Morgunblaðið - 07.08.2004, Blaðsíða 39

Morgunblaðið - 07.08.2004, Blaðsíða 39
MINNINGAR MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 7. ÁGÚST 2004 39 ýmsu sem átti svo eftir að verða fast- ur liður næstu 18 árin. Ég minntist á það við hana, þá nýbyrjuð að búa, að mig langaði svo í einhver stofublóm og að læra að sinna þeim. Ekki liðu nema nokkrir dagar þar til Nína var mætt með tvo fallega afleggjara og mörg góð ráð um umhirðu þeirra. Þessi blóm döfnuðu vel og glöddu mig í nokkur ár með aðstoð hennar. Á hverju einasta hausti kom Nína færandi hendi með nýsoðið slátur og rófustöppu og stundum með svið. Fyrir hver einustu jól kom hún með einhvern glaðning, smákökur, hýas- intuskreytingu og alltaf með kökuna sína sem á mínu heimili hefur bara heitið „Nínukaka“. Fyrir hverja páska kom svo „Nínukakan“ og jafn- vel smákökur. Og Nína færði mér ekki þessar gjafir af einhverri vor- kunnsemi eða skyldurækni, heldur vegna þess að það að fá að gefa gladdi hana jafn mikið og það gladdi mig að þiggja gjafir hennar. Hún hafði einstakt lag á að sannfæra mig um þessa staðreynd og þess vegna tók ég með glöðu geði við öllum hennar góðu gjöfum því ég vissi vel hvað að baki bjó. Mér eru margir atburðir minnis- stæðir með Nínu. Fljótlega eftir að kynni okkar hófust fór Nína til út- landa. Þegar heim kom færði hún mér bleikan fallegan bol sem þá var mikið í tísku og bolinn á ég ennþá þó slitinn sé og ákvað fyrir löngu að hann væri eitt af því sem ég geymi til minningar um einstæða konu. Þegar hún svo heimsótti mig fyrir tveimur árum, í tilefni þess að ég var þá flutt í eigin íbúð, fórum við að rifja upp hvernig kynni okkar hófust og þá barst bleiki bolurinn í tal. Ég sagði Nínu sem satt var að hann væri nú orðinn ónothæfur sökum slits og elli. Ekki liðu nema nokkrir dagar þar til Nína kom færandi hendi, með glæ- nýjan fagurrauðan bol. Nína var á margan hátt mjög sér- stök kona og það var einkum tvennt sem vakti aðdáun mína. Annars veg- ar var það sú staðreynd að ég heyrði hana aldrei leggja illt orð til nokkurs manns og oft hef ég hugsað að fleiri mættu taka sér þann kost til fyrir- myndar. Hins vegar var hún svo gjörsamlega fordómalaus gagnvart fötluðum og andlega vanheilum og það sýndi hún mér beinlínis í verki. Sýn hennar á mannlífið innihélt með- al annars þá skoðun að samfélagið samanstæði af eins mismunandi fólki og það væri margt. Hver og einn hefði sín sérkenni, sumir væru veik- ir, sumir fatlaðir, en enginn í allri þessari flóru væri öðrum æðri, allir ættu rétt á virðingu og skilningi. Hennar frábæra lífssýn náði í raun yfir allt sem lifði og þar með talið dýrin. Ekki töluðum við svo saman að hún spyrði ekki um kettina mína og hvernig þeir hefðu það. Eitt skýr- asta dæmið um þá umhyggju sem Nína bar fyrir dýrunum er kannski þegar hún hringdi í mig eitt síðkvöld til að trúa mér fyrir áhyggjum sínum af kettinum á efri hæðinni þar sem hún bjó. Eigandi kattarins var veik- ur á sjúkrahúsi og kisi var því einn heima. Hann mjálmaði af leiðindum og Nína sat löngum stundum fyrir utan dyrnar hans og reyndi að spjalla við hann og róa hann. Hún vildi vita