Morgunblaðið - 27.09.2004, Page 22

Morgunblaðið - 27.09.2004, Page 22
22 MÁNUDAGUR 27. SEPTEMBER 2004 MORGUNBLAÐIÐ MINNINGAR ✝ Emilía Kristínfæddist í Reykja- vík 1. maí 1943. Hún lést á sjúkrahúsi í Kaupmannahöfn föstudaginn 17. sept- ember síðastliðinn. Foreldrar hennar voru hjónin Agnar Eldberg Kofoed- Hansen flugmála- stjóri, f. 3. ágúst 1915, d. 23. desember 1982, og Björg Ax- elsdóttir Kofoed- Hansen, f. 24. júlí 1918. Systkini Emilíu eru: Astrid Björg, f. 4. desember 1939, Hólmfríður Sólveig, f. 20. júní 1941, Sophie Isabella Lætitia, f. 6. október 1945, Björg Sigríður Anna, f. 18. júlí 1948 og Agnar, f. 7. apríl 1956. Emilía giftist 3. apríl 1971 Constantin Lyberopoulos, stór- kaupmanni og aðalræðismanni Ís- lands í Grikklandi. Foreldrar hans voru hjónin Ioannis Lyberopoulos og Irini Lyberopoulos sem bæði eru látin. Börn Emil- íu og Constantins eru: a) Yannis Eld- berg, f. 23. febrúar 1972, kvæntur Ðespinu Matth- eopoulou, f. 5. júlí 1971, dóttir þeirra Emilía, f. 31. júlí 2000. b) Irena Franz- iska, f. 22. mars 1975. Emilía lauk námi frá Húsmæðrakenn- araskóla Íslands 1964 og starfaði einn vetur sem kennari á Laugalandi í Eyjafirði, síðan hjá Loftleiðum þar til hún fluttist til Grikklands árið 1971. Emilía var húsmóðir og ræðismaður Íslands í Grikklandi, vann ásamt eigin- manni sínum að hagsmunamálum Íslendinga þar og annaðist marg- víslega fyrirgreiðslu fyrir landa sína. Útför Emilíu verður gerð frá Dómkirkjunni í dag og hefst at- höfnin klukkan 15. Elsku amma Emma. Mér er sagt að þú sért komin til Guðs og sért björt stjarna á himn- inum. Mig langar að sýna þér sniglana sem ég bjó til úr leir og regnbogann sem ég teiknaði fyrir þig. Ég legg það við gluggann í nótt og vona að þú sjáir það. Þegar himinninn er heiður þá get ég vinkað til þín. Ég mun alltaf sakna þín. Þín ömmustelpa í Grikklandi, Emilía. Það eru mikil forréttindi að fá að alast upp í stórum systkinahópi. Þó að fimm ár hafi verið á milli mín og Emmu náðum við vel saman síðustu árin okkar í foreldrahúsum. Við ferð- uðumst saman til útlanda og haustið 1969 ákváðum við að fara til Grikk- lands. Það þótti mikil dirfska því her- foringjastjórn ríkti þar og ekki marg- ir ferðamenn sem lögðu leið sína þangað á þeim tíma. Emma var þá að vinna sem hlaðfreyja á Keflavíkur- flugvelli og stuttu áður en við lögðum upp í ferðina hitti hún Constantin sem hún hafði kynnst lauslega nokkr- um árum áður. Þegar við komum til Grikklands höfðum við samband við hann og hann tók okkur upp á arma sína og ók okkur á alla helstu sögu- staði landsins í gulum Alfa Romeo- sportbíl. Þetta var ógleymanleg ferð. Þarna voru örlög Emmu ráðin og rúmu ári seinna gengu þau í hjóna- band. Emma var strax ákveðin í því að til- einka sér gríska hætti og var fljót að ná tökum á grískri tungu. Þegar von var á frumburðinum vorum við systur hennar að þrýsta á hana að fæða barnið á Íslandi í þeirri von hann þyrfti ekki að fara í herinn. Hún sagði þá að sonur hennar yrði aldrei sannur Grikki ef hann færi ekki í herinn en þegar að því kom að hann þurfti að gegna herskyldu þá fóru að renna á hana tvær grímur eins og aðrar mæð- ur í sömu sporum. Hún virti skoðanir og trúarbrögð Grikkja en var alltaf trú sínum ís- lenska uppruna og hélt góðum tengslum við landið. Hún var góður fulltrúi Íslands og óþreytandi við að aðstoða landa sína í Grikklandi og kynna Ísland fyrir Grikkjum jafnt áð- ur og eftir að hún varð ræðismaður. Ekki veit ég til þess að nokkur Ís- lendingur