Morgunblaðið - 25.08.2001, Qupperneq 24

Morgunblaðið - 25.08.2001, Qupperneq 24
LISTIR 24 LAUGARDAGUR 25. ÁGÚST 2001 MORGUNBLAÐIÐ OPINBER heimsókn Gary Doers, forsætisráðherra Manitoba, hefst á morgun, en hann kemur hingað með fjölmennri sendinefnd í boði Davíðs Oddssonar, forsætisráðherra. Hjálmar W. Hannesson og Neil Bardal, kjörræðismaður Íslands í Manitoba, áttu fund með Doer fyrr í sumar og var fundurinn liður í und- irbúningi heimsóknarinnar, en þetta var eitt fyrsta verkefnið, sem sendi- herrann sinnti í Manitoba. Spennandi samfélag Hjálmar W. Hannesson afhenti landsstjóra Kanada trúnaðarbréf sitt 9. apríl og flutti til Kanada í lok sama mánaðar. Starfsemi hófst í ís- lenska sendiráðinu í Ottawa 1. maí og Halldór Ásgrímsson, utanríkis- ráðherra, opnaði það formlega 22. maí. „Jafnhliða almennum sendi- ráðsstörfum erum við að stofna sendiráðið. Það er dálítið snúið og gerist ekki af sjálfu sér,“ segir Hjálmar. Hann bætir við að óhjá- kvæmilega lendi mikið starf á mökum starfs- manna en hann er kvænt- ur Önnu Birgis. Helga Bertelsen er sendiráðs- fulltrúi, kanadískur ritari starfar með þeim og kan- adískur aðstoðarmaður/ bílstjóri er í hlutastarfi. Menningarmálin hafa tekið mikinn tíma, að sögn Hjálmars. „Þar er byggt á góðum grunni, þessum vestur-íslenska merg, og samskiptum við fólkið í Þjóðræknisfélaginu og deildum þess í Kanada,“ segir hann og getur þess að ótrúlegur fjöldi manns af vestur-íslenskum ættum hafi haft samband eftir að sendiráð- ið tók til starfa, ekki síst fólk sem hafi ekki verið virkt í félögunum og ekki látið vita af sér áður. „Þetta er sérstaklega skemmtilegt,“ segir hann, „og Kanada er spennandi samfélag. Það er gaman að sjá hvað Kanadamönnum hefur tekist vel að mynda samfélag þar sem menning af ólíkum toga fær að blómstra. Íbú- arnir eru Kanadamenn en þeir vita hvaðan þeir koma, hvar ræturnar eru, og leggja mikla áherslu á upp- runann.“ Mikil ferðalög treysta böndin Kanada er sambandsríki 10 fylkja og þriggja norðursvæða og er mikil valddreifing milli ríkisins og fylkj- anna. Hjálmar segir að ríkisstjórn Kanada ætlist beinlínis til þess að sendiherrar fari reglulega í opinber- ar heimsóknir til fylkjanna, hitti for- ystumenn og upplifi valddreif- inguna. Því fylgi starfinu mikil ferðalög og þannig gefist gott tæki- færi til að treysta og efla böndin við Kanadamenn af íslenskum ættum og aðra Kanadamenn sem láta sig Ísland og íslensk málefni varða. Íbúar Kanada eru um 31 milljón og þar af búa tæplega 12 milljónir í Ontariofylki, rúmlega sjö milljónir í Québekfylki, um fjórar milljónir í Bresku Kólumbíu, um þrjár millj- ónir í Alberta, um 1,1 milljón í Mani- toba og um milljón í Saskatchewan, en færri í öðrum fylkjum og á norð- ursvæðunum. Kanadamenn af íslenskum ættum eru fjölmennastir í Manitoba en Ís- lendingafélög eru í öllum fylkjum. Hjálmar segir að starfsemi þeirra sé nokkur í t.d. Toronto og Montreal en um fjögurra tíma akstur sé frá Ottawa til fyrrnefndu borgarinnar en tveggja tíma akstur til hinnar. „Þetta eru miðsvæðisborgir sem skipta miklu máli en íbúar í Toronto eru til dæmis þrefalt fleiri en í Manitoba. Við þurfum ekki aðeins að ná til Vestur-Íslendinga í okkar starfi heldur líka til hins almenna Kanadamanns og fá hann til að gefa gaum að Íslandi og íslenskum mál- efnum. Það gerum við fyrst og fremst í þessum stóru borgum og á þéttbýlli svæðum. Við byggjum því bæði á hinu gamla og góða en reyn- um jafnframt að víkka út sviðið.