Morgunblaðið - 15.02.2001, Page 12

Morgunblaðið - 15.02.2001, Page 12
FRÉTTIR 12 FIMMTUDAGUR 15. FEBRÚAR 2001 MORGUNBLAÐIÐ FJÖLMENNI var í félagsheimilinu Mánagarði í Hornafirði á líflegum og á köflum heitum fundi um kröfur óbyggðanefndar varðandi þjóð- lendumörk í Austur-Skaftafellssýslu. Greini- legt var að kröfugerðin féll fólki ekki í geð og það var hissa á því hvað kröfur ríkisins eru stíf- ar og ágengar. Framsögumenn á fundinum voru Geir H. Haarde fjármálaráðherra, Ólafur Björnsson hæstaréttarlögmaður og Örn Bergsson bóndi. Til fundarins komu bændur, fólk úr þéttbýlinu á Höfn og nokkur hópur þingmanna. Albert Ey- mundsson bæjarstjóri í Hornafirði sem var fundarstjóri lét þess getið að sennilega hefðu aldrei verið jafn margir þingmenn saman komnir á einum fundi þar eystra. Fundurinn fór vel fram og var málefnalegur en Örn Bergsson mótmælti framgöngu ríkisins og brýndi bænd- ur hressilega til að vera á verði. Á fundinum kom fram að niðurstaða óbyggðanefndarinnar varðandi Árnessýslu mun liggja fyrir í mars og að mjög er beðið eftir þeirri niðurstöðu. Bændur og lögmenn þeirra búast ekki við niðurstöðu sem verður bændum hagfelld en fjármálaráðherra sagðist gera sér vonir um að öldur lægði í málinu þegar sá úr- skurður kæmi fram. Óbyggðanefnd ber að leita sátta Fjármálaráðherra sagði meðal annars í sinni framsögu að óvissa yrði í þessu máli þar til úr- skurður óbyggðanefndarinnar lægi fyrir í mars. Hann sagði heppilegra að niðurstöður hefðu legið fyrir í Árnessýslu áður en haldið var áfram með málið og kröfum lýst annarstaðar. Hann sagði það alveg á hreinu að það væri ekki ásetningur ríkisins að taka eignir af réttum eig- endum heldur eingöngu að fá á hreint hvernig eignarhaldi væri háttað á landinu. Þjóðlendu- lögin settu af stað ákveðið og mikilvægt sönn- unarferli og það væri misskilningur að kröfur ríkisins jafngiltu úrskurði óbyggðanefndarinn- ar. Geir sagði óbyggðanefndina hafa þá sérstöðu að þó hún starfaði sem dómstóll þá væri hún ekki bundin af kröfugerð aðila. Hún hefði sjálf- stæða rannsóknarskyldu og gæti úrskurðað með öðrum hætti en kröfugerðin gæfi tilefni til. Hún gæti því komist að þriðju niðurstöðu. Hann lagði áherslu á að nefndinni bæri að leita sátta með mönnum og sagði að eftir að niðurstöður kæmu fram myndu menn áfram geta notið þjóðlendnanna eins og áður, úrskurðurinn fjallaði eingöngu um eignarréttinn. „Þetta mun hafa minni áhrif en margur hefur talið og ég geri mér vonir um að öldur lægi í þessu máli þegar fyrsti úrskurður óbyggða- nefndar kemur fram. Menn hafa verið sárir yfir þessum kröfum og telja að sér vegið en þegar upp er staðið verður þetta vonandi til að greiða úr ágreiningi en ekki til að búa til nýjan,“ sagði Geir H. Haarde fjármálaráðherra í lok fram- sögu sinnar. Snýst um eignarrétt Ólafur Björnsson hæstaréttarlögmaður sagði að við framkvæmd laganna kæmi fram nýtt sjónarmið hjá ríkinu með því að málið sner- ist um annað en miðhálendið því krafa væri gerð um önnur lönd á láglendi, til dæmis Skeið- arársand. Kröfugerð ríkisins væri ekki í sam- ræmi við skilning alþingismanna. Hann