Morgunblaðið - 04.04.2005, Blaðsíða 23

Morgunblaðið - 04.04.2005, Blaðsíða 23
MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 4. APRÍL 2005 23 MINNINGAR ✝ Svanhvít JónínaJónsdóttir fædd- ist í Hafnarfirði 29. október 1915. Hún lést á Sólvangi í Hafnarfirði á föstu- daginn langa, 25. mars síðastliðinn. Foreldrar hennar voru hjónin Guð- finna Einarsdóttir, f. 10. maí 1988, d. 5. ágúst 1982, og Jón Jónsson, f. 12. ágúst 1879, d. 26. okt. 1936. Svanhvít var ein 12 systkina en hin eru: Halldóra, f. 1. nóvember 1909, d. 1999, Aðalheiður, f. 23. ágúst 1911, d. 1988, Guðrún, f. 30. nóvember 1912, Ágúst Ottó, f. 18. júní 1914, d. 1987, Margrét, f. 26. júlí 1919, d. 1990, Sigrún. f. 24. apríl 1920, Björgvin, f. 11 ágúst 1921, Ragnar, f. 16. ágúst 1923, Valgerður, f. 6. september 1925, Að- alsteinn, f. 2. októ- ber 1928, Sigur- steinn, f. 18. ágúst 1931. Árið 1973 giftist Svanhvít Bjarna Oddssyni, f. 6.7. 1911. Hann lést 1992. Útför Svanhvítar verður gerð frá Fríkirkjunni í Hafnarfirði í dag og hefst athöfnin klukkan 13. Nú hefur hún kvatt þennan heim, hún systir mín, Svana í Gróf, ein elskulegasta manneskja sem ég hef kynnst. Börnin kölluðu hana jafnan Svönu, en hinir eldri sögðu ævinlega „Svana mín“. Allir vildu eiga hana sem sína. Í návist hennar fann maður alltaf hlýju og góðmennsku. Svana var ein af 12 systkinum. Á barnmörgu heimili sem okkar þurftu allir að leggja heimilinu lið strax og aldur leyfði. Ung fór hún að vinna við húshjálp á vetrum, en réð sig í kaupa- vinnu um sumur. Það kom fljótt í ljós að hún var hörkudugleg til allra verka, sem kom sér vel er hún ásamt Sigrúnu systur sinni réð sig sem kokkur á togarann Maí yfir síldveiðitímann. Sagt var að skipverjar hefðu ekki lagt af á þeirri vertíð. Svana kunni vel við sig á sjónum og var um árabil þerna á strandferða- skipinu Herðubreið í siglingum á hafnir kringum landið. Árið 1973 giftist Svana Bjarna Oddssyni og bjuggu þau í Gróf sín hjúskaparár. Bjarni lést árið 1992. Svana vann sem húsvörður við leikfimihús Barnaskóla Hafnarfjarð- ar um langt árabil. Þar var hún sem annars staðar dáð og elskuð af unga fólkinu sem nýtti húsið. Þeir minnast þess handboltamennirnir úr FH, sem valdir voru í landslið til keppni á Ól- ympíuleikunum 1970, er hún kom til þeirra og afhenti þeim umslag með peningum sem hún bað þá að þiggja sem fararstyrk. Þetta lagði hún til af lágum launum sínum, og þetta var henni líkt. Börn sóttu ekki peninga í sjóð Svönu enda var sá sjóður rýr. En hún átti annan sjóð fullan af ást og alúð sem hún veitti ríkulega úr til barnanna sem í kringum hana voru og vildu hvergi frekar vera. Það var sá sjóður sem börnin kunnu svo inni- lega að meta. Húsmóðurstörfin veittust Svönu létt. Allt var svo snyrtilegt í kringum hana. Menn undruðust hvað hún gat lagað mikinn og bragðgóðan mat úr efnum sem stundum voru af skornum skammti. Frænkur hennar lærðu mikið af henni og segjast nota aðferð „a la Svana“ þegar mikið liggur við. Eftir að við systkinin vorum flogin eitt af öðru úr hreiðrinu í Gróf varð það hlutskipti Svönu að annast aldr- aða móður okkar um árabil uns hún kvaddi þennan heim. Þetta gerði Svana af einstakri alúð. Fyrir þetta stöndum við í mikilli þakkarskuld við hana eins og í mörgu öðru. Enginn hefur átt ég finn aðra eins perlu að systur, sagði ég í vísukorni sem ég sendi Svönu minni er hún varð fimmtug. Eins og það var satt þá, þá er það satt núna er ég skrifa þessar minningar- línur og ég veit að hér mæli ég fyrir munn allra systkina minna. Síðustu