Morgunblaðið - 04.04.2005, Blaðsíða 19
MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 4. APRÍL 2005 19
UMRÆÐAN
UNDIRRITAÐUR er brott-
fluttur Siglfirðingur og býr langt frá
gömlu heimahögunum og er því
e.t.v. ekki með beinan atkvæðisrétt í
þessu máli. Vegagerð, hvar sem er á
landinu, snertir þó alla landsmenn
því þeir borga brúsann og njóta
einnig vegabótanna þótt í mis-
miklum mæli sé.
Ég hef lengi verið ósáttur við
þann sparnað að leggja veg um Héð-
insfjörð og beina þann-
ig allri umferð fyrir
Tröllaskaga í gegnum
Siglufjarðarkaupstað.
Hingað til hef ég þó
beðið eftir því að vega-
gerðarmenn áttuðu sig
á þessu sjálfir. Nú þeg-
ar samgönguráðherra
æpir „ræs“ get ég ekki
lengur orða bundist
þótt ef til vill sé of seint
í rassinn gripið.
Samkvæmt mínum
skilningi hefur mark-
mið vegabóta á seinni
árum verið að:
Stytta vegalengdir. Þar með spar-
ast tími, orkueyðsla minnkar, slit
minnkar og minni mengun verður.
Bæta vegi. Akstursskilyrði batna
með betri undirbyggingu og slitlagi,
breiðari og hærri vegum, meira af-
líðandi beygjum og brekkum o.s.frv.
Auka öryggi. Slysum fækkar með
bundnu slitlagi, breikkun vega og
brúa, aflíðandi beygjum, færri
blindhæðum, minni snjóþunga, betri
merkingum, vegriðum o.s.frv.
Minnka viðhald. Viðhaldskostn-
aður lækkar ef dregið er úr þörf á
enduruppfyllingu, ofaníburði, heflun
og snjómokstri.
Auk þess hefur við vegafram-
kvæmdir í vaxandi mæli verið leitast
við að valda sem minnstu óþarfa
raski á náttúrunni. Þar með er talið
jarðrask, þrenging fjarða og vatna,
efnistaka og losun, truflun með
auknu aðgengi, mengun o.s.frv.
Hér á eftir verður hverjum þess-
ara þátta gerð örlítið betri skil.
Stytting vegalengda
Vegalengdin milli Siglufjarðar og
Ólafsfjarðar verður að sönnu styst
með göngum í Héðinsfjörð. Þegar
vegalengdir með Héðinsfjarð-
argöngum og Fljótaleið eru bornar
saman gleymist hins vegar oft að
reikna með vegarstyttingunni úr
Fljótum um Mánárskriður til Siglu-
fjarðar ef Fljótaleið er valin. Allir
sem koma vestan að eða ætla vestur
um nytu góðs af vegarstyttingunni
sem þar yrði.
Vegabætur
Í dag eru verstu vegirnir á svæð-
inu vegurinn yfir Lágheiði og veg-
urinn úr Fljótum að Strákagöngum.
Báðir þessir vegir yrðu óþarfir ef
Fljótaleið yrði valin, en báðir áfram
í notkun ef Héðins-
fjarðargöng yrðu graf-
in. Mun auðveldara
væri að halda Fljóta-
leið opinni allt árið
heldur en veginum um
Stráka.
Aukið öryggi
Það eru úrelt við-
horf að beina hraðri
umferð gegnum þétt-
býli. Það er beinlínis
hættulegt að neyða þá,
sem eru að flýta sér
milli staða, til að aka
gegnum þéttbýli. Þeir skilja auk
þess ekkert eftir sig nema mengun,
slit á vegum og í versta falli slys.
Með Fljótaleið kæmu til Siglu-
fjarðar einungis þeir, sem hefðu
áhuga á að skoða og njóta staðarins.
Það eru hinir eftirsóttu „eiginlegu“
ferðamenn sem versla og gista og
skilja eftir sig virðisauka. Á Ólafs-
firði ætti auðvitað á sama hátt að
reyna að beina þjóðvegaumferðinni
sem mest frá þéttbýlinu.
Vegurinn um Mánárskriður er
auk þess hættulegur bæði að sumri
og að vetri. Eins og brattar hlíðar
með grjóthruni séu ekki nóg, þá síga
hlutar vegarins stöðugt og gætu
jafnvel hlaupið fram í sjó. Í þessum
bröttu hlíðum skapa snjóþyngsli og
hálka einnig óforsvaranlega hættu á
vetrum.
