Morgunblaðið - 04.04.2005, Blaðsíða 16
16 MÁNUDAGUR 4. APRÍL 2005 MORGUNBLAÐIÐ
UMRÆÐAN
ÍSLENDINGAR eru rík þjóð en
fágætur mannauður er meðal þess
sem skapar þjóðarauðinn. Á síðustu
áratugum hefur þjóðinni
tekist að byggja upp vel-
ferðarríki með metn-
aðarfullu heilbrigðiskerfi
sem ráðamenn fullyrða
að sé eitt hið besta í
heimi. En fyrir nokkrum
árum tók að kveða við
nýjan tón frá þeim: Þetta
er alltof fjárfrek þjón-
usta. Nauðsynlegt er að
skera niður kostnað og
nýta betur fjármuni.
Stjórnendum stóru
sjúkrahúsanna ber að
hagræða í rekstri. Nauð-
synlegt er að end-
urskipuleggja verkferla starfsfólks
og bæta nýtingu húsnæðis.
Að skömmum tíma liðnum hófu
stjórnendurnir að sýna fram á hvern-
ig þeim hafði tekist með aðhaldi að
auka hagkvæmni, bæta framlegð og
sýna þannig fram á að sameining
sjúkrahúsanna hafði skilað tilætl-
uðum árangri.
Starfsaðstaða og
aðbúnaður óviðunandi
Hugsanlega má sýna fram á dæmi
þess, að sameiningin hafi dregið úr
rekstrarkostnaði sjúkrahúsanna án
þess að gæði þjónustunnar skertust
en svo er sannarlega ekki. Á sumum
deildum LHS hefur þjónustustigi
hrakað svo að verði ekki brugðist við
vandanum með afgerandi hætti á
næstu mánuðum mun það hafa ófyr-
irséðar afleiðingar.
Þannig var málum komið síðast-
liðið haust á einu sérhæfðu tauga-
deild landsins að vinnuumhverfi
starfsfólks og aðbúnaður þess og
sjúklinga var talinn skelfilegur að
mati þeirra sem vel þekkja til. Það
hefur í engu reynst ofsagt. Starfs-
aðstæður á deildinni hafa ekkert
breyst í vetur og ekki fyrirséð að á
þeim verði nein breyting á næstunni
ef svo fer fram sem horfir.
Ókunnugum gesti, sem kom inn á
deildina síðastliðið haust, fannst sem
hann væri fremur staddur í sjúkra-
skýli á stríðstíma en á háskólasjúkra-
húsi velferðarkerfis ríkrar þjóðar í
byrjun 21. aldar. „Hvar í ósköpunum
er ég staddur?“ spurði hann sjálfan
sig um leið og hann skáskaut sér
framhjá sjúkrarúmum, fólki sem ým-
ist stóð eða sat á
ganginum og þurfti
jafnframt að varast að
verða ekki í vegi fyrir
önnum köfnu starfs-
liði. Meðan hann beið
þess, að einhver svar-
aði erindi hans, leit
hann í kringum sig og
komst að eftirfarandi:
Öll legurúm voru í
notkun. Nokkrir sjúk-
lingar lágu í rúmum á
ganginum framan við
stofurnar og höfðu
verið þar a.m.k. í sól-
arhring. Á að giska 5
sjúklingum, sem höfðu mætt á dag-
deild um morguninn og sáu fram á að
þurfa að vera þar allan daginn, stóð
aðeins til boða að sitja á stólum á
ganginum í allra augsýn. Einn sér-
fræðinga deildarinnar, sjúklingur og
aðstandendur hans ræddu einkamál
sjúklingsins standandi úti í horni inn-
an um gesti og gangandi. Tauga-
læknir deildarinnar stóð á miðjum
gangi með hóp af læknanemum í
kringum sig og svaraði neyðarkalli
sjúklings utan sjúkrahússins. Allir
aðrir starfsmenn deildarinnar voru á
þönum fram og aftur um stofur og
ganga. Vinnuálagið var greinilega
mjög mikið. Þrengsli húsnæðisins
voru auðsjáanlega yfirþyrmandi.
