Morgunblaðið - 09.11.2001, Blaðsíða 22
VIÐSKIPTI/ATHAFNALÍF
22 FÖSTUDAGUR 9. NÓVEMBER 2001 MORGUNBLAÐIÐ
Dalvegi 28 200 Kópavogi Sími 564 4714 Fax 564 4713
„Við viljum líka að vélskólanemi
geti, kjósi hann að hefja háskóla-
nám, átt þess kost að afloknum
svipuðum námseiningafjölda og
krafist er til stúdentsprófs. Það
hefur í för með sér að Vélskólinn
þarf að fá heimild til þess að út-
skrifa stúdenta með líkum hætti
og aðrir framhaldsskólar. Ef sú
heimild fæst mun það eitt og sér
auka aðsókn að skólanum vegna
þess að mikill meirihluti unglinga
sem hefur framhaldsnám er ekki
búinn að gera það upp við sig hvað
þeir ætla að verða þegar þeir
verða stórir en stefna engu að síð-
ur nokkuð margir á háskólastigið,“
sagði Helgi Laxdal, formaður Vél-
stjórafélags Íslands, meðal annars
í ræðu sinni á vélstjóraþingi í gær.
Helztu viðfangsefni þingsins eru
menntunarmál og skipulagsmál fé-
lagsins í næstu framtíð.
Um menntamálin sagði Helgi
ennfremur: „Með því að taka stúd-
entsprófið á vélstjórnarbrautinni
eru þeir að slá tvær flugur í einu
höggi þ.e. að ljúka einhverju stigi
vélstjórnarnáms jafnhliða stúd-
entsprófinu.
Það er líka mín skoðun að ef
þessi háttur yrði tekinn upp þá
mundu bæði fleiri og enn betri
nemendur hefja vélstjórnarnám og
það sem meira er að það yrðu
fleiri en nú sem mundu fara við
námslok á sjóinn í einhvern tíma.
Því eftir fimm ára nám eru margir
búnir að fá nóg af setunum og því
að draga fram lífið á námslánum
og því tilbúnir að hverfa til sjós
a.m.k. þar til búið er að greiða
mesta kúfinn af skuldunum en þá
geta þessir einstaklingar hafið
„Vélskólinn þarf heimild
til að útskrifa stúdenta“
Helgi Laxdal,
formaður VSFÍ,
telur að það muni
auka aðsókn
að skólanum
Morgunblaðið/Þorkell
Helgi Laxdal, formaður Vélstjórafélags Íslands.
nám að nýju kjósi þeir það.
Vélstjórnarnám til 4. stigs er nú
208 námseiningar en til stúdents-
prófs um 140 námseiningar. Á
milli eru tæpar 70 námseiningar
sem að mínu mati eiga að teljast
til háskólanáms. Einnig kæmi til
greina að Vélskólinn byði upp á
viðbótarnám í t.d. viðhaldsfræðum
sem hefði m.a. að geyma námsefni
um útboð verkþátta og verklýs-
ingar svo nokkuð sé nefnt,“ sagði
Helgi.
Breytingar á stjórn
Vélskóla Íslands
Helgi vék síðan að umræðunni
um einkavæðingu sjómannaskól-
anna og sagði: „Nú standa yfir við-
ræður á milli LÍÚ og menntamála-
ráðuneytisins um það að LÍÚ
yfirtaki rekstur Vélskólans. Sam-
kvæmt nýjustu upplýsingum er
eingöngu um yfirtöku á rekstr-
inum að ræða en ekki á námsefni
skólans á hverjum tíma sem áfram
verður ákveðið af Starfsgreinaráði
sjávarútvegs og siglinga og
menntamálaráðuneytinu m.a. m.t.t.
STCW-samþykktarinnar.
Við höfum lagt á það áherslu að
ef skólinn verður einkarekinn þá
komi Vélstjórafélag Íslands og
bæði samtök kaupskipaútgerða og
orkugeirinn að þeim rekstri vegna
þess að þeir sem ljúka vélstjórn-
arnámi starfa einnig hjá útgerðum
kaupskipa og í orkugeiranum en
þeim fjölgar stöðugt sem þar
starfa,“ sagði Helgi Laxdal.
Hagnýtt nám
til margra starfa
Björn Bjarnason menntamála-
ráðherra ávarpaði fundinn og
ræddi menntamálin: „Ég geri mér
vel grein fyrir því að til Vélskóla
Íslands leita menn ekki einungis
til að mennta sig til starfa til sjós.
