Morgunblaðið - 04.04.2005, Blaðsíða 26
26 MÁNUDAGUR 4. APRÍL 2005 MORGUNBLAÐIÐ
MINNINGAR
jafnvel enn traustari eftir. Núna þeg-
ar Einar Bragi er allur er okkur
mæðgum efst í huga minning um
góðan vin og gott skáld. Umhyggja
hans fyrir Stínu konu sinni, sem var
mikið veik síðustu árin, er okkur líka
hugstæð. Aðeins eru fáeinir mánuðir
síðan Stína lést, svo það var ekki
langt á milli þeirra hjóna. Þó að Ein-
ar Bragi væri sjálfur orðinn sjúkur
bar hann sig alltaf vel og ekki er
nema rúmur mánuður síðan við hjón-
in hittum hann í Kolaportinu, hressi-
legan og glaðlegan. Hann var þá að
kaupa sér bækur og var mjög ánægð-
ur. Ekki naut hann þeirra bóka lengi,
en það voru samt góð kaup. Jafnvel
þótt ekki hafi verið nema ánægjan af
því að kaupa bækurnar var það þess
virði.
Ef líf er eftir þetta líf er Einar
Bragi nú kominn á annað land þar
sem hann og faðir minn geta ef til vill
stofnað nýjan Birting. Svo mikið er
víst að Stína er þar hjá honum, og
bráðum fer að vora og það verður
regn í maí.
Una Margrét Jónsdóttir.
Um páskana sem nú eru rétt að
baki dvaldi ég austur á Síðu í mínu
gamla prestakalli. Á laugardaginn
fyrir páska skrapp ég í ökuferð aust-
ur á Skeiðarársand til að horfa á flug-
ið í vötnunum stríðu sem steyptust
þar fram á sandinn í hlýindunum.
Þegar ég í bakaleiðinni ók yfir hraun-
ið austan Orrustuhóls hringdi sím-
inn. Það var vinur okkar beggja Ein-
ars Braga og mín. Hann hafði daprar
fréttir að færa – sagði að Einar væri
allur, hefði látist þennan dag, 26.
mars.
Þessi frétt kom mér í sjálfu sér
ekki óvænt vegna þess að um all
langt skeið hafði hann glímt við
skæðan sjúkdóm sem nú hafði lagt
hann að velli. En þrátt fyrir það var
fregnin reiðarslag – og markaði
þáttaskil.
Góða stund sat ég grafkyrr í bíln-
um og horfði á skrúðgrænt hraunið
sem forfaðir hans lét breyta stefnu í
Eldmessunni 20. júlí 1783 – „Jón
frændi“, eins og Einari Braga var
tamt að tala um séra Jón Steingríms-
son. Svo hélt ég áfram ferð dapur í
sinni. Ég var dapur af því hér var
fallinn einn úr hópi minna bestu og
nánustu vina – maður sem ég hafði
þekkt í meira en hálfa öld, eða frá því
að hann kom heim frá námi í Svíþjóð
sumarið 1953.
Þótt ég væri þá enn hálfgerður út-
kjálkastrákur þóttist ég reyna að
fylgjast með því sem var að gerast í
íslensku menningarlífi og öldurótinu
sem nýjar stefnur ollu. „Hið hefð-
bundna ljóðform er nú loksins dautt,“
hafði Steinn Steinarr sagt í blaðavið-
tali í október 1950 (Líf og list).
Þegar ég kynntist Einari Braga
var hann þegar orðinn einn höfuð-
boðberi módernismans á landi hér og
hafði nýlega stofnað tímaritið Birting
sem hann gaf út á árunum 1953–1968
ásamt nokkrum öðrum framúr-
stefnumönnum. Birtingur olli
straumhvörfum í íslensku menning-
arlífi. Ritið veitti nýjum viðhorfum
inn í kyrrstætt og hálfgert sveita-
mannasamfélag sem oft á tíðum
botnaði ekkert í boðskap hans.
