Morgunblaðið - 22.05.2003, Blaðsíða 36

Morgunblaðið - 22.05.2003, Blaðsíða 36
MINNINGAR 36 FIMMTUDAGUR 22. MAÍ 2003 MORGUNBLAÐIÐ Elsku Matti, nú ert þú farinn. Mig langar bara að segja þér hversu mikill öðlingur þú hefur alltaf verið í mínum huga. Alltaf áttir þú hlýtt bros og skemmtileg orð handa mér, systur vina þinna. Í mínum huga varstu tákn heiðarleika, umhyggju og ein- stakrar ljúfmennsku. Um leið og ég kveð þig elsku Matti vil ég senda börnunum þínum, unnustu, foreldr- um og systkinum mínar innilegustu samúðarkveðjur. Á hendur fel þú honum, sem himna stýrir borg, það allt, er áttu’ í vonum, og allt, er veldur sorg. Hann bylgjur getur bundið og bugað storma her, hann fótstig getur fundið, sem fær sé handa þér. (Björn Halldórsson í Laufási.) Vordís. Mig langar í nokkrum orðum að minnast eins besta drengs sem lífið hefur fært mér til þessa. Til er lítil saga af manni sem gekk eftir strönd lífs síns með drottin sér við hlið. Við enda strandarinnar lítur maðurinn aftur og sér að í sandinum eru tvenn fótspor. Önnur voru hans eigin en hin voru drottins en alltaf þegar þungt var undir fæti og torfærur hömluðu göngunni urðu sporin að- eins ein. Maðurinn spurði því drottin hverju þetta sætti, að þegar hann hefði átt sem erfiðast í lífinu, þá hefði hann þurft að ganga ströndina einn og óstuddur. Drottinn sagði við manninn: „Það eru sporin mín sem þú sérð, því þarna bar ég þig.“ Líf mitt hefur ekki verið án erf- iðleika frekar en annarra og það var alltaf gott að hitta Matta þegar stormurinn var í fangið og erfitt að ganga einn á strönd lífsins. Þá gekk Matti minn með mér og hjálpaði mér. Þetta vitum við senni- lega bara tveir þangað til nú enda gat maður óhræddur trúað honum fyrir hverju sem var. Það fór ekki lengra. Við áttum margar ógleyman- legar stundir saman og oft var hleg- ið mikið í Veghúsunum þótt við vær- um oftast aðeins þrjú þar, ég, Matti og hún Svana. Já, hann Matti er bróðir hennr Svönu og það gerði hann á sínum tíma og gerir hann enn alveg ein- stakan mann í mínum augum. Þau voru ekki mörg árin sem ég þekkti hann Matta en mjög fljótlega tókst með okkur mikill og sterkur vinskapur og líka skilningur á ýms- um hlutum sem ekki er hægt að út- skýra hér með fáum orðum. Hann var ekki maður margra orða en það sem hann sagði hitti í mark og var auðskilið. Það yljaði mér ólýsanlega um hjartaræturnar hve hann var hamingjusamur eftir að hann flutti vestur aftur með henni Írisi sinni og þau eignuðust litla drenginn, hann Kristján Stein. Ég naut þess hrein- lega að heimsækja þau og fá að fylgjast með því hvernig lífið breytt- ist og þróaðist hjá þeim til hins betra með hverjum deginum og mörg voru framtíðaráformin okkar tveggja. Íris átti greinilega hug hans allan og það leyndi sér ekki að þeim þótti afar vænt hvoru um annað. Það voru alger forréttindi mín að fá að sjá þessa góðu vini sína svona ham- ingjusama. Þannig lifði Matti líka og dó, sáttur við lífið og tilveruna. Að lokum vil ég votta öllum sem eiga um sárt að binda eftir fráfall Matta mína dýpstu samúð. Þó að nú MATTHÍAS KRISTJÁNSSON ✝ Matthías Krist-jánsson fæddist 23. september 1975. Hann lést af slysför- um aðfaranótt 10. maí síðastliðins og var útför hans gerð frá Ólafsvíkurkirkju 17. maí. sé erfitt um gang og leiðin virðist nánast ófær, þá er sá máttur sem ber okkur yfir hindranirnar ekki langt undan, hverju nafni sem hann nefnist í huga okkar. Ef eitt- hvert okkar hefði dáið í hans stað veit ég að