Þjónustan skertist
Gestinum fannst undrum sæta að-
búnaður starfsfólks og sjúklinga og
ásetti sér að grennslast fyrir um
hverju það sætti. Í ljós kom eftirfar-
andi: Ein taugadeild kom í stað
tveggja áður og auk þess höfðu a.m.k.
parkinsonssjúklingar athvarf að end-
urhæfingu á Grensási. Legurúmum
taugadeildar fækkaði úr 42 í 23.
Nokkur þessara 23 rúma eru teppt
meira eða minna allt árið vegna sjúk-
linga sem ekki fá úrlausn mála sinna
með viðeigandi hætti annars staðar.
Afleiðing þessara breyttu að-
stæðna hefur orðið sú, að innlögnum
hefur fækkað og biðlisti lengst. Sjúk-
lingarnir leggjast því of seint inn og
eru orðnir veikari þegar röðin kemur
loks að þeim. Loks þegar sjúkling-
urinn fær inni á taugadeild verður
dvölin bæði lengri og dýrari auk þess
sem lyfjakostaður verður meiri en
ella. Ávinningurinn af sameiningunni
hefur því verið á kostnað skjólstæð-
inga taugadeildar.
Allir starfsþættir taugadeildar eru
í fjársvelti. Deildin er undirmönnuð
og vinnuálag mikið. Starfsmenn eru
útkeyrðir. Það veldur fjölgun veik-
indadaga þeirra. Sjái starfsmaður
sem haldinn er langvarandi vinnu-
þreytu engin batamerki framundan,
fær hann sig fullsaddan og segir upp
starfi sínu.
Sú staða, sem sjúklingar óttast
mest, er að upplausnar- og óvissu-
ástand skapist á taugadeild og bitni á
þeim og starfsfólki deildarinnar.
Augljóst er að taugadeildin hefur
borið skarðan hlut frá borði við sam-
einingu sjúkrahúsanna og sætt
ósanngjörnu aðhaldi. Ljóst má vera
að hvort tveggja hefur haft afar nei-
kvæð áhrif, leitt til skorts á húsnæði
fyrir alla almenna starfsemi innan
deildarinnar, skert aðbúnað og nauð-
synlega þjónustu við sjúklinga og
gert vinnuaðstöðu starfsfólks óvið-
unandi.
Framtíðarsýn
Ástandi eins og lýst er hér að fram-
an verður að linna. Hugarfar og
skilningur ráðamanna verður að
breytast til þess að sjúklingar, sem á
meðferð þurfa að halda, fái mann-
sæmandi umönnun.
Vilji er allt sem þarf.
Velferð á villigötum
Guðmundur Guðmundsson
fjallar um aðbúnað
taugadeildar LSH
Guðmundur
Guðmundsson
’Húsnæðisskortur ogóviðunandi vinnuað-
staða háir starfsemi
taugadeildar Landspít-
ala – háskólasjúkrahúss
í Fossvogi.‘
Höfundur er grunnskólakennari,
er með parkinsonssjúkdóminn og
meðstjórnandi í Parkinsons-
samtökunum á Íslandi.
ÉG FAGNA grein sem birtist í
Morgunblaðinu 23. mars síðastlið-
inn þar sem Gunnlaugur Pét-
ursson, verkfræðingur, útskýrir
kostnaðaráætlun o.fl. við lagningu
Vestfjarðavegar nr. 60, Bjarka-
lundur – Eyri. Fyrirsögn grein-
arinnar er: Vestfjarðavegur 60: Er
slys í uppsiglingu?
Þetta er löng og ýtarleg grein
sem ég ætla ekki að rekja hér. Þó
vil ég vekja athygli á nokkrum at-
riðum sem koma þar fram og
ræða betur vegna rangfærslna í
fjölmiðlum, m. a. Ríkisútvarpinu,
fyrr í vetur.