hafi farið bónleiður til búð- ar sem leitaði til hennar í Grikklandi. Við systkini hennar, makar okkar og börn vorum aufúsugestir hjá henni. Emma naut gríska sumarsins og henni leið best við ströndina í Voul- iagmeni. Þar bjuggu þau alltaf á sumrin í fallegri og bjartri íbúð með útsýni yfir ströndina, fjöllin og eyj- arnar. Henni fannst hún þurfa að koma reglulega ,,heim“ til Íslands en var fljótlega komin með heimþrá til Grikklands. Í sumar þegar hún fann að hún var að missa tökin einsetti hún sér að ná því að vera í Grikklandi fram yfir Ólympíuleikana og koma svo heim til Íslands. Hún ákvað snemma að hún vildi bera beinin hérna og lét taka frá fyrir sig grafreit þegar faðir okkar var jarðsettur1982. Góðar minningar hrannast upp og ég er þakklát fyrir þær. Björg Kofoed-Hansen. Þegar ég nú kveð Emilíu mágkonu mína eftir kynni sem hafa staðið í yfir þrjátíu ár og aldrei borið skugga á, langar mig til að varpa örlitlu ljósi á það mikla starf sem hún innti af hendi fyrir okkur landa sína í því landi sem hún valdi sem heimkynni sín meira en hálfa ævina. Það var oft áhugavert að fylgjast með Emmu í hlutverki ræðismanns- ins. Til hennar var leitað með hin ótrúlegustu erindi, bæði þau sem komu héðan að heiman jafnt og hin sem komu upp á staðnum. Minnis- stætt er þegar við komum í heimsókn fyrir þremur árum þá var hún önnum kafinn við að aðstoða tvo unga menn sem voru á stúdentaferðalagi um S-Evrópu og höfðu orðið fyrir því áfalli að missa nákominn ættingja hér heima. Eftir ábendingu aðstandenda voru þeir komnir í samband við Emmu sem ekki aðeins var búin að tryggja þeim sæti í flugi frá Krít næsta dag, heldur nutu þeir einnig húsnæðis og matar auk þess sem hún talaði í þá kjarkinn. Næsta dag var nýtt verkefni en þá var mætt grísk kona, þýðandi sem var að búa ís- lenska barnabók til útgáfu á grísku. Þar sem hún var að vinna verkið út frá ensku útgáfunni hafði hún beðið Emmu útvega sér frumútgáfuna, lesa hana og aðstoða sig og útskýra frá sjónarhóli Íslendings ýmislegt sem skrifað var og skírskotaði til al- þýðutrúar okkar. Yfir þessu sátu þær lengi dags. Þriðja daginn sem við vor- um þarna hvarf Emma af vettvangi því íslenskur kvikmyndatökumaður hafði óskað liðsinnis hennar í tengslum við gerð auglýsingamyndar og var sú aðstoð sem annað veitt með glöðu geði. Svona liðu flestir dagar sem við áttum með henni og er þá ónefndur undirbúningur fyrir opin- bera heimsókn forseta Íslands sem þá stóð fyrir dyrum. Þar sem ekkert sendiráð er í Grikklandi mæddi óhjá- kvæmilega mikið á þeim hjónum, sem aldrei var talið eftir enda þeim bæði heiður og ánægja að fá að taka þátt. Við Björg komum síðast til Emmu í lok júní sl. og þrátt fyrir að veikindin væru farin að hafa veruleg áhrif á hreyfigetu hennar var viljinn og and- legur styrkur ekki minni en áður. Þá voru henni eins og flestum þar í landi ofarlega í huga væntanlegir Ólympíu- leikar. Emmu var mjög umhugað um að geta opnað heimili sitt fyrir Þor- gerði Katrínu menntamálaráðherra til móttöku fyrir íslensku þátttakend- urna og fleiri gesti. Það var þegið og okkur er tjáð af gestum að móttakan hafi eins og við mátti búast verið bæði höfðingleg og tilfinningarík og fyrst og fremst einkennst af umhyggju húsráðenda fyrir gestgjafanum og hennar gestum. Þegar ég kvaddi Emmu hinn 7. júlí var ég þess fullviss að andlegur styrk- ur hennar og meðfædd seigla myndu duga henni vel enn um sinn og hún gæti komið hingað snemma hausts eins og hugur hennar stóð til. Því