Morgunblaðið - 08.09.2001, Síða 24
ERLENT
24 LAUGARDAGUR 8. SEPTEMBER 2001 MORGUNBLAÐIÐ
BANDARÍSKUR hermaður kastar sér gegnum logandi
hringi og brýtur með höfðinu viðarplanka. Afrekið
vann hann í gær á minningarhátíð í Tongduchon, um
80 km frá Seúl í Suður-Kóreu, en þá var minnst harðra
bardaga í Kóreustríðinu fyrir réttum 50 árum. Um 200
bandarískir uppgjafahermenn tóku þátt í samkomunni.
Reuters
Minningarhátíð í Suður-Kóreu
NORSKI Verkamannaflokkurinn
mælist í nýjustu skoðanakönnun-
unum fyrir þingkosningarnar á
mánudaginn með 21-25% fylgi, en
gangi þessar spár eftir yrði það í
fyrsta sinn frá því árið 1924 sem
kjörfylgi flokksins færi niður fyrir
30%. Í síðustu kosningum fékk
flokkurinn 35% atkvæða og urðu þau
úrslit þáverandi forsætisráðherra og
formanni Verkamannaflokksins,
Thorbjørn Jagland, tilefni til að af-
sala sér völdum þar sem úrslitin
þýddu fylgistap frá kosningunum
þar á undan.
Að mati norska stjórnmálafræð-
ingsins Bernt Aardal, sérfræðings í
kosningarannsóknum, mun Jens
Stoltenberg forsætisráðherra gefa
frá sér tilkall til að halda áfram um
stjórnartaumana fái flokkurinn ekki
að minnsta kosti 25% atkvæðanna,
þegar talið hefur verið upp úr kjör-
kössunum.
Við þessar svörtu spár um fylgið
við Verkamannaflokkinn á landsvísu
bættust í gær niðurstöður skoðana-
könnunar í Ósló, sem sýndu að fylgið
við flokkinn í höfuðborginni væri
komið svo langt niður, að bæði
Hægriflokkurinn og Sósíalíski
vinstriflokkurinn voru komnir upp
fyrir hann. Slíkt hefur aldrei áður
gerzt frá því farið var að kanna fylgi
norskra stjórnmálaflokka – það hef-
ur komið fyrir áður að Verkamanna-
flokkurinn tapi stöðu sinni sem
stærsti flokkurinn í Ósló í hendur
Hægriflokksins, en að jaðarflokkur á
vinstri vængnum fari fram úr honum
líka þykir tíðindum sæta.
Í leiðara Aftenposten eru þessar
niðurstöður sagðar votta það, að
kosningabarátta Stoltenbergs for-
sætisráðherra – sem miklar vonir
voru bundnar við er hann tók við
embætti eftir fall minnihlutastjórnar
miðflokkanna snemma árs í fyrra –
hafi verið misheppnuð. Nú verði
hann að binda vonir við að þessar töl-
ur verði til þess að fyrri kjósendur
Verkamannaflokksins „sjái að sér“
og forði sínum gamla flokki frá allt of
niðurlægjandi kosningaósigri.
Verkamanna-
flokknum
spáð hruni
Kosningarnar í Noregi
ANDRES Pastrana,
forseti Kólumbíu, full-
yrti á fimmtudag að
herferðin gegn eitur-
lyfjum hefði mistekist
að mestu leyti. Pastr-
ana tók þannig undir
með þeim fjölmörgu
sem telja að nýrra að-
ferða sé þörf á alheims-
vísu til að eiga við eit-
urlyfjavandann.
Kólumbía er eitt
helsta framleiðsluríki
fíknilyfja í heiminum,
en Pastrana hefur ver-
ið náinn bandamaður
Bandaríkjastjórnar í
stríðinu gegn útbreiðslu þessarar
helstu útflutningsafurðar þjóðar
sinnar. „Útlitið er ekki bjart. Svo
virðist sem eiturlyfjasala sé stærsti
eða næststærsti iðnaður í heimi,“
sagði Pastrana á fréttamannafundi.
Hann kvað eiturlyfjaiðnaðinn í heim-
inum velta um 500 milljörðum
Bandaríkjadala á ári og sagði fíkni-
efnabarónana sífellt finna nýja
markaði og leiðir til að koma fram-
leiðslunni á framfæri.
Almenningur helsta
fórnarlambið
Þeirri skoðun vex nú fylgi að við-
teknar aðferðir til að berjast gegn
eiturlyfjasölu geri
meiri skaða en gagn.