Frétt
Sturla Böðv-
arsson, samgöngu-
ráðherra, tilkynnti á
fundi sem haldinn
var á Patreksfirði 8.
febrúar, að svokölluð
leið B yrði farin við
lagningu nýs vegar í
Barðastrandarsýslu.
Þegar þessi frétt er
birt í Ríkisútvarpinu
er sagt „Þessi leið
styttir vegalengdina um Barða-
strandarsýslu milli Vestfjarða og
annarra landshluta um rúma 22
kílómetra auk þess að sneiða hjá
Hjallahálsi og Ódrjúgshálsi. Þeir
hafa reynst vera erfiðir far-
artálmar, sérílagi að vetrarlagi.
Áætlaður kostnaður við fram-
kvæmdina er um 1.600
milljónir króna.“
Engir vegartálmar
Í fyrsta lagi vil ég
ræða fullyrðingu
fréttamanns um að
Hjallaháls og Ódrjúgs-
háls hafi reynst erfiðir
farartálmar sérílagi að
vetrarlagi. Hvaðan
koma þessar upplýs-
ingar? Þeir sem þekkja
best til þ.e. vegagerðin
og bóndinn sem býr í
næsta nágrenni þ.e. í Djúpadal
segja þetta ekki rétt. Þessir háls-
ar hafa ekki verið erfiðir far-
artálmar á vetrum. Þeir eru t.d.
mun lægri en Steingrímsfjarð-
arheiði og Brattabrekka. Ódrjúgs-
háls er ekki nema 160 metra yfir
sjávarmáli þar sem vegurinn fer
yfir.
12 bílar á sólarhring
Í öðru lagi vil ég ræða kostn-
aðurinn. Fullyrt er að vegurinn
styttist um 22 km og áætlaður
kostnaður sagður kr. 1.600 millj-
ónir. Hvaðan koma þessar tölur?
Ekki frá Vegagerðinni. Samkv.
áætlun Vegagerðarinnar kosta
áfangar 1, 2 og 3 miðað við leið B
sem styttir veginn um rúma 22 km
um kr. 3.180 milljónir króna en
ekki kr. 1.600 milljónir.
Ég spyr hver hefur hag af því
að gefa þessar röngu upplýsingar
til fjölmiðla? Er verið að villa um
fyrir skattgreiðendum? Um þenn-
an veg fóru að meðaltali um 12
bílar á sólarhring að vetri árið
2000, 13 árið 2001, 12 árið 2002 og
22 árið 2003 miðað við mælingu á
Klettshálsi.
Spilla friðlýstu landi
Fyrir þá sem ekki vita fer leið
B yfir og spillir fornminjum,
stærsta birkiskógi á Vestfjörðum
(sem er friðlýstur og fágætur á
heimsvísu), æðarvarpi, friðuðum
fjörum og varpstöðvum arna.
Eins og allir landsmenn vita er
gróðurlendi ekki mikið á Vest-
fjörðum. Af hverju er verið að
spilla því litla sem fyrir er?
Lækka kostnað
Til að lækka kostnað um 560
milljónir og koma í veg fyrir
geysileg náttúruspjöll væri best að
fara leið D yfir Hjallaháls og
Ódrjúgsháls með smá breytingum
á vegastæði sem fyrir er. Þessi
leið gefur einnig möguleika á mik-
illi styttingu ef ákvörðun yrði tek-
in um að fara um jarðgöng úr
Gufufirði yfir í Kollafjörð.
Hæð 10 vega á Íslandi
Brattabrekka 402
Dynjandisheiði 500
Hellisheiði 374
Hjallaháls 336
Holtavörðuheiði 420
Hrafneyrarheiði 552
Klettsháls 332
Ódrjúgsháls 160
Steingrímsfjarðarheiði 439
Svínadalur 220
Náttúruspjöll
að óþörfu
Þóroddur S. Skaptason fjallar
um vegagerð á Vestfjörðum ’Til að lækka kostnaðum 560 milljónir og
koma í veg fyrir geysi-
leg náttúruspjöll væri
best að fara leið D yfir
Hjallaháls og Ódrjúgs-
háls með smá breyt-
ingum á vegastæði sem
fyrir er.‘
Höfundur er löggiltur fasteignasali.