Minna viðhald
Árlega er milljónum varið í snjó-
mokstur og enduruppbyggingu veg-
arins um Mánárskriður. Þótt veg-
inum um Lágheiði sé lítið haldið við
þá þarf þó a.m.k. að hefla hann á
hverju vori og eitthvað að endurnýja
ofaníburð og merkingar. Jafnvel
þótt viðhald á hvern lengdarmetra
vegar stæði í stað við fyrirhugaðar
vegabætur þá myndi viðhald lækka
með styttingu vegar, en hún yrði í
heild mest ef Fljótaleið yrði valin.
Minnst rask á náttúru
Er ekki óþarfi að raska einum af
fáum óspilltum fjörðum landsins ef
annað er í boði? Að lokum má nefna
að ef Fljótaleið verður valin ykist ef-
laust umferð fyrir Tröllaskaga þar
sem það væri minni krókur og betri
vegir en nú er boðið upp á. Þetta á
sérstaklega við um þá sem ferðast
milli Sauðárkróks og Akureyrar því
þá eru orðin áhöld um hvor leiðin er
fljótlegri, sú syðri eða sú nyrðri.
Fyrir Ólafsfirðinga yrði Fljótaleið
einnig mun betri tenging til vesturs.
Undirritaður vill á engan hátt
draga úr mikilvægi jarðgangagerð-
ar á Tröllaskaga, heldur hvetja til
þess að strax verði gerð göng úr
Fljótum til Siglufjarðar og undir
Lágheiði í stað hinna fyrirhuguðu
Héðinsfjarðarganga. Ég tel að þótt
Héðinsfjarðargöng yrðu grafin yrði
áfram þörf fyrir styttri leið fyrir
Tröllaskaga og því líklegt að hún
komi til fyrr eða síðar og því yrði
Fljótaleið ódýrust þegar upp er
staðið.
Reynslan segir mér þó að Héðins-
fjarðargöng verði grafin og seinna
verði málinu „reddað í horn“ með
enn einum göngum úr Fljótum inn í
Skarðsdal.
Eru Héðins-
fjarðargöng
besta lausnin?
Konráð Þórisson fjallar
um Héðinsfjarðargöng
Konráð Þórisson
’Reynslan segir mér þóað Héðinsfjarðargöng
verði grafin og seinna
verði málinu „reddað í
horn“ með enn einum
göngum úr Fljótum inn
í Skarðsdal. ‘
Höfundur er fiskifræðingur.
BRÉF TIL BLAÐSINS
Morgunblaðið Kringlunni 1 103 Reykjavík Bréf til blaðsins | mbl.is
ÉG BJÓ á Akranesi þegar fyrst var
farið að tala um göng undir Hval-
fjörð og ég minnist þess að mörgum
þótti slíkt út í hött. Flestum á Skag-
anum þótti hugmyndin hins vegar
spennandi og var ég þeirra á meðal
enda mjög hlynntur auknum sam-
göngubótum landsins. Ég fagnaði
mjög þegar hafist var handa um
göngin og dáðist að frumherjakrafti
þeirra Spalarmanna og annarra sem
að þessu stóðu. Að vísu virðist sem
mistök hafi verið gerð við fjár-
mögnun verkefnisins þar sem nú er
unnið við endurfjármögnun og lána-
breytingar.
Ég hef alltaf verið þeirrar skoð-
unar að borga ætti göngin og rekst-
ur þeirra með veggjaldi en síðan
tæki ríkið við og sæi um viðhald og
öryggismál, en að mínu mati eru ör-
yggismál ganganna og reyndar ann-
arra jarðganga á Íslandi langt frá
því að vera fullnægjandi, en það er
miklu stærra mál og alvarlegra en
hér fer á eftir.
Ástæða þess að ég skrifa þessa
grein er sú að mér blöskrar það
ósamræmi sem viðgengst við gjald-
töku. Ég er einn af fjölmörgum sem
aka á amerískum pickup sem rétt
skríður yfir 6 metra eða nákvæm-
lega 6,2 m. Bíllinn er skráður sex
manna og skúffan er tveggja metra
löng. Gjaldið sem ég greiði er 3.000
kr. fyrir eina ferð í gegn, bíllinn til-
heyrir gjaldflokki 2 sem er ökutæki
6–12 metra. Ég get fengið mér veg-
lykil fyrir 40 ferðir og þá borga ég
2.145 kr. fyrir hverja ferð. Ef ég hins
vegar ætti bíl rétt undir 6 metrum
þá borgaði ég 1.000 kr. en get fengið
mér veglykil fyrir 40 eða 100 ferðir
og þá kostar hver ferð frá 550 og nið-
ur í 440 kr. Minn bíll með aftan-
ívagni má vera að 12 metrum en þá
borga ég samt 385 krónum meira
fyrir að keyra í gegn en allt að 45
metra halarófa + löglegt bil á milli
fjögurra fólksbíla eða jeppa með
óskráðar kerrur eða vagna sem geta
verið í alla vega ásigkomulagi. Ég er
hins vegar sjaldnast með kerru í
dragi því hún er innbyggð í minn bíl
sem er margfalt öruggara á allan
hátt.
