Morgunblaðið - 04.04.2005, Blaðsíða 27

Morgunblaðið - 04.04.2005, Blaðsíða 27
MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 4. APRÍL 2005 27 MINNINGAR gert að bandarískri herstöð á þeim vordögum, þrátt fyrir alla svardaga sem gefnir höfðu verið. Þetta kvæði lærðum við mörg: Ein flýgur sönglaust til suðurs, þótt sumarið nálgist, lóan frá litverpu túni og lyngmóa fölum, þytlausum vængjum fer vindur um víðirunn gráan. Hvað veldur sorg þeirri sáru, svanur á báru? Baðstofa iðnaðarmanna síðari hluta vetrar 1954. Sósíalistaflokkur- inn er að halda ráðstefnu um menn- ingarmál. Margt mætra manna er þar saman komið en ýmsir í þeim hópi lítt gefnir fyrir nýjungar í skáld- skap og öðrum listum og litu svo á að listin ætti fyrst og fremst að þjóna málstaðnum á líðandi stund. Einar Bragi kveður sér hljóðs og heldur af einurð og kappi uppi kröfunni um fullt frelsi til listsköpunar, minnir á að aldrei megi hvika frá ströngustu gæðakröfum eigi listaverk að hafa nokkurt gildi og að enginn málstaður sé svo góður að hann eigi réttmætt tilkall til þess að ríkja yfir sköpunar- starfi listamanna. Við sem þá vorum ung og hlýddum á mál hans gleymum seint þeirri stund og hún hjálpaði okkur til að varast fallgryfjur dólga- marxismans. Janúar 1956. Við Einar Bragi sitj- um á tali við Guðrúnu Önnu, fyrrum heitkonu alþýðuskáldsins Magnúsar Hjaltasonar, þess sem varð undan- fari Ólafs Kárasonar Ljósvíkings. Hún býr í litlu súðarherbergi á gamla Hjálpræðishernum í Hafnarfirði og þar erum við í heimsókn. Magnús var þá látinn fyrir nær 40 árum en nú fagnar hún nýju skáldi. Þau horfast í augu og ljóma bæði. Með okkur var Guðgeir Magnússon, vinur okkar. Hann skráði sumt af því sem spjallað var og þau orð er að finna í fyrsta hefti Birtings frá árinu 1956. Unuhús á árunum kringum 1960. Þau Einar Bragi og Kristín, kona hans, bjuggu þá í þessu frægðarinnar húsi við Garðastræti með börnin sín tvö. Heimilið var þá stundum eins og járnbrautarstöð, slíkur var fjöldi þeirra sem knúðu dyra. Ungu skáldin og aðrir listamenn voru þar tíðir gestir, líka þeir sem vildu verða skáld svo og nauðleitarmenn og fólk úr breytilegum áttum. Aldrei haggaðist Kristín, var ætíð hýr á brá og þol- inmæði hennar virtist óendanleg. Dag nokkurn rakst ég á einn af fasta- gestunum á göngu um Austurstræti. Hann var í annarlegu ástandi og aug- ljóslega tæpt staddur, þreif til mín og bað: „Farðu með mig til gömlu kommúnistanna, farðu með mig til gömlu kommúnistanna.“ Ég sá að hér varð að bregðast við og leiddi hann upp í Unuhús. Þau Kristín og Bragi sáu síðan um aðhlynninguna og tryggðu vistun á sjúkrahúsi. Einar Bragi var svo sannarlega einn af gömlu kommúnistunum og fyrirvarð sig ekki fyrir það. Móðir hans var í Kommúnistaflokknum á Eskifirði á kreppuárunum, þegar hann var ungur drengur, og hún hafði Þyrna, ljóðabók Þorsteins Erl- ingssonar fyrir húspostillu. Skáldið, sonur hennar, yfirgaf hins vegar Sósíalistaflokkinn árið 1956 þegar beiðni þess um opnar umræður, byggðar á hreinskilni, um ástandið í Sovétríkjunum var ekki sinnt. Samstarf okkar Einars Braga var mjög náið á árunum 1960–1962 og þá í starfi Samtaka hernámsandstæð- inga. Skrifstofa