Þóroddur S. Skaptason
Pétur Steinn Guðmunds-
son: „Þær hömlur sem settar
eru á bílaleigur eru ekki í
neinu samræmi við áður gefn-
ar yfirlýsingar fram-
kvæmdavaldsins, um að skapa
betra umhverfi fyrir bílaleig-
urnar.“
Guðmundur Hafsteinsson:
„Langbesti kosturinn í stöð-
unni er að láta TR ganga inn
í LHÍ og þar verði höf-
uðstaður framhalds- og há-
skólanáms í tónlist í landinu.“
Hjördís Ásgeirsdóttir: „Ég
er ein af þeim sem heyrðu
ekki bankið þegar vágest-
urinn kom í heimsókn.“
Vilhjálmur Eyþórsson: „For-
ystumennirnir eru und-
antekningarlítið menntamenn
og af góðu fólki komnir eins
og allir þeir, sem gerast
fjöldamorðingjar af hugsjón.
Afleiðingar þessarar auglýs-
ingar gætu því komið á
óvart.“
Jakob Björnsson: „Mann-
kynið þarf fremur á leiðsögn
að halda í þeirri list að þola
góða daga en á helvítisprédik-
unum á valdi óttans eins og á
galdrabrennuöldinni.“
Jakob Björnsson: „Það á að
fella niður með öllu aðkomu
forsetans að löggjafarstarfi.“
Ólafur F. Magnússon: „Ljóst
er að án þeirrar hörðu rimmu
og víðtæku umræðu í þjóð-
félaginu sem varð kringum
undirskriftasöfnun Umhverf-
isvina hefði Eyjabökkum ver-
ið sökkt.“
Ásthildur Lóa Þórsdóttir:
„Viljum við að áherslan sé á
„gömlu og góðu“ kennsluað-
ferðirnar? Eða viljum við að
námið reyni á og þjálfi sjálf-
stæð vinnubrögð og sjálf-
stæða hugsun?“
Bergþór Gunnlaugsson: „Ég
hvet alla sjómenn og útgerð-
armenn til að lesa sjó-
mannalögin, vinnulöggjöfina
og kjarasamningana.“
Aðsendar greinar á mbl.is
www.mbl.is/greinar
ÉG HEF ekki komist hjá því að
fylgjast með „fréttastjóramálinu
mikla“ í forundran eins og flestir
landsmenn,. Einhvern
veginn finnst mér að
um stærsta smámál
allra tíma sé hugs-
anlega að ræða. Megi
marka umfjöllun fjöl-
miðla toppar málið
flest annað sem gerst
hefur á Íslandi síðustu
áratugi, a.m.k. frá því
að ég fór að fylgjast
með fréttum.
Ekki skal ég draga
fjöður yfir þá stað-
reynd að mér þótti
ákvörðun útvarpsráðs-
ráðs og útvarpsstjóra
fremur einkennileg; hugsaði sem svo
að nú yrði allt vitlaust – en líka að
einhver rök hlytu að hafa verið fyrir
hendi. Ókei … þeir sem um málið
eiga að fjalla hafa tekið ákvörðun,
þeirra var völin og er kvölin. Þannig
hefði málið a.m.k. gengið fyrir sig í
nánast öllum fyrirtækjum – stjórn-
endur hvarvetna þurfa að taka
ákvarðanir og standa eða falla með
þeim.
