Morgunblaðið - 13.03.2001, Síða 27
LISTIR
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 13. MARS 2001 27
HARÐUR heimur kynlífs, eitur-
lyfja og rokks og róls á hömlulitlum
og ævintýrlegum tímum við upphaf
áttunda áratugarins er séður með
augum 15 ára stráks í nýjustu mynd
Camerons Crowe (Jerry Maguire).
Strákguttinn nefnist William (Pat-
rick Fugit), og er hann byggður á
lífsreynslu leikstjórans og handrits-
höfundarins. William er nánast of-
virkur unglingur sem er heillum
horfinn í popptónlistarheiminn í
óþökk móður sinnar (Frances
McDormand). Hún óttast nýfengið
frelsi ungdómsins, eiturlyfjaneyslu
þess, virðingarleysi og annað sem
því fylgir. William, sem er farinn að
skrifa rokktónlistargagnrýni í stað-
arblöð, lætur orð hennar sem vind
um eyrun þjóta. Hvattur af Lester
Bangs (Philip Seymour Hoffman),
kunnum gagnrýnanda og fyrirmynd
stráksa, tekur hann boði tónlistar-
blaðsins Rolling Stone um að skrifa
grein um Stillwater, upprennandi
rokkband á hljómleikaferðalagi um
Bandaríkin.
Það sem við tekur eru villtir tímar
í hnotskurn. Hljómsveitarmeðlim-
irnir smábæjarstrákar, sem eru á
þrepskildinum, „næstum frægir“,
sem nægir til að fylla rútuna þeirra,
hótelherbergi og lífið á vegum úti,
„on the road“, af grúppíum, dópi,
tónlist, trylltum partíum. Heimurinn
að kollvarpast, gömul gildi fótum
troðin, önnur ný í fæðingu. Ekkert
skrýtið við það að mamman hafi
áhyggjur af drengnum sínum og sé
linnulaust að lesa yfir honum þegar
hann man eftir símanum. Það er þó
ástæðulítið því William, eða „Óvin-
urinn“, einsog hljómsveitarmeðlim-
irnir kalla hann, er manna skýrastur
í kollinum og sér miskunnarlausa at-
burðarásina úr vissri fjarlægð. Verð-
ur þó bálskotinn í hinni kornungu
Penny Lane (Kate Hudson), einni af
hjásvæfum rokkaranna. Hún er
hinsvegar ástfangin af Russell (Billy
Crudup), gítarleikara Stillwater. Til
að gera hlutina enn snúnari er Russ-
ell sá sem tekur William uppá arma
sína. Þau Penny Lane eru leiðarljós
Williams í kófinu, ásamt Bangs, sem
jafnan er tilbúinn að hjálpa.
Crowe þykir að vonum vænt um
þessa dýrðartíma, myndin er opin og
hreinskilin einsog aðalpersónan
William. Slá í gegn er ótrúlega trú-
verðug upplifun þar sem saman fer
oft safaríkur texti og afburðaleikur
og leikaraval. Til að fylla útí ramm-
ann er hljóðrásin full af óviðjafnan-
legri tónlist snillinga tímabilsins.
Allt frá því að Simon og Garfunkel
upplýsa William um að hann eigi að
fara og upplifa Bandaríkin í perlunni
America, heyrum við af og til í Led
Zeppelin, Rod Stewart, Cat Stevens,
Elton John, Neil Young og þeim
höfðingjum öllum.
Sjálfsagt höfum við, sem upplifð-
um þessi tímamót, mest gaman af
Slá í gegn. Hún höfðar þó til flestra
því undir niðri, á bak við sukksamt
yfirborðið, er gamla, góða þroska-
sagan, að vísu í óvenjulegum bún-
ingi. Full af eftirminnilegum atrið-
um, bæði bráðfyndnum og
tregafullum. Crowe tekst best upp
við að skapa sláandi augnablik sem
rísa uppúr heildinni. Merkileg tilvilj-
un að eitt best gerða atriðið, þegar
flugvél hljómsveitarinnar er nánast
farin með manni og mús, minnir
ótrúlega mikið á einn besta kaflann í
Villuljósi. Lengst af er maður í nota-
legri sæluvímu, enda tónlistin, til-
svörin og framvindan óþvinguð og
sannfærandi, endursköpun tímanna
óaðfinnanleg. Andrúmsloftið eitt-
hvað svo hrífandi ósvikið. Það hallar
ekki undan fæti fyrr en í blálokin,
þegar settur er á svið dúnmjúkur
lokakafli, Hollywood happ-í-endinn.
Of vemmilegur til að vera sannur.
