Morgunblaðið - 04.04.2005, Blaðsíða 4

Morgunblaðið - 04.04.2005, Blaðsíða 4
4 MÁNUDAGUR 4. APRÍL 2005 MORGUNBLAÐIÐ FRÉTTIR Munið Mastercard ferðaávísunina Helgarferð til Madrid 21. apríl frá kr. 39.990 Verð kr. 39.990 Flugsæti með sköttum, báðar leiðir. Netverð Verð kr. 49.990 Flug, skattar, gisting í tvíbýli í 3 nætur á góðu 3 stjörnu hóteli með morgunverði og íslenskri fararstjórn. Netbókun. Skógarhlíð 18, sími 595 1000. www.heimsferdir.is Heimsferðir bjóða nú einstakt tækifæri á helgarferð til Madrid 21. apríl. Madrid er einstaklega spennandi borg sem býður upp á ótrúlega fjölbreytni í skemmtun og afþreyingu. Ótal söfn, frábært mannlíf, skemmtileg hverfi og markaðir að ógleymdum frábærum veitingastöðum. Þú getur valið um að kaupa eingöngu flugsæti eða flug og gistingu og þú ert á góðri leið með að kynnast hinni heillandi höfuðborg Spánar. Morgunblaðið/Emilía Ólafur Ragnar Grímsson og Karl Sigurbjörnsson í heimsókn hjá Jóhannesi Páli II páfa í nóvember 1998. FORSETI Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, sendi frá sér samúðar- kveðju í gær vegna andláts páfa. Kveðjan er svohljóðandi: „Ég votta kaþólsku kirkjunni einlæga samúð mína vegna and- láts Jóhannesar Páls II páfa. Íslendingar varðveita kærar minningar um heimsókn Hans Heilagleika til Íslands og ein- stæða guðsþjónustu sem fram fór á helgasta stað Íslands, Þingvöll- um, þar sem Alþingi, elsta þjóð- þing veraldar, var stofnað árið 930 og kristni var lögfest árið 1000. Jóhannes Páll varð fyrstur páfa til að heimsækja Ísland og þjóðin fagnaði honum innilega. Ég minnist líka einlægra við- ræðna okkar í Páfagarði fyrir fá- einum árum þegar ég, ásamt herra Karli Sigurbjörnssyni, bisk- upi Íslands, bauð Hans Heil- agleika að senda sérstaka fulltrúa til kristnihátíðar á Þingvöllum þegar Íslendingar minntust þess að þúsund ár voru frá kristnitöku. Í þeim samræðum kom skýrt fram vinarhugur hans í garð Íslend- inga. Jóhannes Páll II markaði djúp spor í baráttunni fyrir lýðræði og frelsi víða um heim og ferill hans mun verða talinn til merkustu tímabila í sögu kristninnar. Við andlát hans er þökk og samúð í hugum Íslendinga.“ Þökk og samúð í hugum Íslendinga BISKUP Íslands, Karl Sig- urbjörnsson, sendi kaþólskum á Íslandi samúðarkveðju í gær vegna andláts Jóhannesar Páls páfa II. Kveðjan var send Johann- esi Gijsen, Reykjavíkurbiskup, og er svo hljóðandi: „Kæri bróðir í Jesú Kristi, í nafni íslensku þjóðkirkjunnar votta ég þér og rómversk- kaþólsku kirkjunni á Íslandi hug- heila samúð í virðing og fyrirbæn vegna fráfalls Jóhannesar Páls páfa. Við horfum í þökk á eftir ein- um áhrifamesta trúarleiðtoga samtímans. Engin rödd hljómaði skýrar en hans í þágu trúarinnar á Jesú Krist, virðingar fyrir líf- inu, fyrir friði á jörðu, mannúð og mildi, sátt og virðingu milli trúarbragða. Til hinstu stundar leyndi sér ekki af hvílíkri alvöru, trúarstyrk og heilindum hann gegndi hirðisþjónustu sinni og fullnaði hana í ást til Guðs og manna. Ég minnist með þakkarhuga heimsóknar okkar hjóna í Vatik- anið árið 1998 og þeirrar hlýju sem við mættum af hans hálfu þar. Eins minnast Íslendingar heimsóknar hans hingað til lands með gleði og þakklæti. Ásamt með rómversk-kaþ- ólskum trúsystkinum lofum við nú góðan Guð fyrir lífsverk og trúfesti síns trúa þjóns, Jóhann- esar Páls páfa, fagnandi í von upprisunnar. „Lofaður sé Guð og faðir Drottins vors Jesú Krists, sem eftir mikilli miskunn sinni hefur endurfætt oss til lifandi vonar fyrir upprisu Jesú Krists frá dauðum (1. Pét.1.3)“.