Dagblaðið Vísir - DV - 22.03.2003, Síða 31
LAUGARDAGUR 22. MARS 2003
Helqarblað H>"V
3
Tolli sat löngum inni
og teiknaði í æsku
þegar aðrir voru í
fótbolta. Svo greip
uppreisnin hann og
allar tnyndirnar fóru
í tunnuna. Seinna
hætti hann á sjónum
og braust til mennta
í myndlist og er nú í
miðri útrás til ineg-
inlands Evrópu með
pensilinn að vopni.
DV-mynd: Teitur
landslag, sannfærður um að það ætti erindi í
sýningarsali Evrópu. Hvað átti þetta eiginlega að
þýða?
„Þegar ég lauk námi í MHÍ 1984 var ég eitt ár
gestanemandi í Listaháskólanum í Vestur-Berlín
sem þá hét. Þá stóð múrinn enn og þetta var
spennandi umhverfi og dramatískt.
Mig langaði til þess að láta reyna á það að
vinna í útlöndum um tíma. Ég vildi ekki sitja
uppi á elliheimilinu án þess að hafa látið vaða og
kýlt á þennan draum. Það var því ákveðið á
þessu heimili 1999 að fara til Berlínar með
pensilinn og láta drauminn rætast. Konan fór í
'skóla, sú litla á Kindergarten og ég leigði mér
vinnustofu og fór að mála.
Ég var svo heppinn að þama var sendiherra
Ingimundur Sigfússon, athafnamaður og menn-
ingarvinur, sem studdi vel við bakið á mér þeg-
ar ég kom út. Það gerðu líka Aifreð Gíslason
handboltamaður og Eyjólfur Sverrisson fótbolta-
maður sem báðir bjuggu í Þýskalandi,“ segir
Tolli.
Hann málaði eins og óður maður í heilt ár,
sannfærður um að íslenskt landslag ætti erindi
við evrópska listunnendur.
„Gott málverk er alltaf gott málverk, sama af
hverju það er og þar getur íslensk náttúra lifað
rétt eins og í raunveruleikanum hér.“
Allir vilja eiga myndimar
Síðan fyrsta vinnuárinu lauk hefur Tolli sýnt
linnulítið í Evrópu og á síðasta ári hélt hann sjö
sýningar á meginlandinu; í Þýskalandi, Lúxem-
borg og Sviss. Þótt hann tali mjög hæversklega um
árangur sinn hefur DV traustar heimildir fyrir því
að hann hafi selt hverja einustu mynd sem hann á
annað borð sýndi Evrópubúum.
„Þetta er rosalega gaman. Þaö er í svona brölti
sem hlutirnar gerast. Við skulum segja að það hafi
gengið vel án þess að ég vilji neitt tala um söluna.
Ef maður selur eitthvað þarna úti fer það í
kostnað við framhaldið því það kostar allt mikla
peninga þarna. En á meðan heldur ævintýrið
áfram. Sennilega hafa menn ekki alltaf þá þolin-
mæði sem þarf í þetta. Ég þarf að gefa mér að
minnsta kosti fimm ár í þetta áður en ég sé hvaða
þýðingu þetta hefur.
Það sem skiptir mig mestu máli er að hafa látið
reyna á þetta og tekið sjensinn þegar hann
bauðst."
„Þetta brölt“, eins og Tolli kýs að kalla það, hef-
ur leitt til þess að hann nýtur stuðnings öflugra
fyrirtækja eins og Kaupþings í Lúxemborg og fleiri
fyrirtæki eins og Baugur og Bakkavör munu koma
að sýningu hans i London á næstunni en það er
fyrir þá sýningu sem hann er heima á íslandi að
mála um þessar mundir.
„Það er fjöldi fyrirtækja á íslandi í útrás og þeim
fjölgar. Það er smæðin, krafturinn og uppruninn
sem er styrkur þessara fyrirtækja. Það er íslensk
menning sem á samleið með þessari útrás og ég
held að stöðugt fleiri fyrirtæki séu að átta sig á
þessu. Menningin og þessi kraftur athafnalífsins
eiga samleið.
Ungir myndlistarmenn horfa oft meira til forsjár
ríkisins í þessum efnum en það eru miklir mögu-
leikar í athafnalífinu."
Við þrösum nokkra stund um skyldur og hlut-
verk fyrirtækja í þessu samhengi og hvernig þau
hafa leyst konunga, prinsa og fursta miðalda af
hólmi að þessu leyti. Tolli segir að það þurfi að
gefa athafnalífinu tíma til að átta sig á skyldum
sínum og tækifærum á þessu sviði og það verði að
vera beggja hagur.
