Morgunblaðið - 14.03.2005, Qupperneq 10
10 MÁNUDAGUR 14. MARS 2005 MORGUNBLAÐIÐ
FRÉTTIR
MICHAEL Christiansen, arkítekt á
Teiknistofu Hennings Larsens, hef-
ur unnið skipulagstillögur vegna há-
skólahverfis í tengslum við bæði
fyrirtæki og íbúðabyggð í Urriða-
holti en eins og fram hefur komið
hefur Garðabær áhuga á því að há-
skólinn í Reykjavík komi til bæj-
arins til að mynda kjarnann í vís-
inda-, fyrirtækja- og íbúðasamfélagi
þar.
Teiknistofa Hennings Larsens
hefur mikla reynslu af hönnun há-
skóla og háskólasamfélaga, bæði á
Norðurlöndum og eins á Bretlandi.
Christiansen tekur þó fram að
verkefnið í Urriðaholti sé í raun ein-
stakt, þar spili saman hraun og
grænir reitir og stórkostlegt útsýni
yfir Faxaflóann. Eins þurfi að taka
tillit til veðráttunnar á Íslandi og
skammdegisins. Þetta sé því alveg
sérstaklega spennandi verkefni fyr-
ir arkítekt að kljást við en grunn-
hugsunin gangi út á að skapa eins
konar suðupott þekkingar.
Verður allt að 14–15 þúsund
manna samfélag
Christiansen segir að í sinni út-
færslu að þekkingarþorpinu í Urr-
iðaholti, þar sem sé gert fyrir ráð
fyrir að allt að 14–15 þúsund manns
geti komið til með búa, leggi hann
áherslu á að skapa umgjörð fyrir
samfélag þar sem sé mannlíf jafnt á
kvöldin sem og á daginn en ekki,
eins og stundum vilji brenna við í
háskólasamfélögum, að göturnar
tæmist á kvöldin. Þess vegna gangi
hugmyndin út á að byggja þétt um
miðpunkt samfélagsins í holtinu þar
sem verði skólar, bókasöfn, kaffi-
hús, verslanir o.s.frv.Og raunar
stúdentaíbúðir einnig í háum turn-
um sem líkist einna helst kínversk-
um lömpum og verði eins konar
kennileiti fyrir samfélagið. Mik-
ilvægt sé að stúdentarnir búi í sam-
félaginu miðju og að lífið deyi þar
ekki út að loknum skólatíma.
Christiansen segir að nokkrar
megingötur virki sem eins konar líf-
æðar um miðhluta holtsins en í því
efni hafi einnig þurft að taka tillit til
íslenskrar veðráttu og því sé hluti
kjarnans undir þaki. Fjölskyldu-
byggðin verði síðan frekar á jöðrum
svæðisins.
Eins konar nútímaútgáfa
af þorpi í Toskana
Christiansen segir að í raun megi
líkja hugmyndum sínum við nútíma-
lega útgáfu af þorpi í Toskana með
þéttri byggð, þröngum strætum og
iðandi lífi en dreifðari byggð til út-
jaðranna.
Christiansen segist einnig hafa
lagt mikla áherslu á sameiginleg
rými þar sem hugmyndin sé að
skapa eins konar suðupott þekk-
ingar og öll hönnunin taki því mjög
mikið mið af hinum félagslega þætti
við sköpun þekkingar og nýrra hug-
mynda.
Útgangspunkturinn sé sá að
þekking sé félagslegt afsprengi, að
hún verði til í samskiptum fólks en
ekki í einangrun.
Þess vegna megi líta á byggðina
sem netverk fyrir upplýsingaflæði
milli fólks, sem eins konar landa-
mæralausa háskólabyggð, að mati
Michael Christiansen.
Hugmyndir danska arkítektsins Michaels Christiansen um háskólasamfélag í Urriðaholti
Vill skapa suðu-
pott þekkingar
Morgunblaðið/Árni Sæberg
Michael Christiansen: „Ótrúlegt umhverfi og náttúra.“
HÁSKÓLASETUR Vestfjarða var
formlega stofnað á laugardaginn var.
Um þrjátíu aðilar eru stofnaðilar að
setrinu, þar á meðal allir háskólarnir
í landinu átta að tölu og ýmsar rann-
sóknastofnanir, eins og Hafrann-
sóknastofnun, Veðurstofan og fleiri.
Halldór Halldórsson, bæjarstjóri
á Ísafirði, sagði að til að byrja með
yrðu sex stöðugildi hjá setrinu, auk
stöðugilda sem yrðu í þróunarverk-
efnum og slíku. Þessi stofnun myndi
taka yfir þjónustu við fjarnáms-
nema, sem væri verkefni sem hefði
verið í þróun á undanförnum árum,
jafnframt því sem sú þjónusta yrði
efld og boðið upp á eins fjölbreytt
nám og mögulegt væri að bjóða upp
á í fjarnámi. Þá myndi Háskólasetur
Vestfjarða bjóða upp á staðbundið
nám og í þriðja lagi myndi það vera
samstarfsvettvangur fyrir rann-
sóknastofnanir og samþætta at-
vinnulíf, rannsóknir og menntun.
