymdur hér. Þetta breytist þegar fólkið fer að gera eitthvað fyrir sjálft sig og vera með í lífinu. Þess vegna finn ég svo mikla gleði þegar mér tekst að gera eitthvað fyrir þetta fatlaða fólk. Það er að sjálfsögðu hægara sagt en gert fyrir fatlað fólk að vera úti, því þótt það standi í lögum að gangstéttir og götur eigi að vera með halla fyrir hjóla- stóla, þá er það á fæstum stöðum. Ég finn miicið fyrir því þegar ég þarf að vera úti, annaðhvort í hjólastól eða á hækjum. En við eigum ekki að láta það aftra okk- ur þótt það sé erfitt. Það er allt hægt ef viljinn er fyrir hendi. Ef maður ætlar sér eitthvað, þá get- ur maður það. Það er mitt mottó í lífinu. Og þetta er ég að segja öðru fötluðu fólki. Fatlaðirgeta meira en þeir halda - Hvað er ér mikilvægast í líf- inu? - Það mikilvægasta fyrir hverja manneskju að finna sér alltaf verkefni. Að hafa alltaf eitthvað að gera. Ég hef unnið hörðum höndum allt mitt líf, og til dæmis um helgar eða í sumarfríum þeg- ar ég er ekki að vinna, þá vantar mig eitthvað. Það er mér mikil- vægast að hafa eitthvað að gera alltaf hreint. Mér finnst ég vera að svíkja sjálfa mig ef ég slæpist. Þess vegna finnst mér svo sorg- legt að horfa upp á allt þetta fatl- aða fólk sem gerir ekki neitt. Það getur gert miklu meira en það heldur og það versta sem það ger- ir sjálfu sér er að loka sig inni. Ég segi fyrir sjálfa mig, að ef ég hefði ekki verið í íþróttum eða stofnað þennan klúbb, þá væri ég hér heima við saumavélina allan dag- inn og væri að loka sjálfa mig inni. Mér finnst þessa hugsun vanta t.d. hjá Sjálfsbjörg. Þar er fólk sem lokar sig inni, fólk sem getur svo mikið. Það þarf að skapa þessu fólki verkefni og fá það til að vera með í lífinu. - Ertu trúuð? - Já, ég er mjög trúuð. Ég get nefnt þér sem dæmi, að ég fór í siglingu niður Hvítá með fötl- uðum, og þegar fólk heyrði að ég ætlaði að fara, þá spurði það mig hvort ég gæti ekki fundið mér ein- hverja auðveldari sjálfsmorðs- leið! En ég sagði að það væri guðs að ákveða hvenær ég færi, og ef hann hefði ákveðið að ég ætti að deyja í þessari ferð, þá myndi það gerast. En það gerðist nú ekki og ég held að ég eigi eftir að gera töluvert mikið í lífinu enn. Föstudagur 15. september 1989 NÝTT HELGARBLAÐ - SÍÐA 15

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.