Margir áhrifamenn í
Kólumbíu hafa gagn-
rýnt stefnu stjórnvalda
í þessum efnum og knú-
ið á um lögleiðingu
fíkniefna, er væri að
þeirra mati skásta
lausnin á vandanum.
Margt bendir til að
almenningur í Kólumb-
íu sé helsta fórnarlamb
stríðsins gegn eiturlyfj-
um, en ekki fíkniefna-
barónarnir sjálfir. Æ
fleiri taka undir þá
skoðun að það sé ein-
mitt bannið sem geri barónana öfl-
uga, því í skjóli þess geti þeir safnað
gríðarlegum auðæfum og áhrifum.
Bent er á að bannið ali beinlínis á
spillingu og ofbeldi, en á undanförn-
um tveimur áratugum hafa hundruð
stjórnmálamanna, dómara, lögreglu-
manna og hermanna týnt lífi fyrir að
bjóða eiturlyfjabarónunum birginn.
Þá hefur gagnrýni farið vaxandi á
afskipti Bandaríkjastjórnar af fíkni-
efnaframleiðslunni í Kólumbíu. Þús-
undir hektara af kókaplöntu- og val-
múaökrum eru eyðilagðir árlega
með úðun eiturefna úr lofti, fyrir
fjármagn frá Bandaríkjunum. Þrátt
fyrir að Bandaríkjastjórn segi úð-
unina hættulausa fyrir umhverfið
fullyrða ýmsir að úðunarflugvélarn-
ar varpi einnig eiturefnum á venju-
lega akra og gróðurlendi og ræni
þannig fátæka bændur lífsbjörginni.
Eiturlyfjabannið viðheldur
borgarastríðinu
Þá er ljóst að eiturlyfjabannið hef-
ur átt þátt í að viðhalda borgara-
stríðinu í Kólumbíu, því skæruliða-
hreyfingarnar fjármagna starfsemi
sína að mestu leyti með eiturlyfja-
smygli og með því að gæta eiturlyfja-
akra og smyglleiða.
„Frá níunda áratugnum hefur
hagur skæruliðanna vænkast veru-
lega vegna tekna af eiturlyfjasmygli.
Bannið er orðið helsta stoð smygls-
ins,“ hefur The Financial Times eftir
Viviane Morales, sem á sæti á kól-
umbíska þinginu og hefur lagt fram
frumvarp um lögleiðingu fíkniefna.
Gustavo Socha, forstöðumaður
kólumbísku fíkniefnalögreglunnar,
hefur sagt í fjölmiðlum að lögleiðing
eiturlyfja myndi „vera svik við fórnir
þeirra hundraða sem týnt hafa lífi í
baráttunni við eiturlyfjabarónana“.
En Morales er ekki á sama máli.
„Við getum ekki haldið áfram að
nota tölu þeirra sem féllu í fortíðinni
til að réttlæta mannfall framtíðar-
innar. Við verðum að binda enda á
þetta stríð, og það án tafar“.
Kólumbíumenn leita nýrra leiða í fíkniefnamálum
Pastrana segir her-
ferðina hafa mistekist
Bogota. AP.
Andres
Pastrana
STJÓRNVÖLD í Zimbabwe
hétu því í gær að veita „fullar og
sanngjarnar“ bætur til hvítra
bænda samkvæmt nýrri umbóta-
áætlun, og verður það fólk, sem
sest hefur að á bújörðum með
ólöglegum hætti, flutt burt af
jörðunum, að því er utanríkis-
ráðherra landsins, Stan Mud-
enge, greindi frá.
„Þeir sem eru á landi sem
stjórnvöld hyggjast ekki taka
eignarnámi munu flytjast til
þeirra bújarða sem stjórnin hef-
ur nú þegar eignast með lögleg-
um hætti,“ sagði Mudenge.
Á fundi í Abuja í Nígeríu á
fimmtudag samþykkti Zimb-
abwestjórn að láta af ólöglegri
setu á bújörðum, gegn því að
Bretar, sem áður voru nýlendu-
herrar landsins, reiddu fram
„umtalsverða fjárupphæð“ til að
standa straum af kostnaði við
umbætur á bújörðum.
Sagður marka þáttaskil
Embættismenn á fundinum
voru í sjöunda himni yfir sam-
komulaginu, sem forseti Níger-
íu, Olusegun Obasanjo, hafði
milligöngu um. Sögðu þeir
samninginn „marka alger þátta-
skil“ eftir að upplausn og óeirðir
hafa staðið í landinu í hálft ann-
að ár.