Og Birtingur lét ekki aðeins að sér
kveða um skáldskap og myndlist. Á
dögum kalda stríðsins hjó hann á
báða bóga í þjóðfélagsmálum og
breytti þá engu hvort fyrir höggi
urðu undirlægjumenn erlendrar her-
setu eða afstöðuleysi róttækra sam-
taka við risann í austri sem á 6. ára-
tugnum staðfesti svik sín við hugsjón
sósíalismans.
Þegar samtök hernámsandstæð-
inga voru stofnuð árið 1960 var Einar
Bragi þar í forystusveit. Minnisstæð
er mér ræðan sem hann flutti við hlið
herstöðvarinnar á Miðnesheiði áður
en lagt var upp í fyrstu Keflavíkur-
gönguna 1960. Þar deildi hann hart á
þá menn sem „hneppa vildu þjóðina
til framtíðar í fjötra amerískrar her-
stöðvar,“ eins og hann komst að orði.
Sumarið 1960 eyddum við Einar
Bragi oft hverri stund í þessum sam-
tökum en bundumst jafnframt vin-
áttuböndum –og fyrr en varði urðu
þau hjónin, hann og Kristín, heimilis-
vinir sem ljúft var að heilsa á hlaði og
bjóða í bæ.
Þótt við Jóna flyttumst austur að
Kirkjubæjarklaustri um jólin 1963 og
vík yrði milli vina komu þau Kristín
samt í heimsókn a. m. k. einu sinni á
ári og hlökkuðum við ætíð mikið til
þeirra heimsókna, sem var menning-
arsprauta í fásinninu.
Í fyrsta skipti komu þau í heim-
sókn í ágúst 1964. Höfðu þá í farteski
sínu skáldið Stefán Hörð sem ég
hafði ekkert þekkt áður. Daginn eftir
messaði ég á Núpsstað í fyrsta skipti.
Kristín og skáldin komu með mér til
kirkjunnar og varð fagnafundur með
þeim frændum Einari Braga og
Hannesi landpósti sem stóð undir
bænhúsveggnum uppábúinn í Gefj-
unarfötum og tuggði strá þar til tekið
var til. Um kvöldið skrifuðu þau í
gestabókina: „Þökk fyrir messuna á
Núpsstað og annað gott.“
Einar Bragi er ákaflega minnis-
stæður maður. Hann var hlaðheitur,
traustur og vinfastur. Þótt hann væri
alla daga önnum kafinn hafði hann
alltaf tíma til að sinna gestum, sem
bókstaflega snjóaði inn á heimili
þeirra hjóna. Hann var margslung-
inn hæfileikamaður, skáld gott, frá-
bærlega ritfær eins og hinar fjöl-
mörgu þýðingar hans votta. Þótt
skáldskapurinn og ritstörfin ættu
hug hans allan gaf hann sér einnig
tíma til að skrifa fimm binda verk um
heimabyggð sína Eskifjörð. Hann
eyddi heilu sumri í heimildasöfnun á
Ríkisskjalasafninu danska og Kon-
unglegu bókhlöðunni þar sem við
vorum samtíma þetta sumar, hið
fræga sumar 1968 – og grúfðum okk-
ur því fastar ofan í skræðurnar sem
æskulýðurinn varð háværari á götum
úti. Hann var fylginn sér í þjóðmála-
baráttunni og stundum harðskeyttur
svo að undan sveið og má ef til vill
rekja til þess þá lágkúru úthlutunar-
nefnda listamannalauna að honum
skyldi ekki fyrir löngu hafa verið
skipað þar í efsta flokk því að líklega
er hann sá menningar- og formbylt-
ingarmaður sem á síðari hluta 20.
aldar skilur eftir sig dýpri röst í bók-
menntum og menningu þjóðarinnar
en flestir aðrir.
Það var ætíð jafn gaman að hitta
Einar Braga. Breytti þá engu hvort
það var á heimili hans þar sem Krist-
ín töfraði fram krásir eða í ferðalög-
um utan lands og innan.
