Morgunblaðið - 04.04.2005, Blaðsíða 22

Morgunblaðið - 04.04.2005, Blaðsíða 22
22 MÁNUDAGUR 4. APRÍL 2005 MORGUNBLAÐIÐ MINNINGAR ✝ Erna Sigurðar-dóttir fæddist í Reykjavík 26. sept- ember 1948. Hún lést á Landspítala – há- skólasjúkrahúsi við Hringbraut hinn 30. mars síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Sigurður Jóns- son, sjómaður, f. 1911, d. 1981, og Sig- ríður Þórðardóttir, húsmóðir, f. 1919, d. 1996. Systkini Ernu eru Bergljót, f. 1946, Jón Þór, f. 1950, og Sæunn, f. 1954. Hinn 30. nóvember 1968 giftist Erna Jóni Ívarssyni, bankamanni, f. 1944. Foreldrar hans eru Ívar Þór Þórarinsson, hljóðfærasmið- ur, f. 1916, d. 1985, og Ragna Ágústsdóttir, húsmóðir, f. 1921. Jón og Erna eiga þrjú börn. Þau eru: 1) Ívar Þór, krabbameins- læknir, f. 1968, kvæntur Þóru Sigríði Karlsdóttur geðhjúkrun- arfræðingi, f. 1969. Dætur þeirra eru Sóley, f. 1993, og Birta Rós, f. 1996. Þau eru búsett í Noregi. 2) Eva Rut, skólaliði, f. 1971. Dætur hennar eru Erna Sigríður, f. 1989, Eydís Sara, f. 1996, og Ragna Sól, f. 1998, Ágústsdætur. Þær eru búsettar í Hafnarfirði. 3) Óm- ar Örn viðskipta- fræðingur, f. 1971, kvæntur Elfu Dögg S. Leifsdóttur, verk- efnisstjóra hjá R- RKÍ, f. 1975. Börn þeirra eru Dagur Steinn, f. 1999, og Arna Ösp, f. 2002. Þau eru búsett í Reykjavík. Erna ólst upp í Bústaðahverf- inu í Reykjavík og á ættir að rekja til Skagafjarðar og Vopna- fjarðar. Hún starfaði hjá Alþýðubank- anum á Laugavegi og síðar Ís- landsbanka frá stofnun hans. Lengst starfaði hún sem þjón- ustufulltrúi í útibúum Íslands- banka en síðast í þjónustuveri bankans. Erna verður jarðsungin frá Fossvogskirkju í dag og hefst at- höfnin klukkan 11. Þú mikla kona. Þú mikli mann- vinur. Minn yndislegi ástvinur og lífsförunautur. Engin orð fá lýst að- dáun minni á þér. Ég mun ætíð geyma minninguna um þig í hjarta mínu. Þinn Jón. Er sorgin djúpa hugann hrýs og hellist yfir myrkur, þá veginn vísar þökk og prís þinn væni hugarstyrkur. Mér örlæti og hreina ást og aðrar dyggðir kenndir. Er þörf var á þú aldrei brást þá yl og samúð sendir. Ávallt mun ég minnast þín um margar góðar stundir. Nú ertu, elsku móðir mín, loks mætt á drottins grundir. Ívar Þór Jónsson. Elsku amma og mamma okkar. Nú ertu dáin og við söknum þín svo mikið. Þú ert örugglega fallegasti bleiki engillinn á himnum. Við skrifuðum þér bréf þegar þú varst á spítalanum og hér er það: Elsku mamma/amma þú ert best af öllum í heiminum! Takk fyrir allar frábæru stundirnar og takk fyrir að vera alltaf svona góð við okkur. Við elskum þig rosalega mikið. Vonandi verður þú alltaf stolt af okkur og fylgist vel með. Guð geymi þig, elsku amma og mamma. Jesús, bróðir vor og frelsari. Þú þekkir dánarheiminn. Fylgdu vini vorum, þegar vér get- um ekki fylgst með honum lengur. Miskunnsami faðir, tak á móti henni. Heilagi andi, huggarinn, vertu með oss. Amen. Þín elskandi dóttir og ömmustelp- ur, Eva Rut, Erna Sigríður, Eydís Sara og Ragna Sól. Elsku mamma. Takk fyrir að vera svona yndisleg móðir. Takk fyrir að styðja mig ávallt, nokkurn veginn sama hversu vitlausar hugdettur ég fékk. Takk fyrir að halda utan um það yndislega heimili sem við systk- inin bjuggum á í uppvexti