“ Ýmsir möguleikar Samkvæmt kanadískum hagtölum fóru 86 % kanadísks útflutnings til Bandaríkjanna í fyrra og þaðan komu 74% alls innflutnings til Kan- ada. Útflutningur frá Íslandi til Kanada hefur aukist undanfarin ár og var um 1,6% heildarútflutnings Íslands í fyrra en innflutningur það- an var um 1% af heildarinnflutningi til landsins. Hjálmar segir að ein helsta ástæða stofnunar sendiráðs- ins hafi verið að auka viðskiptin milli Íslands og Kanada í víðum skilningi. „Þar er óplægður akur á vissum sviðum en þarna sáir sér ekkert sjálft,“ segir hann. Íslendingar hafa einkum verið með viðskipti við austurströnd Kan- ada og hafa þau fyrst og fremst tengst sjávarútvegi en Hjálmar bendir á að möguleikarnir séu víða annars staðar. Í því sambandi nefnir hann sérstaklega útrás hugbúnaðar- fyrirtækisins OZ í Montreal og komu sendinefndarinnar frá Mani- toba um helgina. Hins vegar hafi af- koma Flugleiða sett strik í reikning- inn og ákvörðun félagsins um að hætta flugi til Halifax í haust valdið vonbrigðum en vonandi verði rekstrarlegur grundvöllur til að hefja aftur flug til Kanada sem fyrst. Áfram sé vonast eftir aukinni útrás í sjávarútveginum, siglingar á milli landanna haldi áfram og vonir séu bundnar við að hátæknigeirinn nái sér á flug á ný svo sala og sam- vinna, eins og OZ sé í, geti orðið í Kanada. Sendiherrahjónin hafa farið víða í Kanada á skömmum tíma og m.a. í opinberar heimsóknir til Alberta og Manitoba. Hjálmar segir að í heim- sókninni til Alberta hafi komið fram að heimamenn þekktu til vetnis- rannsókna Íslendinga og hefðu spurt töluvert út í þær en hugs- anlegt samstarf á þessu sviði sem öðrum væri spennandi. „Mér finnst mjög spennandi að takast á við hugsanlegt samstarf í báðar áttir í til dæmis banka- og fjármagnsgeir- anum, en þar eru margs konar fletir eins og þjónustustarfsemi á sviði bankamála,“ segir hann. „Það eru miklir peningar í Kanada, ekki síst í Alberta, og Kanadamenn fjárfesta úti um allan heim enda líta þeir á heiminn sem einn markað eins og við gerum í okkar útrás.“ Menningin blómstrar Menningarsamskipti Íslands og Kanada hafa verið mjög mikil undanfarin misseri og er ýmislegt á döfinni í þeim efnum, m.a. opnun víkingasýningar Smith- soninansafnsins í Wash- ington í Ottawa/Hull í byrjun maí á næsta ári. Þessi samskipti náðu há- marki í fyrra, þegar þess var minnst að 1000 ár voru liðin frá því Íslendingar komu fyrst til Kanada og 125 ár frá því Íslendingar settust að í Gimli við Winnipegvatn í Manitoba. Hjálmar segir að stór hluti starfsins felist í því að koma íslenskri menn- ingu á framfæri og vissu- lega yrði gaman að geta endurtekið árið í fyrra að því leyti. Það yrði hins vegar ekki hægt vegna þess að slík starfsemi væri mjög kostnaðar- söm auk þess sem um sérverkefni hefði verið að ræða. Samt sem áður yrði reynt að gera sem mest og helsta verkefni Eiðs Guðnasonar, aðalræðismanns Íslands í Winnipeg, væri að viðhalda og efla samskiptin við Vestur-Íslendinga. Fyrstur í Kína og Kanada Hjálmar hóf störf í utanríkisþjón- ustunni í ársbyrjun 1976 og var m.a. fyrsti sendiherra Íslands í Kína. Eftir rúm þrjú ár þar varð hann skrifstofustjóri alþjóðaskrifstofu ut- anríkisráðuneytisins og staðgengill ráðuneytisstjóra í þrjú ár eða þar til hann fór til Kanada. Hann segir mikinn mun á því að byrja í Kanada en verið hafi í Kína. „Í Kanada erum við í sama menn- ingarheimi en allt annar menningar- heimur er í Kína og þar af leiðandi ganga hlutirnir þar öðruvísi. Þar rekur maður sig á ýmislegt vegna vankunnáttu á þeim menningar- heimi og það tefur fyrir, en í Kan- ada er allt mun léttara. Þegar við fórum til Kína voru öll fyrrverandi sovétlýðveldin rétt búin að opna sendiráð í Peking og þar var gíf- urleg húsnæðisekla en fyrir vikið var erfitt að finna heppilegt hús- næði. Í Ottawa var keypt hús í byggingu og skrifstofuhúsnæði leigt á ágætum stað í miðbænum. Ráðu- neytið sá um þetta en ég þurfti sjálf- ur að ganga frá þessum hlutum í Kína. En mér hefur þótt gaman að fást við það að opna sendiráð á báð- um stöðum.