Morgunblaðið - 20.06.2002, Page 11
FRÉTTIR
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 20. JÚNÍ 2002 11
MORGUNBLAÐINU hefur borist
eftirfarandi athugasemd frá Bj. Haf-
þóri Guðmundssyni, bæjarstjóra
Austur-Héraðs:
„Í umfjöllun í Morgunblaðinu 30.
maí 2002 (bls. 12) um fjárframlög til
framboða vegna kosninga til sveit-
arstjórna er vitnað í undirritaðan og
sagt efnislega að Austur-Hérað hafi
ekki styrkt framboð þar fyrir nýaf-
staðnar kosningar. Er það í sam-
ræmi við það, sem ég tjáði blaða-
manni skömmu áður, þegar leitað
var upplýsinga um, hvort svo hefði
verið gert.
Í leiðara blaðsins degi síðar kveð-
ur við annan tón. Þar er því haldið
fram að nokkur sveitarfélög, þ.á m.
Austur-Hérað, hafi styrkt framboð
við nýafstaðnar kosningar. Þetta er
beinlínis rangt, hvað varðar Austur-
Hérað og alls ekki í samræmi við til-
vitnaða umfjöllun um málið.
Til að taka af öll tvímæli sam-
þykkti nýkjörin bæjarstjórn Austur-
Héraðs svohljóðandi bókun á fyrsta
fundi sínum 11. júní 2002: „Í leiðara
Morgunblaðsins 31. maí sl. er fullyrt,
að Austur-Hérað sé eitt af fáum
sveitarfélögum, sem hafi styrkt
framboð til sveitarstjórna með fjár-
framlögum á bilinu 75 til 200 þúsund
kr. Bæjarstjórn felur bæjarstjóra að
koma á framfæri leiðréttingu á þess-
ari rangfærslu, enda er bæjarstjórn
mótfallin því að sveitarfélagið veiti
slíka styrki“.“
Aths. ritstj.
Morgunblaðið biður bæjarstjóra
Austur-Héraðs afsökunar á þessu
ranghermi í forystugrein blaðsins
31. maí sl.
Hafa skal það sem
sannara reynist
KVENNADAGURINN var í gær,
19. júní, og stóðu konur fyrir ýms-
um uppákomum í tilefni dagsins.
Kvennasögusafn Íslands kynnti
til sögunnar nýja gönguleið í
Reykjavík, sem gengur undir
nafninu Kvennasöguslóðir í Kvos-
inni. Fyrsta gangan var í gær og
hófst hún í Tjarnarsal Ráðhúss
Reykjavíkur. Þar kynnti Auður
Styrkársdóttir, forstöðumaður
Kvennasögusafnsins, gönguleið-
ina og Ingibjörg Sólrún Gísladótt-
ir, borgarstjóri, hélt ávarp. Guð-
jón Friðriksson, sagnfræðingur,
gekk síðan fremstur í flokki og
fræddi göngumenn um sögu leið-
arinnar.
Þá var vefrit hægrisinnaðra
kvenna, Tikin.is - vefrit um póli-
tík, einstaklingsfrelsi og jafnrétti,
formlega opnað. Ritstjórn-
arfulltrúar opnuðu ritið og Þor-
gerður Katrín Gunnarsdóttir, al-
þingismaður, ávarpaði gesti. Að
Tikin.is standa ungar konur með
skoðanir og segjast þær ekki vera
hræddar við að lýsa þeim yfir,
rökræða þær og gagnrýna. Á síð-
unni eru daglegir pistlar jafnt
sem lengri greinar, þar sem
fjallað er um þjóðfélagsmál frá
öllum sjónarhornum.
Um kvöldið var að venju messa
á vegum Kvennakirkjunnar við
Þvottalaugarnar í Laugardal.
Messan er haldin árlega og er í
samvinnu við Kvenréttindafélag
Íslands og Kvenfélagasamband Ís-
lands. Séra Auður Eir Vilhjálms-
dóttir prédikaði og Anna Sigríður
Helgadóttir söng einsöng, auk
þess sem kór Kvennakirkjunnar
söng við undirleik Aðalheiðar
Þorsteinsdóttur. Að messu lokinni
var kaffisamsæti í Café Flórunni í
Grasagarðinum.
Þá er 51. árgangur 19. júní, árs-
rits Kvenréttindafélags Íslands,
komið út og er ritstjóri þess að
þessu sinni Arna Schram, blaða-
maður. Meðal efnis í blaðinu eru
greinar um hlutskipti kvenna í
fangelsum, lífshættulegar afleið-
ingar vændis og konur í heit-
trúarsöfnuðum á Íslandi. Þess ber
að geta að Kvenréttindafélag Ís-
lands hélt upp á 95 ára afmæli sitt
hinn 27. janúar síðastliðinn og
hefur félagið fagnað þeim tíma-
mótum með ýmsum hætti í ár.
