Morgunblaðið - 13.03.2001, Side 10
FRÉTTIR
10 ÞRIÐJUDAGUR 13. MARS 2001 MORGUNBLAÐIÐ
87. fundur. Dagskrá Alþingis
þriðjudaginn 13. mars 2001 hefst
kl. 13:30.
1. Almannatryggingar, atkvgr.
2. Stofnun hlutafélags um Hitaveitu
Suðurnesja, atkvgr.
3. Stjórn fiskveiða, atkvgr.
4. Rafrænar undirskriftir, 1. umr.
5. Stofnun hlutafélaga um Lands-
banka Íslands og Búnaðarbanka
Íslands, 1. umr.
6. Eigendur virkra eignarhluta í
fjármálafyrirtækjum, 1. umr.
7. Viðskiptabankar og sparisjóðir,
1. umr.
GEIR H. Haarde fjármálaráð-
herra sagði á Alþingi í gær að
nýjar tölur um viðskiptahalla
valdi vonbrigðum og menn hafi
gert sér vonir um betri niður-
stöðu. Varaði hann þó við að of
dökk mynd væri dregin upp af
ástandinu.
Fjármálaráðherra lét þessi
ummæli falla við fyrirspurn
Össurar Skarphéðinssonar,
formanns Samfylkingarinnar,
sem benti á að nýjar tölur
sýndu viðskiptahalla upp á 69
milljarða kr. en það nálgaðist
10% af landsframleiðslu og
ljóst væri að efnahagsstefna
stjórnvalda hefði brugðist.
Spurði hann ráðherra hvort
hinn mikli halli væri þess
valdandi að vextir fengjust ekki
lækkaðir.
Geir H. Haarde sagði mikil-
vægt að menn gerðu sér grein
fyrir eðli viðskiptahallans og
hversu ólíkur hann væri því
sem gerst hefði á árum áður
þegar ríkissjóður hefði verið
rekinn með halla. Nefndi hann
þrjár ástæður fyrir verri stöðu
nú, hækkun olíuverðs, aukinn
innflutning landsmanna og
hærri vaxtagreiðslur til útlanda
vegna gengisbreytinga.
Viðskiptahallinn hamlar
vaxtalækkun
„Þessi viðskiptahalli er ekki
með ríkisábyrgð eins og var hér
lengst af á árum áður. Hann er
vissulega vandamál en ég vara
við því að menn geri meira úr
honum en ástæða er til,“ sagði
Geir.
Hann bætti við að viðskipta-
hallinn, eins og hann er nú,
hamli því að hægt sé að lækka
vexti en sagðist sannfærður um
að Seðlabankinn muni beita sér
í þeim efnum við fyrsta mögu-
lega tækifæri. Þessar tölur
greiði hins vegar ekki fyrir því.
Össur henti svar ráðherrans
á lofti og sagði að yfirlýsing
hans væri ákaflega mikilvæg.
„Í fyrsta skipti gerist það að
einn af fulltrúum ríkisstjórnar-
innar viðurkennir að viðskipta-
hallinn er verulegt vandamál
og hann hamlar því að hægt sé
að lækka vexti. Og nýju tölurn-
ar hjálpi ekki upp á sakirnar.
Staðan er einfaldlega þannig að
ríkisstjórninni hefur mistekist
við stjórn efnahagsmála,“ sagði
Össur.
Fjármálaráðherra hafnaði
því alfarið að efnahagsstefna
stjórnvalda hafi brugðist og
sagði merkilegt að Össur
Skarphéðinsson gæti ekkert
annað bent á en viðskiptahall-
ann þegar hann væri að þrá-
stagast um efnahagsmálin.
Lagði hann áherslu á að fyrir-
tækin og einstaklingar í land-
inu hefðu ákveðið þá stærð sem
viðskiptahallinn væri og engin
ástæða væri til að bregðast sér-
staklega við nú.
Geir H. Haarde
fjármálaráðherra
Viðskipta-
hallinn
vonbrigði
JÓHANNA vakti í ræðu sinni at-
hygli á verulegri aukningu á yfir-
dráttarlánum sem bera háa vexti.
Velti hún því fyrir sér hvort vanskil
hjá heimilum og fyrirtækjum gætu
verið falin í mikilli aukningu þessara
yfirdráttarlána. Þá nefndi hún aukna
greiðsluerfiðleika ungs fólks, aukn-
ingu á árangurslausu fjárnámi, tvö-
földun umsókna til Íbúðalánasjóðs
um greiðsluerfiðleikalán; og spurði
forsætisráðherra hvort ekki væri
nauðsynlegt að grípa til aðgerða til
að lækka skuldabyrði heimila og fyr-
irtækja og ef svo væri, þá hverra.