okkar. Takk fyrir að vera svona frábær fyr- irmynd. Takk fyrir að kenna mér hvað er rétt og hvað er rangt. Takk fyrir að taka öllum mínum vinum jafn opnum örmum og þú gerðir. Takk fyrir að vera frábær tengda- móðir. Takk fyrir að vera án nokk- urs vafa besta amma í heimi. Takk fyrir að veita mér ómetanlegan styrk þegar á hefur bjátað. Takk fyrir að reynast öflugasti bandamað- ur elskulegs Dags Steins okkar. Takk fyrir að kenna mér auðmýkt og lítillæti. Takk fyrir allt, elsku mamma mín. Þín verður ávallt minnst. Þinn vinur og sonur, Ómar Örn. Elsku Erna, þú varst einstök kona. Þú varst ekki nein venjuleg tengdamamma heldur svo miklu meira en það. Þú varst svo mikil vin- kona okkar og við gátum alltaf leitað til þín. Samband okkar einkenndist af trausti, virðingu og ást. Þú tókst okkur með opnum örmum frá fyrstu stundu, alltaf svo opin og hlý. Við lærðum af þér að gera það besta úr öllum aðstæðum og þú hjálpaðir okkur að sjá björtu hliðarnar. Það er erfitt að lýsa þér með fáum orðum, en það sem kemur upp í hug- ann er sú mikla orka og dugnaður sem smitaði út frá sér. Ávallt svo glæsileg, natin og áhugasöm um að hafa fallegt í kringum þig. Réttsýni var þér í blóð borin og alltaf stóðst þú með þeim sem þér fannst brotið á. Þú hugsaðir ætíð til þeirra sem minna mega sín, gjafmild og næm. Hafðir góðan skilning á ólíkum að- stæðum hjá fólki og gast gefið af þeim mikla styrk sem þú bjóst yfir. Þú varst ákveðin og fylgin þér og hikaðir ekki við að láta okkur vita ef eitthvað mátti betur fara. Hrein- gerningarstuðullinn fannst þér nú stundum fremur lágur hjá okkur enda var erfitt að ná þeim mark- miðum sem þú settir í þessu sam- bandi. Við munum eftir ófáum kósístund- um með nammiskálina fulla og kók- ósbollur innan seilingar. Elsku Erna, hvað það var gott að setjast niður með þér yfir kaffibolla og ræða um allt milli himins og jarð- ar. Einnig var oft farið í verslunar- ferðir sem voru eitt af þínum áhuga- málum og erum við sannfærðar um að nokkrar verslanir munu sakna nærveru þinnar. Við nutum svo öll góðs af gjafmildi þinni og útsjónar- semi um hvað passaði hverjum og einum. Börnin okkar og gullmolarnir þín- ir sakna þín mikið. Þér tókst að mynda sérstakt samband við hvert og eitt þeirra og mættir þeim á þeirra forsendum. Við munum passa upp á afa Nonna fyrir þig og hann mun passa upp á okkur. Við munum standa saman og vera sterk og þannig heiðra minningu þína. Elsku Erna, þú verður alltaf í hjörtum okkar. Þínar tengdadætur, Þóra og Elfa Dögg. Amma Erna mín. Takk fyrir allar róluferðirnar og fyrir að gefa mér alltaf ís. Það getur enginn rólað með mig eins hátt og þú. Það var alltaf svo gaman hjá okk- ur og líka að tala saman í símann. Takk fyrir að vera svona góð við mig. Ég skil ekki alveg hvar þú ert en mamma og pabbi segja mér að þú sért á himnum hjá Guði, stjörnunum og mömmu hennar Línu Langsokks. Ég bið afa Nonna að halda áfram að segja mér spennandi sögur af Króki skipstjóra. Ég ætla að reyna að vera svolítið duglegur og passa upp á litlu systur, Örnu Ösp. Ég elska þig. Þinn Dagur Steinn. Elsku Erna mín. Það er sárt fyrir mig og fjölskyldu mína að þurfa að kveðja þig með svo snöggum hætti. Ég dáðist