Ég minnist ferðar sem við fjöl-
skylda mín fórum með þeim hjónum
frá París norður til Paimpol á slóðir
frönsku fiskimannanna, Íslending-
anna eins og þeir voru stundum
nefndir í heimkynnum sínum. Aust-
firðingurinn Einar var auðvitað
handgenginn sögu þeirra hér við land
og kunni margt að segja Tonton Yves
Íslandssjómanni sem við hittum í
þessari ferð, en hann var aðeins 16
ára gamall þegar skútan hans, Au-
rora, strandaði á Sandfellsfjöru og
Öræfabændur, margir frændur Ein-
ars Braga, björguðu honum ásamt
fleiri mönnum.
Ógleymanleg er ferðin sem ég fór
með þeim Einari og Thor Vilhjálms-
syni um Vestfirði árið 1982 þegar
Einar á Seftjörn á Barðaströnd fór
með okkur á trillu sinni út í Hergils-
ey og „við sátum í grasinu og Einar
(þ. e. Einar á Seftjörn) jók okkur
skilning á sérstæðu mannlífi í eyjun-
um, lífsháttum þarna og hvernig
stæltist kjarkur í sókn eftir lífsbjörg
sem var nóg af ef menn báru sig eftir
henni og höfðu útsjón. En nú vil ég að
þið farið með kvæði eftir ykkur sjálfa
og ég skal þá fara með eitthvað líka,
sagði hann. Ég vísaði málinu til
skáldbróður míns Einars Braga sem
fór með ljóð eftir sig sem ég hef aldr-
ei fyrr heyrt né lesið. Síðan tók Einar
á Seftjörn við og fór með ljóð eftir
sig. Þetta var góð stund,“ segir Thor í
lýsingu á ferðalaginu (Eldur í laufi,
R. 1991, bls. 25).
Fyrir nokkrum árum stóðum við
félagar, ég, Einar Bragi og Jón
Hjartarson, lengi skólastjóri á
Kirkjubæjarklaustri, ásamt þeim Ás-
laugu konu Jóns og hjónunum Svan-
dísi og Val í Úthlíð í Skaftártungu,
við minnismerkið um Skaftfellingana
sem úti urðu á Mælifellssandi á
Fjallabaksleið syðri haustið 1868, en
fundust fyrst tíu árum síðar undir
einmana klapparþúst í sandauðninni.
Það var eftirminnileg stund að hugsa
til örlaga þessara manna þarna í
auðninni sem skáldið dýpkaði með
frjóu tungutaki.
Og þannig væri hægt að rekja
samveru og samferð með þessu góða
skáldi. Ég er þakklátur fyrir að hafa
notið samferðar hans í meira en hálfa
öld, en við fráfall hans skynjar maður
að allt er í heiminum hverfult því fyrr
en varir þeysir sá sem bleika hest-
inum stýrir upp að reiðskjóta vina
manns og grípur um taum:
Mínir vinir fara fjöld,
feigðin þessa heimtar köld.
Ég kem eftir, kannske í kvöld,
með klofinn hjálm og rofinn skjöld,
brynju slitna, sundrað sverð og syndagjöld.
(Bólu Hjálmar.)
Ég votta aðstandendum Einars
Braga mína dýpstu samúð.
Sigurjón Einarsson.
Ég hverf,
en hvítar örvar
annarlegra ljósa
sem loga í augum dagsins
falla á veg minn,
lýsa spor mín
í gráum sandinum
þegar náttar.
(Einar Bragi.)
Það er með hlýju, sorg og mikilli
eftirsjá sem við kveðjum Einar
Braga, svo stuttu eftir að Kristín
kona hans var öll. Hugurinn geymir
ljósmyndina af þeim ungum. Hann
hlédrægur í virðulegum frakka og
með stúdentshúfu á höfði. Hún björt
yfirlitum, brosandi með kápuna frá-
hneppta. Hann stoltur af henni. Hún
glöð. Kristín og Einar. Bragi og
Stína. Ekki hægt að tala um hann
nema að minnast hennar. Alltaf eins
og nýtrúlofuð. Og endurtóku trúlof-
un sína með nýjum hring handa
Kristínu þegar hún fagnaði áttræð-
isafmælisdegi sínum.
Bók er lokað. Heilt tímabil er liðið.
