Morgunblaðið - 16.03.2003, Blaðsíða 20
20 SUNNUDAGUR 16. MARS 2003 MORGUNBLAÐIÐ
Námskeið í ritun ættarsögu
Tilgangurinn með námskeiðinu er að hjálpa fólki til þess að
grafa upp heimildir um forfeður sína og nýta þær til að skrifa
sögu ættarinnar.
Kynntar verða helstu ætt- og og mannfræðiheimildir sem til
eru útgefnar og/eða aðgengilegar á Þjóðskjalasafni, Borgar-
skjalasafni, Handritadeild Landsbókasafns, sýslu- og héraða-
skjalasöfnum og á netinu. Farið verður í kynnisferðir á söfn og
aðstaða og þjónusta könnuð. Einnig verða kynntar aðrar
prentaðar heimildir Loks verður drepið á frumsöfnun heimilda,
þ.e. viðtöl við gamalt fólk, vettvangsferðir á æskuslóðir, einka-
bréf, dagbækur, gildi gamalla ljósmynda o.fl.
Leiðbeint verður um meðferð, flokkun og úrvinnslu heimilda
og veitt aðstoð við sjálf skrifin.
Kennsla hefst laugardaginn 22. mars og stendur í 6 vikur.
Leiðbeinandi: Þorgrímur Gestsson. Námskeiðsgjald er kr.
9.700.-
Viðhald og viðgerðir á gömlum
timburhúsum.
Á þessu námskeiði verður farið í endurbætur og viðgerðir ut-
anhúss. Bóklegt og verklegt nám. Áhersla verður lögð á við-
gerðir og smíði glugga og hurða samkvæmt gömlu handverki.
Einnig verður leiðbeint um mat á skemmdum og val á efni til
endurbóta.
Námskeiðið hefst föstud. 28. mars og lýkur laugard. 5. apríl.
Alls 4 skipti, 21 kennslustund.
Námskeiðið verður haldið í Miðbæjarskóla og á verkstæði á
Laufásvegi.
Leiðbeinandi: Þórhallur Hólmgeirsson. Námskeiðsgjald er kr.
11.000.-
Innritun stendur yfir í Miðbæjarskóla,
Fríkirkjuvegi 1. Sími: 551-2992
Netfang: nfr@namsflokkar.is http://www.namsflokkar.is
ið til sérstakra ráðstafana í heilbrigð-
iskerfinu eða með samkomulagi
Reykjavíkurborgar og ríkisins væri
hætta á að biðlistinn eftir greiningu
frá BUGL myndi halda áfram að
lengjast á meðan þetta greiningarfyr-
irkomulag væri að öðlast jafnvægi.
Hins vegar væri í hæsta máta ósann-
gjarnt að kenna stefnu Reykjavíkur-
borgar í sérkennslumálum þar um.
Langir biðlistar eftir innlögn og
greiningu á BUGLværu ekkert nýtt í
stöðunni, biðlistar hefðu verið langir í
mörg ár og ekki væri þar um að
kenna sérkennslustefnu Reykjavík-
urborgar. Reykjavíkurborg væri
ekkert að gera annað en að biðja um
eðlilega greiningarþjónustu fyrir
börn í Grunnskólum Reykjavíkur
sem ættu í erfiðleikum og BUGL
bæri að sinna. Ekki væri heldur hægt
að segja annað en ágætlega gengi að
vinna úr umsóknum um greiningu hjá
Greiningarstöðinni, Sjónstöð og
Heyrnar- og talmeinastöð.
„Hið sama er því miður ekki hægt
að segja um BUGL. Stofnunin ræður
hreinlega ekki við þennan aukna
fjölda barna með vandamál á borð við
ofvirkni, athyglisbrest og geðraskan-
ir. Við höfum fylgst með því hvernig
þessi biðlisti hefur verið að lengjast
og þykir að sjálfsögðu alvarlegt mál
hvað biðin eftir greiningu er orðin
löng. Löng bið eftir sérstökum stuðn-
ingi getur verið brot á jafnræðisregl-
unni um að allir nemendur eigi að
sitja við sama borð. Við brugðumst
við þessum vanda með bráðabirgða-
úthlutun til þriggja mánaða á meðan
beðið var eftir staðfestri greiningu
frá BUGL á haustönninni. Aftur
verður gripið til þessa úrræðis á vor-
önninni.“
Sjálfstæður réttur barna
Stefán Hreiðarsson, forstöðumað-
ur Greiningar- og ráðgjafarstöðvar
ríkisins, er ráðgjafi Jöfnunarsjóðs
vegna viðmiðunarreglna um sérstak-
ar greiðslur til sveitarfélaga vegna
kostnaðar við skólagöngu fatlaðra
barna. Hann segir að ekki sé gert ráð
fyrir að úthlutun úr Jöfnunarsjóði til
sveitarfélaganna á landsbyggðinni sé
beintengd rétti einstakra barna til
sértækrar aðstoðar í grunnskólum
eins og gert virðist í Reykjavík.
