Morgunblaðið - 16.02.2005, Síða 6
6 MIÐVIKUDAGUR 16. FEBRÚAR 2005 MORGUNBLAÐIÐ
FRÉTTIR
BÚAST má við að allt að 200 gæludýr, mest
hundar, verði flutt til landsins á þessu ári.
Að sögn Hákons Sigurgrímssonar, skrif-
stofustjóra í landbúnaðarráðuneytinu, voru
flutt inn 148 gæludýr í fyrra. Nokkrar
ástæður eru til að ætla að innflutningurinn
aukist í ár, að mati Hákonar.
Í fyrra var fyrirkomulagi innflutningsins
breytt þannig að dvöl dýranna í einangr-
unarstöð var stytt í fjórar vikur, en var 6–8
vikur áður. Þar á móti voru hertar mjög
kröfur sem gerðar eru til undirbúnings inn-
flutningi dýranna. Þessi breyting raskaði nokkuð áformum
sumra sem ætlað höfðu að flytja inn gæludýr. Þá dró það úr
fjölda innfluttra dýra í fyrra að einangrunarstöðinni í Hrísey
var lokað í hálfan mánuð vegna lagfæringa.
„Mér sýnist, miðað við fjölda umsókna, að það verði flutt inn
talsvert fleiri dýr á þessu ári en verið hefur. Ég gæti alveg trú-
að því að þetta fari upp undir tvö hundruð dýr,“ sagði Hákon.
Hann sagðist gera þann fyrirvara við þessa tölu að alltaf er
töluvert um forföll, þannig að umsóknir um innflutning eru
fleiri en dýrin sem á endanum eru flutt inn.
Margvíslegur kostnaður
Talsverður kostnaður fylgir því að flytja inn gæludýr. Auk
innkaupsverðsins erlendis frá, sem er mjög breytilegt, og
flutnings til landsins þarf að greiða héraðsdýralækni, eða full-
trúa hans, fyrir móttöku dýrsins á Keflavíkurflugvelli og
heilbrigðisskoðun. Síðan þarf að flytja dýrið til Hríseyjar og
sér rekstraraðili einangrunarstöðvarinnar um flutning frá
Keflavík til Reykjavíkur, þaðan sem dýrið er flutt með flugi til
Akureyrar og þaðan með bíl og ferju út í Hrísey. Þar tekur við
fjögurra vikna dvöl í einangrunarstöð áður en dýrið er afhent
eigendum.
Daggjöldin eru breytileg eftir stærð og tegund dýranna.
Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu landbúnaðarráðuneyt-
isins er kostnaður við fjögurra vikna einangrun að meðtöldum
flutningskostnaði, öðrum en í flugi innanlands, eftirfarandi:
Fyrir hunda undir 20 kg 127.733 kr., fyrir hunda yfir 20 kg
129.290 kr. og fyrir ketti 127.295 kr. Virðisaukaskattur er inni-
falinn í framangreindum fjárhæðum.
Einangrunarstöðin í Hrísey er í opinberri eigu. Fyrir þrem-
ur árum var opnað fyrir þann möguleika að einstaklingar gætu
sett upp einangrunarstöð fyrir gæludýr, en engin slík stöð hef-
ur enn risið.
Allt að 200 gæludýr flutt inn í ár
Hákon
Sigurgrímsson.
TENGLAR
................................................................................
Meira á www.mbl.is/itarefni
EFTIR þrjár vikur fjölgar á heimili Hávars
Sigurjónssonar í Árbænum þegar tíkin Col-
grima flytur inn eftir fjögurra vikna ein-
angrun í Hrísey. Þetta er í fyrsta sinn sem
hundur af hennar tegund kemur til landsins.
Tegund sú heitir berner sennen, en á ís-
lensku er hún kölluð svissneskur fjallahund-
ur. Colgrima kemur hingað frá Noregi og
segir Hávar að mikil eftirvænting sé innan
fjölskyldunnar.
Mikið hundalíf
„Við erum öll búin að fylgjast spennt með
frá því hún fæddist. Við vorum dálítinn tíma
að gera það upp við okkur hvort við vildum
fara út í þetta því þetta er svo mikil skuld-
binding og að sjálfsögðu verða allir að vera
með. En reynslan af hinum hundinum okkar
er þannig að við vildum gjarnan fá annan.“
Fyrir á fjölskyldan hina fimm ára gömlu
Hrafntinnu sem er veiðitík af labrador-
tegund. Hana hefur Hávar þjálfað af miklum
myndugleik og er hún honum ómissandi
veiðifélagi.