Skólinn hefur mun víðtækari skír-
skotun með námi sínu og ég er
þeirra skoðunar að hver sem hefur
áhuga á að reka skólann, muni
vilja styrkja þá ímynd hans, að
hann veiti hagnýtt nám til margra
starfa á sjó og landi. Hann mennti
fólk, sem verði virkir þátttakendur
á öllum sviðum atvinnulífsins og
njóti réttinda til starfa á alþjóða
vettvangi,“ sagði Björn Bjarnason.
HUGVIT hf. setti í gær formlega
á markað nýtt þekkingarstjórn-
unarkerfi, GoPro Case fyrir
Microsoft Exchange í Smáralind í
Kópavogi. Valgerður Sverr-
isdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráð-
herra, fylgdi nýja kerfinu úr
hlaði. Á sama tíma undirritaði
Hugvit hf. samninga við Íslands-
banka, Olíuverslun Íslands og Há-
skólann í Reykjavík, en einnig
hefur verið samið við Varnarliðið
um notkun kerfisins. Að sögn Jóns
Arnar Guðbjartssonar, sölustjóra
hjá Hugviti hf., eru þessir samn-
ingar einhverjir þeir verðmætustu
sem Hugvit hf. hefur gert við ís-
lensk fyrirtæki.
„Þrátt fyrir að kerfið nýja sé
ekki komið formlega á markað
hafa samningar þegar verið gerð-
ir við fyrirtæki í Bretlandi og
Danmörku. Hugvit hf. bindur
enda miklar vonir við þetta nýja
kerfi og var okkur á dögunum
boðið að kynna það á sýningarbás
Microsoft á alþjóðlegri tölvusýn-
ingu í Kaupmannahöfn,“ sagði Jón
Örn í samtali við Morgunblaðið.
Að sögn Jóns Arnar er nýja
kerfið ætlað til þekkingarstjórn-
unar í fyrirtækjum, sem sé eitt
mikilvægasta tæki sem fyrirtæki
og stofnanir hafa aðgang að til að
ná samkeppnisforskoti og raun-
verulegum ábata í rekstri.
Morgunblaðið/Ásdís
Frá undirritun samninga Hugvits hf. við Íslandsbanka, Olíuverslun Íslands
og Háskólann í Reykjavík. Samningarnir eru einhverjir þeir verðmætustu
sem Hugvit hefur gert við íslensk fyrirtæki.
Hugvit semur við
Íslandsbanka, Olís og
Háskólann í Reykjavík
HAGNAÐUR samstæðu Olíufélags-
ins hf. (Esso) fyrstu níu mánuði ársins
nam 485 milljónum króna samanborið
við 429 milljónir allt árið í fyrra. Sölu-
hagnaður eignarhluta í félögum nam
270 milljónum króna á tímabilinu en á
öllu síðasta ári nam söluhagnaður 203
milljónum. Söluhagnaður eignarhluta
á árinu 2001 er að stærstum hluta
vegna hlutabréfa sem greitt var með
vegna kaupa á 42% eignarhluta í
Samskipum, að því er fram kemur í
fréttatilkynningu frá Olíufélaginu.
Hagnaður fyrir afskriftir og fjár-
magnsliði nam um 1.290 milljónum
miðað við 1.012 milljónir fyrir allt árið
í fyrra.
Olíufélagið tilgreinir veikingu ís-
lensku krónunnar svo og hátt heims-
markaðsverð eldsneytis sem þætti
sem höfðu veruleg áhrif á rekstur og
efnahag Olíufélagsins. „Óhagstæð
gengisþróun leiddi til gengistaps á er-
lendum lánum. Sölutekjur og kostn-
aðarverð seldra vara hækkuðu svo og
fjárbinding í birgðum og viðskipta-
kröfum sem hefur áhrif á fjármagns-
liði. Lækkandi heimsmarkaðsverð
eldsneytis ætti að draga úr þenslu á
efnahagsreikningi, enn ríkir þó óvissa
um gengi gagnvart íslensku krón-
unni.“ Gengistap á fyrstu níu mán-
uðum ársins nam 1.003 milljónum
króna samanborið við 321 milljón fyr-
ir allt árið 2000.
