Morgunblaðið - 03.11.2003, Blaðsíða 4

Morgunblaðið - 03.11.2003, Blaðsíða 4
FRÉTTIR 4 MÁNUDAGUR 3. NÓVEMBER 2003 MORGUNBLAÐIÐ GLATT var á hjalla í Morgun- blaðshúsinu við Kringluna í gær, þegar haldið var upp á 90 ára afmæli Morgunblaðsins. Fyrsta tölublaðið kom út 2. nóv- ember 1913. Starfsfólki og börnum þess var fyrst boðið á leikritið um hina sívinsælu Línu Langsokk í Borgarleikhúsinu og síðan var haldið yfir götuna inn í húsa- kynni Morgunblaðsins þar sem kaffi, djús og kökur biðu gest- anna. Moggablöðrurnar voru vinsælar hjá börnunum og vita- skuld risasúkkulaðikaka með gúmmíbjörnum og smartís. Í til- efni dagsins kom einnig út blaðauki með sunnudagsblaði Morgunblaðsins þar sem fjallað var vítt og breitt um starfsemi blaðsins frá upphafi til vorra daga. Morgunblaðið/Jim Smart Haraldur Sveinsson, stjórnarformaður Árvakurs hf., útgáfufélags Morgun- blaðsins, og Hallgrímur B. Geirsson framkvæmdastjóri tóku við gjöf frá starfsfólki blaðsins, myndinni Töfraljóma eftir Marilyn Herdísi Melk. Har- aldur þakkaði fyrir og kvað velgengni blaðsins velta á góðum starfskrafti. Morgunblaðið/Jim Smart Meðal fjölmargra afmælisgesta í gær voru þau Hanna Johannessen, eigin- kona Matthíasar Johannessen, sem var ritstjóri Morgunblaðsins frá 1959 til 2000, og Þorbjörn Guðmundsson, sem var blaðamaður á Morgunblaðinu, ritstjórnarfulltrúi og síðar fulltrúi ritstjóra um áratugaskeið. 90 ára út- gáfuafmæl- inu fagnað Morgunblaðið/Jim Smart Í anddyri Morgunblaðsins biðu veitingar gestanna. Var margt um manninn og Moggablöðrurnar settu einnig skemmtilegan svip á samkomuna þegar þær svifu yfir höfðum afmælisgestanna á meðan kökur voru skornar. SAMÞYKKT var á aðalfundi Hjálp- arstarfs kirkjunnar nýverið að fulltrúar sókna sem verið hafa tengiliðir milli þeirra og Hjálpar- starfsins fái framvegis formlega setu í fulltrúaráði Hjálparstarfsins. Fulltrúaráðið hefur til þessa verið skipað af kirkjuráði og héraðsfund- um prófastsdæmanna. Heildarsöfn- unarfé og tekjur námu á síðasta starfsári 103,3 milljónum króna sem er um 29% hækkun frá fyrra ári. Anna Ólafsdóttir, fræðslu- og upplýsingafulltrúi Hjálparstarfsins, segir að með þessari breytingu fái tenglarnir meira vægi í skipuritinu svo og í samskiptum milli sókn- arnefnda og Hjálparstarfsins. Nefnd hefur starfað frá síðasta að- alfundi til að endurskoða skipulags- skrá og var m.a. samþykkt á aðal- fundinum að fara að þessari tillögu nefndarinnar. Söfnunarherferðir skila meiri tekjum Heildartekjur Hjálparstarfsins á starfsárinu, sem lauk 30. septem- ber, voru 103,3 milljónir króna. Jukust þær um 29% frá fyrra ári og segir Anna það einkum vegna betri þátttöku landsmanna í söfnunum Hjálparstarfsins. Söfnunarfé nam alls 34,7 milljónum króna, framlög styrktarmanna, sókna og presta námu 18,9 milljónum og frá stjórn- völdum komu 16,3 milljónir. Varið var 55,6 milljónum króna til verkefna á síðasta starfsári, 22,8 til þróunarverkefna, 14,9 í neyð- arverkefni og 12,4 milljónir fóru í innanlandsaðstoð auk gjafa sem metnar eru alls á um 8 milljónir króna. Þá var 5,5 milljónum varið í kynningar. Nærri 30% aukn- ing tekna frá fyrra starfsári Á ANNAN tug kvenna hefur orðið að grenna sig til að fá að gangast undir tæknifrjóvgun samkvæmt starfsreglum tæknifrjóvgunardeild- ar Landspítala – háskólasjúkrahúss, sem teknar voru upp í vor. Kona sem er 167 cm á hæð þarf nú að vera und- ir 98 kílóum svo hún fái að fara í tæknifrjóvgun. Þórður Óskarsson, yfirlæknir á tæknifrjóvgunardeild Landspítala – háskólasjúkrahúss, segir að ákvörð- unin hafi verið tekin í samráði við fæðingarlækna sem hugsi um kon- urnar á meðgöngunni. Of þungar konur fari ekki inn á biðlista fyrr en þær nái æskilegri þyngd. „Þetta at- riði skiptir það miklu máli að við höf- um ákveðið að reyna að færa þessi mál í eins gott horf og við getum áð- ur en gripið er til læknisfræðilegra aðferða til þess að hjálpa fólki að eignast börn. Þannig að læknisfræð- in rjúki ekki blindandi út í að stuðla að þungun hjá konum sem eru illa undir það búnar og hefði verið hægt að búa betur undir það.