Morgunblaðið - 21.07.2005, Blaðsíða 45

Morgunblaðið - 21.07.2005, Blaðsíða 45
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 21. JÚLÍ 2005 45 MENNING „ÉG hugsaði með mér: „Almátt- ugur, ég hef gert hræðileg mistök.“ Ég óttaðist það að ég hefði lagt líf og sál að veði, og svo kæmi enginn. Það var hræðileg tilfinning. Mér finnst eins og það hafi verið í gær að ég sat fyrir utan kirkjuna hálf- tíma fyrir fyrstu tónleikana í helli- rigningu sumarið 1997, og það voru þrjár manneskjur komnar í salinn. Það voru allt nákomnir ættingjar og þetta leit hreint ekki vel út.“ Það er Steinunn Birna Ragn- arsdóttir, píanóleikari og listrænn stjórnandi tónlistarhátíðarinnar í Reykholti, sem hér rifjar hlæjandi upp stemninguna fyrir fyrstu tón- leika fyrstu Reykholtshátíðarinnar, fyrir níu árum. „Það rættist heldur betur úr þessu, og við höfum verið svo ótrúlega heppin með aðsókn að það hefur verið fullsetinn salurinn á flesta tónleika, öll árin, og oft uppselt. Þetta tókst framar öllum vonum.“ Steinunn Birna segir hátíðina ekki hafa breyst að ráði frá því hún var fyrst haldin, og ákveðið tón- leikamynstur hafi fest í sessi. „Fyrstu tónleikarnir, á föstudags- kvöldi, eru alltaf helgaðir einhverju einu tónskáldi, á laugardagssíðdegi eru söngtónleikar, kammer- tónleikar um kvöldið og á sunnu- dagssíðdeginu reyni ég að hafa ein- hvers konar grand finale, með léttum glæsiverkum. Á þeim tón- leikum er gjarnan eitt nýtt verk, oftast íslenskt, en í ár er það lithá- ískt; Partíta eftir Berk sem Phil- ippe leikur á fiðlu. Ég held mjög upp á baltnesku tónskáldin og þyk- ir gaman að hafa þetta verk með.“ Steinunn Birna segir að fyrir hana sjálfa standi upp úr að geta nú boðið upp á sellókvintett Schu- berts í annað sinn á hátíðinni, en á fyrstu árum hennar lék Bryndís Halla Gylfadóttir í verkinu með norska Vertavo kvartettinum. „Ég kem til með að hafa hann á dag- skrá eins oft og ég kemst upp með. Ég var að lesa það um daginn, að Rubinstein lét spila hæga kaflann úr honum í jarðarförinni sinni, og sellóleikarinn Piatti lét leika kvart- ettinn yfir sér á meðan hann var að deyja. Það gefur smá hugmynd um hvaða þýðingu kvintettinn hefur fyrir þá sem falla fyrir honum. Þetta er himnesk tónsmíð, og eitt af þeim verkum sem mun lifa mannkynið af, það er svo gríð- arlega mikið í það spunnið.“ Steinunn Birna segir að upp- skriftin að hátíðinni í Reykholti hafi gefist vel. Markmiðið hafi ver- ið að bæði flytjendur og áheyr- endur nytu dagskrárinnar í þessu sérstaka umhverfi, og að áheyr- endur vildu koma aftur. Reyndin hefur orðið sú, að Reykholtshátíðin á sér stækkandi hóp fastagesta, sem koma ár eftir ár, gista á hót- elinu meðan á hátíðinni stendur og sækja alla ferna tónleikana. „Það er líka að færast í vöxt að hópar komi erlendis frá gagngert til að sækja þessa hátíð. Þar er sókn- arfæri í menningartengdri ferða- þjónustu, sem vert væri að vinna betur í.“ Sumarbústaðafólk úr Borgarfirðinum hafa líka í auknum mæli sýnt hátíðinni áhuga, og segir Steinunn Birna líka ástæðu til að kynna þeim hópi hana. Tengslin við heimamenn í Borg- arfirðinum hafa alla tíð verið góð að sögn Steinunnar Birnu, sem segir hátíðina tæpast hefðu lukkast jafn vel og raunin hefur orðið ef stuðnings þeirra hefði ekki notið við. Allir hafi sýnt velvilja og mik- inn áhuga. „Ég hef það á tilfinning- unni að hátíðin sé metin sem menn- ingarframlag Reykholtsstað til framdráttar og það þykir mér vænt um. Þetta hefst ekki nema með mátulegri blöndu af þrjósku og bjartsýni, og ekkert augljóst að hlutirnir muni ganga upp.