Morgunblaðið - 25.08.2001, Page 27
HEILSA
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 25. ÁGÚST 2001 27
FYRIR RÉTTUM fimm árum fór
fram hér á landi yfirgripsmikil augn-
rannsókn. Hún var unnin undir stjórn
Friðberts Jónassonar, yfirlæknis
augndeildar Landspítala – háskóla-
sjúkrahúss og prófessors í augnlækn-
ingum við Háskóla Íslands, og gerð í
samstarfi við Japani og Alþjóðaheil-
brigðisstofnunina. Markmið rann-
sóknarinnar af hálfu WHO var fyrst
og fremst að skoða þátt útfjólublárra
geisla í skýmyndun á augasteini en
þynning og gat á ósonlaginu hefur
valdið því að slík geislun hefur aukist.
Þar að auki var rannsökuð gláka og
ellihrörnun í augnbotnum en saman
eru þessir þrír sjúkdómar helsta or-
sök blindu og sjónskerðingar í hinum
vestræna heimi. Nú er að fara af stað
annar hluti þessarar sömu rannsókn-
ar.
Góð faraldsfræði á Íslandi
„Ástæða þess að Ísland varð fyrir
valinu sem þátttökuþjóð í þessari
rannsókn er að við erum þekkt fyrir
góða faraldsfræði. Eftir hina marg-
umtöluðu Ríóráðstefnu Sameinuðu
þjóðanna um umhverfismál var ég til-
nefndur í vinnuhóp hjá Alþjóðaheil-
brigðisstofnuninni sem fjallaði um
áhrif aukningar á útfjólubláum
geislum í kjölfar þynningar ósonlags-
ins. Ákveðið var að nýta sérstöðu
Japana sem þekktir eru fyrir há-
þróaða tækni og sérstöðu okkar hér á
Íslandi sem felst í góðri faraldsfræði.
Fólk er yfirleitt jákvætt gagnvart
slíkum rannsóknum hér á landi og
tilbúið að taka þátt,“ sagði Friðbert í
samtali við Morgunblaðið.
Framkvæmd rannsóknarinnar
Í fyrri hluta rannsóknarinnar var
haft samband við á annað þúsund ein-
staklinga sem lentu í slembiúrtaki og
voru þeir beðnir um að taka þátt í
rannsókninni. Þetta var allt fólk sem
bjó í Reykjavík og var 50 ára og eldra.
Gengið var út frá jafnri skiptingu
kynja. Nú er sama fólk bréflega beðið
um að taka aftur þátt í sömu rann-
sókn. „Það er óhætt að segja að þessi
fyrri rannsókn gekk afskaplega vel
og niðurstöður hennar hafa verið
kynntar á mörgum ráðstefnum er-
lendis og margar greinar verið birtar
um hana í læknisfræðitímaritum. Við
erum að leita að leiðum til forvarna
þannig að hægt sé að seinka þessum
sjúkdómum og koma hugsanlega í
veg fyrir þá. Auk myndanna sem
teknar voru af augum fólksins söfn-
uðum við upplýsingum með spurn-
ingalista og reyndum svo að setja
myndirnar í samhengi við lífshætti
fólksins, hvort það er mikið úti, hvað
það borðar, hvaða aðra sjúkdóma
þetta fólk hefur og hvaða lyf það tek-
ur. Það sem við ætlum að gera núna
er að hengja saman mynstur breyt-
inga sem orðið hafa í þessum hlutum
augans á fimm ára tímabili, sjá hvern-
ig sjúkdómarnir hafa versnað hjá
þeim sem höfðu þá fyrir fimm árum
og hverjir hafa fengið þá á þessum
fimm árum. Og eins og í fyrri rann-
sókninni munum við reyna að setja
það í samhengi við líf fólksins. Til
þess að sjá megi þessar breytingar er
mjög mikilvægt að fólk bregðist jafn-
vel við og síðast þegar beðið er um
þátttöku að þessu sinni,“ sagði Frið-
bert.
Flugvél full af tækjum
Rannsóknin sjálf, sem felst í mjög
nákvæmum myndatökum af auganu,
er að sögn Friðberts algjörlega skað-
laus. Ekki eru notaðir neinir jónandi
geislar og má einna helst líkja þessari
tækni við venjulega ljósmyndatöku.
Búnaðurinn er þó alls ekki einfaldur.