ár ævinnar bjó Svana í skjóli nöfnu sinnar og manns hennar í Fjóluhvammi 14 í Hafnarfirði og naut þar mikils ástríkis og umhyggju þeirra og barna þeirra. Svana í Gróf kvaddi þennan heim á Sólvangi við lækinn í Hafnarfirði. En við lækinn átti hún margar unaðs- stundir. Blómin fölna, fjörið dvín, fellur rós í haga. Sofðu, elsku systir mín, sætt um nótt og daga. Aðalsteinn Jónsson. Elsku besta nafna mín. Fátækleg orð duga skammt til að þakka allt það sem nafna mín hefur gefið mér og fjölskyldu minni frá fyrstu tíð. Marg- ar af bestu minningum æsku minnar eru tengdar henni og heimsóknum okkar systkinanna að norðan til Svönu og ömmu í Gróf. Þar var okkur tekið af alúð og gleði sem gerði það að verkum að okkur leið hvergi betur. Ég fékk líka að njóta þess að bera nafnið hennar og fann að það skipti hana máli. Svana vakti yfir velferð okkar frá því ég man eftir mér og hef- ur verið börnunum okkar Júlla sem besta amma og er þá lítið sagt. Sú skilyrðislausa natni sem hún sýndi varðandi allt sem hún gerði verður mér ávallt til eftirbreytni. Ég man eftir að hafa spurt Svönu þegar ég var krakki hvort hún yrði aldrei þreytt á að vera svona dugleg, en henni fannst spurningin hálfundar- leg. Svana gerði aldrei kröfur um neitt endurgjald fyrir allt það sem hún gerði, eða kvartaði undan okkur þótt við værum ekki eins og stilltum krökkum sæmir. Þess vegna leið okk- ur alltaf vel með henni. Þegar Bjarni kom inn í líf hennar og auðgaði það var öllum ljóst að þau báru virðingu hvort fyrir öðru og hann skildi vel það mikilvæga og miðlæga hlutverk sem Svana hafði í Grófarættinni, ekki síst gagnvart fjölskyldunni okkar að norðan. Við vorum því fegin að geta deilt með þeim börnunum okkar. Það voru forréttindi fyrir okkur Júlla og börnin að fá að hafa Svönu hjá okkur síðustu þrettán árin. Við vissum að hún tók vel á móti ungviðinu þó að við foreldrarnir værum önnum kafin í vinnu, – þau komu aldrei að tómum kofanum. Svana mín, takk fyrir allt það góða sem þú gafst okkur og Guð varðveiti minningu þína. Svana Aðalsteins. Svanhvíti Jónínu Jónsdóttur þekki ég sem Svönu frænku. Hún var sú sem stóð eftir af 13 systkinum á ætt- aróðalinu Gróf við Hamarinn í Hafn- arfirði. Þegar ég var smástrákur eyddi ég mörgum stundum hjá henni þar sem hún hvatti mig m.a. til söngs og kenndi mér fjöldann allan af text- um. Til hennar Svönu var alltaf gott að fara, hvort sem það var á laug- ardagsmorgnum til þess að horfa á Afa eða með henni heim af róló í kringlur og heitt kakó. Eitt sinn þeg- ar foreldrar mínir fóru með tvö eldri systkini mín til útlanda þá var hið næsta heimili hjá henni Svönu í Gróf. Þegar ég var fimm ára lést Bjarni, maðurinn hennar Svönu. Um svipað leyti stóðum ég og mín fjölskylda í flutningum. Þá var það ákveðið að Svana mundi búa hjá okkur í Fjólu- hvammi 14. Gerð var íbúð fyrir hana á neðri hæðinni, en varla mátti sjá að hún byggi ein í þessari íbúð þar sem við vorum þar, að minnsta kosti eitt okkar, nánast öllum stundum. Frá þessari íbúð teygði sig oft upp á efri hæðina pönnuköku- eða möffins-ilm- ur blandinn kærleika hennar og góð- mennsku, sem lokkaði mann í heim- sókn ef maður var þar ekki þá þegar. Á grunnskólaárunum fórum við yngri systir mín um árabil í skólann eftir hádegi. Þar sem allir aðrir voru ýmist í vinnu eða skóla vorum við þrjú heima. Hún Svana hjálpaði okk- ur með heimaverkefnin og hlusaði á okkur stama orðin á fyrstu lestrarár- unum. Svo gaf hún okkur hádegis- mat, eggjabrauð og kókópöffs, áður en lagt var af stað í skólann. Á