hvort ég, vanur kattaeig- andinn, gæti gefið sér fleiri ráð til að gleðja dýrið. Uppeldi hennar og reynsla í barn- æsku gerði það eflaust að verkum að hún var sérlega umburðarlynd og réttsýn kona. Oft sagði hún mér sögur af Kleppi og mannlífinu þar á uppvaxtarárum sínum. Hún talaði ætíð mjög hlýlega um sjúklingana og var þess fullviss að kynni hennar af þeim hefðu kennt henni heilmargt. Mikið á ég eftir að sakna Nínu og heimsókna hennar sem hafa verið fastur liður síðastliðin 18 ár. Dóttur hennar, tengdasyni, barna- börnum og öðrum ættingjum votta ég samúð mína í sorg og söknuði. Guð blessi minningu mætrar konu. Ágústa Gunnarsdóttir. Það er hásumar þegar Dídí kveð- ur. Hún var sem hlýr en ákveðinn sumarblær. Frá því ég man fyrst eft- ir henni á Sundlaugaveginum er ég tveggja og hálfs árs dvaldi þar hjá þeim hjónum, Trausta og henni, hef- ur hún verið mér sem stoð og stytta. Mér fannst hún ávallt rammíslenzk þó að hálfdönsk væri í móðurætt og franskt, ítalskt og mið-evrópskt blóð rynni þaðan í æðum hennar. Faðir hennar var norðlenzkur og hún bar þess mjög merki að af húnvetnsku kyni væri enda hélt hún ávallt mikilli tryggð við norðlenzka frændur og frænkur. Reyndar var Dídí hálfgerð miðstöð okkar yngri frændsystkina um ætt okkar hvort sem um var að ræða íslenzku eða dönsku ættar- greinina því tengsl hennar við ætt- menni okkar var sterk. Það fennti ekki auðveldlega í sporin hjá henni. Hún var okkar Auður djúpúðga. Hún vissi hvaðan hún kom og hver hún var og bar þess mjög merki í öllu fasi og fari. Trausti og hún náðu vel saman og samvera mín með þeim hjónum og Kristínu hefur verið mér mikils virði síðan. Líklega hefur Trausti komið inn því litla vísindalega þenkjandi elementi sem ég hef eftir að ég um- gekkst hann hér áður því ekki fór á milli mála hve mikill afbragðs vís- indamaður hann var og á ég honum og þeim hjónum þar mikið að þakka. Hver einstök heimsókn á Sundlauga- veginn var sérstök, engin var eins og sú á undan eins undarlegt og það er. Í júlí 1959 fórum við fjögur, Dídí, Trausti, Kristín og undirritaður saman í ógleymanlega sumarferð í 2 vikur er ég var 7 ára á rússajepp- anum um Norðurland. Sú ferð er ein- hver hin skemmtilegasta sem ég hef farið. Nú að leiðarlokum sendi ég Krist- ínu og fjölskyldu hennar mínar inni- legustu samúðarkveðjur. Dídí og Trausti kvöddu í júlí, fæð- ingarmánuði einkadóttur sinnar og verður minning þeirra mér sem há- sumarsbirta. Úlfur Agnarsson. Það væri auðvelt að skrifa heila bók um Dídí því að hún var stórkost- leg. Að koma til skila í fáum orðum hversu einstök hún var er mun erf- iðara. Mamma og Dídí voru vinkonur frá því þær voru sjö ára. Þær kynntust í Laugunum, mamma bjó á Reykjum við Sundlaugaveg og Dídí á Kleppi, þar sem faðir hennar var yfirlæknir. Þar var Dídí í miðið af sjö börnum, þrír eldri bræður og þrír yngri. Vafalaust hefur oft mikið gengið á þar á bæ. Mamma var þar heima- gangur og sagði hún ótal skemmti- legar sögur frá þeim tíma. Vinátta þeirra var strax kær og þær voru ekki háar í loftinu þegar þær ákváðu að skíra fyrstu dótturina í höfuðið á hinni. Ég sé þær fyrir mér, liggjandi í háu