„Meirihluti þess fjármagns sem Jöfn-
unarsjóður greiðir til sveitarfélag-
anna vegna rekstrar grunnskólanna
er almennt framlag þar sem m.a. er
tekið tillit til nemendafjölda í sveitar-
félagi eða öllu frekar fæðar. Til við-
bótar þessu rennur fjármagn til sveit-
arfélaganna vegna tiltölulega þröngs
hóps barna með sérstaklega erfið og
langvinn vandamál vegna hegðunar
eða fötlunar. Með öðrum orðum er
þessi fjárstuðningur ætlaður til að
létta undir með sveitarfélögunum
vegna þessa hóps og hefur því ekkert
að gera með rétt barnsins til sértæks
stuðnings. Barn á samkvæmt bæði
grunnskólalögum og sérkennslu-
reglugerð rétt á viðeigandi stuðningi
af hálfu skólans um leið og vandinn
hefur verið viðurkenndur, t.d. í
tengslum við greiningu skólasálfræð-
ings. Ef vandinn er álitinn sérstak-
lega alvarlegur er barninu vísað
áfram til þriðja stigs stofnana eins og
Barna- og unglingageðdeildar eða
Greiningarstöðvar og í framhaldi af
því getur sveitarfélag sótt um fjár-
hagsstuðning til Jöfnunarsjóðsins.
Aftur á móti legg ég áherslu á að regl-
ur Jöfnunarsjóðsins gera ekki ráð
fyrir að fjárstuðningurinn fylgi
ákveðnu barni heldur er einfaldlega
um fjárstuðning til sveitarfélagsins
vegna þessa sérstaka hóps að ræða.
Sveitarfélagið tekur síðan ákvörðun
um hvernig fjármunirnir komi að
mestu gagni innan skólakerfisins,“
segir Stefán. „Þessir fjármunir renna
til sveitarfélaganna vegna þess að
reiknað er með því að þau uppfylli
skyldur sínar gagnvart grunnskóla-
börnum samkvæmt grunnskólalög-
um og sérkennslureglugerð, óháð
sérstökum greiðslum úr Jöfnunar-
sjóði.“
Stefán sagði að markmiðið væri að
framkvæmd reglnanna væri með
þessum hætti í öllum sveitarfélögum.
„Hinu má þó ekki gleyma að auðvitað
eru sveitarfélögin úti á landi misvel í
stakk búin til að sinna hlutverki sínu.
Almenn fjárhagsstaða sveitarfélag-
anna getur auðvitað haft áhrif á
hvernig gengur að uppfylla þessar
þarfir,“ sagði hann og var spurður
hvað honum þætti um aðferð Reykja-
víkur við úthlutun framlaga til sér-
taks stuðnings í grunnskólunum. „Ég
býst við að fræðsluyfirvöld hafi valið
að fara þessa leið til að reyna að deila
fjármagninu með sanngjörnum hætti
á milli skólanna. Réttur barna til sér-
tæks stuðnings er hins vegar mjög
skýr og algjörlega óháður því, hvern-
ig sveitarfélög fjármagna hann.“
Engin lagaleg tengsl
Ólafur Ó. Guðmundsson, yfirlækn-
ir Barna- og unglingageðdeildar
Landspítala – háskólasjúkrahúss, tók
í sama streng og Stefán hvað varðar
sjálfstæðan rétt barna með hegðun-
arfrávik fyrir sértækan stuðning í
skóla. „Sveitarfélögin hafa tekju-
stofna til að standa straum af kostn-
aði við sértækan stuðning við börn
með námsörðugleika og ýmiss konar
fötlun. Þeim ber lagaleg skylda til að
veita börnunum þennan sértæka
stuðning óháð því hvort þau hafa
fengið greiningu hjá Barna- og ung-
lingageðdeildinni eða hinum stofnun-
unum þremur. Sveitarfélögin hafa því
ekki lagalegar forsendur til að segja
við foreldra þessara barna: Við erum
að bíða eftir greiningu frá Barna- og
unglingageðdeild til að fá fjármagn til
að geta sinnt barninu ykkar í skól-
anum. Þau tengsl eru ekki til sam-
kvæmt lögum. Sumar fræðsluskrif-
stofur virðast mistúlka þarna skyldur
sínar.“
Ólafur segist ekki þar með vera að
réttlæta biðina eftir greiningu á
Barna- og unglingageðdeildinni.