Það er erfitt að ímynda sér að ekki
verði lengur hægt að líta inn á Suður-
götuna. Njóta návistar, frásagna og
hlýju. Heyra sögur af fáránleika
hversdagsins. Veltast um af hlátri í
sófanum.
Einar Bragi var skáld, rithöfund-
ur, þýðandi og útgefandi. Allt í kring-
um hann var ljóðrænt, fallegt og
hugsað. Engar tilviljanir. Engin
aukaatriði. Vinnusemi og hógværð.
Ljóð hans eru fáguð en beitt. Þau
minna á ljósmyndir Roberts Franks
frá sjötta áratug liðinnar aldar. Hjá
báðum er að finna melankólískan
húmanisma eftirstríðsáranna. Návist
lífs og dauða. Ástina á kvenleikanum.
Tilfinninguna fyrir því stóra í því
smáa.
Aðrir munu hæfari til að fjalla um
viðamikil ritstörf Einars Braga.
Hvernig tókst honum að koma öllu í
verk? Þýðingar á leikritum Strind-
bergs og Ibsens. Saga Eskifjarðar,
hans heimabyggðar. Ljóðaþýðingar.
Eigin ljóð. Tímaritið Birtingur
(1955–1968), stórvirki íslenskrar
menningarsögu, sem Einar ritstýrði
ásamt þeim Herði Ágústssyni, Thor
Vilhjálmssyni og Jóni Óskar, þegar
menn höfðu enga styrki, engin lista-
mannalaun og orðið sponsor ekki til.
Hann safnaði efni. Allt framsækið.
Nýjustu evrópsku og bandarísku rit-
höfundarnir. Myndlist. Ljóð. Bygg-
ingarsaga. Lét gera kápur. Engin
eins. Allar spennandi. Prófarkalesa.
Hvaðan kom pappírinn?
Ég gríp heftið umtalaða 1957, þeg-
ar Einar fékk Dieter Roth til að
brjóta um. Þegar því er flett núna er
erfitt að skilja af hverju það olli
fjaðrafoki. Ísland var svo fámennt og
veggirnir svo þröngir. Ekkert útsýni,
þótt það væri bjart til fjalla.
Einar Bragi hafði einstaklega
næmt auga fyrir myndlist og skildi
strax ný tjáningarform, sem stríðið
fæddi af sér, hvort sem það var
skáldskapur, leiklist, ljósmyndun eða
prent. Hann unni prentlistinni og
stofnaði, í félagi við Dieter, sérkenni-
lega skemmtilegt félag, ED hét það
og var upphafið að magnaðri útgáfu-
starfsemi þeirra beggja.
Það var hátíð að opna umslögin frá
Einari Braga. Því alltaf bárust okk-
ur, til Parísar og New York, nýjar
bækur. Síðustu árin voru það ljóða-
þýðingar hans eftir fjarlæg norræn
skáld. Bækur sem gott er að hand-
leika, fletta, taka með sér og grípa í
hér og þar. Áritaðar sumar- eða jóla-
kveðjum með hans listafallegu rit-
hönd. Litdjúpar bókakápur, rautt,
blátt, gult og grænt, sem minna þeg-
ar allt kemur til alls svo óendanlega
sterkt á hann.
Hvíl í friði. Með Stínu. Þið saman.
Alltaf.
Æsa Sigurjónsdóttir, París,
Gréta Ólafsdóttir, New York,
og fjölskyldur þeirra.
Einar Bragi er farinn úr tímanum.
Þá er horfið eitt af fremstu skáldum
Íslands og Norðurlandanna.
Ég hef misst þá manneskju sem
gaf mér ævarandi ást mína á Íslandi,
ekki aðeins skáldskapnum en einnig
ástina á landinu og þjóðinni.
Við kynntumst þegar ég kom í
fyrstu heimsókn mína til Íslands
1971 og strax varð vinátta okkar svo
sterk að ég heimsótti landið á hverju
ári upp frá því. Oftast bjó ég heima
hjá Stínu og Braga á Bjarnarstígnum
og naut þar gamaldags íslenskrar
gestrisni og örlætis. Það má einnig
segja að þessi vinátta hafi leitt til
þess að ég síðar fann ást mína hér á
landi og settist hér að.
