Morgunblaðið - 22.05.2003, Blaðsíða 33
MINNINGAR
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 22. MAÍ 2003 33
þyrfti. Þetta var upphaf þess að afi og
amma fóru að draga sig saman.
„Hann vildi enga nema mig,“ sagði
amma. En ljóshærða, léttstíga stúlk-
an vildi ekki flana að neina. Því gat
Siggi ekki boðið Svönu sinni út nema
að Hanna vinkona hennar kæmi með.
Þau voru því oftast þrjú, a.m.k. fyrst í
stað. Eins og annað ungt fólk í
Reykjavík á þeim árum gengu þau
rúntinn, arm í arm, sýndu sig og sáu
aðra. Rúnturinn var alltaf sami
hringurinn, kringum Austurvöll, Að-
alstræti og Kirkjustræti.
Sumarið 1935 dvaldi amma sem
vinnukona hjá móðursystur sinni
Ingveldi á Laugardalshólum, þá tví-
tug. Þar skrifaði hún bæði móður
sinni og heitmanni bréf sem varðveist
hafa. Rithöndin er falleg og bréfin vel
skrifuð. Þau lýsa vel vinnusemi henn-
ar og hjálpsemi. Í einu bréfi lýsir hún
ferðalaginu frá Reykjavík austur að
Laugarvatni, en þar var enginn til að
taka á móti henni. Með í för voru
tvær smástelpur sem aldrei höfðu
komið í sveit áður, þeirra för var heit-
ið að Miðdal. Þær og amma fóru
ásamt fleira fólki úr rútunni við
Hjálmsstaði. Amma hafði ekki brjóst
í sér til að skilja litlu stúlkurnar eftir
einar, því þær þurftu að vaða djúpa á.
Í bréfinu sem ritað er til móður henn-
ar segir m.a.: „Ég gat ekki haft brjóst
í mér til að skilja þær einar eftir, því
áin er svo djúp að það er varla hægt
að vaða hana nema fara úr sokkum og
bretta upp buxur eins langt og hægt
er! Ég gekk upp með ánni og hring-
snerist til og frá til þess að leita fyrir
mér hvar hún væri grynnst og svo
skálma ég út í með báðar stelpurnar,
sem orguðu eins og þær gátu. Þær
voru 9 og 11 ára gamlar og voru syst-
ur. Ég dröslaði þeim yfir allar spræn-
urnar og fór með þær heim að Miðdal
og þar fóru þær úr blautu, við óðum
allar upp fyrir stígvél.“ Þessi frásögn
lýsir vel hjálpsemi ömmu. Hún var
ávallt tilbúin að rétta hjálparhönd
þótt það kostaði hana erfiði eða fyr-
irhöfn.
Amma og afi giftu sig í Fríkirkj-
unni 12. desember 1936. Giftingunni
höfðu þau flýtt svolítið vegna þess að
þeim hlotnaðist stór happdrættis-
vinningur í happdrætti SÍBS. Vinn-
ingurinn auðveldaði þeim að hefja bú-
skap og kaupa sér húsgögn. Rúmum
níu mánuðum eftir brúðkaupið fædd-
ist Hjördís, eldri dóttir þeirra. Einu
og hálfu ári síðar fæddist svo Þrúður
Guðrún, móðir mín. Afi starfaði alla
tíð í Fálkanum. Hann tók verslunar-
próf og þegar árin liðu tók hann
ásamt tveimur bræðra sinna við
rekstri Fálkans. Afi sá lengst af um
fjármál fyrirtækisins en varð síðar
forstjóri Fálkans. Hann unni sér
sjaldan hvíldar og var stöðugt um-
hugað um rekstur fyrirtækisins og
uppbyggingu þess. Amma studdi
hann ætíð sem mest hún mátti og lét
sér að honum látnum afar umhugað
um að reksturinn gengi vel. Hún var
einnig pólitísk þótt hún flíkaði ekki
skoðunum sínum í margmenni. Þar
var hún trú uppruna sínum og vildi að
fólk á Íslandi byggi við sem jöfnust
kjör.