Nærri lætur að hann fylli hálfa flug-
vél. Með tækjunum sem
eru frá japanska fyrir-
tækinu Nidek, sem sér-
hæfir sig í gerð augn-
lækningatækja, koma
tveir tæknifræðingar
sem eru meðal hönnuða
búnaðarins. Auk þeirra
verða svo 10 japanskir
starfsmenn að störfum
meðan verið er að vinna
rannsóknina auk ís-
lenskra augnlækna,
hjúkrunarfræðinga og
annars starfsfólks. Jap-
anir taka þátt í þessu
verkefni á ýmsan hátt.
Auk þess sem Nidek
leggur til hátækjabún-
aðinn er verkefnið styrkt af japanska
umhverfisráðuneytinu þar sem það
er á fjárlögum og læknaháskólinn í
Kanazawa er einnig þátttakandi. Hér
á landi eru aðilar að rannsókninni
augndeild Landspítalans, Landlækn-
isembættið og Háskóli Íslands en
meðal helstu styrktaraðila hérlendis
eru Rannís, Sjálfseignarstofnun St.
Jósefsspítala á Landakoti, Háskóli
Íslands, Landspítali – háskólasjúkra-
hús og Minningarsjóður Helgu
Jónsdóttur og Sigurliða Kristjáns-
sonar. Norrænn-japanskur sjóður,
Scandinavian-Japan-SASAKAWA-
Foundation, hefur einnig lagt fé í
verkefnið.
Áhættuþættir sjúkdómanna
Að sögn Friðberts telja rannsak-
endur sig nú þegar geta bent á
ákveðna áhættuþætti þeirra sjúk-
dóma sem verið er að kanna með
þessari rannsókn. Skýmyndun á
augasteini er þannig greinilega ald-
urstengdur sjúkdómur en einnig
kemur skýrt fram að reykingar flýta
mjög fyrir skýmyndun á augasteini
og margfalda áhættuna. Mikil útivist
eykur lítillega hættuna á þeim sjúk-
dómi, þó svo mikið að um marktækan
áhættuþátt er ræða. „Um þessar
mundir er skýmyndun algengasta
ástæða skurðaðgerða í hinum vest-
ræna heimi. Ef okkur tækist að
seinka þessum sjúkdómi um 7–10 ár
væri helmingurinn af þessum aðgerð-
um óþarfur,“ sagði Friðbert. „Hvað
varðar glákuna þá rákumst við á að ef
um ákveðnar breytingar er að ræða í
augasteinshýðinu sem hægt er að sjá
í smásjá fjórfaldast
líkurnar á gláku. Þær
breytingar og öldrun
eru hér á landi stærsti
áhættuþátturinn í að
fá gláku sem er mjög
lúmskur sjúkdómur
og finnst nær ein-
göngu við skoðun hjá
augnlæknum. Þriðja
sjúkdóminn, elli-
hrörnun í augnbotn-
um, gengur illa að
meðhöndla. Margt á
enn eftir að koma í
ljós hvað hann varðar
í þessari rannsókn en
okkur hefur tekist að
skilja betur þátt öldr-
unar í þessum sjúkdómi og einnig
hvað hann er ættlægur. Eins og sjá
má er búið að afla ómetanlegra upp-
lýsinga með fyrri rannsókninni en
þær verða enn betri nú þegar unnið
verður úr þessum seinni hluta.Við
viljum því þakka þeim sem taka þátt
í þessum rannsóknum okkar, án
þeirra hefði þessi þekking ekki orð-
ið til“ sagði Friðbert Jónasson
augnlæknir að lokum.
Seinni hluti alþjóðlegrar rannsóknar á augnsjúkdómum
Sérstaða Íslands veit-
ir einstök tækifæri
Friðbert
Jónasson
Augnsjúkdómarnir þrír sem rannsakaðir eru skemma ólík svæði aug-
ans. Við skýmyndun hættir augasteinninn að vera tær þannig að mynd
berst ekki inn til taugafrumnanna. Í gláku verður sjóntaugin fyrir
skemmdum en ellihrörnun eyðileggur taugafrumur aftast í auganu og
er það svæði í kassa á myndinni.
Sérhæfður japanskur hátæknibúnaður til augnrann-
sókna kominn til landsins ásamt tæknimönnum
Spurning: Mig langar að vita af
hverju ekki er hægt að gefa kon-
um lyf við ógleði og uppköstum á
fyrstu mánuðum meðgöngu. Með
fyrirfram þakklæti; ein ófrísk.