„Það er ekkert stórmál að vera með tvo
hunda ef maður er með einn,“ segir Hávar
hinn rólegasti, en heimilisfólkið hefur áður
tekið að sér að passa hunda fyrir vini og
kunningja. Eftir að fjölskyldan tók þá
ákvörðun að fá sér annan hund hófst mikil
leit að rétta hundaræktandanum og í allt er
þetta ferli búið að taka á annað ár. Colgrima
mátti ekki koma til landsins fyrr en hún var
orðin fimm mánaða og þá þurfti hún að fara
í alls kyns sprautur og skoðanir svo að ekki
kæmi með henni smitandi sjúkdómur. Eftir
það tók við vistin í Hrísey.
Góður félagsskapur
En hvernig er þessi nýjasti meðlimur ís-
lensku hundafánunnar?
„Colgrima er ekki veiðihundur eins og
Hrafntinna heldur fyrst og fremst fjöl-
skyldu- og heimilishundur. Ég hef haft
áhuga á þessari tegund lengi, þetta eru
mjög skemmtilegir hundar, góður fé-
lagsskapur og afskaplega blíðir og tryggir.
Þó að þeir séu frekar stórir eru þeir nú fyr-
irhafnarlitlir.“
Mörgum vex einmitt í augum sú vinna
sem fylgir því að fá ferfætling inn á heimilið.
„Ef manni fyndist þetta leiðinlegt væri
þetta örugglega mikil vinna en þetta er
náttúrlega áhugamál þannig að maður telur
þetta ekkert eftir sér, en ef maður er að
þjálfa veiðihund fer mikill tími í þetta, sér-
staklega fyrstu tvö árin. Annars er þetta
bara gaman.“
En hefur þessi mikli hundavinur átt kött?
„Já já, við eigum tvo síamsketti, og svo
höfum við átt fiska líka. Sumum þótti nóg
um að sjá hérna einn hund og tvo ketti, en
þetta er ekkert mál. Kettirnir standa á
sínu.“
Hávar og fjölskylda þurfa þess ekki lengi
að bíða að fá Colgrimu heim. Eflaust á
henni eftir að líka vel nýja heimilið, enda í
góðum félagsskap.
Fyrsti
hundur sinn-
ar tegundar
á Íslandi
Colgrima er fyrsti svissneski fjallahundurinn, eða berner sennen, sem kemur hingað til lands.
LITLIR og stórir, írskir eða mexíkóskir. Sú er
liðin tíð að íslenski fjárhundurinn réði heim-
keyrslum okkar með gleðilegu gelti. Hér á
landi má sjá sífellt fleiri nýjar hundategundir
sem borist hafa yfir hafið hvaðanæva að. Fyrir
nokkrum árum voru ekki margir eigendur hér
að litlum Chihuahua-hundum eða japönskum
Chin-hvuttum en í dag eru haldnar sýningar
með alls konar hundategundum og fleiri bæt-
ast í hópinn.
Einangrunarstöðin í Hrísey rúmar tólf
hunda hverju sinni og þar er aldrei autt pláss.
Hjá Hundaræktarfélagi Íslands fengust
þær upplýsingar að það séu þó ekki sífellt nýj-
ar tegundir að streyma inn fyrir landsteinana,
heldur eru íslenskir hundaræktendur að bæta
við sig nýjum meðlimum úr sömu tegund enda
hagur í því að hafa þá sem flesta. Sá sem hefur
áhuga á hreinræktuðum hundi frá útlöndum
má búast við því að þurfa að greiða um 200
þúsund krónur í ýmsan kostnað og gjöld fyrir
utan kaupverð.
Ljósmynd/Jón Svavarsson
Sífellt bætast nýjar hundategundir í fánu Ís-
lands. Hér er mexíkóskur smáhundur
Meiri fjölbreytni
en áður
HUGSANLEGT er að Vatnamæl-
ingar Orkustofnunar og Veiði-
málastofnun verði sameinaðar, eða
geri samstarfssamning sín á milli.
Starfandi er viðræðuhópur sem hef-
ur það hlutverk að meta möguleika
á aukinni samvinnu eða sameiningu
og er reiknað með að hann skili nið-
urstöðum og tillögum í byrjun mars.