hann hefði staðið sig eins og hetja fyrir okk- ur. Þau voru mér ólýs- anlega erfið, sporin upp úr fjörunni þegar ég hafði áttað mig á hvað hafði gerst, en ég læt ylinn frá minningunum um yndislegan dreng þerra tárin mín. Hann á það svo sannarlega skilið, elsku karlinn. Þótt farir um veröldu víða þá vegurinn oft er ei beinn. Þú þarft ekki þrautum að kvíða því veginn þú gengur ei einn. Sigurður Einarsson. Lítill drengur með bolta er það fyrsta sem kemur upp í hugann þeg- ar við lítum til baka og hugsum til Matta, en fótboltinn fylgdi honum öllum stundum hvar sem hann var og hvert sem hann fór. Knatt- spyrnuhæfileikar hans voru einstak- ir og hefðu að öllum líkindum fleytt honum langt ef hann hefði ekki lent í bílslysi, ungur að árum, sem gerði það að verkum að hann gekk haltur upp frá því. Þetta var mikið áfall fyr- ir Matta en aldrei heyrði maður hann kvarta eða svekkja sig yfir því, enda var það honum tamara að líta á björtu hliðarnar og sjá það jákvæða og ekki síst spaugilega í tilverunni. Þó maður viti að það eina sem öruggt er í lífinu sé að maður fæðist og deyr þá finnst manni það harla óréttlátt þegar ungur og hamingju- samur maður með lífið fram undan er kallaður á brott frá yndislegri fjölskyldu með jafn fyrirvaralausum og sviplegum hætti og reyndin var í tilfelli Matthíasar. En það skiptir víst ekki máli hversu óréttlátt manni finnst það, því verður ekki breytt og verður maður að trúa því og hugga sig við að þörfin fyrir góðan dreng hafi verið svona mikil á æðri tilveru- stigum. Matti var einstaklega vel gerður drengur, rólyndur, tryggur, glað- lyndur, æðrulaus eða í einu orði sagt yndislegur ljúflingur. Þessi persónu- einkenni komu ekki síst fram í barn- gæsku hans en hann hafði einstakt lag á að laða börn til sín enda sýndi hann þeim mikla athygli og um- hyggju. Börnin hans þrjú og stjúp- sonur, sem nú eiga um sárt að binda, voru hans augasteinar og er sárt að hugsa til þess að þau fái ekki lengur að njóta leiðsagnar hans og nær- veru. Ef Matthías var í heimsókn á okkar heimili og við kannski að ræða saman við eldhúsborðið og einhver drengjanna okkar kom þá töpuðum við athygli hans en þeir fengu hana óskipta. Það var okkur mikils virði sú mikla vinátta sem myndaðist á milli Matta og Friðbjarnar, elsta sonar okkar, og erum við afskaplega þakklát fyrir hana því gott var að vita af honum í svo góðum og gef- andi félagsskap. Ekki er hægt að láta hjá líða að minnast á hrekkina í Matthíasi því þeir voru hans ær og kýr, en voru þó ávallt góðlátlegir en aldrei meiðandi eða særandi. Okkur er það sérstak- lega minnisstætt hversu hamingju- samur hann var þegar hann sagði okkur frá því að hann væri búinn að finna lífsförunautinn, hana Írisi sína. Þegar við spurðum hvernig honum litist á tengdafólkið kom blik í augu Matta og bros færðist yfir, hann sagði að ekki einungis hefði hann eignast yndislega tengdaforeldra heldur væri tengdapabbinn einstak- lega heppilegur til að hrekkja og stríða því hann hefði svo stuttan kveikiþráð. Einnig er það okkur of- arlega í huga þegar hann mætti með tertu, sem hann hafði bakað sjálfur, á þeim degi er við héldum upp á fer- tugsafmæli okkar á síðasta hausti. Okkur datt báðum í hug að tertan væri annaðhvort úr pappa eða með hrekkisprengju í, þegar það reynd- ist ekki vera og Matti sjálfur búinn að borða fyrstu sneiðina datt okkur jafnvel í hug að í henni reyndist lax- erolía og þorðum ekki að snerta hana fyrr en daginn eftir svo við