samtakanna var í húsinu Vinaminni, Mjóstræti 3, ör- skammt frá Unuhúsi. Við undirbún- ing fyrstu Keflavíkurgöngunnar vor- ið 1960 voru þeir Einar Bragi og Jónas Árnasynir mínir nánustu sam- verkamenn, ásamt Ragnari Arnalds, sem þá var kornungur, en miklu máli skipti líka gott trúnaðarsamband við Magnús Kjartansson. Meirihlutinn í framkvæmdanefnd Sósíalistaflokks- ins hafði hins vegar ekki trú á ráða- gerð okkar og var henni því andvíg- ur. Svo vel tókst þó til að við náðum að halda, ár eftir ár, við lok hinnar löngu göngu frá Keflavíkurflugvelli tíu þúsund manna útifund gegn her- náminu í miðbæ Reykjavíkur, bæði 1960 og 1961. Þeir Einar Bragi og Jónas Árna- son voru ólíkir menn en höfðu báðir yfirgefið Sósíalistaflokkinn á árunum skömmu fyrir 1960. Mér urðu þeir dýmætir vinir sem ég á stóra þökk að gjalda. Um skáldskap Einars Braga, rit- störf hans og útgáfu tímaritsins Birt- ings á árunum 1953 til 1968 segi ég fátt að sinni. Sá sem við kveðjum nú var eitt besta skáld okkar Íslendinga á öldinni sem leið og auk þess fé- lagslegur leiðtogi módernistanna í ís- lenskri ljóðagerð. Án hans hefði Birt- ingur aldrei komið út. Í deilum um módernismann var hann réttlínu- maður og stundum heitt í hamsi, líka á efri árum. Við sem teljum skáldin eiga fjölbreyttari kosta völ, þó að enginn komist undan brennimarki sinnar eigin samtíðar, fengum þá annað veifið óblíðar kveðjur. Einar Bragi var að eðlisfari bjart- sýnismaður og kvaðst fyrir tuttugu árum líta svo á að í stjórnmálum væri hvort tveggja nauðsynlegt „að missa ekki sjónar á sólinni og hafa þó fyllstu gát á rosabaugnum“. Hann tapaði aldrei voninni um manninn, voninni um betra líf og sáttfúsari hendur til handa alþýðu heimsins. Fyrir okkur sem búum við myrkari heimssýn gátu samræður við hann verið upplífgandi og alltaf voru þær skemmtilegar. Ég og Gíslrún, kona mín, þökkum langa vináttu nú við leiðarlok og vott- um öllum vandamönnum hins góða drengs sem er genginn okkar dýpstu samúð. Kjartan Ólafsson. Með Einari Braga er fallinn frá einn af stólpunum í menningar- og sjálfstæðisbaráttu Íslendinga á öld- inni sem leið. Hann var í hópi þeirra ungu manna sem reistu merki um miðja 20. öldina með tímaritinu Birt- ingi. Einar var útgefandi þess fyrstu árin og síðan meðritstjóri. Tímarit þetta færði ferska vinda inn í um- ræðu um menningarmál hérlendis, kynnti fjölda höfunda, list og lista- stefnur og vakti máls á nýjum við- fangsefnum eins og húsagerðarlist og íslenskum arfi á því sviði. Sem rit- höfundur haslaði Einar Bragi sér framan af völl sem ljóðskáld og sendi frá sér ekki færri en fimm ljóðabæk- ur á árunum 1950–1960. Þeim fylgdi nýr tónn í íslenskri ljóðlist en tengsl- in við hið hefðbundna voru vel sýni- leg. Þetta var fersk og tær lýrik, oft með rómantísku ívafi og víða leitað fanga um yrkisefni. Á þessum áratug íslensks nóbelskálds bar Birtings- hópurinn vott um að þróttmikill ný- græðingur væri í uppvexti í skjóli stórskógarins. Ég kynntist Einari lít- illega á þessum árum, minnist stunda með honum á Laugavegi 11, afstæð- ur aldursmunur þá meiri en síðar á ævi okkar. Seinna endurnýjuðust þessi kynni við breyttar aðstæður. Ljóðskáldið