Fyrsta hjúskaparár ömmu og afa
bjuggu þau á Vífilsgötu og síðan á
Lindargötu. Frá 1943 til 1950 bjuggu
þau á Mímisvegi 2a, en þar var
mamma, Þrúður Guðrún, 3 til 10 ára.
Á þessu tímabili ákváðu þau að reisa
sér hús í Skaftahlíð 5 í félagi við bróð-
ur afa, Harald Ólafsson. Haraldur bjó
á efri hæð hússins en amma og afi á
neðri hæðinni. Í kjallaranum bjó
einnig lengi Ingvar bróðir ömmu og
hans fjölskylda. Þeir bræður störf-
uðu þá saman við hlið föður síns í
Fálkanum og fyrirtækið gekk vel.
Þetta voru góð ár í lífi ömmu og afa.
Amma talaði oft um hversu vel henni
hefði liðið í Skaftahlíðinni. Húsið var
allt hið vandaðasta og þarna ólust
systurnar Hjördís og Þrúður Guðrún
upp við ágæt efni, á þeirra tíma mæli-
kvarða. Þetta voru mikil viðbrigði
fyrir ömmu og hún naut þess að búa
við öryggi. Það skyggði þó á að afi
varð snemma veill fyrir hjarta og
varð að breyta ýmsu í lífsháttum af
þeim sökum. Hann mátti lítið reyna á
sig og varð að fara akandi flestra
sinna ferða. Af þessum sökum hvatti
afi einnig ömmu til að taka bílpróf. Ef
eitthvað kæmi nú fyrir hann og
amma þyrfti að taka við akstri. Þegar
amma var 46 ára tók hún bílpróf. Það
var sama daginn og ég kom í heiminn.
Hún stóðst bílprófið en nýtti sér þó
aldrei ökuréttindin. Ég var fyrsta
barnabarn hennar og afa. Foreldrar
mínir bjuggu fyrstu tvö hjúskaparár
sín hjá ömmu og afa í Skaftahlíð 5.
Þegar ég var á fimmta ári héldu þau
utan til náms í Danmörku með okkur
systurnar þrjár sem þá voru fæddar.
Ári síðar komu amma og afi því til
leiðar að ég hóf skólagöngu í Ísaks-
skóla en foreldrar mínir voru þá enn í
Danmörku. Ég varð þeirrar gæfu að-
njótandi að búa hjá þeim nokkur
fyrstu ár ævi minnar og kynnast
þeim vel. Bernskuminningar mínar
eru því margar tengdar ömmu og afa.
Í mínum huga voru þau ávallt eitt.
Frá því ég var smábarn var ég aldrei
í vafa um að þau elskuðu hvort annað
heitt og innilega. Það sýndu þau best
í verki. Þau voru samrýnd og sam-
hent hjón. Einnig voru þau mjög
frændrækin og á meðan afi lifði óku
þau t.d. reglulega austur í sveitir til
að hitta þar frændfólk á Skeiðum og á
Laugarvatni.
Amma var falleg kona og blíðlynd.
Hún var mikil dama að upplagi, alltaf
vel snyrt og vel til höfð. Hún var trú-
uð og tryggur meðlimur Fríkirkju-
safnaðarins allt til dauðadags. Hún
var gestrisin og hafði mikla ánægju
af að fá fjölskyldu og vini í heimsókn.
Heimsóknirnar til hennar urðu að
kaffiveislum og alltaf átti hún gott
handa þeim yngstu. Árið 1969 höfðu
þau afi og amma og Ólafur bróðir afa
makaskipti á íbúðum. Þá fluttu þau í
stóra íbúð á Flókagötu 63. Þar varð
afi bráðkvaddur 1976, þá 62 ára. Það
var mikið áfall fyrir ömmu og hún
saknaði afa mjög mikið. Dæturnar og
barnabörnin gerðu henni lífið léttara
með tíðum heimsóknum sem hún
kunni sannarlega að meta. Upp úr
1997 kenndi amma sér meins sem
smám saman dró úr henni mátt. Hún
bjó áfram ein á Flókagötunni allt til
1999. Þá fékk hún vist á hjúkrunar-
heimilinu í Víðinesi og síðar í Skóg-
arbæ, þar sem hún svo lést í svefni. Á
báðum stöðum naut hún hlýju og um-
hyggju starfsfólks. Öllu þessu fólki
eru færðar bestu þakkir.