yrð- um í góðu formi í veislunni. Skemmst er frá því að segja að ekk- ert reyndist misjafnt við tertuna en hrekkjaþörf Matta var fullnægt með því að sjá allar grunsemdirnar sem vöknuðu hjá okkur. Slíkar minning- ar eru okkur nú ómetanlegar. Við viljum að lokum votta unn- ustu, börnum, foreldrum, systkinum og öðrum ástvinum Matthíasar okk- ar dýpstu samúð og biðja almátt- ugan góðan Guð að styrkja þau í sorginni. Í hugum okkar munum við varðveita minningu um yndislegan dreng. Ásbjörn Óttarsson og Margrét G. Scheving. Mig langar í nokkrum orðum að minnast kærs vinar og samstarfs- félaga, Matthíasar Kristjánssonar sem lést af slysförum 10. maí sl. Það er sárara en tárum taki að horfa á eftir slíkum atgervispilti, sem Matt- hías var, svipt burtu í blóma lífsins frá unnustu, ungum börnum og öðr- um ástvinum. Ég hafði þekkt Matta allt hans líf og vissi hvaða kostum hann var búinn, því þurfti ég ekki að hugsa mig lengi um þegar hann hringdi í mig fyrir rúmu ári og fal- aðist eftir vinnu hjá Fiskmarkaði Ís- lands hf. Hann sagði að sig og Írisi langaði að flytjast aftur á heimaslóð- ir og stofna sitt framtíðarheimili þar eftir nokkur ár í höfuðborginni. Það var sérstaklega gefandi og gaman að kynnast Matta á nýjan hátt sem samstarfsfélaga þetta rúma ár sem hann starfaði hjá okkur. Matthías hafði einhverja þá bestu nærveru sem ég hef nokkurn tímann kynnst og var einstaklega gott að vera samvistum við hann hvort sem var í leik eða starfi. Ljúfur, glað- sinna, stríðinn, umhyggjusamur, æðrulaus, úrræðagóður, uppátekt- arsamur, yfirvegaður, bóngóður, út- sjónarsamur, orðheppinn, yfirlætis- laus, fyndinn, óútreiknanlegur, duglegur, klár og hlýr voru meðal þeirra lýsingarorða sem upp komu í hugann þegar við samstarfsfólk hans rifjuðum upp okkar upplifanir af Matthíasi, í einstaklega góðri samverustund, ásamt okkar ágæta sóknarpresti síðastliðinn mánudag á fyrsta vinnudegi eftir hans sviplega fráfall. Það var einhvern veginn þannig að öllum sem umgengust Matta þótti vænt um hann, annað var einfaldlega ekki hægt því frá honum streymdi svo mikil góðvild og hlýja. Hann lyfti vinnuandanum á vinnustað okkar upp í nýjar hæðir og er hann sárt tregaður af öllum sem unnu með honum. Það verður einkennilegt að eiga ekki von á ein- hverjum hrekkjum af hans hálfu, en á því sviði stóðst honum enginn snúning. Ég er viss um að enginn hefur tignað 1. apríl eins mikið og Matthías Kristjánsson, því fengum við samstarfsfólk hans svo sannar- lega að kynnast á fyrsta degi síðasta mánaðar og voru hugmyndafluginu þá engin takmörk sett. Allir voru hrekkir hans þó meinlausir og glettnir, aldrei vottaði fyrir rætni og höfðu hrekkirnir það eitt að mark- miði að skemmta og ekki síst þeim sem fyrir varð hverju sinni. Þótt Matti væri hógvær og látlaus í framgöngu þá bjó hann yfir leið- togahæfileikum og hafði hann for- göngu um að koma ýmsum hags- munamálum samstarfsfólks síns í framkvæmd. Með rökvísi sinni og prúðmannlegri framkomu kom hann sínu í gegn. Ég er þess fullviss að hefði honum enst aldur til og við fengið að njóta starfskrafta hans áfram þá hefðu honum verið falin enn frekari trúnaðarstörf í fyrirtæki okkar. Fyrir hönd starfsfólks Fiskmark- aðar Íslands hf. færi ég unnustu, börnum, foreldrum, systkinum, tengdaforeldrum, ömmu og öðrum ástvinum Matthíasar okkar dýpstu samúðarkveðjur. Megi minningin um einstakan öðlingspilt sefa sár- asta tregann og hjálpa ykkur að lifa með sorginni. Tryggvi Leifur