mið- ur náði hún ekki því takmarki en minningin lifir um eftirminnilega konu og glæsilegan fulltrúa þjóðar okkar í framandi landi. Guð blessi minningu Emmu. Þórður Jónsson. Íslensk utanríkisþjónusta hefur í meira mæli en aðrar reitt sig á þjón- ustu kjörræðismanna. Með þessu móti hefur tiltölulega fáliðað ráðu- neyti og dreifð sendiráð getað byggt upp samskiptanet sem teygir sig um allan heim. Kjörræðismenn Íslands hafa víða unnið fórnfúst starf og verið boðnir og búnir til þess að leysa vanda gestkomandi Íslendinga. Þeir hafa lagt hart að sér við að kynna Ís- land sem ferðamannaland, verið sendiráðum til ráðgjafar í samskipt- um við þarlend stjórnvöld og greitt götu íslenskra fyrirtækja sem hafa viljað hasla sér völl á erlendum mörk- uðum. Nú er fallin í valinn einn af þessum vösku framherjum íslenskrar utan- ríkisþjónustu. Emilía Kofoed- Hansen Lyberopoulos var skipuð vararæðismaður í Aþenu árið 1985. Eiginmaður hennar Constantin Lyberopoulos hafði þá verið aðalræð- ismaður frá 1972 og hafði Emilía tek- ið virkan þátt í störfum skrifstofunn- ar löngu áður en hún fékk formlega skipun. Störf ræðisskrifstofu í höfuð- borg vinveitts ríkis og bandamanns, sem að auki er mikilvægur markaður og vinsæll áfangastaður íslenskra ferðamanna, eru umfangsmikil. Gest- risni og fyrirgreiðsla þeirra góðu hjóna var rómuð. Ég átti sjálfur þess kost að sækja þau heim á leiðtoga- fundi Evrópuríkja á síðasta ári og skemmst er að minnast nýafstaðinna Ólympíuleika þar sem þau hjónin enn á ný lögðu sig fram sig til hjálpar ís- lensku fulltrúunum. Það er sérstakt og sjaldgæft þegar bestu eiginleikar tveggja þjóða koma saman á einu heimili og mynda eðlilegan tengilið milli þeirra. Það fylgdi Emilíu einhver lífsorka og sólarbirta sem auðveldara er að tengja við Miðjarðarhafið bláa en Dumbshaf norðurhvels. Hún undi sér enda vel í Aþenu, skapaði sér þar fal- legt heimili og undi sér þar sem inn- fædd væri. En taugin heim var alltaf sterk og þegar erfið veikindi herjuðu á var það efst í huga hennar að fá að komast heim til Íslands. Það var átak- anlegt að fylgjast með því að það skyldi ekki takast í tæka tíð en heim komst hún að lokum. Utanríkisþjón- ustan vottar fjölskyldu Emilíu samúð og þakkar vel unnin störf undanfarna áratugi. Það er bjart yfir minningu hennar og á þessum degi veit ég að fjölmargir samstarfsmenn nær og fjær munu hugsa hlýtt til hennar í virðingu og þökk. Gunnar Snorri Gunnarsson. Einsog ævinlega þegar fólk fellur frá á besta aldri, voru tíðindin um andlát Emilíu Kofoed-Hansen Lyb- erópoulos þungbær, þó vitað væri að hún átti við erfið og lífshættuleg veik- indi að stríða síðustu árin. Hún lést í Kaupmannahöfn 17da september á leið til ættjarðarinnar, en entist ekki aldur til að ná heim til aldraðrar móð- ur og systkina. Börn hennar tvö, Jannís og Írena, voru hjá henni hinstu stundirnar, en eiginmaðurinn, Konstantín, komst ekki í tæka tíð til að kveðja hana. Er nú sár harmur kveðinn að ættingjum og venslafólki í Grikklandi jafnt sem á Íslandi, og þá einkanlega Jannís og Írenu, tengda- dótturinni Despínu og litlu sonardótt- urinni, Emilíu. Björg móðir hennar á líka um sárt að binda ásamt dætrum sínum og syni. Sendum við Ragnhild- ur öllum þessum ættingjum sem og öðrum syrgjendum okkar innilegustu samúðarkveðjur. Á síðustu áratugum hafa Íslend- ingar í æ ríkara mæli lagt leið sína til Grikklands í stærri og smærri hóp- um. Margir þessara Grikklandsfara áttu sér öruggt athvarf hjá íslensku