“ Einn áhrifamesti trúarleiðtogi samtímans HALLDÓR Ásgrímsson, forsætis- ráðherra, sendi frá sér eftirfar- andi yfirlýsingu í gær, í kjölfar fregna af andláti páfa: „Með andláti Jóhannesar Páls páfa annars er genginn mikill maður sem hafði mikil áhrif á mótun heimsmála með framgangi sínum. Jóhannes Páll annar páfi eyddi meirihluta ferils síns við að hvetja til friðar og réttlætis og með frá- falli hans hefur heimsbyggðin misst mikinn andlegan leiðtoga. Ég átti því láni að fagna að hitta Jóhannes Pál páfa annan í tvígang. Hann kom mér fyrir sjón- ir sem hlýr maður sem lét sér annt um þá sem minna mega sín og það var ljóst að honum var annt um að glæða almenna trú- ariðkun nýju lífi. Páfi hafði líka þá sérstöðu fyrir okkur að vera eini páfinn sem kom til Íslands. Íslend- ingar minnast heimsóknar hans með hlýju og hans persónulega með virðingu. Ég vil fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands votta kaþólsku kirkjunni og meðlimum hennar okkar dýpstu samúð.“ Mikill maður sem hafði mikil áhrif á mótun heimsmála JÓHANNES Gijsen Reykjavíkur- biskup segir að með andláti Jóhann- esar Páls páfa hafi ekki aðeins fallið frá áhrifamikill leiðtogi kaþólskra manna, heldur hafi heimurinn allur misst mikinn leiðtoga. „Skilaboð hans voru ekki aðeins fyrir kaþólikka, heldur fyrir allt góð- viljað fólk í heiminum,“ segir Gijsen í samtali við Morgunblaðið. Sú víð- tæka skírskotun sem páfinn hafi haft skýri þau miklu viðbrögð og samúð sem andlát hans hafi fengið. Gijsen segir að virðing við páfann hafi ekki verið bundin við þá sem voru sam- mála skoðunum hans eða trú. „Allir sáu hve mikla og djúpa sannfæringu hann hafði og hve skýra og mann- lega sannfæringu hann hafði varð- andi líf manna.“ Hann segir Jó- hannes Pál hafa farið óhefðbundn- ar leiðir í embætti að því leyti að hann gerði mikið af því að hitta hinn almenna mann og sérstaklega ungt fólk. Hann hafi þó alltaf verið trúr sínu embætti. Gijsen hitti Jóhannes Pál margoft, sérstaklega þegar sá fyrrnefndi var biskup í Hollandi. Gijsen minnist fyrsta fundar þeirra eftir að hann tók við embætti hér á landið árið 1996. „Það fyrsta sem páfinn spurði mig um var hvort ekki væri kalt á Ís- landi. Hann sagðist muna eftir því að mjög kalt hefði verið á landinu, jafn- vel þótt það væri júní, þegar hann heimsótti landið og sagði í gríni að honum yrði kalt við að sjá mig. En hann var afar hrifinn af landinu og þeim viðtökum sem hann fékk hér á landi,“ sagði Gijsen. Átti líka virðingu þeirra sem voru ósammála honum Jóhannes Gijsen KARL Sigurbjörnsson, biskup Íslands, segir að áhrif Jóhannesar Páls páfa II hafi verið mjög víðtæk og djúp og að íslenska þjóðkirkjan votti minningu hans virðingu og þökk. „Ég tel engan vafa á því að hann hafi verið áhrifa- mesti leiðtogi samtímans hvort sem er á sviði trúar, stjórnmála eða siðmenningar. Áhrifavald hans nær langt út fyrir raðir hins rómversk-kaþólska trúarsam- félags. Það er til dæmis haft fyrir satt, og ég get fallist á það, að enginn einn einstaklingur hafi haft eins af- drifarík áhrif á fall kommúnismans og hrun járntjalds- ins og lýðræðisþróun í A-Evrópu og hann,“ sagði Karl. „Hann náði eyrum þjóða og það var eftir því hlustað sem hann sagði.