Óttarsson. Einstakur drengur er fallinn frá langt um aldur fram, Matthías Kristjánsson, eða Matti. Ég er enn að vona að þetta sé martröð sem ég eigi eftir að vakna upp af en raun- veruleikinn ristir mig dýpra með hverjum deginum sem líður. Ég var svo heppin að fá að alast upp nánast með þér þar sem við Svana, eldri systir þín, vorum nær óaðskiljanlegar vinkonur á uppvaxt- arárunum á Sandi. Það voru aðeins tvö ár á milli þín og okkar Svönu og fannst mér ég líka eiga lítinn bróður. Svo komu hinir bræðurnir, Friðrik og Garðar, og ég var sko ekki minna stolt en Svana af öllum þessum sætu bræðrum. Á okkar yngri árum mynduðust sterk tengsl á milli fjölskyldna okk- ar sem maður finnur svo greinilega fyrir á stundum sem þessum þegar sorgin kveður að. Yndislegri dreng er vart hægt að hugsa sér, rólyndur, traustur og mesti húmoristi sem ég hef kynnst, alltaf með glott á vör og stríðnispúkinn ekki langt undan. Skemmst er að minnast 1. apríl gabbsins hjá þér á fiskmarkaðnum, engum nema þér hefði dottið þetta í hug. Það var svo notalegt að fá þig og litlu fjölskylduna þína aftur vestur eftir að hafa búið í Reykjavík um nokkurt skeið. Þið Íris voruð búin að koma ykkur vel fyrir og eignast litla gullmolann hann Kristján Stein sem nú er aðeins tæplega 5 mánaða. Það var líka svo gaman þegar Thelma Rún og Viktor Ingi komu í heim- sókn. Þú varst nú ekki minna stoltur þegar Svana eignaðist Arnheiði, þegar ég hitti þig fyrst á eftir varstu fljótur að tilkynna mér að auðvitað væri hún alveg eins og þú. Einnig var svo yndislegt að sjá hvað þú varst góður við Jóhann Ás, stjúpson þinn. Þær voru ófáar ferð- irnar hjá ykkur tveimur í búðina til mín að kaupa eitthvað dót og pass- aðir þú vel að hann keypti nú enga druslu ef málið snérist um bíl. Alltaf fór út lítið andlit sem ljómaði eins og sól. Við eignuðumst frumburðina okk- ar með aðeins 3 vikna millibili, þú aðeins 22 ára gamall að fara að eign- ast tvíbura og þú hugsaðir alltaf svo vel um þau og varst svo stoltur af þeim. Guðlaug Íris dóttir mín kom svo glöð heim úr piparkökubakstri í skólanum fyrir síðustu jól, hún fékk að fara með ykkur Garðari ásamt Thelmu og Viktori. Auðvitað hafði aldrei verið jafn gaman á piparköku- deginum og það var sko búið að ákveða að hún ætlaði aftur með ykk- ur næstu jól. Já, þér tókst að heilla alla með nærveru þinni og skipti aldur engu máli eins og sést á vinahópi þínum. Elsku vinur, það væri endalaust hægt að skrifa um þig og allar góðu minningarnar sem ég á um þig en ég ætla að geyma þær í hjarta mínu sem er svo aumt þessa dagana. Elsku Adda og Kiddi, þið óluð upp einstakan dreng sem skilur svo mik- ið eftir sig og mun halda áfram að lifa í börnunum sínum. Við fjölskyldan biðjum almættið um að veita öllum ástvinum Matt- híasar styrk til að takast á við sorg- ina og styðja hvert annað. Fallegasti engillinn er kominn til himna. Júníana Björg. Elsku Matti, þegar Sigrún systir hringdi í mig og sagði mér að þú værir farinn frá okkur vildi ég ekki trúa því, mér fannst þetta svo óraun- verulegt. Það komu strax upp í höfði mínu góðar minningar um þig. Það eru liðin 10 ár síðan litla systir mín kom og kynnti fyrir mér kærastann sinn og ég sá strax að þennan strák væri mikið var í enda sýndir þú það fljótt hversu mikill öðlingur þú varst. Það var aldrei neitt vandamál í þínum huga. Þú og litla systir fóruð svo ykkar leiðir en vinskapur okkar styrktist áfram. Og þegar ég sagði þér frá að ég væri að verða pabbi