Sem fyrr segir er leikhópurinn
skotheldur. Það er erfitt að túlka
jafn ótrúlega persónu og hið fimm-
tán vetra undrabarn, en Fugit kemst
furðu vel frá sínu. Hljómsveitin, með
Crudup og Jason Lee (Chasing
Amy), í fararbroddi, virkar fullkom-
lega ósvikin og Kate Hudson túlkar
Penny Lane eins vel og kostur er.
Frances McDormand og Philip
Seymour Hoffman eru bæði framúr-
skarandi að venju. Crowe er alltaf að
bæta sig.
STJÖRNUBÍÓ
K v i k m y n d i r
Leikstjóri og handritshöfundur
Cameron Crowe. Tónskáld Mary
Wilson. Kvikmyndatökustjóri John
Toll. Aðalleikendur Patrick Fugit,
Kate Hudson, Billy Crudup,
Frances McDormand, Philip
Seymour Hoffman, Anna Paquin,
Jason Lee, Zooey Deschanel. Sýn-
ingartími 120 mín. Bandarísk.
DreamWorks. Árgerð 2000.
SLÁ Í GEGN – ALMOST
FAMOUS Á villtum vegum úti
Sæbjörn Valdimarsson
„Slá í gegn er ótrúlega trúverðug upplifun þar sem saman fer oft safa-
ríkur texti og afburðaleikur og leikaraval.“
HIN sífellda leit áhugaleikfélaga
að heppilegum viðfangsefnum hefur
að undanförnu leitt nokkur þeirra á
vit kvikmyndanna. Þegar svo er
komið var auðvitað bara tímaspurs-
mál hvenær við fengjum að sjá sviðs-
uppfærslu á þeirri ágætu ræmu All-
ens, Bullets over Broadway.
Sögusviðið er leikhúsheimurinn,
nánar tiltekið leikhúsgatan fræga í
New York, og tíminn er um 1920.
Ungur og metnaðargjarn höfundur
fær hátimbraðan harmleik sinn ekki
fjármagnaðan nema af mafíunni og
með þeim afarkostum að hæfileika-
snauð fylgismey mafíuforingjans fái
hlutverk.
Helsta viðfangsefni verksins er
hins vegar hæfileikar og verðleikar,
og hvað getur gerst þegar þetta
tvennt fer ekki saman. Þar teflir All-
en saman leikskáldinu David Shayne
sem hefur meiri metnað en hæfi-
leika, og morðingjanum Checch sem
reynist búa yfir snilligáfu sem fær
útrás við að lagfæra leikritið, milli
þess sem hann sinnir skyldustörfum
sínum fyrir mafíuna. Bullets over
Broadway er að mínu viti ein albesta
mynd Allens. Djúp, aðgengileg og al-
veg morðfyndin.
Freyvangsleikhúsið er eitt öflug-
asta og vandvirkasta áhugaleikfélag
á Íslandi og bera vinnubrögð þeirra
við þessa sýningu þess merki, allt frá
þeirri natni sem hefur verið lögð í
glæsilega búninga og umgjörð yfir í
nokkuð jafngóðan leik. Burðarhlut-
verkum er öllum vel skilað, Stefán
Guðlaugsson er flinkur gamanleik-
ari, kannski fullvörpulegur maður til
að verða trúverðulega rolulegt leik-
skáld, en gerir vel. Ragnar E. Ólafs-
son virkaði full unglegur sem gór-
illan Cheech, en stóð sig samt með
prýði. Helga Ágústsdóttir var hár-
rétt í hlutverki prímadonnunnar
Helen Sinclair og Halldóra Magnús-
dóttir réttilega óþolandi sem hin ást-
mærin með leikkonudraumana.
Þó það sé skiljanleg freisting að
sækja sér viðfangsefni í kvikmyndir
þá fylgja því ýmis vandkvæði. Hætt
er við að leikarar og leikstjóri sæki
um of fyrirmynd í myndina í stað
þess að einbeita sér að handritinu;
textanum og sögunni sem segja á.
Sýning Freyvangsleikhússins ber
þessa nokkur merki og fyrir vikið
náðu sum atriði ekki að lifa til fulls.
Annað vandamál er að atriði í
kvikmyndum eru oft örstutt og hægt
að flytja persónur milli staða á sek-
úndubroti. Klippitækni leikhússins
er ekki jafn langt komin. Leikstjóra
Bófaleiksins tekst satt að segja lygi-
lega að halda snerpu í sýningunni,
með hjálp hugvitsamlegrar og
smekklegrar leikmyndar. Þó eru
skiptingar of margar og flæðið
stöðvast of oft. Gaman hefði verið að
sjá meiri aðlögun handritsins að hin-
um nýja miðli. Einnig er möguleiki
að minni tryggð við raunsæi hefði
hjálpað.