að þér fyrir dugnaðinn í þínum erfiðu veikindum, æðruleysið og þá ró sem þú sýndir, en ég hugga mig við að nú ertu orðin að bleikum engli eins og ein litla ömmustúlkan þín sagði. Ég og fjölskylda mín kveðjum þig með þakklæti fyrir allt. Elsku Jón og fjölskylda, megi guð vera með ykkur og styðja. Vor ævi stuttrar stund er stefnd til drottins fundar, að heyra lífs og liðins dóm. En mannsins sonar mildi skal máttug standa í gildi. Hún boðast oss í engils róm. Svo helgist hjartans varðar. Ei hrynur tár til jarðar í trú, að ekki talið sé. Í aldarstormsins straumi og stundarbarnsins draumi oss veita himnar vernd og hlé. (Einar Ben.) Þín systir Bergljót. Elsku Erna frænka, mér finnst svo skrítið að vera að skrifa til þín hinstu kveðju. Þú varst ein af þeim persónum sem ég hlakkaði til að hitta aftur þegar ég kæmi heim til Íslands. Þú varst mikill gleðigjafi og umfram allt hlý og hvetjandi per- sóna. Erum við sannarlega þakklát fyrir allar þær góðu stundir sem við áttum með þér, Nonna og fjölskyld- um ykkar. Í augum okkar eruð þið hetjur sem við berum mikla virðingu fyrir. Enda hafið þið alltaf staðið saman í einu og öllu. Það var ykkar aðalsmerki. Elsku Nonni, það er fallegt að sjá hvað þið Erna studduð hvort annað vel í gegnum lífið og hversu mikinn kærleika og styrk þið hafið gefið börnunum ykkar, tengdabörnum og barnabörnum. Ég gæti skrifað svo miklu meira, Erna mín, því að af nógu er að taka, þú varst svo mörg- um góðum eiginleikum gædd. Heim- ili ykkar Nonna geislaði af hreinlæti, myndarskap og ekki má gleyma gestrisninni og hlýjunni sem þið bæði eruð svo rík af. Elsku Erna mín, við Gummi og stelpurnar viljum þakka þér allt sem þú varst okkur. Megi englar Guðs vaka yfir þér. Við kveðjum þig með söknuði og varðveitum fallega minn- ingu þína. Elsku Nonni frændi, Ívar Þór og fjölskylda, Ómar Örn og fjölskylda og Eva Rut og fjölskylda og allir aðrir aðstandendur, mikið er lagt á ykkur á þessum erfiðu stundum. Við biðjum Guð að styrkja ykkur og sendum ykkur okkar innilegustu samúðarkveðjur. Ragna, Guðmundur, Erla Ósk, Anna Sif og Svanhildur Ragna. Það er sárt til þess að hugsa að Erna frænka hefur yfirgefið þetta jarðneska líf eftir erfiða baráttu við krabbamein. Við gerðum okkur ekki grein fyrir að svona gæti farið á svo skömmum tíma. Erna var einstak- lega sterk og dugleg. Það er ekki langt síðan við töluðum saman á tölvunni síðast, það var svo gaman að geta séð Nonna frænda og Ernu í vefmyndavélinni. Ég (Anna) man að ég skrifaði hvað þið væruð ungleg og sæt og það hafið þið alltaf verið. Erna leit svo vel út þrátt fyrir veik- indin og bar sig alltaf vel. Okkur eru minnisstæð barnaafmælin hjá ykkur þegar við vorum yngri, það var alltaf svo mikil gleði í kringum ykkur öll. Alltaf var Erna brosandi og geisl- andi falleg og gerði allt til þess að af- mælin yrðu eftirminnileg og skemmtileg. Kökur og kræsingar svo borð svignuðu, allt listilega skreytt og við systurnar nutum sannarlega góðs af öllu þessu, enda gestrisnin alveg sérstök hjá ykkur fjölskyldunni. Það var einstakt að sjá hversu samhent þið voruð í einu og öllu, sem hjón, vinir og vinnufélagar. Fjöl- skyldan skipti öllu máli og þið Nonni frændi lögðuð