Síðustu árin voru ömmu erfið, þótt
annast væri vel um hana. Hún kvaddi
sátt við Guð og menn, södd lífdaga.
Fram til síðustu stundar hélt hún
reisn sinni og kvartaði lítt þótt líðanin
væri ekki alltaf góð.
Blessuð sé minning Svanlaugar
Rósu Vilhjálmsdóttur.
Svana Helen Björnsdóttir.
Elsku amma, takk fyrir allar
stundirnar í eldhúsinu þínu þegar við
ræddum saman um heima og geima
meðan við drukkum kaffi og með því.
Þú varst fordómalaus í skoðunum og
gamli tíminn birtist mér ljóslifandi
þegar þú sagðir mér sögur af sjálfri
þér. Einmitt þannig, sem vinkonu
mína, man ég þig helst hin síðari ár.
Þegar ég bjó á Ítalíu saknaði ég þess-
ara stunda og varð glöð að flytja í
næstu götu við þig eftir að ég kom
heim. En skömmu seinna byrjuðu
veikindin og undir lokin dvaldist þú í
nokkur ár á hjúkrunarheimilum. Allt-
af varstu samt jákvæð og lífsglöð þótt
í huganum hefðir þú fyrir löngu verið
farin til hans afa sem fór allt of
snemma.
Þær eru margar minningarnar um
ykkur afa og sunnudagsbíltúrarnir í
Prinsinum þótti okkur systrunum
ákaflega spennandi en þá var alltaf
keyptur ís í vesturbænum. Á meðan
við keyrðum um gamla bæinn sat ég í
aftursætinu og naut þess að anda að
mér vindlareyknum frá afa, sem var
besta lykt sem ég þekkti. Heima á
Flókagötunni fengum við svo góm-
sætar pönnukökur og ávaxtabrjóst-
sykur og þú spilaðir við okkur Nóló
og Marías. Fjölskyldan átti hug ykk-
ar allan. Þið studduð hana dyggilega
og gjafmildi ykkar var einstök.
Reglulega buðuð þið allri stórfjöl-
skyldunni í höfðingleg matarboð, en
þann góða sið hafa reyndar mamma
og pabbi tekið upp frá ykkur. Við
barnabörnin máttum valsa um heim-
ili ykkar að vild sem var heilt völund-
arhús fyrir okkur, skreytt silkivegg-
fóðri og kristalsljósakrónum. Við
systurnar höfðum gaman af því að
máta gömlu fötin þín og í glitrandi
kjólum og háhæluðum skóm, með
hatta og balltöskur, urðum við end-
urbornar prinsessur. Síðan spiluðum
við gömul danslög á stóra grammó-
fóninn af 78 snúninga plötum og
dönsuðum.
Ástúð og gleði voru ávallt ríkjandi
á heimili ykkar afa sem hann sýndi
með einlægri glettni og þú með þinni
sakleysislegu hlédrægni. Langþráð
stund hefur ræst og loksins hvílið þið
í örmum hvor annars á ný.
Megi Guð vera með ykkur, þín
Hildur Inga.
Nú hefur amma loksins fengið
hvíldina sem hún þráði svo mjög. Í
huga mínum lifa allar minningarnar
um ömmu; klingjandi dyrabjallan á
Flókagötunni, hún trítlandi eftir
ganginum og opnar, ævinlega glöð að
fá gesti, hitar kaffi og dregur fram
marsipanköku úr búrinu, alltaf með
nægan tíma til að spjalla um menn og
málefni, æsku sína, barnabörnin og
fjölskylduna. Og alltaf gengu lang-
ömmubörnin að brjóstsykrinum vís-
um, ýmist bismark, brenndum eða
peru sem og dótakassanum góða með
gömlu geymdu gullin.