kvöld- in kom hún svo upp til okkar og borð- aði með okkur kvöldmat. Ef mér gekk illa að sofna kom hún inn til mín og bað með mér bænirnar sem hún hafði kennt mér. Hún Svana var með okkur á jólum og öðrum hátíðisstund- um og einnig í hversdagsleikanum. Hún var frænka mín, fóstra mín og þriðja amma mín. Svana í Gróf, blessuð sé minning hennar. Kristinn Júlíusson. Elsku Svana mín, ég á þér svo margt að þakka. Þú tókst mig inn á heimili þitt í Gróf á mínum fyrstu ár- um sem endaði svo með því að heimili okkar sameinuðust eftir að Bjarni dó. Í Gróf man ég glöggt eftir spilum og söng ásamt glæfralegum ímyndunar- leikjum í bakgarðinum við Hamar- inn. Þegar þú komst með okkur í Fjóluhvamminn hugsaðirðu vel um mig og yngri systkin mín, bakaðir handa okkur, bjóst um rúmin og dekraðir við okkur út í eitt. Við nut- um góðs af því að eiga samvistir við þig, sérstaklega vegna þess að það hjálpaði okkur að skilja þína kynslóð og hvernig góðar manneskjur geta smitað góðmennskuna út frá sér. Eft- ir því sem ég óx úr grasi tókum við e.t.v. að fjarlægjast eins og vill oft verða í þessu annasama lífi. Nú þegar ég hugsa til þess að þú sért farin, sé ég eftir því að hafa ekki nýtt betur þær stundir sem við áttum saman í Fjóluhvamminum til þess að ræða við þig og fræðast um sögu lífs þíns. Mér þótti sárt að vera svo fjarri þér undir lokin en ég vona að þú fyrirgefir mér það að ég gat ekki grátið mikið. Ég veit að þú varst tilbúin til þess að fara. Þú varst mér og öllum öðrum mönnum ætíð góð og því hvílir þú nú í friði á himnum. Megi ást og kærleik- ur halda áfram að umvefja þig í eilífð- inni. Egill Júlíusson. Margar af mínum fyrstu minning- um eru af mér í pössun hjá Svönu. Hún hefur verið um sjötugt þegar hún var að kenna mér að fara á handahlaupum og kollhnís. Ekki nóg með að hún kenndi mér, heldur rúll- aði hún sjálf um ganginn í gömlu Gróf til að sýna mér. Ég man að ég ákvað þar og þá að Svana væri svalasta gamalmenni sem ég þekkti. Hún komst þá í tölu þeirra sem ég hafði sem fyrirmynd. Allar götur síðan hef- ur hún haldist í þeim hópi. Ég tel mig heppna að hafa fengið að búa með þér og kynnast betur þeim mismun sem er milli kynslóðar minnar og þinnar, þótt það hafi stundum verið erfitt fyr- ir 13 ára ungling að skilja. Ég var nú t.d. ekki alveg sátt þegar þú sagðir mér að ég ætti að búa um rúmið fyrir Kidda, sem var þá alveg fær um að gera það sjálfur. Mamma útskýrði fyrir mér seinna að Svana væri bara að kenna mér það sem hún ólst upp við. Og þó að ég væri ekki sammála Svönu um hlutverk kvenna á heim- ilinu þá lærði ég að virða hennar lífs- viðhorf. Það er svo margs að minnast. Ég á svo sannarlega eftir að sakna þess að fá Svönupönnsur aftur. Það er fátt betra en að koma heim eftir langan skóladag og finna ilminn af nýbök- uðum pönnsum. Bestu pönnukökur í heimi, ég sé mest eftir að hafa ekki beðið þig að kenna mér að baka þær. Eða þegar þú stoppaðir í sokkana með þykka þræðinum þannig að það var eins og ég væri með púða undir hælnum, svo að ég labbaði um hölt þá daga sem þeir voru eina parið sem ég fann í skúffunni. Elsku Svana mín þú hugsaðir alltaf svo vel um mig og okkur og varst sem besta amma. Þú munt alltaf eiga mjög sértakan stað í hjarta mínu. God nat gunnella. Þín Edda. Það er hásumar í Hafnarfirðinum. Við Magga systir erum í búinu okkar uppi í Hamri við Lækinn, að leggja síðustu hönd á skreytingar á undur- samlegum drullukökum. Þá kallar Svana frænka á okkur í kaffi. Við leggjum kökurnar frá okkur og hlaupum niður