ykkur svo sannarlega fram við að létta undir með börn- unum og passa barnabörnin. Þau búa að þessari miklu umhyggju og óskilyrtu ást og geyma allar ynd- islegu minningarnar um ömmu Ernu. Ég veit ekki hvort þú hefur huga þinn við það fest að fegursta gjöf sem þú gefur er gjöfin sem varla sést, ástúð í andartaki, augað sem glaðlegt hlær hlýja í handartaki, hjarta sem slær, allt sem þú hugsar í hljóði heiminum breytir til gef þú úr sálarsjóði sakleysi, fegurð og yl. Elsku Nonni frændi, Ívar Þór, Eva Rut, Ómar Örn og fjölskyldur. Missir ykkar er mikill, það eru erfiðir tímar framundan. Við óskum þess að góður Guð veiti ykkur og að- standendum öllum þann styrk sem þið þurfið á að halda á erfiðum stundum. Hugur okkar er hjá ykkur. Við kveðjum Ernu okkar elskulegu með söknuð í hjarta og yndislegar minningar til að ylja okkur við. Anna Þóra, Stefán og börn, Erla, Bjarki og börn. Lífi hennar er lokið. Fjölmargar minningar um Ernu flugu gegnum huga minn er ég frétti af andláti hennar. Hún átti viðburðaríka ævi og fannst mér er ég hitti hana fyrst að hún væri búin að lifa helmingi lengur en ég þrátt fyrir að við vær- um á sama aldri. Við kynntumst er við hófum störf á skrifstofu Slipp- félagsins í Reykjavík 15 ára gamlar og alvara lífsins var að hefjast. Ég laðaðist að þessari líflegu og fjörugu manneskju sem hafði yndi af að segja sögur og gerði það á ógleym- anlegan hátt. Hún kynntist Jóni sínum ung og fluttist til hans í litlu íbúðina á Flókagötunni. Þá og alltaf síðan var notalegt að koma á heimili þeirra. Þau höfðu bæði einstaklega elsku- legt viðmót. Ég fór í skóla úti á landi og um stund var sambandið ekki eins mikið. En af og til hittumst við og ræddum um lífið og framtíðina. Er þau fluttu á Rauðalækinn voru heimili okkar á nálægum slóðum þannig að við heimsóttum hvor aðra með litlu börnin okkar sem fæddust hvert af öðru. Áfram fylgdumst við með hvor hjá annarri hvernig gengi með börn og bú er við fluttum í Breiðholtið. Öllum störfum sinnti hún af samviskusemi og var sama hvort það var á vinnustað eða heim- ilinu. Börnin uxu úr grasi og sam- bandið varð minna þegar önnur verkefni tóku við hjá okkur báðum. Eitt er víst að börnin þeirra Jóns og Ernu fengu gott veganesti að heim- an því umhyggjan var slík. Enn lágu leiðir okkar saman er við fórum báð- ar að vinna í banka og þótt við ynn- um ekki í sama banka hittumst við oft á ýmsum viðburðum þeim tengd- um. Það var alltaf gaman að hitta Ernu og heyra hvað á daga hennar hafði drifið. Þegar Jón og Erna fluttu til Nor- egs lá sambandið niðri um hríð og við hittumst af og til eftir það á förn- um vegi og það var alltaf eins og við hefðum hist í gær. Er hún sagði mér af alvarlegum veikindum sínum brá enn fyrir sömu bjartsýninni og forð- um. Allt myndi fara vel. Nú hefur hún fengið hvíld frá baráttu við erf- iðan sjúkdóm. Megi minning hennar lifa. Ég kveð góða vinkonu og votta Jóni og fjölskyldunni allri innilega samúð. Eva. Í dag er kvödd frá Fossvogskirkju kær samstarfskona okkar í Þjón- ustuveri Íslandsbanka, Erna Sig- urðardóttir, en hún lést aðfaranótt 30. mars sl. aðeins 56 ára að aldri. Þótt fregnin um lát hennar kæmi okkur ekki með öllu á óvart, þar