hafði þá hægar um sig en áður því að upp að hlið hans var kominn rithöf- undur sem helgaði sig upprifjun á lið- inni tíð og hlúði að minnum um fólk og lífsbaráttu genginna kynslóða. Eðlilega tengja menn Einar öðru fremur við fæðingarbæ sinn Eski- fjörð sem hann hefur lagt ómetan- lega rækt við með heimildaritinu Eskju í mörgum bindum. Ég komst hins vegar brátt að raun um að rætur hans lágu víða, ekki síst um Suðaust- urland frá Suðursveit til Djúpavogs. „Þá var öldin önnur“ endurspeglar þennan bakgrunn og hug til ættingja sem áttu ríkan þátt í mótun hans í æsku. Sléttaleiti og Kambshjáleiga eru hluti af þessari veröld sem var. Það hefur verið gott að eiga Einar Braga að förunaut við upprifjun á lið- inni tíð í sögu Austurlands, heimildir hans traustar og framsetningin skýr og skemmtileg. Síðast komst ég í huglægt ferðalag með Einari Braga á vit norðurslóða. Hann tendraðist upp af kynnum við lendur og bókmenntir Sama og hafði fyrir fáum árum forystu um stofnun vináttufélags með þeim hérlendis. Nær árlega sendi hann mér einkar þekkileg rit með ljóðaþýðingum sín- um af kveðskap þessara aðkrepptu granna okkar. Þar er slegið á strengi af mýkt og festu sem einkenndu skáldið og manninn Einar Braga. Hafi hann heila þökk fyrir leiðsögn sína og stuðning við góðan málstað allt sitt líf. Hjörleifur Guttormsson. ✝ Sigurður Sig-urðsson fæddist í Reykjavík 3. júní 1922. Hann lést á heimili sínu, Hverfis- götu 55 í Reykjavík, á föstudaginn langa, 25. mars síðastliðinn. Foreldrar hans voru Sigurður Eyleifsson skipstjóri í Reykja- vík, f. 6.7. 1891, d. 17.8. 1975, og Ein- hildur Þóra Jónsdótt- ir, f. 25.6. 1886, d. 5.3. 1924. Alsystkini Sigurðar eru: Krist- jana Margrét, f. 15.6. 1916; Helga, f. 21.3. 1919, d. 30.8. 2004; Ein- hildur Þóra, f. 23.6. 1923; hálf- systkini samfeðra Arinbjörn, f. 11.6. 1928; og Ingibjörg, f. 21.6. 1932. Sigurður kvæntist 14.7. 1943 eftirlifandi eiginkonu sinni Brynju Helgu Kristjánsdóttur, f. 19.5. 1923. Foreldrar hennar voru Kristján Jónasson, lögregluþjónn í Reykjavík, f. 27.7. 1876, d. 6.5. 1941, og Halldóra Brynjólfsdóttir, f. 9.11. 1883, d. 22.10. 1939. Börn Sigurðar og Brynju eru: 1) Krist- ján, læknir, f. 14.12. 1943, kvænt- ur Sigrúnu Ósk Ingadóttur, við- skiptafræðingi, f. 28.5. 1945. Þeirra dóttir er Vilborg Ragn- heiður, f. 1.6. 1973, sambýlismað- ur Aðalsteinn Gunnlaugsson, f. 26.11. 1973, dætur þeirra eru Emilía og Sigrún Helena. 2) Brynjólfur, sjómað- ur, f. 8.2. 1950, kvæntur Bellu Hrönn Pétursdóttur, skrifstofumanni, f. 22.11. 1951, þeirra synir eru Brynjar, f. 12.6. 1972, kvæntur Tuende Suemegi, f. 25.4. 1977, sonur þeirra er Davíð Pét- ur; Rúnar, f. 24.2. 1982; Sigurður, f. 3.9. 1990. 3) Hall- dóra, sjúkraliði, f. 1.2. 1956, sam- býlismaður Viðar Gunnarsson bókasafnsfræðingur, f. 24.4. 1960. Hún á tvö börn með fyrri eigin- manni, Kjartani Valdimarssyni, rafvélavirkja, f. 20.7. 1955: Valdi- mar Ásbjörn, f. 23.8. 1978, sam- býliskona Stine Rasmussen, f. 21.12. 1976; Brynju Helgu, f. 14.1. 1981. 4)Sigurður Þór, verslunar- maður, f. 23.5. 