„En það er engin tilviljun að flest stórfyrirtæki
heimsins styrkja íþróttir og menningu og virðast
ekki gera greinarmun á fótbolta og óperu að því
leyti. Menningin hefur gegnum aldirnar fylgt
valdastéttinni.“
Landslagið var tabú
Þannig situr Tolli til skiptis með pensilinn á
vinnustofu sinni í gamla ísbirninum á Seltjarnar-
nesi og á vinnustofunni í Berlín. Það er alltaf ís-
lensk náttúra sem er viðfangsefni hans.
„Við höfum séð ýmsa konseptlistamenn eins og
Roni Horn, Ólaf Elíasson og fleiri daðra við form-
fegurð og birtu íslenskrar náttúru og rappa svo
heimspekilega tengingu við.
Ég þurfti að fara til Berlínar 1984 til að átta mig
á því að íslensk náttúra var það sem ég vildi mála
og lít á mig sem brautryðjanda í því. Þetta var tabú
þegar ég byrjaði að mála. Landslagið var hluti af
borgaralegri hefð og afturhaldi. Ég lærði þetta af
þýsku expressjónistunum þegar ég sá að þeir voru
fyrst og fremst að mála sitt nánasta umhverfi og
það sem mótaði þá en gerðu það í anda pönks og
þess hráleika og krafts sem þá var einkennandi.
Ég hafði engar rætur nema Hornstrandir, sjó-
mennskuna og fjöllin. Það er mitt „power“, mitt
pönk og mitt rokk.“
Tolli segist hafa haldið sig við íslenska náttúru
með örfáum frávikum. Þótt hann hafi heillast af
ákveðnum söguefnum í málverkinu hafi hann
alltaf komið aftur til landslagsins.
„Ég get ekkert annað. Þetta er svo ríkt í mér.
Þegar ég stend á vinnustofunni í Berlín og mála
upplifi ég miklar andstæður þar sem annars vegar
eru þær auðnir og firnindi sem er ísland og hins
vegar manngerð náttúra Berlínar.
Berlín er mikill suðupottur í menningarlegu til-
liti eins og svo oft áður. Þarna verða sprotarnir til
þótt markaðurinn sé aðallega í Suður-Þýskalandi.“
Að veiða myndir
Tolli segist vera ástríðumálari sem heillaðist af
viðfangsefni sínu og lífsstíl þótt hann færi ekki í
málaradeild heldur nýlistadeild.
„Ég geri mér sérstakar ferðir út í náttúruna til
að mála vatnslitamyndir og þótt árangurinn sé
misjafn skiptir athöfnin miklu máli. Ég er eins og
veiðimaður nema ég er með pensil en ekki hagla-
byssu eða flugustöng. Það eru allar taugar tengdar
og einbeitingin á fullri orku og allt er virkjað þeg-
ar maður er að fanga augnablikið. Ég þarf á þess-
um ferðum að halda því ég mála öll mín stóru verk
í stúdíói og þá verð ég að hafa við höndina þann
vitundarbanka sem ég safna mér í úti í náttúr-
unni.“
Um þessar mundir vinna Ari Trausti Guðmunds-
son og Tolli saman að bók sem á aö koma út á
þremur tungumálum - þó ekki íslensku - og fjallar
um Tolla og íslenska náttúru og hvers vegna hann
kýs að leita til hennar. Ari Trausti hefur teymt
Tolla með sér á nýjar slóðir, meðal annars í ísklif-
ur á Gígjökli, og báðir hafa vatnslitina með sér.
„Við ætlum að ganga á Skessuhorn næstu daga
og þetta sambland af fjallamennsku og listsköpun
er geysilega skemmtilegt.
íslendingar þekkja þennan reynsluheim sem
maður sækir í og það þarf ekkert sérstaklega að út-
skýra það fyrir þeim. Þeir gera mína reynslu að
sinni en meginlandsbúarnir þurfa að fá að vita
meira um manninn á bak við málverkið."
Ekki hægt að mála of mikið
Getur verið að Tolli hafi verið búinn með ísland
í einhverjum skilningi þegar hann fór til Þýska-
lands með pensilinn í vasanum?
„Alls ekki. Þegar menn tala um íslenskan mynd-
listarmarkað eru þeir að velta sér upp úr gamalli
nostalgíu um einhverja yfirstétt sem á að búa í
Reykjavík og safna málverkum. En þetta er aðeins
að hluta til rétt. Myndlist lýtur sömu lögmálum á
íslandi og önnur markaðsvara. Markaðurinn svar-
ar góðri vöru með því að kaupa hana. íslenskur
myndlistarmarkaður er ekkert lítill. Hann er 100
þúsund einstaklingar en ekki 500 manns og á eng-
an sinn líka í heiminum. Ég sé 15 þúsund Toyota-
eigendur í grillferð saman. Af hverju sjáum við
ekki sex þúsund listelskendur sem vilja eiga mynd
eftir Tolla? Hann þyrfti að mála alla ævi til að
svara því.