sagði deiluna snúast um eignarréttindi en ríkið segði að það væri ekki verið að taka neitt af neinum, menn hafi ekki átt löndin og þetta færi fyrir brjóstið á fólki. „Það er alveg ljóst að bændur munu aldrei sætta sig við að tapa landi sem þeir eru þing- lýstir eigendur að og munu áfrýja því til Mann- réttindadómstóls Evrópu,“ sagði Ólafur Björnsson. Örn Bergsson bóndi sagði ljóst að fjármála- ráðherra ætlaði ekki með friði í þjóðlendumál- inu og það væri ljóst að lögin væru allt öðruvísi í framkvæmd en menn hefðu ætlað. Krafa rík- isins í Austur-Skaftafellssýslu hefði komið mönnum í opna skjöldu því samkvæmt þeim þá væri miðhjálendið komið niður á sanda. Örn sagði allt land milli sjávar og jökuls innan þing- lýstra eignarlanda og ekki verið deilt um það. Menn hefðu greitt af landinu skatta og skyldur og þetta misbyði réttlætiskennd fólks. „Eignarrétturinn er stolt bænda og þetta er aðför að honum,“ sagði Örn og lýsti eftir skiln- ingi þingmanna. „Þetta mál snýst ekki um lög- fræði heldur pólitík og siðfræði,“ sagði Örn og krafðist þess að þjóðlendukröfur ríkisins yrðu dregnar til baka og skoraði síðan á bændur að berjast til síðasta blóðdropa í málinu. Þegar hér var komið fundinum sagði Albert Eymundsson bæjarstjóri og fundarstjóri að nú hefði Örn ærlega kveikt í fundinum enda var vel klappað eftir ræðu hans. Albert gaf fjármála- ráðherra kost á að svara fyrir sig og hvatti síðan heimamenn til að taka til máls. Geir hvatti til hófsemdar í umræðunni, hann sagði lögin stað- reynd, kröfugerðin verðfelldi ekki jarðirnar heldur ferli málsins og því þyrfti að hraða því. Vilja ekki illdeilur Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra var fyrstur í ræðustólinn og sagði að þegar ákveðið var að leggja fram frumvarpið um þjóðlend- urnar 1996 hefðu menn ekki átt von á deilum heldur að lögin gætu skýrt reglur í samfélaginu. „Við sem vorum að setja þessi lög gerðum okk- ur ekki grein fyrir því að mörkin yrðu dregin svona, að Skeiðarársandur yrði innan þjóðlend- umarka,“ sagði Halldór og kvaðst skilja sárindi fólks en stjórnmálamenn hefðu engan áhuga á því að standa í illdeilum við fólk og sagði að end- urmeta þyrfti málið ef ekki skapaðist ró um nið- urstöðuna þegar hún kæmi fram. Undir þessi orð tók Árni Johnsen alþingis- maður sem sagði að ef túlkun laganna færi fram úr vilja þeirra þyrfti að bæta úr. Árni R. Árna- son alþingismaður tók undir þetta og sagði að mótaður væri með lögunum farvegur um það hvað eignarréttur bænda næði langt. Hjálmar Árnason alþingismaður sagði kröfugerðina koma á óvart og hún væri ekki í takt við vilja Al- þingis. Drífa Hjartardóttir alþingismaður tók undir orð annarra þingmanna og kvaðst vona að réttlætið sigraði að lokum. Kristján Pálsson al- þingismaður sagðist trúa því að fjármálaráð- herra leiddi málið til lykta og landeigendur fengju að njóta þess sem þeir ættu. Jón Kristjánsson alþingismaður sagðist hafa talið að þjóðlendumálið snerti aðeins hálendið og sagðist gera ráð fyrir að málið yrði heitt þeg- ar kæmi að svæðum norðan jökulsins og Þing- eyingar kæmust í málið. Árni Steinar