1962. Sigurður ólst upp á Sólvalla- götu 5a í Reykjavík. Hann stund- aði nám við Verzlunarskóla Ís- lands, stundaði um tíma eigin rekstur, en starfaði lengst af sem sölumaður hjá Heildverslun Ás- björns Ólafssonar í Reykjavík. Útför Sigurðar verður gerð frá Fossvogskirkju í dag og hefst at- höfnin klukkan 13. Sigurður tengdafaðir minn lést hinn 25. mars sl., að kvöldi föstu- dagsins langa, 82 ára að aldri. Eftir meir en 40 ára samveru langar mig að minnast hans með örfáum orð- um. Sigurður starfaði lengst af sem sölumaður hjá Heildsölu Ásbjörns Ólafssonar, byrjaði þar ungur eftir verslunarskólanám, nýkvæntur Brynju sinni, glæsilegur ungur maður. Hann var afbragðs sölumað- ur og vel látinn af samstarfsfólki og viðskiptavinum. Hann byrjaði sinn búskap á ættarheimili Brynju og systur hennar Vilborgar á Hverf- isgötu 55 í Reykjavík, sem síðan hefur verið miðpunktur fjölskyldu þeirra. Vegna óvæntra utanaðkom- andi aðstæðna höfðu tengdaforeldr- ar mínir nýlega ákveðið, eftir langa og erfiða ákvarðanatöku, að flytja þaðan til nýrra heimkynna í byrjun næsta mánaðar. Í eðli sínu var Sigurður listamað- ur, hafði næmt auga fyrir fegurð í allri sinni mynd og eyra fyrir fal- legri tónlist. Hann var snyrtimenni og hafði góðan smekk fyrir falleg- um klæðaburði. Hann var hjálp- samur og handlaginn og gat lagað allt svo ég tali nú ekki um bílana sína sem hann átti nokkra. Alltaf var hann að lagfæra og fegra heim- ili þeirra Brynju á Hverfisgötunni, mála húsið og laga bæði að utan og innan, skrautmála eða kopar- skreyta. Mig langar að minnast sérstak- lega heimsóknar Sigurðar og Brynju til okkar til Svíþjóðar fyrir mörgum árum og hversu hann naut þeirrar ferðar og minntist hennar oft. Við leigðum sumarhús í Dan- mörku og keyrðum síðan suður Þýskaland, m.a. til Hamborgar, Lü- beck og vesturhluta Berlínar. Í þeirri ferð man ég að ég hafði tekið að mér að geyma allan ferðagjald- eyri hans sem hann treysti mér best fyrir. Í fyrstu sjoppu gleymdi ég svo veskinu á borðinu með öllum ferðapeningunum. Sá sem tók því með mestu róseminni var tengda- pabbi. Hann var sá sem róaði alla þegar keyrt var með hraði langan veg til baka til að hafa uppi á pen- ingunum. Nú er söknuður í hjarta og sólin skín ekki eins glatt og áður. Sár- astur er söknuður Brynju sem fylgt hefur honum svo lengi. Ég vil þakka tengdaföður mínum fyrir öll þau ár sem við höfum átt samleið. Guð blessi minningu um góðan og ein- staklega hjartahlýjan mann. Sigrún Ósk Ingadóttir. Kynni okkar Sigurðar hófust fyr- ir 13 árum. Hann tók mér varlega, líklega að kanna þennan mann sem var með einkadóttur hans. Vinnu- samur var hann mjög, alltaf eitt- hvað að sýsla niðri í kjallara eða dytta að húsi þeirra hjóna. Alltaf kominn í vinnugallann um helgar að vinna. Margar góðar minningar tengj- ast Sigurði. Oft á sumri komu þau hjónin með okkur Dóru upp í Hval- fjörð í Dóruhvamm. Þar kom nátt- úrubarnið upp í honum, lék á als oddi þegar í kyrrðina var komið og hafði á orði að þar vildi hann láta jarða sig, með útsýni yfir fjörðinn og fegurðina þar. Stundum fórum við í sundferð handan við fjörðinn og í staðinn fyrir að fara með okkur ofan í, þá vildi hann frekar bíða úti í bíl með pylsu og kók og var harla ánægður með það. Oft var það að við sátum úti á palli að morgni til