Ég hef engar áhyggjur af því þegar menn spyrja
mig hvort ég framleiði ekki of mikið. Það hefur
aldrei nokkur málari málað of mikið. Þegar þeir
drepast er alltaf spurt: Af hverju málaði hann ekki
meira? Jafnvel maður eins og Stefán frá Möðrudal,
sem vildi helst ná tíu myndum fyrir hádegi, er
vandfundinn í dag ef þú vilt eignast mynd eftir
hann.
Hitt er svo annað mál að tíminn sorterar úr það
sem er gott. í dag verðleggur maður bara myndir
eftir stærðum til að hafa samræmi en tíminn mun
skipta þeim í flokka eftir gæðum.“
Tolli segist vera einfari í myndlistarheiminum
og vera í sjálfskipaðri útlegð.
„Baráttan við að lifa af listinni hefur fælt mann
frá straumnum. íslenskur myndlistarheimur hefur
ekki séð neina ástæðu til að kalla mig til sín.
Eitt er aö vera myndlistarmaður og annað að
vera myndlistarmaður. Það sem ræður ímyndinni
er gamla bóhemímyndin frá 19. öldinni um róman-
tíska manninn sem býr við efnislega örbirgð en
allsnægtir andans. Þetta er della. í dag þarf mynd-
listarmaður fyrst og fremst að vera með gsm-sím-
ann á eyranu, sítengdur á Netinu og vinna skipu-
lega að því að koma sér á framfæri. Þetta er bara
bisness. Myndlistin lýtur síðan eigin lögmálum
sem snúast ekki endilega um gæði. Myndlist sem
selst er góð þegar hún selst en þá á tíminn eftir að
dæma hana.“
Er nauðsynlegt að þjást?
Tolli tekur næstu mýtu sem berst í tal - um þján-
ingu listamannsins - og snýr hana fimlega niður.
Hann segir að það sé della að listamenn þurfi að
þjást. Það sé vissulega hægt að þroskast af þján-
ingu en það sé ekki nauðsynlegt. En hver hefur
verið hans þjáning?
„Ég er fimmtugur. I’ve been there, done that,“
segir Tolli og glottir eins og þaö sé einhver sérstök
þjáning innbyggð í þann virðulega aldur.
„Ég hef tekið mína slagi við alkóhólisma og fíkn-
ir og þegar ég horfi á verkin mín sé ég þau eins og
dagbók og veit hvernig mér leið og er í dag þakk-
látur fyrir allt sem ég hef gert og það sem ég er.
Listamaðurinn þarf miklu meira á því að halda að
skilja þjáningu annarra en þjást sjálfur."
- Breytti þjáningin þér sem listamanni?
„Mér finnst ég sem listamaður og ég sem mann-
eskja vera eitt og hið sama og lífið hefur breytt
mér.“
Heiðarleiki pabba
Kristinn Morthens, faðir Tolla, lést fyrir fáum
mánuðum en hann var sjálfmenntaður listmálari
sem fékkst við að mála landslagsmyndir líkt og
sonur hans gerir. Það er freistandi að spyrja hvort
faðir hans hafi verið honum fyrirmynd.
„Hann var alþýðumálari, notaði sínar náttúru-
gáfur til að mála og lifði af sinni myndlist meira og
minna. Hann hefur sjálfsagt verið mér fyrirmynd
beint og óbeint. Mér var hins,vegar innrætt það í
uppvextinum að ég ætti að verða eitthvað annað en
myndlistarmaður, ég yrði að eiga eitthvert annað
líf. Það gerði móðir mín sem ól okkur upp við
þessa sveiflóttu innkomu og drykkjuskap gamla
mannsins sem litaði lífið dálítið. Henni fannst
þetta ekki eftirsóknarvert fyrir sín börn.
Þegar ég lít til baka finnst mér heiðarleiki hans
og auðmýkt fyrir listagyðjunni vera tær og falleg.
Hann upplifði natúralisma sem æðsta stig listar-
innar og því nær sem hann komst því sköpunar-
verki því nær komst hann guðdómnum.
Mér finnst þetta fallegt viðhorf sem gæti verið
mörgum okkar til eftirbreytni. Hann var laus við
tilgerð.
Ég hef ekkert sérstaklega skilgreint það fyrir
mér en í dag finn ég kraft og þakklæti fyrir að hafa
átt pabba sem pabba og ég veit að lyktin af pensl-
um og olíulitum í umhverfi bernskunnar hefur sett
mark sitt á mig.“
-PÁÁ