sem hún hafði átt við erfið veikindi að stríða allt frá síðastliðnu sumri, vor- um við samt ekki við því búnar að sjá á bak henni. Margar höfðum við starfað við hlið hennar um langt ára- bil, en hún hafði verið starfsmaður bankans í rúm tuttugu ár og í deild- ina okkar í þjónustuverinu kom hún vorið 2004. Við vonuðum í lengstu lög að hún sigraðist á sjúkdómnum og við fengjum að njóta samvistanna mörg ár enn. En svo átti ekki að fara og þegar hún nú er farin frá okkur verður umhverfið ekki lengur það sama. Með henni er horfinn hluti af því sem gefur daglega lífinu birtuna og ylinn og söknuður okkar er sár. Erna var einstaklega glaðvær og skemmtilegur starfsfélagi, stál- greind og úrræðagóð, og saman stuðluðu þessir eiginleikar að því að hin óteljandi og oft erfiðustu við- fangsefni í starfinu leystust líkt og af sjálfu sér, urðu næstum eins og leikur, og dagarnir liðu eins og ör- skot. Henni var lagið að gera gott úr öllu – allt mótdrægt var samstundis gleymt – og stefnt áfram í sólarátt! En hversu gott sem lífið annars oftast er býr alvara þess jafnan und- ir niðri og í áralöngu samstarfi hljóta að koma þær stundir að á innri mannkostina reynir. Þá kom skýrast í ljóst hver Erna var. Tryggð og rík réttlætiskennd var henni í blóð borin og það er okkur best ljóst sem eignuðumst vináttu hennar, hún var heil og sönn. Sam- viskusemi hennar var slík að þótt hún væri sárlasin þráði hún ekkert meir en að geta komið til okkar í vinnuna og þótti hún vera að „svíkj- ast um“ að vera veik heima. Ef til vill verður fáum til þess hugsað hve mjög reynir á mannleg samskipti í þjónustustarfi í stórri viðskiptastofnun. Viðkvæm og nær- göngul persónuleg mál viðskipta- manna ber að höndum, margur býr við þröngan hag og á undir högg að sækja. Erna var sérlega lagin að fást við slík mál – og af eðlislægri samúð. Sjálfsagt var ýmsum, sem gengu – léttari í spori – af fundi hennar, ókunnugt um að hún hafði teygt sig næstum lengra en verksvið hennar leyfði til að greiða úr fyrir þeim. Þannig var Erna. Viðhorf hennar einkenndust því – eins og ljóst má vera af þessum fáu kveðjuorðum – af örvandi bjartsýni og góðvild í garð allra sem hún átti samskipti við, svo okkar samstarfs- manna sinna sem annarra. En sér í lagi var það heimilið og fjölskyldan sem átti hug hennar, það var okkur öllum ljóst sem með henni störfuð- um. Heimilis- og fjölskyldulífið var hennar heila líf, ef svo má að orði komast, en það var með afbrigðum farsælt og það átti hún sannarlega skilið. Missir ástvina hennar er því mikill og Jón eiginmann hennar og fjöl- skylduna alla biðjum við Guð að styrkja og vottum þeim dýpstu sam- úð í sorg þeirra. Kallið er komið, komin er nú stundin, vinaskilnaðar viðkvæm stund. Vinirnir kveðja vininn sinn látna, er sefur hér hinn síðsta blund. Héðan skal halda, heimili sitt kveður heimilisprýðin í hinsta sinn. Síðasta sinni, sárt er að skilja, en heimvon góð í himininn. (V. Briem.) Vinkonur í Þjónustuveri Íslandsbanka. ERNA SIGURÐARDÓTTIR  Fleiri minningargreinar um Ernu Sigurðardóttur bíða birt- ingar og munu birtast í blaðinu næstu daga. Höfundar eru: Hildur; Helga Möller.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.