„Þjónustan hefur verið alltof tak-
mörkuð af þeirri einföldu ástæðu að
yfirvöld hafa ekki séð sér fært að efla
deildina með því að gera nauðsynleg-
ar breytingar á stöðu og rekstri henn-
ar né að veita meira fjármagn til
hennar í samkeppni við önnur verk-
efni í samfélaginu. Nú í kjölfar um-
ræðu síðustu vikna hefur Landspítali
– háskólasjúkrahús lagt fram tillögur
um aukna þjónustu spítalans við geð-
sjúk börn, unglinga og fjölskyldur
þeirra og heilbrigðisráðherra gefið
fyrirheit um verulegar úrbætur. Ef
rétt er staðið að þjónustu á þessu
sviði, bæði faglega og rekstrarlega, er
um hagkvæman fjárfestingarkost að
ræða og það má líkja því við að verið
sé að virkja geðheilsu hinnar uppvax-
andi kynslóðar. Núna erum við með
um 30 börn á biðlista eftir ofvirkni-
greiningu og þó að við séum að veita
þessum börnum minni þjónustu en
við vildum er biðin allt að sex mán-
uðir. Hún ætti alls ekki að vera lengri
en þrír mánuðir.“
Ólafur sagðist líta svo á að skólasál-
fræðingar ættu að greina stærsta
hópinn með sértæka námserfiðleika
og afmörkuð geðræn einkenni og
veita viðeigandi stuðning innan skól-
ans. „Ef ástæða þykir til frekari að-
gerða vísa síðan skólasálfræðingarnir
á sérfræðinga á stofu sem í íslensku
samfélagi virka sem annars stigs
þjónusta. Aðeins flóknustu tilfellun-
um ætti að vísa áfram til Barna- og
unglingageðdeildar sem þannig gæti
betur einbeitt sér að minni hópnum
með alvarlegustu vandamálin og veitt
öðrum handleiðslu um aðferðir og úr-
ræði til handa stærri hópnum með
vanda á þessu sviði,“ sagði hann og
tók fram að því færi fjarri að aðeins
væri um vanda BUGL að ræða.
„Styrkja þarf skólasálfræðiþjón-
ustuna, heilsugæsluna og félagsþjón-
ustuna. Þessir aðilar eiga náttúrulega
að vera burðarásarnir í kringum barn
með vanda. Ef þurfa þykir á svo að
vera hægt að leita til sérfræðiþjón-
ustu lækna og t.a.m. sálfræðinga á
stofu eða Landspítala eftir eðli og al-
vöru vandans.“
Reykjavík komin skrefi lengra
Arthur Morthens tók fram að
Reykjavíkurborg fengi ekki úthlutað
fjárstuðningi úr Jöfnunarsjóðnum
vegna þessarar sértæku þjónustu.
„Fræðsluyfirvöld í Reykjavík hafa
mótað sínar eigin reglur um úthlutun
fjármagns til skólanna vegna nem-
enda með fatlanir og aðrar sérþarfir.
Við mótun þessara reglna var bæði
tekið mið bæði af enska og norska
kerfinu, þ.e. tekið var mið af enska
kerfinu hvað varðaði sérstakan þjón-
ustusamning vegna nemenda og því
norska hvað varðaði tvískiptu úthlut-
unina,“ sagði hann og bætti við að góð
reynsla væri komin af norska kerfinu
í Noregi. „Við göngum svo skrefi
lengra en Jöfnunarsjóðurinn með því
að miða ekki aðeins við greiningu við
úthlutunina heldur líka við námslega,
félagslega, hegðunarlega og tækni-
lega þætti í tengslum við skólagöng-
una. Við lítum svo á að með því að út-
hluta þessum fjárhagslega stuðningi
beint til skólanna vegna ákveðinna
einstaklinga sé hagur þessa hóps best
tryggður. Við úthlutun úr Jöfnunar-
sjóði til annarra sveitarfélaga er í
rauninni engin trygging fyrir því að
þessi fjárstuðningur fari nákvæm-
lega til þessa hóps. Ég þekki dæmi
um að hluta af fjármagni til þessa sér-
tæka stuðnings sé varið til þjónustu
við afburðagreind börn og sá mögu-
leiki er auðvitað fyrir hendi að því sé
alls ekki varið til verkefna innan
skólakerfisins,“ sagði Arthur og
ítrekaði að stefna Reykjavíkurborgar
tryggði að þessi fjárstuðningur gengi
óskertur til barna með fatlanir og
aðrar sérþarfir. „Nýja stefnan felur
svo í sér enn meiri framför eftir að
gengið hefur verið frá nýjum þjón-
ustusamningi skóla, foreldra og
Fræðslumiðstöðvar fyrir þennan hóp.