Þrátt fyrir þessi tæknilegu vanda-
mál eru það að vanda persónurnar
og saga þeirra sem fanga hugann í
leikhúsinu, og það gerir þetta
makalaust skemmtilega ævintýri
Allens í Eyjafjarðarsveit svikalaust.
Skemmtileg og fáguð sýning sem
með smávegis sjálfstæðisbaráttu
gagnvart kvikmyndinni hefði orðið
enn betri, til þess hafa aðstandendur
hennar augljóslega alla burði.
LEIKLIST
F r e y v a n g s l e i k h ú s i ð
Höfundur: Woody Allen. Þýðendur:
Ármann Guðmundsson og Hannes
Örn Blandon. Leikstjóri: Hákon
Waage. Danshöfundur: Jóhann
Arnarsson. Leikmynd: Þórarinn
Blöndal. Laugardaginn
10. mars 2001.
BÓFALEIKUR Á
BROADWAY
Líf, dauði og list
Þorgeir Tryggvason
ELLEFU nemar við Listaháskóla Ís-
lands opna sýningu í verslun IKEA
við Holtagarða í dag, þriðjudag, kl. 16.
Þau sem sýna eru Asami Kaburagi,
Daníel Karl Björnsson, Geirþrúður
Finnbogadóttir Hjörvar, Julia Stein-
mann, Hrund Jóhannesdóttir, Hug-
inn Þór Arason, Rósa Halldórsdóttir,
Tinna Guðmundsdóttir, Þórarinn
Hugleikur Dagsson, Þórunn Inga
Gísladóttir og Þuríður Elfa Jónsdótt-
ir.
Sýningin er lokahluti fimm vikna
verkefnis sem þau hafa verið að vinna
með Hlyni Hallssyni myndlistar-
manni.
„Framsæknir myndlistarmenn
sýna hér einlæga list við kunnar fyr-
irmyndir landsmanna sem í senn eru
heimur tilbúinna heimilisaðstæðna,“
segir Hlynur. „Listamennirnir vinna
með ólíka miðla eins og myndbönd,
innsetningar, gjörninga, texta, ljós-
myndir, málverk, aðstæður, hljóðverk
og skúlptúra / nytjahluti. Tekist er á
við hið tilbúna heimilislega umhverfi
og það sett í nýtt samhengi,“ segir
Hlynur.
„Myndlistarmennirnir eru með
þessari sýningu að gera heiðarlega
tilraun til að koma listinni út til fólks-
ins. Nokkrum mikilvægum spurning-
um verður velt upp eins og: Er sam-
særi búsáhalda að stjórna
hversdagsleikanum? Eru krítarkort-
in að sljóvga vitund okkar? Á flugvöll-
urinn að fara? Hvað sjáum við? Stafar
nýjungagirni Íslendinga af minni-
máttarkennd vegna legu landsins? Er
karlmennskan falin í megabætum og
hestöflum? Eru til íslenskar gleðikon-
ur? Er stéttskipting í þjóðfélaginu?
Er myndlist leiðinleg? Hvað er ég að
gera hér?“
Á opnuninni verða gegnumgang-
andi gjörningar frá 16 til 18.30 og
gestir geta tekið þátt í nokkrum verk-
um ef þeir vilja eða bara horft á, hlust-
að og skoðað.
Sýningin er unnin í samvinnu við
starfsfólk IKEA og er opin á versl-
unartíma kl. 10–18.30. Hún stendur í
tvo daga, til fimmtudagsins 15.
mars.
Búðartaka
listnema
SAMHLJÓMUR (Reveal: Harm-
onize) er yfirskrift alþjóðlegrar
grafíksýningar í Macau Museum of
Art í Macau.
Fimm Íslendingar eru meðal
sýnenda, Gunnar Örn, Ingibjörg
Jóhannsdóttir, Magdalena Margrét
Kjartansdóttir, Margrét Guð-
mundsdóttir og Þorgerður Sigurð-
ardóttir.
Sýnendur eru 128 listamenn frá
28 löndum og ríkjum og er sýning-
arstaðurinn nýtt listasafn sem tek-
ið var í notkun 1999.
Á netinu er hægt að skoða sýn-
inguna, sem stendur til 18. mars
nk., og kynnast Macau. Slóðin er:
www.cityguide.lsm.gov.mo/mg/
mam-c.htm.
Fimm Íslend-
ingar á alþjóð-
legri sýningu
♦ ♦ ♦