ræðismannshjónunum, Konstantín og Emilíu Lyberópoulos, þegar eitt- hvað bjátaði á. Voru þau jafnan reiðubúin að greiða götu þeirra fjöl- mörgu Íslendinga sem til þeirra leit- uðu og leysa hverskyns vanda sem upp kunni að koma, og gat verið ótrú- lega margvíslegur. Var gestrisni þeirra, örlæti og hjálpsemi orðin að orðstefi meðal hérlendra Grikklands- fara og ekki síður í hópi þeirra ís- lensku kvenna sem staðfest hafa ráð sitt þar syðra. Til marks um stórauk- in samskipti Grikkja og Íslendinga á þessu skeiði má meðal margs annars hafa, að nú munu um þrjátíu íslensk- ar konur vera giftar í Grikklandi, en slík hjónabönd voru nálega óþekkt fyrir fjórum áratugum. Ég hafði þekkt Konstantín, systk- ini hans og foreldra í tæp tíu ár áður en þau Emilía kynntust, enda var hann ásamt fleiri grískum fiskkaup- mönnum árlegur gestur hér á landi og vel kynntur fyrir létta lund, orð- heppni, framtak og dugnað. Foreldr- ar hans voru mikil sómahjón, góðvilj- uð og gestrisin, og áttu það til að bjóða heilum hópum Íslendinga í fín boð þegar því var að skipta. Þegar Konstantín tók við fyrirtæki föður síns hélt hann uppteknum hætti, og þá einkanlega eftir að Emilía kom til sögunnar 1971. Var mál þeirra sem til þekktu, að hún hefði strax unnið hjarta stórlyndrar og stórskemmti- legrar tengdamóður. Urðu þær strax miklar vinkonur. Ég var með annan fótinn í Grikk- landi öll þau ár sem Emilía bjó þar og naut hjálpsemi og gestrisni þeirra hjóna oftar en tölum verði talið. Var ekki ótítt að þau tækju mig og fjöl- skylduna inná heimilið þegar mikið lá við, og vitanlega var gestaíbúðin í Voulíagmení fyrir sunnan Aþenu til reiðu jafnt fyrir mig sem ýmsa ís- lenska fræðimenn þegar þeir dvöld- ust þar syðra um lengri eða skemmri tíma. Þau hjónin áttu tvær aðrar íbúðir í Voulíagmení þarsem þau dvöldu á sumrin (önnur þeirra var ætluð for- eldrum og systkinum Emilíu). Aðal- heimilið var hinsvegar í hverfinu Psyhjíkó í hlíðum Lýkabettos-hæðar í miðri Aþenu, fyrst í glæsilegu fjöl- býlishúsi, en frá 1997 í lítilli ‘höll’ sem þau reistu í sama hverfi og gerðu nán- ast að listasafni. Svo vildi til að höllin var ‘vígð’ að viðstöddum íslenskum ferðamannahópi. Þau Emma og Kostas, einsog þau voru nefnd í daglegu tali, voru ákaf- lega samrýnd og samhent, enda var Emma hvers manns hugljúfi, sér- kennilega hlý í viðmóti, nærgætin, skilningsrík, þolinmóð, hlédræg og hjálpsöm. Var ævinlega hátíðlegt að sækja þau hjónin heim í Aþenu eða Voulíagmení, því allt þeirra umhverfi bar vitni látleysi og smekkvísi. Vinfesti er eitt af helstu þjóðarein- kennum Grikkja, og þann eiginleika átti Emma í ríkum mæli, sem vafa- laust hefur auðveldað henni að sam- sama sig grísku þjóðarþeli og sam- félagi svo farsællega sem hún gerði. Ég verð ævinlega þakklátur fyrir að hafa eignast vináttu hennar og bið al- mættið að lina þá djúpu sorg sem nú steðjar að eftirlifandi eiginmanni, börnum, barnabarni, móður og systk- inum. Blessuð sé minning öðlings- konu. Sigurður A. Magnússon. Elsku Emma mín. Hjartkær vinkona mín. Þakka þér fyrir allan þann tíma sem við áttum saman. Ekki síst þann drjúga áratug þegar við fjölskyldan bjuggum í Aþenu. Minningin um þig, þitt hlýja viðmót, fallega bros, hugprýði, hjálp- semi, tryggð og svo æðruleysi þitt í baráttu þinni við erfiðan sjúkdóm, mun ætíð lifa hjá mér. Elsku Emma mín, með sorg og söknuði kveðjum við þig. Hvíl í friði. Elsku Kostas, Jannis, Irini, Björg og fjölskyldur, megi góður Guð styrkja ykkur og hugga. Ykkar Helga, Mikael, Ilias