þá gerðir þú enn betur og komst með tvö yndisleg börn nokkrum mánuð- um seinna. Og ef það þurfti að selja bíl þá bjargaðir þú því, alltaf til í að hjálpa manni. Mér finnst svo stutt síðan þú sagðir mér að þú ætlaðir að flytja aftur á Hellissand með kær- ustu þinni. Megi Guð gefa börnum þínum og fjölskyldunni styrk á þess- um erfiða tíma. Mér finnst sárt að þurfa að kveðja þig svona snemma í þessu lífi, Matti minn. Þinn vinur Bjarni Már. Elsku vinur. Hvað lífið getur verið óréttlátt, að hrifsa þig úr faðmi lífs- ins þegar þú blómstrar hvað mest. Maður heldur alltaf að maður hafi allan heimsins tíma til að segja og gera það sem maður ætlar, en svo allt í einu er tíminn útrunninn. Við áttum yndislega kvöldstund sem greypt er í huga minn og aldrei tapast, samankomin 10 úr bekknum eftir 13 ár. 13 ár eru mörg ár en samt var eins og við hefðum hist í gær, viðmótið og hlýjan sem streymdi frá ykkur var þvílík og slík. Ég er ólýsanlega glöð yfir að hafa drifið mig til þess að hitta þig og hin úr bekknum. Það rifjaðist margt upp þetta kvöld, mörg prakkarastrikin, árshá- tíðirnar sem við horfðum á og grét- um af hlátri yfir, samtölin sem við áttum að ógleymdu gítarspili þínu. Þú sýndir mér þitt rétta andlit og ég mundi svo vel eftir stráknum sem ég var öll þessi ár með í skóla. Þú varst þannig úr garði gerður að þú komst fram við náungann eins og þú vildir að hann kæmi fram við þig. Þú talaðir mikið um það, og varst hamingjusamur á svip, að nú værir þú loksins kominn heim aftur eftir áralanga búsetu í Reykjavík, og sagðir að þér væri sama þótt þú sæir Reykjavík aldrei aftur, og eins og þú orðaðir það við mig „Ég á yndislegt heimili, góða konu og fjögur börn þótt ég eigi ekki nema þrjú“ og áttir við fósturson þinn sem þú leist á sem þinn eigin. Minningin um þig lifir í hjörtum og huga okkar sem eftir stöndum og yljar okkur um hjartarætur á erf- iðum stundum. Mig tekur það sárt að hafa ekki fengið tækifæri til að kynnast þér í faðmi konu þinnar og barna og að kona þín og börn þurfi að sjá á eftir yndislegum manni og föður. Elsku kallinn minn, það er komin kveðjustund, ég fékk víst ekki tæki- færi til að þakka þér fyrir kvöldið góða sem við áttum saman og sam- fylgdina í gegnum skólann. Ég vona að þú sért jafn hamingju- samur, þar sem þú ert núna, og þú varst meðal konu þinnar, barna og annarra ástvina. Takk kæri vinur, mér þykir vænt um þig. Ég bið algóðan Guð um að vaka yfir og vernda konu þína, börnin þín, svo og aðra ástvini, og ég bið þig góði Guð, veittu þeim styrk á þess- um erfiðu tímum. Kveðja, þín bekkjarsystir Hallfríður (Didda). Elsku Matthías minn. Mig langar til að mæla til þín nokkur orð. Þau eru fátækleg miðað við þann fjársjóð að eiga stað í hjarta þínu. Ég á bænir og óskir þér til handa. Ég á ríka samúð sem ég vil gefa Írisi þinni og börnum þínum, foreldrum, systkinum, ömmu og tengdaforeldrum þínum. Þrátt fyrir sársauka lífsins hefur Guð gert mig ríka af minningum um þig. Trygg vinátta þín gleymist aldr- ei og í sársauka mínum bið ég Guð að blessa minningu þína. Ég trúi því að vorið og sumarið sem bíður þín verði þér bjart og fal- legt. Takk fyrir allt sem þú gerðir fyrir fjölskyldu mína, elsku dreng- urinn minn. Nú legg ég augun aftur, ó, Guð, þinn náðarkraftur mín veri vörn í nótt. Æ, virst mig að þér taka, mér yfir láttu vaka þinn engil, svo ég sofi rótt. (Þýð. Sveinbjörn Egilsson.) Valgerður Hansdóttir.
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.