Það var einkum á áttunda og ní-
unda áratugnum sem við unnum
saman að margvíslegum verkefnum.
Fagurkerinn Einar Bragi var eld-
hugi sem bjó yfir ósveigjanlegum
vilja til að berjast gegn öllu óréttlæti:
Hann var staðfastur talsmaður
þeirra sem minna mega sín og búa
við kúgun og ofbeldi, og hann skynj-
aði skýr tengsl milli skáldskapar og
pólitískrar baráttu fyrir frelsi. Hann
hafði takmarkalausa trú á að ljóðið,
sem tjáir dýpt mennskunnar og hin-
ar fíngerðustu tilfinningar, geti feng-
ið okkur til að koma auga á systur og
bróður í ólíkustu menningarsam-
félögum. Þannig búi ljóðið yfir gíf-
urlegum krafti til að vekja samstöðu
og samábyrgð.
Í þessu ljósi sé ég mjög glöggt hið
mikla verk hans sem þýðanda er-
lendra ljóða: Ekki síst er vinna hans
að þýðingum og útgáfu á samískum
skáldskap eins konar yfirlýsing um
samstöðu og stuðning. Estetísk gæði
sem hann birti okkur í ljóðunum
benda ætíð á manneskjuna og rétt
hennar til frelsis og jafnréttis hvar
sem er í heiminum. Hvergi er gefið út
jafn mikið af þýðingum á samískum
bókmenntum og hér á Íslandi. Og allt
er það Einari Braga að þakka.
Við fórum saman í ýmsar ævin-
týraferðir bæði úti í Skandinavíu, um
Færeyjar og hér á Íslandi. Minningin
um bílferðirnar á Íslandi er sveipuð
ljóma ævintýrisins – við lásum ljóð og
fluttum músík ásamt trúbadúrnum
Ása í Bæ og við heimsóttum Guð-
mund Hagalín sem dansaði. Og með-
al þessara björtu minninga er heim-
sókn þeirra Einars Braga og vinar
okkar, færeyska skáldsins Karsten
Hoydal, til heimabæjar míns, Molde í
Noregi. Þá efndum við til ljóðlistar-
kvölda og þá varð hátíð í bæ.
Einar Bragi kynnti mig fyrir
mörgum af fremstu rithöfundum Ís-
lands. Einkum varð vinátta og sam-
vinna okkar Einars Braga og Thors
Vilhjálmssonar traust og sterk. Það
leiddi til þess að við stofnuðum Bók-
menntahátíðina í Reykjavík 1985 og
þar fengum við í lið með okkur unga
rithöfunda og bókmenntafræðinga
sem síðar tóku við stjórn hátíðarinn-
ar.
Einar Bragi kynnti mig líka fyrst
fyrir íslenskum lesendum með meist-
aralegri þýðingu sinni á ljóðabók
minni, Hljómleikar í hvítu húsi. Einn-
ig fyrir það á hann ómælda þökk
mína. Ég er glaður yfir að ég fékk
tækifæri til að kynna hann á norsku
með ljóðasafninu Regn í maí. Það var
strax litið á hann sem athyglisvert
ljóðskáld í Noregi. Við Norðmenn
eigum einnig Einari Braga að þakka
stórvirkið mikla að þýða og gefa út
leikrit Ibsens í tveggja binda glæsi-
útgáfu.
Einar Bragi var vinur vina sinna.
Og hann var einn hinna fáu sönnu
skálda. Hann trúði einlæglega á kraft
skáldskaparins og að orðið sé sterk-
ara en sverðið.
Hann hrópaði ekki hátt en rödd
hans heyrðist. Hann skrifaði ekki
þykkar bækur en orðin sem hann
skrifaði munu standa um ókomna tíð.
Þau munu halda áfram að hreyfa við
nýjum og nýjum kynslóðum.
Knut Ødegård.