Svar: Þrátt fyrir þá staðreynd
að 50-80% kvenna þjáist af ógleði
og uppköstum einhvern hluta
meðgöngutímans er þetta fyr-
irbæri illa rannsakað. Ekki er
enn ljóst hverjar orsakirnar eru
en þær tengjast að líkindum
þeim hormónabreytingum sem
verða á meðgöngu og hugsanlega
sveiflum í blóðsykri. Flestir virð-
ast líta á þetta sem eðlilegan
fylgifisk meðgöngu sem konur
verði einfaldlega að láta yfir sig
ganga en það er að breytast og
margir eru farnir að leita úr-
ræða. Á síðustu áratugum hafa
einungis örfáar vandaðar rann-
sóknir verið gerðar á þessu
vandamáli og niðurstöður þeirra
um orsakir og úrræði eru ekki
skýrar. Algengast er að þessi
óþægindi byrji í fjórðu viku eftir
getnað og hætti í þeirri tólftu, en
um 20% ófrískra kvenna þjást af
ógleði og stundum uppköstum í
meira en 3 mánuði og sumar
konur losna ekki við þetta fyrr
en með fæðingunni. Að lokum
má geta þess að 1-3% kvenna
þjást af mun alvarlegra formi
þungunaruppkasta sem leiðir til
þyngdartaps, vökvaskorts og
krefst stundum innlagnar á
sjúkrahús. Eftirfarandi hollráð
hjálpa mörgum konum; borðið
oft og lítið í einu, drekkið mikinn
vökva, forðist feitan og krydd-
aðan mat, forðist áfengi, tóbak
og drykki með koffeini, tryggið
nægjanlega hvíld, borðið smá-
vegis í rúminu eftir að þið vaknið
og takið ykkur svo góðan tíma til
að fara á fætur, borðið smávegis
áður en þið gangið til náða,
burstið ekki tennurnar strax eft-
ir máltíð, fáið ykkur göngutúr úti
á hverjum degi og sofið með op-
inn glugga. Á fyrstu 12 vikum
fósturþróunarinnar myndast öll
líffæri og taka á sig endanlegt
form en ef truflun verður á þessu
ferli getur barnið orðið van-
skapað. Á þessu tímabili er mik-
ilvægt að forðast lyf og önnur
framandi efni eftir því sem kost-
ur er. Síðar á meðgöngutím-
anum geta lyf truflað þroska
sumra líffæra eða valdið fóst-
urláti. Talið er að lyf valdi 2-3%
allra fæðingargalla (tóbak,
áfengi og ólögleg fíkniefni eru
meðtalin) en lyfin eru mis-
hættuleg. Hins vegar eiga konur
með langvarandi sjúkdóma, eins
og t.d. flogaveiki, astma og syk-
ursýki, að halda áfram að taka
lyf, en ráðfæra sig við lækni,
vegna þess að oft er hættulegra
fyrir fóstrið að hætta lyfjatöku
en að halda henni áfram. Sum
önnur efni sem fólk lætur í sig
eru ekki heldur hættulaus og
má þar nefna A-vítamín (m.a. í
lýsi og lifur), járnlyf og ýmis
náttúrumeðul og jurtate. Konur
ættu að forðast slík efni og
a.m.k. ekki láta þau í sig nema
leita fyrst öruggra upplýsinga.
Til eru ýmis lyf við ógleði en
ekkert þeirra er alveg 100%
örugglega skaðlaust fyrir fóstrið
og þess vegna ætti ekki að nota
þau nema brýn ástæða sé til.
Nýleg rannsókn á vegum Al-
þjóðaheilbrigðisstofnunarinnar
leiddi í ljós að um 90% kvenna
taka einhver lyf á meðgöngutím-
anum og sem betur fer gengur
það oftast vel. Vandinn varðandi
ógleði og uppköst felst m.a. í því
að þessi óþægindi eru venjulega
verst á þeim tíma sem fóstrið er
viðkvæmast fyrir lyfjum og öðr-
um utanaðkomandi efnum.
Hversu
hættuleg
eru lyf fyrir
fóstur?
MAGNÚS JÓHANNSSON LÆKNIR
SVARAR SPURNINGUM LESENDA
Ógleðin verst
þegar fóstrið
er viðkvæmast
Lesendur Morgunblaðsins geta spurt
lækninn um það sem þeim liggur á
hjarta. Tekið er á móti spurningum á
virkum dögum milli klukkan 10 og 17 í
síma 5691100 og bréfum eða símbréfum
merkt: Vikulok. Fax 5691222. Einnig
geta lesendur sent fyrirspurnir sínar
með tölvupósti á netfang Magnúsar
Jóhannssonar: elmag@hotmail.com.