Hversdagslegar bernskuminning-
ar eins og búðarferðir með ömmu í
Árnabúð, Sunnukjör eða Herjólf er
gott að eiga í dag. Þá fannst lítilli
hönd hún vera stór og sterk því hún
var að hjálpa ömmu með innkaupin.
Það var svo yfirleitt í Árnabúð sem
amma fann alveg óvart eitthvað sem
hana langaði til að gauka að okkur
barnabörnunum. Amma átti svo auð-
velt með að gefa en fannst aldrei að
hún hefði þörf fyrir nokkuð sjálf.
Molasykur með kaffinu var ómiss-
andi en oft og tíðum reyndist gott að
fá hjálp við að brjóta hann með nagl-
bítnum. Ömmu þótti best að hafa
molana litla en launaði verkið með
stórum mola vættum í kaffi. Svo var
gjarnan dreginn upp spilastokkur og
spilaður marías eða lagður kapall.
Amma lagði mikinn metnað í að hafa
garðinn sinn fallegan, var stolt af rós-
unum sínum sem voru þær fallegustu
í allri Reykjavík og ekki leið það sum-
ar að sett væru niður sumarblóm sem
hún treysti oft barnabörnunum fyrir
að gróðursetja.
Ég skynjaði sterkt ástina milli afa
og ömmu, vindlareykur lá ævinlega í
loftinu, ró og kyrrð, en stutt í galsa og
glens. Amma saknaði afa og fannst
gott að tala um hann. Minningarnar
um afa skiptu hana miklu eins og
minningarnar um ástríka, hlýja
ömmu ylja nú barnabörnum hennar
og barnabarnabörnum. Blessuð sé
minning þeirra.
Brynja Dís Björnsdóttir.
Elsku amma.
Nú er löngu veikindastríði þínu
loks lokið. Á stund sem þessari reikar
hugurinn til baka til þess er við vor-
um litlar stelpuskjátur hjá ömmu.
Þú varst alltaf uppáklædd og fórst
aldrei út öðruvísi en í kjól, með perlu-
festi og hatt. Buxur voru þér ekki að
skapi. Svo gengum við saman út í
mjólkurbúð en þar fengum við Síríus-
lengju eða langömmubrjóstsykur við
góðar undirtektir. Í kvöldmat eldaðir
þú svo fisk sem átti sér enga hlið-
stæðu, mamma reyndi og reyndi að
gera eins, en fiskurinn hjá þér var sá
eini sem við borðuðum.
Örlæti þitt var mikið gagnvart
þeim sem minna máttu sín þó að þú
sjálf létir þér lítið nægja. Þú kenndir
okkur að syngja sálma og spila á spil
og sátum við oft á kvöldin og spil-
uðum marías og Olsen-Olsen fram
eftir öllu. Það var yndislegt.
Ég man líka alveg sérstaklega vel
eftir því hversu dugleg þú varst að
þýða fyrir okkur sjónvarpsefni. Á
sunnudögum kl. 16 settumst við allar
þrjár fyrir framan sjónvarpið og
horfðum á Húsið á sléttunni. Við
systurnar réðum ekki við að lesa
textann svo þú last hann upphátt fyr-
ir okkur við mikla hrifningu. Þessu
hélst þú jafnvel áfram eftir að við vor-
um komnar á fullorðinsár.
Okkur langar til að setja þetta vers
hér en þetta er einn af þeim mörgu
sálmum sem þú kenndir okkur.
Nú legg ég augun aftur,
ó, Guð, þinn náðarkraftur
mín veri vörn í nótt.
Æ, virst mig að þér taka,
mér yfir láttu vaka
þinn engil, svo ég sofi rótt.
(Þýð. Sveinbjörn Egilsson.)