“ Páfi hafi gert sér miklar vonir um endurreisn kristn- innar í Evrópu sem mótandi afls í evrópskri siðmenn- ingu en ekki notið þess að lifa þann dag. Ógleymanleg reynsla að hitta páfa Þá hafi Jóhannes Páll páfi II verið víðförlastur allra páfa og með ferðalögum sínum staðfest hina alþjóðlegu vídd og sýn páfadæmisins. Hann hafi þar að auki verið eini páfinn sem hafi stigið fæti á íslenska jörð og Íslend- ingar hljóti að minnast hans fyrir það. Karl hitti páfa ár- ið 1998 í Páfagarði. „Það var merkileg reynsla og ógleymanlegt. Þá var hann orðinn hrumur og boginn og manni leist ekki meira en svo á að hann gæti staðið einn og óstuddur. En augun voru frán og handtakið hlýtt og þétt. Þá var hann reyndar að undirbúa ferð, að ég held til Mexíkó, og ég held hann hafi farið í margar ferðir eftir þetta. Hann hafði óbilandi þrek og hélt því ótrúlega lengi miðað við hvað heilsa hans var orðin bág,“ sagði hann. Við þetta tækifæri hafi páfi minnst heimsóknarinnar til Íslands árið 1989 og sagt að Ísland ætti sérstakan sess í hjarta sínu og fyrirbænum. Hafði mjög víð- tæk og djúp áhrif TORFI Ólafsson, fyrrum formaður Félags kaþólskra leikmanna á Ís- landi, segir að Jóhannes Páll páfi II hafi haft mikil áhrif á sína samtíð og hljóti að teljast einn af merkustu páfunum í sögunni. „Hann var að vísu nokkuð íhalds- samur en hafði ríka ástæðu til, því það gætir ýmissa stefna innan kirkj- unnar og töluvert mikils frjálslynd- is. Honum var annt um að kirkjan klofnaði ekki, að hún færi ekki það langt út í frjáls- lyndisáttina að hætta væri á að íhaldssamari öflin féllu hreinlega frá henni. Hans viðfangsefni var að halda kirkjunni sameinaðri,“ segir Torfi sem telur að honum hafi tekist það víðast hvar. Torfi segir páfanum hafa verið fyrst og fremst annt um að ekkert færi úrskeiðis og að hinar góðu og gildu stefnur innan kirkjunnar röskuðust ekki. Torfi hitti páfann þegar hann kom til Íslands árið 1989 og færði honum bókagjöf fyrir hönd leikmanna og hitti hann tvisvar þar að auki, en í bæði skiptin var hann á ferðalagi með hópi af kaþólsku fólki og hittu þau páfann stuttlega. Torfi segir að þeir sem hann hafi rætt við innan kaþólska samfélagsins hér á landi sé efst í huga þakk- læti til páfans fyrir störf hans. „Hann reyndi meira en nokkur annar páfi að koma á góðu samstarfi við hin trúarbrögðin. Hann efndi til fundar forystumanna annarra trúarbragða í Assissi til þess að trúarbrögðin nálguðust hvert annað til góðra verka og var það fyrsta tilraun af hálfu páfa til þess að reyna að nálgast önnur trúarbrögð,“ segir Torfi. Hann nefnir einnig ferðalög páfans sem hafi verið lið- ur í því að mynda tengsl við fólkið og sérstaklega hafi verið eftirtektarvert hve vel hann náði til unga fólks- ins. Vildi halda kirkj- unni sameinaðri Torfi Ólafsson

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.