„Það er barist um það, hvort hið
eina sem er ungt og vaxandi í ís-
lenskri ljóðlist í dag á að fá að lifa og
þroskast eða ekki. Ég bið um að fá að
vera í hópi hinna ungu í þeirri bar-
áttu.“
Þetta skrifaði Einar Bragi í blaða-
grein árið 1952 þegar hæst stóð orra-
hríðin um réttmæti nýjunga í ís-
lenskri ljóðagerð. Hann var ekki
einungis eitt af ungskáldunum sem
brutu nýjungum braut um þær
mundir, hann var líka skeleggasti
málsvari ungra skálda og skýrði
markmið þeirra og metnað fyrir
hönd skáldskaparins.
Miklum ritverkum skilaði Einar
Bragi af sér á langri ævi. Hann var
eitt af öndvegisskáldum tuttugustu
aldar. Ljóð hans eru einstaklega fág-
aður og tilfinningasterkur skáld-
skapur og gildir einu hvort hann yrk-
ir þjóðfélagsádeilu, náttúruljóð eða
um örlög, ástir, lífsgleði og dauða.
Listsköpunin sjálf var honum sífellt
umhugsunarefni eins og fram kemur
í „Nafnlausu ljóði“ hans:
Ég sem orðum ann
nefndi einatt í auðmýkt
konu, mann
líf mold vatn,
á vörum brann
veikasta sögnin
að elska
Vandvirkni Einars Braga var ein-
stök; hann var sífellt að skyggna eig-
in ljóð og endurskapa þau og sagði
raunar að ljóð væri seint fullort.
Ljóðaþýðingar hans eru miklar og
vandaðar, allt frá því að Erlend nú-
tímaljóð komu út 1958 og til hinsta
dags. Meðal slíkra verka frá síðustu
árum eru þýðingar hans og kynning
á ljóðum skálda á jaðarsvæðum, þ.e.
grænlensk og samísk ljóð.
Mörg önnur ritverk lét Einar
Bragi eftir sig. Bókmenntalegt stór-
virki eru þýðingar hans á leikritum
Ibsens og Strindbergs. Einnig ritaði
hann viðamikil verk í óbundnu máli,
m.a. bernskuminningar, sagnaþætti,
skáldsögu og Eskju I-IV (sögu Eski-
fjarðar). Hann var lífið og sálin í einu
merkasta menningartímariti tuttug-
ustu aldar, Birtingi, sem var kynn-
ingar- og baráttumálgagn íslenskra
módernista.
Ljóð Einars Braga eru fagur og
traustur minnisvarði um þetta
hjartahlýja skáld og þann ágæta
drengskaparmann sem hann var.
Hann ákvað ungur að taka þátt í
menningarbaráttunni og það gerði
hann svikalaust alla tíð. Hann var
eldhugi í baráttunni fyrir hugðarefn-
um sínum og jafnan í fremstu víglínu.
Með Einari Braga hvarf af sjón-
arsviðinu síðasta atómskáldið af
þeim sem hlutu þá nafngift um miðja
síðustu öld. Við munum ætíð minnast
hans með þakklæti og gleðjast af
verkum hans. Það var ómetanleg
gæfa að fá að kynnast Einari Braga
og ganga með honum á ljóðvegum í
hálfa öld.
Eysteinn Þorvaldsson.
Við andlát Einars Braga skálds og
rithöfundar leita á hugann myndir
frá löngu liðnum dögum.
Kosningadagurinn 28. júní 1953.
Inn á kosningamiðstöð Sósíalista-
flokksins í Hafnarstræti ... á Akur-
eyri snarast ungur og glaðbeittur
maður, grannur og kvikur í hreyfing-
um, heimsmannslegur en ekki hár í
loftinu og býður fram krafta sína við
störf dagsins. Þetta var Einar Bragi
og þarna bar fundum okkar saman í
fyrsta sinn. Hann var þá alveg ný-
kominn heim frá Svíþjóð, hafði
stundað þar háskólanám í bókmennt-
um og listasögu í fimm ár og einnig
gefið út sínar tvær fyrstu ljóðabæk-
ur. Árið 1953 kom sú þriðja, Gesta-
boð um nótt, og hafði m.a. að geyma
kvæðið Haustljóð á vori 1951 – sem
lýsir trega fjölmargra þegna okkar
unga lýðveldis þegar landið var á ný
EINAR
BRAGI