bratta hlíð Hamarsins í áttina heim í Gróf. Þegar inn er komið hendumst við í kapp upp þröngan brattan stigann upp á mið- hæðina og stoppum ekki fyrr en í litla krúttlega eldhúsinu hennar Svönu. Ilminn af kaffi og bakkelsi leggur um allt. Hún er að leggja síðustu hönd á að bera fram sykraðar pönnukökur, kleinur og svo náttúrulega hennar einstöku heimabökuðu flatkökur, hennar aðalsmerki! Svana er í léttum sumarfatnaði með blómóttan klút vafinn um höfuðið til að halda rúll- unum í skefjum og brosandi og snögg í hreyfingum hellir hún kaffi í bolla. Já, svona man ég Svönu frænku. Þessa fíngerðu, skapgóðu, yndislegu frænku mína sem nú hefur við háan aldur kvatt okkur og er komin á betri stað. Minningarnar frá heimsóknun- um í Gróf eru sterkar. Þú varst svo mjúk og elskuleg, eins og móðir. Það var alltaf mikil tilhlökkun að koma í Gróf. Þú leyfðir okkur stundum að gera hluti sem ekki allir hefðu leyft. Fyrir allt þetta er ég svo innilega þakklát, Svana mín. Ég kveð þig núna, elsku frænka, en mun geyma minningarnar um þig í huga mér. Hvíldu í friði. Auður Aðalsteinsdóttir. Látin er falleg gömul kona. Kona, sem var svo góð við mig og fjölskyldu mína. Konan sem ávallt tók svo vel á móti börnunum mínum þegar þau komu heim úr skóla eða leikskóla. Frænkan, sem var hluti af fjölskyldu okkar. Svana ræddi ekki mikið um heilaga ritningu en mér finnst það sem ritað er um kærleikann í Nýja testamentinu lýsa henni vel. Kær- leikurinn er langlyndur, hann er góð- viljaður. Kærleikurinn öfundar ekki. Kærleikurinn er ekki raupsamur, hreykir sér ekki upp. Hann hegðar sér ekki ósæmilega, leitar ekki síns eigin, hann reiðist ekki, er ekki lang- rækinn. Hann gleðst ekki yfir órétt- vísinni, en samgleðst sannleikanum. Hann breiðir yfir allt, trúir öllu, von- ar allt, umber allt. Kærleikurinn fell- ur aldrei úr gildi. Ég minnist Svönu með innilegu þakklæti fyrir samverustundirnar. Guð geymi þig. Júlíus B. Kristinsson. Kær móðursystir mín hún Svana í Gróf er látin. Ég var svo lánsöm að eiga hana frænku mína að frá því að ég var lítil stelpa heima í Gróf. Ég ólst þar upp meðal góðra kvenna sem studdu mig og hvöttu hvort heldur var í skóla eða íþróttum. Það var líka gott að eiga hana Svönu frænku að í gamla leikfimihúsinu við Lækjarskól- ann en þar vann hún lengi sem bað- vörður og varð einlægur stuðnings- maður okkar stelpnanna og strákanna sem æfðum handbolta með FH. Svana kenndi mér marga hluti eins og að setja rúllur í hár, galdra fram biximat „a la Svana“, um blómarækt og garðvinnu. Ævintýraljómi var yfir hlutum sem hún bjó til úr koparvírum, gleri, skeljum, kuðungum og pappír. Svana og amma bjuggu alltaf saman í Gróf og umhyggja Svönu fyrir ömmu var einstök alla tíð. Oft var margt um manninn í Gróf og naut Svana sín við að taka á móti systkinum sínum og frændfólki stóru og smáu. Hún var alla tíð létt á fæti og það var ekkert það uppátæki hjá okkur krökkunum sem hún tók ekki þátt í, s.s. að leika í leikriti, klifra eða fara í boltaleik. Svana giftist Bjarna Oddssyni þeg- ar hún var komin á miðjan aldur og var gaman að upplifa hvað þau voru hamingjusöm og gátu notið þess að ferðast og vera saman. Margra góðra stunda með Svönu og Bjarna er að minnast, hvort heldur það var á að- fangadagskvöld, gamlárskvöld, í ætt- arferðalögum eða venjulegur kaffi- sopi á síðkvöldi. Þótt Svana eignaðist ekki börn þá eignaðist hún sína eigin fjölskyldu innan ættarinnar, Aðal- stein frænda, Patriciu og börn þeirra. Mikil eftirvænting var hjá Svönu þegar von var á