Elsku amma, nú ertu loks komin til
afa sem hefur beðið þín svo lengi með
útrétta arma. Þú kenndir okkur
margt sem við geymum í hjarta okk-
ar alla tíð.
Þínar,
Ásdís Rósa og Svanlaug Rós.
Það var á snemma dags á afmæl-
isdaginn minn 14. maí sem Svanlaug
systir mín hringdi í mig og sagði mér
að amma hefði dáið í svefni um nótt-
ina. Þó að ég hefði verið búinn að
gera ráð fyrir þessu í mörg ár var ég
alls ekki undirbúinn undir þessar
fréttir þegar ég heyrði þær. Amma
var búin að vera veik um nokkurt
skeið og það hafði tekið á mig að
horfa upp á hvernig henni hrakaði
stöðugt. Guð var henni því líknsamur
þegar hann tók hana til sín þessa
nótt.
Ég mun alltaf minnast „ömmu á
Flókó“, eins og við systkinin kölluð-
um hana, með ást og þakklæti fyrir
allt sem hún gerði fyrir mig. Þegar
við bræðurnir vorum í Ísaksskóla
vorum við vanir að fara heim til
ömmu eftir skóla. Þá var amma að
undirbúa matinn fyrir afa en hún
hafði þó alltaf tíma til að spila við okk-
ur marías og Olsen-Olsen eða lesa
sögur. Það hefur nú sjálfsagt gengið
á ýmsu hjá okkur bræðrunum en
aldrei man ég eftir að amma hafi
nokkurn tímann hækkað róminn við
okkur í þessum heimsóknum. Amma
raulaði gjarnan vísur við vinnu sína
og passaði upp á að við barnabörnin
lærðum sálmana okkar vel.
Þegar við bræðurnir vorum í heim-
sókn var sjaldan verið annars staðar
en í eldhúsinu þar sem amma var að
elda eða baka. Þegar hún var að baka
sóttum við fast að fá að sleikja sleik-
ispaðann og helst vildum við að hún
sleppti því að baka kökuna því svo
fannst okkur deigið gott. Ekki man
ég eftir að hún hafi látið eftir þessum
kenjum okkar en oft var harla lítið
eftir af deiginu til að láta í formið eftir
ásókn okkar.
Þegar ég var í menntaskóla og síð-
ar í háskóla hafði ég gaman af því að
koma í heimsókn til ömmu og hún
hellti þá á könnuna og við spjölluðum
um heima og geima.
Reykti hún þá gjarnan smávindla
meðan hún rifjaði upp liðna daga.
Þótti mér mjög fróðlegt að heyra
hana lýsa lífinu eins og það var þegar
hún var ung.
Elsku amma, megir þú hvíla í friði.
Ég sakna þín.
Þinn
Kristinn Ingi.
Sími 562 0200
Erfisdrykkjur
Lundi V/Nýbýlaveg
564 4566 • www.solsteinar.is
Móðir okkar, tengdamóðir, amma og lang-
amma,
VALGERÐUR LAUFEY EINARSDÓTTIR,
Álftamýri 36,
Reykjavík,
lést á Landspítala Fossvogi þriðjudaginn
20. maí sl.
Sólon R. Sigurðsson, Jóna V. Árnadóttir,
Einar J. Sigurðsson, Sigurlaug Ottósdóttir,
barnabörn og barnabarnabörn.
Elskuleg móðir okkar, tengdamóðir, amma og
langamma,
GUÐBJÖRG ÓSKARSDÓTTIR
ljósmóðir,
frá Eyri, Gufudalssveit,
til heimilis í Bæjartúni 12,
Kópavogi,
lést á líknardeild Landspítala í Kópavogi að
kvöldi laugardagsins 10. maí.
Jarðarförin hefur farið fram í kyrrþey að ósk hinnar látnu. Þeim, sem vilja
minnast hennar, er bent á líknardeild Landspítala í Kópavogi.
Börn, tengdabörn, barnabörn og barnabarnabörn.