Nei, svo einfalt er málið ekki þegar
um er að ræða Ríkisútvarpið og sér-
staklega fréttastofuna. Starfsmenn
fréttastofunnar einsettu sér að koma
hinum nýja starfsmanni úr húsi. Þeir
fengu dyggilega aðstoð kolleganna á
hinum miðlunum – nú skyldi sýnt
hvar valdið liggur. Aldrei hefi ég orð-
ið vitni að sjálfhverfu fjölmiðlamanna
með jafnaugljósum hætti og birst
hefur okkur á liðnum dögum. Um-
fjöllun fjölmiðla hefur verið með
þeim hætti að ætla mætti að styrjöld
hafi brotist út, eða eitthvað enn verra
eða mikilvægara fyrir landslýð. Ég,
eins og megin þorri
landsmanna, hef ein-
ungis upplýsingar úr
fjölmiðlum og þekki
málið ekki með beinum
hætti. Þar hefur hvar-
vetna verið hamrað á
þessu máli lon og don.
Framganga frétta-
manna minnir á kríu-
varp sem fær óboðinn
gest í heimsókn. Þeir
einsettu sér að linna
ekki látum fyrr en við-
komandi hefði verið
hrakinn á braut. Fjöl-
miðlamenn allra miðla
kjafta hver upp í aðra, uppfullir af
vanþóknun og vanlætingu – og hefur
tekist að ýfa stórsjó í vatnsglasi.
Hvað er rétt og hvað er rangt í
þessu máli? Hverju get ég treyst til
að geta myndað mér rökstudda skoð-
un? Einhvern veginn hefur málið
þróast á þann veg að trúverðugleiki
miðlanna er í mínum huga nánast
enginn. Ég treysti meira að segja
varla Mogganum í þessum efnum og
er þar með fokið í flest skjól. Það er
beinlínis hlægilegt þegar fréttamenn
útvarpsins minna landsmenn, dag-
lega að undanförnu, á að þeim sé best
af öllum treystandi (byggt, held ég, á
skoðanakönnun). Dapurlegt í ljósi
þess að fréttamenn hafa fyrst og síð-
ast sjálfir skapað fréttastjórafréttina
og mótað umræðuna. Þeir hafa stagl-
ast á henni án afláts, þannig að nú
„vita“ allir landsmenn hvílíkir bjánar
og siðleysingjar skipa æðstu yf-
irstjórn RÚV. Mér finnst framganga
fréttamanna yfirgengileg og ganga
berlega út yfir öll velsæmismörk.
Fyrst og fremst, en alls ekki ein-
göngu, á þetta við fréttastofu Rík-
isútvarps. Hvergi hefur mátt finna
gagnrýna úttekt á þessu máli, sem
beindist aðallega að einföldum
spurningum, t.d. hvort mögulegt sé
að núverandi starfsmönnum frétta-
stofu sé af einhverjum ástæðum ekki
treystandi í umrætt starf.
Allt þetta dapurlega mál hefur
leitt til þess, að fréttastofa útvarps er
í mínum huga rústir einar. Það er
ekki vegna ákvörðunar yfirstjórnar
RÚV, heldur vegna framgöngu
fréttamanna og raunar annarra
starfsmanna þar á bæ. Þeim tókst að
svæl’ann út; hrósa sjálfsagt sigri í
augnablikinu, en í ákafanum komu
þeir höggi á sjálfa sig.
Auðvitað leiða þessar hugrenn-
ingar til þeirrar spurningar, hvers
vegna í ósköpunum ríkið sé að gera
út fjölmiðil (samhliða Lögbirtingi og
Stjórnartíðindum) – en það er önnur
saga. Mér finnst málatilbúnaður all-
ur enn eitt lóð á vogarskálarnar, sem
sannar okkur að koma eigi RÚV í
beina og milliliðalausa eign lands-
manna.
Stórt smámál
Sturlaugur Þorsteinsson fjallar
um fréttastjóramál RÚV
’Þeir hafa staglast áhenni án afláts, þannig
að nú „vita“ allir lands-
menn hvílíkir bjánar og
siðleysingjar skipa
æðstu yfirstjórn RÚV. ‘
Sturlaugur
Þorsteinsson
Höfundur er verkfræðingur.