grasi, horfandi á skýin, að láta sig dreyma um fram- tíðina. Það er ómögulegt að vita hvað þær dreymdi um, annað en dæturn- ar, en víst er að þær hafa ekki gert sér grein fyrir hve litlu maður ræð- ur. Þær hefðu getað átt tóma stráka. Ég er svo heppin að vera elst og er afar stolt af að hafa fengið nafn hennar. Fyrir vikið hefur mér alla tíð síðan fundist ég vera algert eftirlæti – og ekki slæmt það. Nú trúi ég því að hún sitji þarna uppi með öllum hinum verndarenglunum mínum. Dídí eignaðist sína einu dóttur mörgum árum síðar, Kristínu Höllu. Hún fékk nafn föðurömmu sinnar og alnöfnu. Dídí tókst því ekki að nefna dóttur eftir mömmu en það gerði svo seinna Kristín Halla. Kærleiksteikn sem yljaði okkur öllum. Samband þeirra mæðgna var náið og átti fjöl- skylda Kristínar stærstan hluta úr stóru hjarta Dídíar. Vinátta Dídíar náði til okkar allra systranna. Hún fylgdist alltaf með okkur og fjöl- skyldum okkar og hafði áhuga á því sem við vorum að gera. Hún var svo hrein og bein, þar var ekkert kyn- slóðabil. Börn hændust að henni enda var hægt að tala við hana um allt. Hún fylgdist svo vel með að ekki einu sinni Pokemondella smástrák- anna var út af dagskrá. Börnunum mínum þótti vænt um hana og nú barnabörnunum. Vinkonum mínum fannst hún líka frábær. Hún var svo dæmalaust fróð og áhugasöm um margt og svo skemmtileg. Skelfing verður skemmtilegu símtalanna við hana saknað. Dídí var mikil félagsvera. Hún naut þess að hafa fólk í kringum sig og bjóða heim. Ein setning höfð eftir móður hennar, frú Sveinsson, verður lengi í minnum höfð og verður okkur systrum oft að orði: „Skal det være gilde så lad det være gilde.“ Dídí var hörkudugleg, góð og hjálpsöm. Hún fór allra sinna ferða fótgangandi eða í strætó. Einhvern tíma lét hún sig ekki muna um að koma með strætó vestur í bæ og passa börnin mín veik, svo ég kæm- ist til vinnu. Hún var óþreytandi að heimsækja sjúka og las t.d. reglu- lega fyrir blinda konu. Eftir lærbrot í vetur fékk hún heimilishjálp en var hætt því, henni fannst ómögulegt að þiggja það, hún gæti þetta svo vel sjálf, það væri bara ágætis leikfimi – 89 ára. Hún naut þess að vinna í garðinum sínum. Ánægjulegt til þess að vita að bara fyrir nokkrum dögum var hún í góða veðrinu að „róta í moldinni“ eins og hún sagði. Ég kveð með eftirsjá þessa mögn- uðu nöfnu mína sem alltaf var svo stór hluti í lífi mínu og hefur verið mér fyrirmynd í svo ótal mörgu. Nína. „Nu har vi jul igen … og julen var- er helt til påske“ sungum við og dönsuðum í kringum jólatréð um hver jól hjá Dídí frænku að hætti dönsku forfeðranna. Jól og páskar eru samofin minningunni um Nínu Þórðardóttur sem ég kveð nú með miklum söknuði en jafnframt kæru þakklæti fyrir vináttu og virðingu sem hún ávallt sýndi mér og fjöl- skyldu minni. Eiginmaður minn og bræður hans voru Nínu sem synir þó að bræðrasynir væru og börn þeirra sem hennar barnabörn. Dídí frænka var einstök kona, frændrækin mjög og í mun að við- halda hefðum fjölskyldunnar. Hún var einstaklega rausnarleg og gest- risin og naut þess að bjóða vinum og vandamönnum til sín. Hún prjónaði yndislegar peysur – hrein listaverk – handa yngstu kynslóðinni og voru Nínupeysur víðfrægar! Við eigum ógleymanlegar minningar frá skemmtilegum jóla- og páskaboðum en það voru forréttindi að fá að deila þessum hátíðisdögum með Dídí frænku, Kristínu dóttur hennar, Jóni tengdasyni og börnunum. Nína var svo stolt af fjölskyldu sinni og fylgd- ist alltaf mjög vel með því sem barnabörnin tóku sér fyrir hendur í leik og starfi. Nína hafði ávallt ákveðnar skoð- anir á mönnum og málefnum og tjáði hug sinn afdráttarlaust en hún hafði þá dýrmætu hæfileika að virða skoð- anir annarra og meta fólk á eigin for- sendum. Hún sýndi unga fólkinu virðingu og umburðarlyndi og hún hlustaði. Við ræddum um börnin, bóndarósirnar og öll hin blómin okk- ar, sund, útivist og ferðalög um land- ið – núna í síðasta sinn fyrir nokkr- um dögum þegar ég var svo lánsöm að sitja við hlið hennar í matarboði. Ég er þakklát fyrir þetta síðasta spjall okkar en hefði svo sannarlega kosið að samverustundirnar yrðu fleiri. Ég bið Guð að blessa minningu Nínu Þórðardóttur og ég þakka henni ánægjulega samfylgd. Krist- ínu, Jóni, Nínu Björk, Ingimari, Helgu Völu og litlu Gabríelu lang- ömmubarni votta ég innilega samúð mína. Ásta G. Briem. Það er með miklum söknuði sem ég kveð hana Dídí frænku. Hún var afasystir mín, eina systirin í hópi 6 bræðra og sannkölluð ættmóðir. Dídí tóku allir mark á, hennar skoð- anir voru vel ígrundaðar og leituðu ófáir fjölskyldumeðlimir til hennar þegar þeir þurftu á góðum ráðgjafa að halda. Hún var líka með eindæm- um ættrækin, smalaði fjölskyldunni saman í sín frægu kaffiboð þar sem hún bar á borð svo fjölbreyttar kræsingar að enginn fór nokkurn tíma svangur heim. Það lék allt í höndunum á henni og myndarskap- urinn var rómaður um bæinn. Hún gaukaði að manni sultukrukkum, sultuðum sveppum, fínasta heima- gerða jólaskrauti og svo auðvitað alls konar ráðleggingum um lífið og til- veruna. Henni var mjög umhugað um að fólkið sem henni þótti vænt um væri hamingjusamt og var vel að sér um hagi allrar sinnar stóru fjöl- skyldu. Þótt aldurinn færðist yfir varð aldrei nein teljandi breyting á Dídí, hún var alltaf til staðar, alltaf jafnkraftmikil og dugleg. Það má því segja að hún skilji eftir sig stórt skarð, sem erfitt er að fylla. En kannski má líka segja að þar sem hún er nú hafi hún enn betri aðstöðu til að halda verndarhendi yfir fólkinu sínu. Steinunn Þórðardóttir. Sorg og söknuður fyllti hug minn er ég frétti lát elskulegrar vinkonu minnar Nínu Þórðardóttur, Dídíar, snemma á sunnudagsmorgun þann 25. júlí sl. Samtal okkar frá deginum áður var mér þá og er mér enn svo hugstætt. Það er margs að minnast, langrar og góðrar vináttu bæði í blíðu og stríðu. Við vorum ungar og hressar saumaklúbbsvinkonur þegar við ákváðum að ganga í Kvenfélagið Hringinn á 40. afmælisári hans. Það var árið 1944, en það ár hafði verið ákveðið að koma upp Barnaspítala Hringsins og vildum við, sauma- klúbburinn, leggja okkar af mörkum til að svo mætti verða, enda þörfin brýn. Dídí lét víðar gott af sér leiða, þær voru t.d. ófáar ferðir hennar á Blindraheimilið þar sem margir nutu leiðsagnar hennar og stuðnings. Dídí naut