Sveinbjörn Björnsson, formaður
viðræðuhópsins, segir að starfandi
séu hópar fagmanna stofnananna til
að kanna málið. Hann segir að
rannsóknir þeirra séu farnar að
tengjast svo mikið að rétt sé að
kanna mögulegt hagræði af samein-
ingu.
Vatnamælingar eru sjálfstæð
deild innan Orkustofnunar, og hafa
það hlutverk aðallega að mæla fall-
orku til virkjana, en hafa alltaf mælt
vatn víðar og fylgst með öllu af-
rennsli á landinu. „Vatnamælingar
hafa alltaf haft vilja til þess að taka
að sér víðtækara hlutverk en að
vinna eingöngu fyrir orkuiðnaðinn.
Nú er verið að kalla eftir því að þeir
taki að sér slíkt hlutverk þar sem
við erum um það bil að fara að taka
við svokallaðri vatnatilskipun sem
Evrópusambandið hefur skilgreint.
Þá er verið að tala um að Vatna-
mælingar Orkustofnunar sinni víð-
tækara hlutverki í almennu eftirliti
með vatnafari landsins,“ segir
Sveinbjörn.
Eitt af því sem notað er til að
fylgjast með ástandi vatna er líf-
ríkið í vötnunum, og er ástand fisks
í vötnum mjög góð vísbending um
ástand vatnsins. Fiskistofnarnir eru
nú mældir af Veiðimálastofnun, en
ef mál þróast á þann hátt að fylgst
sé með almennu vatnafari þá færast
rannsóknarsvið þessara aðila nær
hvort öðru, og vaknar spurning um
hvort hægt væri að ná hagræði af
samvinnu, segir Sveinbjörn.
Málið er flóknara en ella vegna
þess að stofnanirnar heyra undir
tvö ráðuneyti, landbúnaðar- og iðn-
aðarráðuneyti. Einnig kemur til
greina aukið samstarf við Veð-
urstofuna þar sem hlutverk hennar
við mælingar geta farið saman við
vatnamælingar, segir Sveinbjörn,
en Veðurstofan heyrir undir um-
hverfisráðuneyti.
Sameining Vatnamælinga og
Veiðimálastofnunar könnuð
Morgunblaðið/Jim Smart
Vatnamælingamenn hafa fylgst með rennsli í og úr vötnum á landinu öllu.
VERSLANAKEÐJAN Iceland
Foods í Bretlandi hefur ákveðið að
falla frá því að sækja um einkaleyfi
á vörumerkinu Iceland í löndum ut-
an Bretlands, en Halldór Ásgríms-
son forsætisráðherra óskaði eftir
því bréflega við fyrirtækið að það
endurskoðaði umsókn sína í þessum
efnum.
Þetta kemur fram í svarbréfi til
forsætisráðherra frá forstjóra fyrir-
tækisins, Malcolm Walker, en er-
indið var tekið fyrir á stjórnarfundi
í fyrirtækinu í gær og ákveðið að
falla frá umsókninni um einkaleyfi á
notkun nafnsins í öllum löndum ut-
an Bretlands.
Þá segir ennfremur í bréfinu
samkvæmt upplýsingum forsætis-
ráðuneytisins að forráðamenn versl-
anakeðjunnar vilji gera allt sem í
þeirra valdi stendur til að vinna
með íslenskum stjórnvöldum að því
að koma í veg fyrir að nafnarugl-
ingur þess valdi vandræðum í fram-
tíðinni.
„Þegar ég stofnaði Iceland árið
1970 var þetta aðeins ein lítil versl-
un í Norður-Englandi með frosnar
matvörur. Konunni minni datt í hug
að gefa henni nafnið Ice Land.
Aldrei hvarflaði að okkur að það
myndi verða að því stórfyrirtæki
sem það er í dag, hvað þá að í notk-
un okkar á nafni þess gætu falist
vandræði fyrir landið Ísland,“ segir
meðal annars í bréfi forstjórans.
Fram kemur einnig að forráða-
menn verlsanakeðjunnar vilji gera
allt sem í þeirra valdi stendur til að
koma í veg fyrir að nafnaruglingur
valdi vandræðum í framtíðinni.
Boðið til höfuðstöðva
fyrirtækisins
Samkvæmt upplýsingum for-
sætisráðuneytisins kemur forstjór-
inn ennfremur á framfæri boði til
forsætisráðherra um heimsókn til
höfuðstöðva fyrirtækisins í Deeside,
fyrir hönd Pálma Haraldssonar
stjórnarformanns Iceland.
Fallið frá einka-
leyfaumsókn
vegna Iceland