Jóhanns- son alþingismaður sagði skilning þingmanna ábendingu til fjármálaráðherra að skoða málið vel og framgang þess. Þingmenn kældu fundinn Eftir því sem leið á fundinn rann móður nokkuð af mönnum, kannski vegna þess að al- þingismennirnir komu upp í röðum. Var sem það kældi fundinn niður að fundarmenn heyrðu þá hvern á fætur öðrum túlka afstöðu sína til laganna; þeir hefðu ekki átt von á því sem kom á daginn í kröfugerð ríkisins. Þeim sem komu upp í kjölfar alþingismanna varð meðal annars tíðrætt um það hvort kröfur ríkisins um lönd væru ekki fyrndar og margir lýstu furðu sinni á rökum á bak við þær línur sem dregnar væru. Fólk þakkaði fundinn og fannst það upplýst- ara eftir hann en áður og kom það heim og sam- an við það sem Albert bæjarstjóri sagði í byrjun fundar að það hefði verið haldinn kynningar- fundur fyrir nokkrum vikum og þá hefði hann beðið menn að vinna heimavinnuna fram að þessum fundi. Greinilegt var að fólk tók mark á þessum boðum bæjarstjóra síns og fyrrum skólastjóra vel. Lífband á embættismannastóðið Guðjón Pétur Jónsson sem kynnti sig sem veiðimann, hafði áhyggjur af umgengnisrétti um lönd, sagði einstaklinga úr þéttbýli gjarnan loka löndum þegar þeir keyptu jarðir. Hann sagðist gera kröfu til þess að þéttbýlisbúum yrði sýnd tillitssemi varðandi rétt til umferðar um lönd. Hann væri ekki talsmaður þess að taka lönd af bændum. Sævar Kristinn Jónsson sagði fróðlegt að heyra skilning þingmanna á málinu. Þetta sner- ist um eignarrétt. Það væri búið að sleppa emb- ættismannastóði lausu sem ráðherra þyrfti að koma lífbandi á. Þrúðmar Sigurðsson bóndi sagði landamerki skýr á þessu svæði frá sjó í jökulinn. Hann þakkaði yfirlýsingar alþingismanna og sagði þær sannfæra sig um að kröfur ríkisins væru út í hött. Verði kröfunum haldið til streitu myndi hann fylgja Erni Bergssyni og berjast til síð- asta blóðdropa. Sigurður Björnsson á Kvískerjum efaðist um að þær viðmiðanir í kröfugerðinni stæðust þar sem talað væri um búsmala fyrri kynslóða og það væri kynlegt að krafa ríkisins um þjóðlen- dulínu lægi í sjónum. Þetta vakti hlátur fund- armanna. Þorsteinn Sigjónsson í Bjarnarnesi vildi vita hvernig lögfræðikostnaður yrði greiddur bændum og Reynir Sigsteinsson sagði kröfur ríkisins eiga að vera hógværar, hann vildi eiga skjól og vörn í stjórnvaldinu en ekki vera í stríði við það. Þetta viðurkenndu þingmenn og hann tók undir með Agli Jónssyni á Seljavöllum um að kröfugerðin væri óhæf, línan ætti að liggja þar sem jökulröndin var um landnám. „Ég trúi ekki að farið verði offari í þessu og jarðir teknar af mönnum eins og í Kína og Rússlandi,“ sagði Reynir. Stefán Helgason sagðist bjartsýnn eftir að hafa heyrt í þingmönnum. Löndin væru sterkur þáttur í tilveru bænda og hluti af lífi þeirra. hann sagðist tilbúinn til að berjast í málinu. Sigrún Sigurgeirsdóttir benti á að með kaup- um sínum á Skaftafelli og fjöllunum þar hefði ríkið viðurkennt eignarrétt bóndans. „Hvernig er hægt að byggja á gögnum frá landnámi en lýsa gögn bænda ómerk?