Kvennadagurinn haldinn hátíðlegur í gær með ýmsum uppákomum
Messa við Þvottalaugarnar og
gönguferð um kvennasöguslóðir
Morgunblaðið/Þorkell
Kvennakirkjan stóð fyrir hefð-
bundinni messu við Þvottalaug-
arnar í Laugardal í samvinnu
við Kvenréttindafélag Íslands
og Kvenfélagasamband Íslands.
Það var séra Auður Eir Vil-
hjálmsdóttir sem prédikaði.
Morgunblaðið/Þorkell
Sólveig Pétursdóttir dómsmálaráðherra ávarpaði hátíðarfund sem
haldinn var í tilefni af kvennadeginum sem haldinn var hátíðlegur í
gær. Fundurinn var haldinn á Hallveigarstöðum, þar sem Kvenrétt-
indafélag Íslands er til húsa, og hófst hann að lokinni kvennagöngu sem
Kvennasögusafn Íslands og Kvenréttindafélagið stóðu sameiginlega að.
JÓHANNA Sigurðardóttir alþingis-
maður hefur tilkynnt að hún sækist
eftir fyrsta sæti á framboðslista
Samfylkingarinnar í Reykjavíkur-
kjördæmi syðra í næstu alþingis-
kosningum og mikilvægt sé að flokk-
urinn standi þannig að málum að
sem flestir liðsmenn Samfylkingar-
innar fái tækifæri til þess að velja á
framboðslista. Þetta kemur fram á
heimasíðu Jóhönnu, þar sem Sam-
fylkingarfólk er einnig hvatt til mik-
illar varfærni í Evrópumálum.
„Sóknarfæri Samfylkingarinnar
eru mörg í komandi alþingiskosning-
um. Flokkurinn hefur alla burði til
að halda stöðu sinni sem næst-
stærsta stjórnmálaaflið í landinu og
forystuafl í næstu ríkisstjórn. Undir
forystu Össurar Skarphéðinssonar
hefur Samfylkingin styrkst sem
flokkur vinstra megin við miðju í ís-
lenskum stjórnmálum. Flokkurinn
hefur skýra framtíðarsýn sem bygg-
ir á jöfnuði, lýðræði og ábyrgð. Und-
irstöður þess eru traust velferðar-
kerfi og afkomutrygging, sanngjarnt
skattkerfi, kröftug menntastefna og
framsýn og ábyrg atvinnu- og efna-
hagsstefna,“ segir meðal annars á
heimasíðunni, þar sem ákvörðun
hennar er tilkynnt.
Gallarnir fleiri en kostirnir
Í umræðu um Evrópumálin á
heimasíðunni segir Jóhanna að þó
margir kostir séu við aðild að ESB
séu gallarnir fleiri að hennar mati
eins og staðan sé nú. „Skynsamleg-
ast hefði verið að bíða með ákvörðun
um hvort rétt sé að sækja um aðild
að ESB m.a. þar til séð verður hvert
þær viðræður munu leiða sem nú
standa yfir um stækkun ESB til
austurs. Þeim samningaviðræðum
gæti lyktað með róttækum breyting-
um á sambandinu, m.a. á styrkja-
kerfi þess. Hlutur smáþjóða í
ákvarðanatöku innan ESB gæti líka
breyst, auk þess sem Íslendingar
geta aldrei gengist inn á sjávarút-
vegsstefnu sambandsins. Mjög mis-
vísandi skilaboð eru um hvort líklegt
sé að Evrópusambandið geti fallist á
að viðurkenna sérstöðu Íslands og
þar með yfirráðarétti Íslendinga yfir
fiskimiðunum. Að mörgu leyti eru
aðstæður aðrar hér á landi en í ESB-
löndunum og áhrif aðildar á efna-
hags- og peningamál eða atvinnustig
því mjög óljósar, a.m.k. enn sem
komið er,“ segir meðal annars á
heimasíðunni.
Hvatt til
mikillar
varfærni
í Evrópu-
málum
Jóhanna Sigurðardóttir
sækist eftir 1. sæti
í Reykjavíkurkjör-
dæmi syðra
SEXTÁN ungmenni frá Kanada og
Bandaríkjunum komu á mánudag til
landsins á vegum Snorraverkefnisins.
Snorraverkefnið er samstarfsverk-
efni Norræna félagsins og Þjóðrækn-
isfélags Íslendinga og gerir ungum
Vestur-Íslendingum kleift að finna
rætur sínar á Íslandi. Verkefnið er
kennt við Snorra Þorfinnsson, son
Þorfinns Karlsefnis og Guðríðar Þor-
bjarnardóttur sem fæddist í Vestur-
heimi fyrir réttum þúsund árum.
Þetta er í fjórða sinn sem hópur kem-
ur hingað til lands á vegum verkefn-
isins og hafa allir þeir sem þátt hafa
tekið verið einstaklega ánægðir og því
hefur boðskapurinn borist hratt og
örugglega um Norður-Ameríku.