Ég get vel skilið að einhvers stað-
ar liggja skil á milli gjaldflokka og
þeir sem eru rétt ofan við mörkin
séu og verði alltaf pirraðir. En það
er ekki eina ástæðan fyrir þessum
pirringi
Ef skoðaður er flokkur 3, þ.e. öku-
tæki yfir 12 metra, þá er gjaldið þar
3.800 kr. fyrir staka ferð en 2.717 kr.
miðað við 40 ferðir í áskrift, flestir
flutningabílarnir lenda í þessum
flokki en algengasta lengd þeirra er
frá 17 metrum og allt að 25 metrum
auk einstaka lengri sérflutningabíla.
Enn og aftur virðist ekki vera neitt
samræmi á milli flokka. Samkvæmt
öllu þessu virðist milliflokkurinn,
þ.e. 6–12 metra, innilokaður með
hlutfallslega hæsta gjaldið og ekkert
svigrúm.
Ef ekki fæst leiðrétting fyrir am-
erísku pickup-bílana sem skera sig
úr þar sem þeir eru í raun fólksbílar
með smápalli og falla í raun ekki að
þessari flokkun, þá hljóta eigendur
þeirra að krefjast þess að sama verði
látið yfir alla ganga og að allir borgi
sama fyrir þá lengd eða þá þyngd
sem í gegn fer.
Það er óhjákvæmilegt fyrir
stjórnendur Spalar að hlusta á og
skoða rök viðskiptavina sinna og
reyna að koma til móts við þá, ef það
er ekki gert og beinlínis röng gjald-
taka varin af fyrirtækinu fram í
rauðan … þá má búast við vaxandi
þrýstingi á stjórnvöld í þá átt að
gjaldtaka verði alfarið lögð af.
Þess má að lokum geta að eig-
endur pallbílanna eru nú óðum að
tala sig saman um aðgerðir til að
þrýsta á um réttláta leiðréttingu á
veggjaldinu.
ÞÓR MAGNÚSSON,
staðarhaldari á Gufuskálum.
Ósamræmi við gjaldtöku
Frá Þór Magnússyni:
UMMÆLI Halldórs Ásgrímssonar
um Evrópusambandið, í nýlega
fluttri ræðu, hafa vakið talsverða at-
hygli. Ekki þó fyrir það að ráð-
herrann væri að flytja einhver ný tíð-
indi í þeim efnum, heldur fyrst og
fremst vegna þess að hann hefur
breytt um tón. Það er ekki langt síð-
an ekki munaði svo miklu á ræðum
Halldórs og forustumanna Samfylk-
ingarinnar, þegar talið barst að Evr-
ópusambandinu.
En nú hefur Halldór kosið að tjá
sig með talsvert breyttum hætti og
vafalaust hefur þessi viðsnúningur
komið til vegna áhrifa frá aflameiri
aðilanum á stjórnarheimilinu. Maður
sem á að fara að stjórna borðhaldinu
þar verður auðvitað að sýna og
sanna, að hann sé fær um að halda
valdafjölskyldunni saman í kringum
krásirnar. Það hafa þó líklega ein-
hverjir í miðstjórnarvirkinu úti í
Brusselborg fengið hóstakviður og
jafnvel eitthvað þaðan af verra, þegar
þeir fréttu, að „our beloved Halldor“
væri farinn að tala um nýlendustefnu
Evrópusambandsins. En svo und-
arlegt sem það er, þá var Halldór í
því sambandi að tala sannleikann
sjálfan og einmitt þess vegna verður
umrædd ræða hans vafalaust lengi í
minnum höfð. Þar er sannarlega um
mjög einstaka ræðu að ræða frá hans
hendi. Auðvitað er Evrópusambandið
fullkomið nýlenduveldi, enda er það
skilgetið erfðaríki gömlu nýlendu-
veldanna. En nú verður að arðræna
Afríku og þriðjaheimsríkin með allt
öðrum hætti en gert var í gamla
daga. Það þarf að gæta þess að halda
andlitinu í öllum málum og kunna að
felubúast út í ystu æsar. Og þá list
kann Evrópusambandið alveg til hlít-
ar. Tindátar þess eru í þrautþjálf-
uðum hlutverkum út um allan heim
við það verkefni, að látast vera for-
svarar hjálpar og mannréttinda,
meðan arðránið heldur áfram í sífellt
vaxandi mæli, undir gæskuhjúpnum.