Herskáir stjórnarliðar hafa
síðan í mars í fyrra sest að á
rúmlega 1.700 bújörðum sem
voru í eigu hvítra bænda, í kjöl-
far baráttu stjórnarinnar fyrir
því að taka eignarnámi 4.600 bú-
jarðir í eigu hvítra og láta í
hendur svörtum. Að minnsta
kosti níu hvítir bændur og fjöldi
stuðningsmanna stjórnarand-
stöðunnar hafa látið lífið síðan í
júní. En Mudenge neitar því að
ríkisstjórnin beri ábyrgð á óeirð-
unum.
Samkvæmt samkomulaginu
fallast Bretar og fleiri þjóðir á
að greiða fyrir bæturnar sem
hvítum bændum verða veittar.
Þróunarhjálp Sameinuðu þjóð-
anna mun starfa með stjórninni í
Zimbabwe við að koma á „raun-
hæfum og sjálfbærum umbót-
um“.
Þá er ennfremur kveðið á um
víðtækari stjórnmálaumbætur í
Zimbabwe, m.a. um tryggingu á
tjáningarfrelsi og „aðgerðir
gegn ofbeldi og ógnunum“.
Chinotimba segir hvíta
valda öllum vandræðunum
En í Zimbabwe efast margir
um að stjórnin ætli í raun og
veru að ganga í það að flytja
landtökumennina, sem margir
eru fyrrverandi hermenn og
jarðnæðislausir bændur, brott af
bújörðum hvítra.
Leiðtogi fyrrverandi her-
manna, Joseph Chinotimba, sem
farið hefur fyrir ofbeldisaðgerð-
um og innrásum á jarðir hvítra,
sagði í gær að stuðningsmenn
sínir myndu ekki verða á brott
af jörðunum þrátt fyrir sam-
komulagið.
Chinotimba var spurður hvort
hann ætlaði að hefjast handa við
að flytja fólkið á brott. Hann
neitaði því, og hélt áfram:
„Hvítu bændurnir eru þeir sem
valda öllum vandræðunum. Okk-
ar fólk hefur fengið land með
löglegum hætti. Ég veit ekkert
um neitt samkomulag í Abuja.
Ég hlusta ekki á fréttir í útvarp-
inu. Ég er að bíða eftir að utan-
ríkisráðherra minn komi aftur
og segi mér frá,“ sagði Chinot-
imba.
Samið á fundi Samveldisríkja
um bújarðir í Zimbabwe
Jarðtökumenn
segjast hvergi
vera á förum
Abuja. AP, AFP.
RÁÐHERRAR efnahagsmála og
fjármála í Danmörku hóta nú að
stjórnarsamstarfinu verði slitið og
boðað til kosninga ef ekki náist við-
unandi málamiðlun um fjárlög.
Stjórn jafnaðarmannsins Pouls Ny-
rups Rasmussens forsætisráðherra
er í minnihluta á þingi.
Efnahagsmálaráðherrann er
Marianne Jelved úr miðjuflokki
Radikale Venstre. Hún segir að
hægrimenn, þ.e. Íhaldsflokkurinn
og Venstre, verði að slaka á kröfum
sínum en sama eigi við um Eining-
arflokkinn, sem er vinstra megin við
jafnaðarmenn.
Ekki er að sögn Berlingske Tid-
ende mikið deilt um það hvernig
fénu skuli varið heldur tekjuöfl-
unina. Hægrimenn vilja að útgjöld
til þróunaraðstoðar verði minnkuð
og féð notað m.a. til að efla heil-
brigðiskerfið en Einingarflokkurinn
er einkum á móti því að aflað verði
fjár með auknum umhverfisvernd-
arálögum, „grænum sköttum“. Seg-
ir hann þau munu lenda þyngst á
láglaunafólki.
Pia Gjellerup fjármálaráðherra,
sem er jafnaðarmaður, tók í hörðum
umræðum á þingi undir með Jelved
og sagði ríkisstjórnina ekki mundu
sætta sig við að fjármögnun ríkis-
útgjalda yrði leyst með þeim hætti
að hún gæti kynt undir þenslu. Tek-
ið hefði mörg ár að treysta efnahag
Danmerkur í sessi. „Ef það fjarar
undan stöðugleika í efnahagslífinu
verður það hvorki með vilja né þátt-
töku ríkisstjórnarinnar,“ sagði
Gjellerup, sem var í forsvari fyrir
stjórnina í umræðunum í gær.
Jelved hótar slitum