“ Hjálmar W. Hannesson, sendiherra í Kanada Óplægður akur á vissum sviðum Hjálmar W. Hannesson, sendiherra Íslands í Kanada, hefur haft nóg að gera í nær fjögurra mánaða gömlu sendiráðinu í Ottawa. Steinþór Guðbjartsson settist niður með sendiherranum, sem var líka fyrsti sendiherra Íslands í Kína. Hjálmar W. Hannesson, sendiherra Íslands í Kanada.     Morgunblaðið/Arnaldur steg@mbl.is KANADÍSKI list- málarinn Louise Jonasson opnar á mánudag kl. 17 sýn- ingu sem ber yfir- skriftina Minningar um ey eða Island Souvenir í miðrými Listasafns Reykja- víkur á Kjarvals- stöðum. Tilefni sýn- ingarinnar má rekja til heimsóknar for- sætisráðherra Mani- toba, Gary Doer, til Íslands en að hans ósk sýnir Louise verk sín hér á landi sem fulltrúi þeirra Íslendinga sem flutt hafa vestur um haf. Louise þykir fara ótroðnar slóðir við gerð verka sinna. Hún kemur í fyrsta skipti til Íslands í tilefni sýn- ingarinnar en í sýningarskrá, sem gefin er út af þessu tilefni, segir Svavar Gestsson fyrrum aðalræð- ismaður Íslendinga í Kanada, að það stappi nærri yfirnáttúrulegum tíðindum hve margt í myndverki Louise sé íslenskt og á þá við það litaval og þá náttúrusýn sem list- málarinn endurspeglar í verkum sínum þótt hann hafi aldrei stigið fæti á íslenska grund. Í sama streng tekur dr. Anne Brydon sem segir í sýningarskránni að í verkum Louise sé að finna landslag ímynd- unaraflsins sem kallar fram ís- lenska menningu og sögu, nokkuð sem Louise hefur aldrei séð nema á ljósmyndum, í bókum og slitróttri frásögn innflytjendanna, afa hennar og ömmu og síðar föður hennar, en málverkin eru tileinkuð minningu hans. Louise Jonasson er fædd í Winni- peg og lagði stund á listnám í Mani- toba. Hún hefur haldið fjölmargar einka- og samsýningar og verk hennar eru í eigu margra opinberra stofnana í Kanada. Sýningin stendur til 9. septem- ber. Verk eftir Louise Jonasson. Kallar fram ís- lenska menningu GUÐNI Harðarson opnar mál- verkasýningu í Baksalnum í Galleríi Fold, Rauðarárstíg 14-16 í dag, laugardag, kl. 15. Sýninguna nefnir listamaðurinn Íhugun en þar eru um tuttugu verk unnin með akrýllitum á striga. Guðni er sjálfmenntaður í mynd- list. Hann hefur haldið margar einkasýningar, bæði hérlendis og erlendis, og tekið þátt í samsýning- um. Guðni býr Baden í Austurríki og verk hans eru reglulega sýnd í tveimur galleríum í Austurríki, Gal- erie Peithner-Lichtenfels, Vínar- borg, (www. peithner-lichtenfels.at) og Galerie Menotti, St.Pölten. Gallerí Fold er opið daglega frá kl. 10-18, laugardaga og sunnudaga til kl. 17. Guðni Harðarson með verk sitt í baksýn. Sýnir akrýlmyndir á striga í Fold SÝNINGAR hefjast á ný í Borg- arleikhúsinu í kvöld á gaman- leiknum Með vífið í lúkunum eftir Ray Cooney sem frumsýnt var sl. vor. Efni verksins hefur verið snúið upp á íslenskar aðstæður og þýtt af Árna Ibsen. Leikarar eru Steinn Ármann Magnússon, Eggert Þorleifsson, Helga Braga Jónsdóttir, Ólafía Hrönn Jónsdóttir, Júlíus Brjánsson, Halldór Gylfason, Gunnar Hansson og Árni Pétur Guðjónsson. Leik- stjóri er Þór Túliníus og leik- myndahönnuður er Stígur Stein- þórsson. Með vífið í lúkunum á svið að nýju Morgunblaðið/Þorkell Helga Braga Jónsdóttir í hlut- verki Barböru, annarrar eigin- konu Jóns leigubílstjóra.

x

Morgunblaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.