„Hefur skuldsetning heimilanna
ekki verið jafnmikil í að minnsta
kosti tvo áratugi,“ sagði Jóhanna og
sagði að í það stefndi að 500 fjöl-
skyldur misstu heimili sín á árinu.
„Eru þetta ekki hættumerki sem ber
að taka alvarlega og má líka ætla að
vanskil heimila geti verið falin í mik-
illi aukningu yfirdráttarlána?“ spurði
Jóhanna og bendi orðum sínum til
forsætisráðherra. Sagði hún engan
undrast að heimilin og fyrirtækin í
landinu hrópuðu í sameiningu á
vaxtalækkun og velti því upp hvort
Seðlabankinn og ríkisvaldið ætluðu
áfram að láta fyrirtækin og heimilin
„engjast í spennitreyju hávaxta-
stefnunnar,“ eins og hún orðaði það
og bætti síðan við: „Sú þróun á fjár-
málamarkaðnum sem við höfum ver-
ið að ganga í gegnum er satt að segja
óþægilega lík þeirri fjármálakreppu
sem varð fyrir um áratug á hinum
Norðurlöndunum.“
Vanskil í sögulegu
lágmarki
Davíð Oddsson forsætisráðherra
svaraði því til að þótt einhverjir ein-
staklingar kynnu að hafa vanmetið
greiðslugetu sína við lántökur væri
ekki að sjá að mikill misbrestur hefði
orðið því svo virtist sem vanskil í lán-
astofnunum hefðu verið í sögulegu
lágmarki að undanförnu og það ætti
jafnt við um einstaklinga og fyrir-
tæki. Þá sagðist hann ekki óttast að
fjármálakreppa væri í nánd; hann
teldi engar líkur á því.
Davíð sagði að neyslan hefði á und-
anförnum misserum vaxið örar en
tekjur, sem þýddi að almenningur
hefði ákveðið að taka aukin lán og
verja með þeim hætti þeim tekjum
strax sem hann ætti eftir að afla í
framtíðinni. Hann sagði að nú gæfust
fjölbreyttari kostir í lánafyrir-
greiðslu sem og sparnaði. Því væri
ekki rétt að einblína á ákveðna fyr-
irgreiðslu, eins og yfirdráttarlán, og
kjörin á þeim. Horfa þyrfti á mynd-
ina í heild. Fyrirtæki og einstakling-
ar hefðu í hendi sér hvernig þau fjár-
mögnuðu fjárfestingar og væru
vakandi fyrir nýjungum og sam-
keppni á fjármagnsmarkaði.
Þá sagði Davíð að tölur um inn-
flutning bentu til þess að fólk væri að
draga úr útgjöldum. Ofþenslan sem
einkennt hefði þjóðarbúið hefði náð
hámarki árið 2000 og verðbólgan náð
hámarki í apríl það ár. Hann sagði að
því ætti sér nú stað aðlögun að
breyttum tímum.
„Fólk veit vel hvað það er að gera
og óþarfi er að láta eins og fólk kunni
ekki fótum sínum forráð,“ sagði Dav-
íð ennfremur.
Ögmundur Jónasson, Vinstri
grænum, sagði hins vegar margt
benda til þess að vanskil væru að
aukast samfara markvissri útlána-
aukningu ár frá ári. Sakaði hann for-
sætisráðherra um að tala af ótrúlegu
óraunsæi um þessi mál, vonandi væri
hér ekki um ábyrgðarleysi að ræða.
„Erlendar skuldir þjóðarinnar
hafa aldrei verið meiri og stefna í 800
milljarða,“ sagði hann ennfremur og
sagði brýnt að fundnar yrðu leiðir til
að komast út úr þessum vanda.
Páll Pétursson félagsmálaráð-
herra sagði að skuldir hefðu yfirleitt
haldist í hendur við innstæður í líf-
eyrissjóðum. Hann sagði að vanskil
hjá Íbúðalánasjóði hefðu verið 0,3%
af heildarlánum þann 1. janúar í ár
en voru 1% á árunum 1994 til 1997.
Þá sagði hann að fjöldi nauðungar-
uppboða á vegum sjóðsins hefði náð
sögulegu lágmarki árið 1999 eða 299
en verið 628 árið 1995. Þá sagði hann
að umsóknir vegna greiðsluerfiðleika
hefðu verið 233 talsins árið 2000 en
1.545 árið 1995. Fæstar umsóknir
voru 1999 eða 159.