útivistar og ferðaðist víða með eiginmanni sínum, Trausta Einarssyni prófessor, á rannsóknar- ferðum hans um Ísland. Hún var áhugasöm, fróð og skemmtileg, góð- ur ferðafélagi og traustur vinur. Þessa fengum við vinir hennar einn- ig að njóta, þar sem leiðir okkar lágu víða saman um langan æviveg. Dídí var svo lánssöm að eignast yndislega dóttur, Kristínu og síðar tengdasoninn Jón. Þau, og börn þeirra, voru augasteinar hennar, stoð og stytta. Elsku Kristín, við vottum þér og fjölskyldu þinni innilega samúð okk- ar og kærri vinkonu biðjum við guðs blessunar. Anna og Hannes. Hún Nína hefur nú kvatt þennan heim. Við kynntumst Nínu fyrir þremur árum þegar við fluttum inn í risið. Duglegri og yndislegri mann- veru höfðum við ekki áður kynnst. Hún Nína var góðmennskan upp- máluð og reyndist okkur afar vel. Við söknum hennar mikið en núna líður henni vel. Síðasta sumar færði hún mér marsipankökuna sína góðu á sængina þegar Soffía fæddist, hún hugsaði alltaf svo vel til okkar. Garð- urinn var hennar yndi enda lagði hún mikla rækt við hann, sérstaklega var hún stolt af bóndarósinni. Við mátt- um ekkert hjálpa til en Pétur fékk að slá garðinn. Mikið var hún þakklát fyrir það, bauð okkur í töðugjöld eft- ir síðasta slátt í fyrra og leysti okkur út með gjöfum. Svona var hún Nína. Berglindi fannst svo gaman að fá að banka upp á hjá Nínu því hún var alltaf svo góð við hana og sýndi henni áhuga. Elsku Nína, við kveðjum þig með sárum söknuði en höldum fast í allar okkar góðu minningar af Sundlauga- veginum. Elsku Kristín, Jón, börn og barna- barn, guð styrki ykkur í sorginni. Íbúarnir í risinu, Hafdís, Pétur, Berglind og Soffía. Elskulegur eiginmaður minn, JÓN SIGMUNDSSON frá Einfætingsgili, verður jarðsunginn frá Hólmavíkurkirkju í dag, laugardaginn 7. ágúst, kl. 14.00. Blóm og kransar eru vinsamlegast afþakkaðir. Jarðsett verður í Óspakseyrarkirkjugarði. Fyrir hönd vandamanna, Elín Gunnarsdóttir. Okkar ástkæri eiginmaður, faðir, sonur, bróðir, mágur og tengdasonur, SVEINN SIGURÐSSON, Grasarima 1, Reykjavík, lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi fimmtudaginn 5. ágúst. Jarðarförin auglýst síðar. Sigurbjörg Ágústsdóttir, Ágúst Sveinsson Guðríður Sveinsdóttir, Guðjón Böðvarsson, Böðvar Eggert Guðjónsson, Hendrikka Waage, Jóhann Pétur Guðjónsson, Berglind Rut Hilmarsdóttir, Ágúst Bergsson, Stefánía Guðmundsdóttir, Bergur Elías Ágústsson, Bryndís Sigurðardóttir. Hjartkær móðir okkar, tengdamóðir, amma og langamma, HELGA HRÖNN UNNSTEINSDÓTTIR, Hrísalundi 12 D, Akureyri, lést á FSA mánudaginn 2. ágúst sl. Sálumessa verður í Kaþólsku kirkjunni, Eyrar- landsvegi 26, Akureyri, þriðjudaginn 10. ágúst kl. 14.00. Jarðsett verður í Kaupangskirkjugarði í Eyjafirði. Hugrún Sif Hermannsdóttir, Valgeir Þórbergur Gunnarsson, Helgi Vilberg Hermannsson, Soffía Sævarsdóttir, Rannveig Helgadóttir, Ýr Helgadóttir, Hlynur Þór Jensson, Helgi Vilberg Helgason, Vala Þöll Valgeirsdóttir, Sævar Darri Sveinsson.
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56
Blaðsíða 57
Blaðsíða 58
Blaðsíða 59
Blaðsíða 60

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.