Heildareignir Olíufélagsins og
dótturfélaga námu rúmum 20 millj-
örðum 30. september sl. Eigið fé var
7.284 milljónir króna og eiginfjárhlut-
fall 36%. Skuldir og skuldbindingar
Olíufélagsins nema um 12,3 milljörð-
um. „Í upphafi árs tók félagið erlent
langtímalán að upphæð 30 milljóna
dollara. Lánið var notað til að greiða
niður skammtímaskuldir og létta á
lausafjárstöðu Olíufélagsins hf. Veltu-
fjárhlutfall félagsins hefur lagast
verulega við þessar ráðstafanir og er
nú 1,43 en var í byrjun árs 1,08,“ segir
í fréttatilkynningu.
Hagnaður Olíu-
félagsins eykst
NORÐURÁL hf. var rekið með 8
milljóna dollara hagnaði fyrstu níu
mánuði ársins, eða sem samsvarar
rúmlega 800 milljónum króna.
Rekstur Norðuráls hf skilaði 5 millj-
óna dollara hagnaði á síðasta ári.
Nettóvelta fyrirtækisins var 70
milljónir dollara á síðasta ári en
fyrstu níu mánuði þessa árs var velt-
an 62 milljónir dollara. Framleiðsla á
áli var 58 þúsund tonn á síðasta ári
en þegar hafa verið framleidd 52
þúsund tonn á þessu ári, að því er
fram kemur í frétt á heimasíðu fyr-
irtækisins.
Framleiðslugeta álversins jókst á
ársgrundvelli úr 60 þúsund tonnum á
ári í 90 þúsund tonn með öðrum
byggingaráfanga sem fól í sér að
bætt var við 60 kerum við þau 120
sem fyrir voru. Framleiðsla í nýjum
kerum hófst þann 11. júní síðastlið-
inn og lauk gangsetningu þeirra fyr-
ir júlílok. Með tilkomu stækkunar-
innar hefur stöðugildum fjölgað úr
164 í liðlega 200 á árinu 2001. Fram-
kvæmdakostnaður var undir áætlun
og framkvæmdatími heldur styttri
en áætlað var.
Aukning framleiðslugetu á miðju
ári hefur þegar reynst vera mjög
hagkvæm aðgerð fyrir reksturinn og
er mikilvægur liður í því að tryggja
samkeppnisfærni og bæta arðsemi
eiginfjár. Útlitið fyrir síðustu 3 mán-
uði ársins er ekki bjart á álmörkuð-
um. Þrátt fyrir það er áfram gert ráð
fyrir hagnaði af rekstri Norðuráls,
meðal annars vegna þess að félagið
hefur tryggt sér lágmarksverð út
þetta ár sem er hærra en núverandi
markaðsverð.
Morgunblaðið/Jim Smart
Horft inn eftir öðrum kerskála Norðuráls en í hvorum skála eru 60 ker.
Hagnaður Norðuráls
hf. 800 milljónir króna
Gengistap
Haraldar
Böðvars-
sonar hf.
766 milljónir
TAP Haraldar Böðvarssonar hf.
fyrstu níu mánuði ársins 2001 var
275 milljónir króna, samanborið við
145 milljóna króna tap sama tímabil
árið 2000. Á þriðja ársfjórðungi
batnaði afkoma fyrirtækisins um
123 milljónir króna.
Hagnaður fyrir afskriftir og fjár-
magnsliði á tímabilinu nam 877
milljónum króna, sem er 25,4% af
tekjum, samanborið við 567 millj-
ónir króna sama tímabil árið áður,
sem er 18,2% af tekjum. Veltufé frá
rekstri nam 599 milljónum króna á
tímabilinu. Vegna veikingar á gengi
íslensku krónunnar á tímabilinu var
gengistap vegna lána í erlendri
mynt að upphæð 766 milljónir
króna.
Líkur á neikvæðri loka-
niðurstöðu rekstrarreiknings
Að sögn Haraldar Sturlaugssonar
framkvæmdastjóra er ánægjulegt
að hagnaður fyrir afskriftir hefur
aukist umtalsvert frá fyrra ári, einn-
ig hefur veltufé frá rekstri aukist
verulega. Fyrst og fremst sé þar um
að ræða áhrif hækkandi afurðaverðs
og hagræðingaraðgerða. Allar líkur
eru þó á því að lokaniðurstaða
rekstrarreikningsins verði neikvæð
fyrir árið 2001 í heild, en þar vegur
þyngst áhrif gengisfalls íslensku
krónunnar á skuldir félagsins.