“ spurði Sigrún. Þorsteinn á Skálafelli taldi að í ljósi yfirlýs- inga alþingismanna væri framkvæmdavaldið að fara fram úr löggjafarvaldinu. Hann benti á að afréttur og almenningur væri ekki til í Öræf- unum og fannst stigið þungt til jarðar í Austur- Skaftafellssýslu. Arnbjörg Sveinsdóttir alþingismaður sagðist alltaf hafa haft efasemdir um frumvarpið. Það yrði að skýra í ljósi umræðunnar um hálend- ismálin þegar lögin voru sett. Hún kvaðst hafa efasemdir um að Vatnajökull yrði þjóðlenda. Hún kvaðst gera ráð fyrir að þinglýstar eign- arheimildir stæðust. „Það verður að ljúka þessu máli í þeirri sátt,“ sagði Arnbjörg. Sigurður Sigurðsson sagði makalaust að hlusta á þingmenn tala um lögin. „Ef þingmenn undirbúa löggjöfina svona þá er eitthvað að,“ sagði Sigurður. Munum rukka þingmenn Framsögumenn tóku til máls í lok fundar skömmu fyrir miðnótt. Örn Bergsson fagnaði yfirlýsingum þingmanna sem greinilega hefðu sama skilning á málinu og Búnaðarþing hafði. Embættisfærsla fjármálaráðherra væri hins vegar ekki í lagi í þessu máli. „Við munum rukka þingmenn um yfirlýsingarnar hér í kvöld þegar niðurstaðan kemur úr Árnessýslu,“ sagði Örn Bergsson bóndi. Ólafur Börnsson lögmaður tók undir með Erni að túlka bæri lögin eins og þingmenn töl- uðu. „Verði fallist á að draga mörkin aftur fyrir þinglýst mörk kvíði ég ekki niðurstöðunni,“ sagði Ólafur. Geir H. Haarde fjármálaráðherra ítrekaði að hann hefði viljað sjá niðurstöðuna í Árnessýslu áður en kröfum var lýst í önnur svæði. Hann sagði rétt fyrir menn að hugsa til þess hver rétt- arstaðan yrði eftir að niðurstöður féllu og menn hefðu ef til vill unnið sigra, þá yrði ekki hægt að gera nýjar kröfur um lönd. Hann minnti á að málið hefði verið opnað og bætt inn í lögin ákvæði um sönnunarþátt rík- isins og greiðslur á kostnaði. Þá hefðu engar at- hugasemdir aðrar verið gerðar við lögin. „Ég vona að niðurstaða náist í málinu sem sátt verð- ur um. Það er of snemmt að halda að svo verði ekki,“ sagði Geir H. Haarde fjármálaráðherra. Albert Eymundsson bæjarstjóri sagði 30 ræður hafa verið fluttar og þegar fundarmenn höfðu yfirgefið fundarsalinn, sagði hann menn á svæðinu alltaf málefnalega: „Hér er aldrei ófriður á fundum eða læti,“ sagði Albert. Mikið fjölmenni sótti fund í Mánagarði um þjóðlendumálin í Austur-Skaftafellssýslu Morgunblaðið/Sig. Jóns. Líflegar umræður urðu á fundinum. Sigurður Björnsson, bóndi á Kvískerjum, er í ræðustól, Geir H. Haarde fjármálaráðherra og Albert Eymundsson bæjarstjóri hlýða á mál hans. Ráðherra vonast eftir sátt í málinu. Hér takast í hendur Geir H. Haarde og Örn Bergsson, bóndi á Hofi í Öræfum. Albert Eymundsson bæjarstjóri fylgist ánægður með. Bændur mótmæltu, ráðherra og þing- menn vilja sættir Um þrjátíu ræður voru fluttar á líflegum fundi í Mánagarði í fyrrakvöld. Umræðuefnið var krafa ríkisins um mörk þjóðlendna í Austur-Skaftafellssýslu. Í frásögn Sigurðar Jónssonar kemur fram að hiti er í bændum vegna málsins og niðurstaðna í sambærilegu máli í Árnessýslu er beðið með eftirvæntingu. Fólk fjölmennti á fundinn í Mánagarði um þjóðlendumálin í Austur-Skaftafellssýslu.

x

Morgunblaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.