Af hverju sekkur t.d. Afríka dýpra og
dýpra í eymdina? „Stjórnmálaleg
spilling heimafyrir,“ segja Evrópu-
sambandsgreifarnir og andvarpa
þunglega með sorgarsvip. En hverjir
orsaka þessa spillingu og hverjir hafa
mestan hag af henni? Evrópskir auð-
hringar meðal annars, höfuðaflið að
baki Evrópusambandinu. Það er
margur Tsjombe enn í Afríku og þeir
sem tala eins og Lúmúmba hverfa
enn í dag sporlaust. Eina raunhæfa
breytingin í álfunni á síðustu fjörutíu
árunum virðist hafa orðið í Suður-
Afríku og mest fyrir tilverknað Man-
dela og félaga hans. En verða eft-
irmenn þeirra ef til vill keyptir upp
og látnir þjóna nýlenduherrum á ný, í
gegnum peningavald auðhringanna?
Margir hafa bent á hvernig ný-
lendustefnan hefur birst í hverju dul-
argervinu á fætur öðru í ýmsum
verkum ráðstjórnarinnar í Brussel.
En fleiri hafa þeir löngum verið sem
hafa verið blindir gagnvart skolla-
leiknum og aðeins viljað sjá í
tengslum við eigin framadrauma,
risavaxinn kastalann – táknmynd
valdsins. En nú hefur Halldór Ás-
grímsson öðlast aftur sýn – að
minnsta kosti um stundarsakir.
Reyndar er hann að bjargast nokk-
uð seint frá blindunni, þar sem hann
er að hætta sem utanríkisráðherra.
En þetta kraftaverk ætti samt að
geta sagt öllum andstæðingum Evr-
ópusambandsins, að það sé von með
alla menn, fyrst Halldór gat læknast
og fengið heilbrigða, þjóðlega, ís-
lenska sjón aftur. Vonandi verður
batinn varanlegur hjá honum og
kannski fara Össur og Ingibjörg Sól-
rún bráðum að sjá betur og réttar frá
sér í þessum málum en verið hefur.
Það ætti að geta orðið öllum Íslend-
ingum fagnaðarefni, sem vilja ekki að
landið okkar verði í framtíðinni hjá-
ríki og dulklædd nýlenda erlends
valds.
RÚNAR KRISTJÁNSSON,
Bogabraut 21, 545 Skagaströnd.
Nútíma nýlendustefna
Frá Rúnari Kristjánssyni
á Skagaströnd:
NOKKUR umræða hefur skapast
undanfarnar vikur um hvort óbein-
ar reykingar séu hættulegar heilsu
manna.
Í þeirri umræðu hafa komið
fram þau sjónarmið að það sé
mönnum hættulaust að dvelja í
reykjarkófi svo fremi sem þeir
haldi ekki sjálfir um og sjúgi vind-
linginn sem reyknum veldur. Í
ljósi þessarar sérkennilegu rök-
semdafærslu er fróðlegt að rifja
upp samantekt og niðurstöðu um-
fangsmestu rannsóknavinnu sem
fram hefur farið um þetta efni og
kynnt var á vegum California
Environmental Protection Agency
í Bandaríkjunum árið 1997.
Niðurstaða skýrslunnar var að
sannað væri að óbeinar reykingar
tengdust meðal annars: lágri fæð-
ingarþyngd barna, vöggudauða,
öndunarfærasýkingum í börnum,
astma í börnum, ertingu í augum
og öndunarfærum fullorðinna,
eyrnasýkingum í börnum, lungna-
krabbameini, krabbameini í nef-
holi, dauðsföllum vegna hjarta-
sjúkdóma og kransæðasjúkdómi.
Þá voru taldar líkur til að tengsl
væru milli óbeinna reykinga og
fósturláts, skertrar lungna-
starfsemi og krabbameins í leg-
hálsi.
Þeim sem hafa áhuga á að
kynna sér efni skýrslunnar til hlít-
ar er bent á eftirfarandi vefslóð:
http://www.oehha.org.
SIGURÐUR BÖÐVARSSON,
læknir á lyflækninga-
deild krabbameina,
Landspítala – háskólasjúkrahúsi.
Óbeinar reykingar eru
beinlínis hættulegar
Frá Sigurði Böðvarssyni:
Úrslitin úr
enska bolt-
anum beint í
símann þinn