„Næstu sex vikurnar munu ung-
mennin taka þátt í fjölbreyttri dag-
skrá sem hefur það að markmiði að
tengja þau fastari böndum við gamla
landið. Fjölbreytt náms- og menning-
ardagskrá verður haldin í Reykjavík
með áherslu á námskeið í íslensku,
sögu Vesturfaranna og sögu og
menningu Íslands. Meðal þeirra sem
bjóða þátttakendum verkefnisins í
heimsókn eru forseti Íslands, utanrík-
isráðherra, forsætisráðherra og
sendiherra Kanada á Íslandi. SPRON
styrkir þennan hluta dagskrárinnar.
Eftir dvölina í Reykjavík fara þau
út á land og dvelja þá hjá ættingjum
sínum sem þau flest hafa ekki hitt áð-
ur. Í þær þrjár vikur sem þau eru á
landsbyggðinni taka þau þátt í starfs-
þjálfun og koma ýmis fyrirtæki og
sveitarfélög þar að. Að lokum fara
þau í viku ævintýraferð um landið.
Canadian National TV hefur hug á
að gera heimildarmynd um verkefnið
þetta árið.
Frá upphafi hafa alls 60 ungir Vest-
ur-Íslendingar tekið þátt í Snorra-
verkefninu og hafa þátttakendur
stofnað með sér nemendasamband
(Snorri Alumni Association) sem hef-
ur að markmiði að styrkja tengslin
enn frekar, sem er enn einn liður í því
að viðhalda þessum merkilega menn-
ingararfi.
Þann 28. júní nk. fer svo í annað
skiptið hópur ungra Íslendinga til
þess að taka þátt í 6 vikna dagskrá í
Manitoba, Kanada, eða Snorra West
verkefninu. Snorraverkefnið stefnir
að því að bjóða fólki 35 ára og eldra að
taka þátt í 2–3ja vikna dagskrá og
einnig að bjóða afkomendum íslensku
Brasilíufaranna að taka þátt á næsta
ári,“ segir í fréttatilkynningu.
Ungir Vestur-Íslending-
ar í heimsókn hér á landi
FÉLAG Íslendinga á Norðurlöndum
hefur verið lagt niður og starfa því
engin regnhlífarsamtök fyrir Íslend-
ingafélögin á Norðurlöndum. Alex-
ander Guðbjartsson, síðasti formað-
ur félagsins, segir ástæðuna vera að
grundvöllur félagsins hafi ekki verið
fyrir hendi lengur.
Hann segir að félagið hafi verið
stofnað árið 1976 til að fá hagstæð
kjör á farmiðum til Íslands fyrir Ís-
lendinga búsetta á Norðurlöndun-
um. Með tilkomu Netsins og mikillla
breytinga á ferðamarkaði hafi verið
erfiðara en áður að ná hagstæðu
verði og afsláttarkjörum fyrir þenn-
an hóp. Hann segir að félagið hafi
einnig starfrækt menningarsjóð sem
veittir voru styrkir úr til Íslendinga-
félaganna til að halda uppi menning-
arstarfi af ýmsum toga. Sjóðurinn
hafi þó legið niðri síðustu fimm ár.
Félagið hét áður Samband Íslend-
ingafélaga og námsmannafélaga í
Danmörku og Suður-Svíþjóð
(SÍDS). Allir félagsmenn Íslend-
ingafélaganna á Norðurlöndunum
voru sjálfkrafa í félaginu og segir Al-
exander að félagsmenn hafi verið
10–12 þúsund þegar mest var á ár-
unum eftir 1990 og velta félagsins
um 15 milljónir danskra króna. Frá
1995 hafi félögum fækkað ört, aðal-
lega vegna þess að þá missti félagið
fastan samning sem það hafði við
Flugleiðir um afslátt fyrir fé-
lagsmenn sína. Hann segir að fé-
lögum í Svíþjóð hafi fækkað um
helming á árunum 1995–2000.
Félag Íslend-
inga á Norð-
urlöndum
lagt niður
♦ ♦ ♦
NOKKURT tjón varð á dúkyfir-
breiðslum hjá grænmetisbændum á
Suðurlandi í rokinu á þriðjudag, en
dúkurinn er notaður til þess að flýta
fyrir sprettu útiræktaðra grænmet-
istegunda.
Helgi Jóhannesson, formaður
Sambands garðyrkjubænda, sagði í
samtali við Morgunblaðið að nokkuð
hefði verið um það að dúkar hefðu
fokið ofan af plöntum og rifnað og
skemmst í rokinu. Tjónið hefði ekki
verið tekið saman, en það hefði verið
talsvert af dúk sem hefði eyðilagst.
Síðan væri ekki vitað hvað yrði um
plöntunar sem hefðu verið undir
dúknum, en hann teldi að ekki hefði
mikið af plöntum skemmst.
Helgi sagði að bændur væru ekki
tryggðir fyrir tjóni af þessu tagi.
Skemmdir hjá
grænmetis-
bændum