Ikaros, Jannis og Tassos. Í dag kveð ég konu sem var mér eins og móðir árin sem ég dvaldi í Grikklandi og hefur verið það æ síð- an. Emma bjó yfir hugarró og and- legu jafnvægi sem smitaði út frá sér þannig að maður fann til öryggis í ná- vist hennar. Það var að mörgu leyti henni að þakka að Grikkland varð mitt annað heimaland sem ég gat aldrei slitið mig frá. Heimili hennar stóð mér og mínum ávallt opið, enda var gestrisni hennar og hlýja alkunn. Börnin hennar, Janni og Írena, eru enn í dag kærir vinir mínir. Sendi ég þeim og Kostasi föður þeirra hug- heilar samúðarkveðjur við þessi tíma- mót. Ég er ríkari maður eftir kynni mín af Emmu og þakklátur fyrir sam- fylgdina sem varð styttri en ég hafði vonað. Blessuð sé minning hennar. Sigurður Páll Sigurðsson og fjölskylda. Hver vegur að heiman er vegurinn heim. Heim til ættjarðarinnar, heim til föðurhúsanna eða heim til þess er öllu ræður. Hver ferð hefur sín endalok. Þegar ævintýrin kalla og lífið er framundan er fátt sem aftrar því að tekist sé á við spennandi tækifæri. Fyrir réttum 40 árum tók undirrituð þá ákvörðun að fara til Parísar til árs- dvalar. Það sama haust hafði Emma tekið að sér starf við íslenska sendi- ráðið í París. Við vorum kynntar fyrir hvor annarri í byrjun dvalar þar sem stutt var á milli bústaða. Frá þeirri stundu hefur sá þráður sem þá spannst ekki slitnað heldur styrkst með árunum, dýpkað með þroska og visku árannna og orðið gullinn hin síðustu ár. Það þarf oft heila bók til að koma lífshlaupi einnar persónu fyrir hug- sjónir annarra. Fáein orð verða að duga frá mér. Hún var í hjarta hrein og bein, staðföst í lífsskoðunum. Hún var menntuð sem hússtjórnarkennari og tel ég að hjá henni Emmu hafi far- ið saman menntun og hæfileikar, enda vel ég henni orðið leiðbeinandi í víðri merkingu. Árið 1971 gekk Emma í hjónaband með Konstantín J. Lyberopoulos, grískum unnusta sínum, en þau höfðu þá þekkst um árabil. Ferðin að heim- an var næsta skref. Ævintýrin og nýtt lífsform framundan. Í 33 ár hafa þessi heiðurshjón sem ræðismenn Ís- lands í Grikklandi, verið gestgjafar ótal fjölda Íslendinga og breytti þá engu hver í hlut átti. Öllum var tekið á móti og öllum veitt af sömu rausn. Þeir fjölmörgu sem aðstoðar þeirra hafa notið í gleði og vanda, verður nú hugsað til hennar í þakklæti. Vegna þess að öll þeirra störf í þágu ís- lenskrar þjóðar voru veitt af kærleik og umhyggju. En ferðir um lífsins vegu eru óskráðar og sá einn sem öllu ræður veit einn hvenær tjaldið fellur. Ferðin heim var ákveðin, tíminn var kominn. Með reisn hélt hún heim til föðurhús- anna. Ég votta eftirlifandi eiginmanni, Konstantín, börnum þeirra Yannis, Irenu, móður hennar Björgu Kofoed- Hansen og fjölskyldu dýpstu samúð. Með virðingu og þökk þakka ég líf- ið og varðveiti að eilífu minninguna um einstakan vin. Ásdís Sigurðardóttir og fjölskylda. Fimmtudaginn 16. september kvaddi ég Emmu vinkonu mína þar sem að hún var að fara til Íslands til hinstu dvalar á líknardeild LHS í Kópavogi. Ég reyndi að vera glöð í bragði þegar ég kyssti hana á vang- ann og sagði henni að við sæjumst brátt aftur á Íslandi. Ég vissi hins vegar í hjarta mínu að ég myndi aldr- ei sjá hana framar, enda varð raunin sú, hún dó sólarhring síðar í Kaup- mannahöfn, á leiðinni heim. Emmu kynntist ég fyrir tveimur áratugum, þegar ég kom í ævintýra- ferð til Grikklands eftir menntaskól- EMILÍA KOFOED-HANSEN LYBEROPOULOS

x

Morgunblaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.