„Meiningin er ekki bara sú að vera
með kennslu fyrir þá sem eru að
byrja í háskólanámi heldur einnig
vera með aðstöðu fyrir meistara-
námsnema vegna þeirrar nálægðar
sem er hér við öflugar rannsóknir,“
sagði Halldór.
Hann sagði að þeir ætluðu að
byggja á sérstöðu Vestfjarða, þar
sem væru veiðarfærarannsóknir,
snjóflóðarannsóknir og rannsóknir á
þorskeldi í sjó, en öll þessi rann-
sóknasvið væru að byggjast upp á
Vestfjörðum nú. Fleiri verkefni
væru einnig inni í myndinni í þessu
sambandi, þar á meðal verkefni um
Vestfirði á miðöldum undir stjórn
Torfa Tuliníusar og sama gilti um
verkefni í tengslum við friðlandið á
Hornströndum og önnur verkefni
tengd sérstöðu Vestfjarða.
500 nemendur innan fimm ára
Halldór sagði aðspurður að þeir
bindu vonir við að þetta yrði öflug
starfsemi í framtíðinni. Háskólasetr-
ið yrði þróað áfram á næstu árum og
stefnan væri sú að innan fimm ára
yrðu nemendur orðnir um 500 en
þeir væru 160 talsins í dag.
„Einhvern tíma á þessu tímabili
munum við stíga það skref, finnst
mér ekki ólíklegt að sækja um að
gera Háskólasetur Vestfjarða að
sjálfstæðum háskóla,“ sagði Halldór
einnig.
Morgunblaðið/Halldór Sveinbjörns
Gestir voru glaðir í bragði á stofnfundi Háskólasetursins, sem haldinn var á Ísafirði á laugardag.
Allir háskólar landsins aðilar
að Háskólasetri Vestfjarða
ÞINGI unga fólksins, sem haldið
var í fyrsta sinn um helgina, lauk í
gær. Ungliðahreyfingar allra
stjórnmálaflokkanna stóðu fyrir
þinginu en það fór fram í hátíð-
arsal Háskóla Íslands. Á þinginu
áttu sæti fulltrúar ungliðahreyf-
inga allra stjórnmálaflokkanna og
samsvaraði fulltrúafjöldi hverrar
hreyfingar sætafjölda viðkomandi
stjórnmálaflokks á Alþingi. Mark-
miðið með þinginu var að vekja
umræðu um málefni sem snerta
ungt fólk og leiða í ljós hvort ná
mætti þverpólitískri sátt um ákveð-
in mál.
Davíð Þorláksson, einn skipu-
leggjenda þingsins, sagði að víðtæk
samstaða hefði náðst um flestar
þær tillögur sem lagðar voru fram.
„Það gekk mjög vel að ná samstöðu
og betur en margan hefði grunað.
Lagðar voru fram rúmlega áttatíu
ályktanir á þinginu og meirihluti
þeirra var samþykktur. Þá er það
athyglisvert að mál sem útilokað er
að samstaða myndi nást um á Al-
þingi voru samþykkt á þessu þingi
líkt og aðskilnaður ríkis og kirkju,
full réttindi samkynhneigðra og
frelsi í innflytjendamálum,“ sagði
Davíð. Að sögn Davíðs sveif andi
frjálsræðis yfir vötnum á þinginu.
„Allar ungliðahreyfingarnar eiga
það sameiginlegt að vera meira
fyrir frjálsræði en fulltrúar flokk-
anna á Alþingi og niðurstöður
þingsins benda til þess að það séu
ekki flokkslínur sem aðgreina fólk
heldur kynslóðabil. Öll þessi mál
verða vafalítið að veruleika þegar
kynslóðaskipti hafa átt sér stað.“
Tillögur þingsins verða sendar
alþingismönnum og ungliðahreyf-
ingarnar munu þrýsta á sína þing-
menn að beita sér í þessum málum.
Davíð sagði að almenn ánægja
hefði verið með framkvæmd þings-
ins og ákveðið hafi verið að gera
það að árlegum viðburði. „Að sjálf-
sögðu gekk þetta ekki hnökralaust
fyrir sig en það sem mestu máli
skipti var að umræðan var mál-
efnaleg og jákvæð. Þarna var ekk-
ert um pólitískt skítkast.“
Halldór Ásgrímsson forsætisráð-
herra, Hallgrímur Helgason rithöf-
undur og Guðfinna S. Bjarnadóttir,
rektor Háskólans í Reykjavík,
héldu fyrirlestra á þinginu.
Morgunblaðið/Árni Torfason
Fulltrúar á þinginu hlýða á umræður á fundinum í gær.
Víðtæk samstaða á
þingi unga fólksins