Þessi þjónustusamningur felur í sér
skilgreiningar á skyldum foreldra og
skóla til að tryggja að börnin hljóti
sína lögbundnu þjónustu samkvæmt
grunnskólalögum.“
Arthur var spurður hverju hann
svaraði því að þessi börn ættu sjálf-
stæðan lagalegan rétt til þessarar
þjónustu um leið og vandinn væri
ljós. „Við getum öll verið sammála því
að börnin eiga rétt á að fá þessa þjón-
ustu. Jafnframt eiga þau fullan rétt á
að fá greiningu á sinni stöðu til þess
að njóta eðlilegs stuðnings í skóla.
Það er því afskaplega eðlilegt að fara
fram á að úthlutun fjármagns til að
kosta þjónustuna byggist á vandaðri
greiningu þeirra stofnana sem sam-
komulag er um að greini flóknustu til-
vik raskana. Við getum ekki verið að
henda hundruðum milljóna eitthvað
út í bláinn. Allir hljóta að vera sam-
mála um að svoleiðis vinnubrögð
ganga ekki. Vandinn snýst einfald-
lega um að biðin hjá BUGL er orðin
alltof löng og úr því verður að bæta.“
Róttækra aðgerða þörf
Arthur sagði ljóst að grípa þyrfti til
frekari úrræða en bráðabirgðaúthlut-
unar til að stytta biðlistann eftir
greiningu hjá BUGL. „Ein leið er
auðvitað að ríkið sjái til þess að
BUGL verði gert kleift að vinna hrað-
ar á biðlistanum. Önnur leið gæti fal-
ist í því að ríki og sveitarfélög kæm-
ust að samkomulagi um að
skólasálfræðingarnir kæmu meira
inn í greininguna til að létta þrýst-
ingnum af BUGL, t.d. er ekki óskyn-
samlegt að hugsa sér að skólasál-
fræðingarnir sæju í samvinnu við
lækna um léttari tilfellin og BUGL
um þau flóknari og erfiðari. Annars
er ákveðinn galli að ekki skuli vera til
annað stig í þessu ferli eins og t.d. er í
heilsugæslustöðvunum í Danmörku
og Noregi. Best væri auðvitað ef sál-
fræðingar gætu vísað börnunum á
einhvers konar annað stig. Ef þurfa
þætti yrði þeim síðan vísað á BUGL á
þriðja stigi. Með því móti myndi bið-
listinn hjá BUGL að sjálfsögðu stytt-
ast. Ekki má heldur gleyma því að ef
sveitarfélögin koma meira inn í grein-
inguna verður að fylgja því ákveðið
fjármagn frá ríkinu,“ sagði Arthur og
lagði áherslu á stefna fræðsluyfir-
valda í borginni ætti eftir að koma
börnum í þessum hópi mjög til góða
þegar fram í sækti.
„Við gerum okkur fulla grein fyrir
því að mesti vandi skólanna eru ofvirk
börn með athyglisbrest eða önnur
hegðunarvandamál. Með nýju stefn-
unni eru þessir nemendur ásamt fötl-
uðu nemendunum settir í forgangs-
röðun. Stórauknu fé er nú varið til að
styrkja skólana til að þjónusta þenn-
an hóp. Við skulum samt ekki gleyma
því að breytingin er að ganga yfir, t.d.
eru 170 milljónir enn bundnar í sér-
deildum. Hluti þess fjármagns verður
bundinn þar fram á vor og afgang-
urinn fram til næstu áramóta. Þessu
fé verður síðan væntanlega varið til
þessa hóps nemenda. En ég trúi því
að við séum á réttri leið og takmarkið
er auðvitað að búa þessum börnum
sem ákjósanlegastar aðstæður í skól-
anum. Ef einhverjar hindranir eru á
þeirri leið, eins og við virðumst vera
að sjá núna, verður auðvitað að grípa
til viðeigandi ráðstafana Reykjavík-
urborgar og ríkisins til hrinda þeim
úr vegi.“
Morgunblaðið/Ásdís
Þessar stúlkur lyftu sér upp í snú-snú við Langholtsskóla á dögunum. Þær tengjast ekki umfjöllunarefni greinarinnar.
’ Við lítum svo á að með því að úthlutaþessum fjárhagslega stuðningi beint til skól-
anna vegna ákveðinna einstaklinga sé hagur
þessa hóps best tryggður. ‘
ago@mbl.is