Félagsmálaráðherra boðar
frumvarp með fleiri úrræðum
„Víst eru skuldir heimilanna mikl-
ar og það er ástæða til að hafa
áhyggjur,“ sagði félagsmálaráðherra
og boðaði frumvarp á næstu vikum í
því skyni að fjölga úrræðum fyrir þá
sem lent hafa í greiðsluerfiðleikum,
t.d. vegna húsnæðiskaupa.
Össur Skarphéðinsson þingmaður
Samfylkingarinnar sagði að ef það
væri rétt að neysluaukningin hefði
verið stöðvuð og þenslan í rénun teldi
hann að aðstæður væru til að lækka
vexti. Hann sagði að gera ætti Seðla-
bankann sjálfstæðan, láta gengið
fljóta og lækka vikmörk þess og þá
væri hægt að lækka vexti án þess að
það hefði mikil áhrif á gengið.
Pétur H. Blöndal, Sjálfstæðis-
flokki, benti á ábyrgð einstaklinga á
eigin lántökum. Sagði hann ljóst að
almenningur hefði tekið fagnandi
auknu framboði á lánsfé eftir hálfrar
aldar skort. Benti hann á að eignir
fólks væru einnig að hækka í verði og
því mætti ekki gleyma og mikilvægt
væri að vextir yrðu lækkaðir um leið
og merki sæjust um minnkandi
þenslu.
Steingrímur J. Sigfússon þing-
maður Vinstrihreyfingarinnar –
græns framboðs sagði að hávaxta-
stefnan væri vissulega þungt ok á
herðum margra launþega. Hins veg-
ar væri ekki auðvelt að gagnrýna út-
lánaþenslu og gagnrýna jafnframt
háa vexti. Hann sagði að þjóðin yrði
að vinna sig út úr vandanum með
ábyrgð og sagði að þessi vandi ætti
rætur að rekja til kerfisbundinna
mistaka í hagstjórn sem ríkisstjórnin
hefði gert.
Áhyggjur af afneitun
forsætisráðherra
Jóhanna Sigurðardóttir sagðist í
lok umræðunnar hafa áhyggjur af
þeirri afneitun sem komið hefði fram
í orðum forsætisráðherra: það væri
enginn vandi til staðar og allt í lagi.
Hún spurði hvort ekki væri tímabært
að lækka vexti og benti á að himinhár
vaxtakostnaður einstaklinga og fyr-
irtækja gæti valdið keðjuverkun:
greiðsluþroti og afskriftum lána sem
aftur kæmu fjármálastofnunum í
koll. Spurði hún Davíð Oddsson
hvort hann óttaðist ekki að fjármála-
kreppa gæti verið í uppsiglingu.
Davíð svaraði að á því teldi hann
engar líkur. Hann sagðist hafa talið
að stjórnarandstaðan myndi fagna
því að vanskil væru í lágmarki og
sagði þá stjórnarandstöðuþingmenn
sem tekið hefðu til máls, nema helst
Steingrím J. Sigfússon, hafa sýnt yf-
irgripsmikið þekkingarleysi á því
hvernig þættir efnahagsmála tengd-
ust saman.
Benti hann á að Jóhanna Sigurð-
ardóttur hefði bent á sem dæmi um
alvöru málsins að nú mætti fá lán
með einu símtali. „Samfylkingin
hlýtur auðvitað að koma málum í það
far sem þau voru í gamla daga þegar
ég var að kaupa mér íbúð í fyrsta
skipti og þurfti að standa úti í rign-
ingunni fyrir utan Landsbankann
með öðrum sem voru að biðja þar um
lán.
Þegar inn var komið var þar 20
manna hópur þannig að maður varð
að koma aftur og standa í rigning-
unni og fá ekki svar strax heldur eftir
hálfan mánuð. Og þá var búið að
skera lánsbeiðnina niður um tvo
þriðju. Þessu hlýtur Samfylkingin að
breyta og koma þessu aftur í sama
farið, þessi mikli afturhaldsflokkur,“
sagði hann.
Davíð Oddsson forsætisráðherra varð fyrir svörum.
Morgunblaðið/Þorkell
Jóhanna Sigurðardóttir, málshefjandi umræðunnar.
Engar líkur
á fjármála-
kreppu
Davíð Oddsson telur engar líkur á að
fjármálakreppa sé í nánd og bendir á að
vanskil séu í sögulegu lágmarki hér á landi.
Þetta kom fram í umræðu utan dagskrár á
Alþingi í gær um skuldsetningu heimilanna
og fyrirtækja, en málshefjandinn, Jóhanna
Sigurðardóttir, sagði að forsætisráðherra
væri í afneitun. Hún vill að þegar verði
brugðist við og vextir m.a. lækkaðir.