“ Kemur aðstoðar- landlækni á óvart Matthías Halldórsson aðstoðar- landlæknir segist ekki skilja hvers vegna það þurfi að vera þyngdartak- markanir í tæknifrjóvgun. „Þegar kona eignast barn á hefðbundinn hátt er ekki spurt hversu þung hún sé. Hún verður þunguð eða ekki þunguð.“ Matthías segir að honum finnist ekki rétt að auka á vanlíðan konu sem ekki geti létt sig, eða gangi það mjög illa, með því að segja henni að hún geti ekki fengið að eignast barn þar sem hún sé of þung. Hann bendir á að ekkert bendi til að þær séu verri mæður en aðrar. Bryndís Benediktsdóttir, læknir á heilsugæslustöð Garðabæjar og dós- ent við Háskóla Íslands, er varafor- maður nefndar sem sér um kærumál vegna tæknifrjóvgana. Hún segir að nefndinni hafi aðeins borist tvær kærur og í hvorugt skiptið vegna synjunar af þessum ástæðum. „Auðvitað vill maður að börn sem verða til við tæknifrjóvgun eigi eins góða framtíð og mögulegt er, að þau búi við góð kjör og að lífslíkur for- eldris og barns séu góðar. Því velur læknir ekki að koma barni í heiminn ef hann heldur að það búi ekki við bestu félagslegar aðstæður og eigi fríska foreldra. Að því leyti má segja að kröfur til foreldra í tæknifrjóvgun séu meiri en til annarra.“ Árs bið eftir glasafrjóvgun Þórður segir að um árs bið sé eftir glasafrjóvgun en biðin sé styttri í tæknisæðingu. Þær konur sem komnar hafi verið á biðlistann áður en starfsreglurnar tóku gildi haldi sínum tíma og þurfi ekki að lúta regl- unum. Verði aðgerðin ekki árang- ursrík þá komist þær ekki að á ný fyrr en búið sé að taka á vandanum. Of þungum kon- um meinað um tæknifrjóvgun LÖGREGLAN í Reykjavík hefur lagt hald á fjögur skotvopn sem var stolið í innbroti á Seltjarn- arnesi fyrir viku. Auk þess hafði þjófurinn á brott með sér áfengi, skartgripi, hljómtæki o.fl. Við rannsókn lögreglunnar kom í ljós að nágranni hafði séð til ferða manns við húsið um það leyti, sem brotist var inn. Gat hann gefið greinargóða lýsingu á manninum, sem leiddi til hand- töku. Auk skotvopnanna lagði lög- reglan hald á ýmsa aðra muni sem var stolið. Lögregla finnur stol- in skotvopn ÚTIVISTARFÓLK og eigendur sumarbústaða við mynni Seljadals hafa kvartað yfir lokun Seljadalsveg- ar, sunnan Hafravatns á milli Þing- valla og Reykjavíkur, og fara fram á það við bæjarstjórn Mosfellsbæjar að umferðarréttur fólks verði virtur á þessari fornu alfaraleið. Veginum hefur hins vegar verið lokað með hliði og girðingu og sett upp skilti sem bannar óviðkomandi umferð, segir í bréfi til bæjarstjórn- ar. Þar segir einnig að vegurinn hafi verið hefðbundin göngu- og reiðleið almennings frá ómunatíð. Vill fólkið því hafa veginn opinn án hindrana sem einhverjir einstakir landeigend- ur setja upp á veginn og er í því tilliti vísað til hinna fornu leiða Selvogs- götu og Leggjarbrjóts sem báðar fara yfir einkalönd en eru samt virt- ar sem fornar alfaraleiðir. Kvartað vegna lok- unar Seljadalsvegar FJÖLMARGIR hundar af ýmsum tegundum voru á ferð í miðborg Reykja- víkur á laugardag með eigendum sínum. Hundaræktarfélag Reykjavíkur efndi þá til árlegrar göngu hunda og manna niður Laugaveginn, frá Hlemmtorgi að Ráðhúsi Reykjavíkur. Einnig var efnt til svipaðrar uppá- komu á Suðurnesjum og Akureyri. Morgunblaðið/Árni Torfason Hundar og menn í miðborginni

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.