fjölskyldunni að norðan. Ég veit líka að norðanfólkið vildi hvergi frekar vera en heima hjá Svönu. Hún naut síðar meir um- hyggju og ástúðar nöfnu sinnar, Svönu, Júlíusar og barna þeirra eftir að hún flutti með þeim í Fjólu- hvamminn. Í litlu snotru íbúðina hennar var alltaf gott að koma, Svana fljót að bjóða kaffi og oft mátti sjá börnin í kringum hana eða sitja hjá henni. Ég veit að það veitti Svönu gleði að fá að fylgjast með þeim vaxa úr grasi og taka þátt í þeirra lífi. Kvöldið áður en Svana dó vorum við nokkur samankomin hjá henni og gerðum það sem henni þótti ofur- vænt um, við sungum saman eitt af lögunum sem systkinin í Gróf sungu svo oft saman, Nú máttu hægt um heiminn líða. Svana opnaði augun, nikkaði og gaf til kynna að þetta kynni hún að meta. Svana átti stóra ætt, einstök systk- ini, mágkonur og frændfólk að ógleymdri henni nöfnu hennar, þeirra umhyggju og alúðar naut Svana í ríkum mæli síðustu ævidaga sína. Einnig naut hún einstakrar umönnunar starfsfólks á 2. hæð á Sólvangi, hjúkrunarheimili. Ekkert verður eins og áður en góð- ar hlýjar minningar um kæra frænku munu fylgja okkur öllum sem kynnt- umst henni á lífsleiðinni. Hafðu kær- ar þakkir fyrir allt sem þú veittir okk- ur mömmu og börnunum mínum, elsku Svana. Kristín og fjölskylda. Nú hefur þú kvatt okkur, elsku besta frænka. Við systkinin viljum nota tækifærið og þakka þér innilega fyrir alla þá gæsku og hlýju sem þú hefur veitt okkur frá því við munum eftir okkur. Það var alltaf sama eft- irvæntingin að koma í heimsókn „suður“ og sérstök tilfinning að renna í hlað í Gróf að sumarkvöldi eftir (að okkur fannst) langt ferðalag á rykmettuðum malarvegi í stútfull- um fjölskyldubílnum. Þá tókst þú á móti okkur, Svana stóra, með þínu glaðlega viðmóti, kaffi á könnunni og ilmandi sykurpönnukökum og heima- gerðum flatkökum sem voru bestar af öllum. Geðþekkur ilmur frá gömlu Rafha-eldavélinni af kótilettum eða bixímat með spældu eggi gleymist seint og jafnvel mjólkin var betri hjá þér en annars staðar. Alltaf vildum við fá að gista hjá þér. Þar leið okkur best. Hjá þér kynntumst við Kana- sjónvarpinu, að ramba á róló og ekki síst að fá að koma með þér í leikfimi- húsið þar sem þú vannst lengst af, hinum megin við lækinn. Ekki heyrð- ist styggðaryrði frá þér, sama hvað gekk á hjá okkur krökkunum. Þú bara gantaðist með okkur og slóst þér á lær! Í fallegu umhverfinu niðri við læk eða við Hamarinn hjá grenitrjánum lékum við okkur frændsystkinin í „löggu bóa“ og fleiri leikjum og áttum athvarf heima hjá þér. Þar var líka stöðugur gestagangur. Skemmtilegir húsgangar fóru inn kjallaramegin án þess að banka, þeir birtust bara eins og ekkert væri sjálfsagðara því húsið þitt var eins og kaffihús eða strætó- stoppistöð, ekki síst fyrir hina stóru Grófarætt. Þarna fengum við nýjustu fréttir frá frændum og frænkum og öðrum Göflurum yfir rjúkandi kaffi og meððí. Seinna þegar við vorum við háskólanám fyrir sunnan var ómet- anlegt að geta komið til ykkar Bjarna og fengið eitthvað gott í gogginn og spjallað og rifjað upp skemmtilega viðburði frá bernskuárunum. Elsku Svana, við kveðjum þig nú með miklum trega. En um leið með fullvissu um að enginn hefði getað fengið betra veganesti út í lífið en að fá að þekkja þig og viðmót þitt. Hvíl þú í friði. Ívar og Elva. SVANHVÍT JÓNÍNA JÓNSDÓTTIR  Fleiri minningargreinar um Svanhvíti Jónínu Jónsdótt- ur bíða birtingar og munu birtast í blaðinu næstu daga. Höfundar eru: Örn Ragnarsson.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.