í sólinni og rifjaði hann þá upp skemmtilegar sögur af árunum sem hann starfaði sem sölumaður og eins er hann átti hvítbláa, ameríska blæjubílinn sem hvarvetna vakti at- hygli. Sigurður var mikill fjölskyldu- maður með hlýtt og stórt hjarta og kunni best við sig heima hjá Brynju sinni. Þessi séntilmaður sem alltaf hugsaði um hreinlæti og snyrti- mennsku lifði góðu lífi og var um- vafinn hlýju og öryggi ástvina sinna. Fjölskyldu hans og ekki síst Brynju, konu hans, bið ég góðan Guð að styrkja í sorg þeirra. Guð blessi minningu Sigurðar. Viðar Gunnarsson. SIGURÐUR SIGURÐSSON ✝ Jakobína GuðrúnJúlíusdóttir fæddist í Efri-Sand- vík í Grímsey 11. ágúst 1920. Hún lést á dvalarheimilinu Hlíð miðvikudaginn 23. mars síðastlið- inn. Foreldrar henn- ar voru Kristín Jó- hannsdóttir, f. 1. nóvember 1882 á Akureyri, d. 25. apr- íl 1955 í Skjaldavík, og Júlíus Ólafsson, f. 7. júlí 1883 í Sundi í Höfðahverfi, d. 27. ágúst 1973 á Akureyri. Árið 1947 giftist Jakobína Geir Þorsteinssyni, f. 7. september 1905, d. 23. júní 1980. Börn þeirra eru: 1) Indriði Júlíus Geirsson, f. 7. októ- ber 1948, kvæntur Anítu Henriksen og eiga þau tvö börn. 2) Rúnar Kristinn Geirsson, f. 10. október 1951, d. 2. ágúst 1985. 3) Sig- rún Geirsdóttir, f. 13. apríl 1953. Sam- býlismaður hennar er Ragnar Gunn- þórsson. 4) Jóhann Geirsson, f. 22. mars 1958, kvæntur Kristínu Ingu Hilm- arsdóttur og eiga þau einn son og fyrir á Jóhann tvö börn. Útför Jakobínu verður gerð frá Akureyrarkirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.30. Mig langar að þakka þér, Bína mín, í fáum orðum fyrir vináttu þína við móður mína, en þið voruð saman á herbergi uppi á Hlíð. Ekki gat hún mamma mín verið heppnari með herbergisfélaga en þig. Þið þekktust áður og ekki var það nú verra. Báðar voruð þið hægar og ekki fór mikið fyrir ykkur. Oft sá maður að brosin sem þið senduð hvor ann- arri voru eitthvað sem þið skilduð bara tvær en ekki voruð þið marg- málar. Ekki sagðir þú mikið við mig en sendir mér bros þegar ég kom. Þegar ég kom með Perlu og þú varst inni á herbergi fórstu fram úr til að klappa henni, og voru það einu skiptin sem þú talaðir við mig, en bara um Perlu, og andlit þitt ljómaði. Móðir mín saknar þín sárt, en hún veit að það var vel tekið á móti þér af vinum þínum hinum megin. Við sendum fjölskyldu þinni inni- legar samúðarkveðjur og guðs blessun. Ágústína Söebech. JAKOBÍNA GUÐRÚN JÚLÍUSDÓTTIR Morgunblaðið birtir minningar- greinar alla útgáfudagana. Skil Minningargreinar skal senda í gegnum vefsíðu Morgunblaðsins: mbl.is (smellt á reitinn Morgun- blaðið í fliparöndinni – þá birtist valkosturinn „Senda inn minning- ar/afmæli“ ásamt frekari upplýs- ingum). Skilafrestur Ef birta á minningar- grein á útfarardegi verður hún að berast fyrir hádegi tveimur virk- um dögum fyrr (á föstudegi ef út- för er á mánudegi eða þriðjudegi). Ef útför hefur farið fram eða grein berst ekki innan hins tiltekna skilafrests er ekki unnt að lofa ákveðnum birtingardegi. Þar sem pláss er takmarkað getur birting dregist, enda þótt grein berist áð- ur en skilafrestur rennur út. Minningar- greinar

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.