“ Steinunn Birna kveður áhugann á Reykholtshátíðinni og sum- artónlistarhátíðum almennt segja sér að á sumarhátíðunum sé fólk að leita að fleiru en bara tónleikum. „Ef ég ber saman stemninguna á tónleikum í Reykholti og í borginni, þá er það allt annar hlutur. Fólk kemur með opinn huga og opið hjarta í sveitina. Við hljóðfæraleik- ararnir fáum miklu meiri svörun frá áheyrendum hér en þar. Fólk sækir í að komast úr ysnum og þysnum. Umgjörð tónleikanna og stemningin leikur þarna stórt hlut- verk. Ég er heldur ekki frá því að við hljóðfæraleikararnir séum gjaf- mildari á okkur hér en þar, og maður upplifir tónlistina sterkar.“ Allt snýst um tónlistina Ásdís Valdimarsdóttir víóluleik- ari hefur starfað við framúrskar- andi orðstír að list sinni erlendis um árabil. Hún er meðal gesta há- tíðarinnar í ár, eins og nokkur síð- ustu ár. Hún hefur leikið á fjöl- mörgum sumarhátíðum um allan heim, og tekur undir orð Stein- unnar Birnu um að einstök stemn- ing skapist jafnan á slíkum tón- leikum. „Sumartónlistarhátíðirnar eru oft á mjög fallegum stöðum. Andrúmsloftið snýst um tónlistina, og við tónlistarmennirnir erum oft að leika með fólki sem við leikum ekki með alla jafna. Það eitt getur verið mjög gefandi og fyllt mann sérstakri andagift. Í borginni er fólk að skjótast á tónleika eftir vinnu, eftir matinn, fyrir háttinn, og troða menningarupplifun inn í allt of þrönga stundatöflu – alltaf á hlaupum. Fólk kemur hins vegar á svona viðburði gagngert til að njóta á miklu afslappaðri hátt. Hér fylg- ist maður ekki einu sinni með frétt- um – allt snýst um tónlistina.“ Ásdís segir að í samanburði við aðrar sumartónlistarhátíðir sé Reykholtshátíðin auðvitað spes fyr- ir sig þar sem hún sé á Íslandi. „Öll mín fjölskylda mætir, og hún er ekki lítil,“ segir hún. „Svo er það líka frábært að geta spilað með mínum gömlu, tryggu, íslensku vin- um, en geta um leið komið með fólk með mér, sem ég hef verið að spila með úti. Þess vegna stendur þessi hátíð nær hjartanu en aðrar.“ Talsverður munur er á áheyr- endum eftir löndum að sögn Ásdís- ar, og hefðirnar ólíkar. „Í Hollandi standa allir upp um leið og maður er búinn að spila. Í fyrsta skiptið hugsaði ég með mér hvað fólkinu hlyti að hafa þótt rosalega gaman. En þegar þetta gerðist í annað og tuttugasta sinn, sá ég auðvitað að svona eru bara Hollendingar. Skandinavíubúar eru slappari í klappinu, en samt kurteisir. Í Am- eríku gargar fólk af fögnuði – eða púar … ég hef sem betur fer ekki lent í því, en það er þó breytilegt eftir því hvar í landinu er. Þar sem hlýrra er í veðri á fólk auðveldara með að tjá gleði sína og tilfinn- ingar.“ Steinunn Birna bætir því við að það sé einnig munur á ís- lenskum áheyrendum eftir því hvort þeir séu í borginni eða Reyk- holti. „Hér í Reykholti verða þeir eins og Spánverjar!“ Á efnisskrá Reykholtshátíðar í ár eru óvenjumörg verk eftir Róbert Schumann, Clöru Schumann og Jó- hannes Brahms. Fyrir því er ástæða sem Ásdís rekur. „Í fyrra- sumar var ég að spila á sumarhátíð í Sviss. Ég mætti á staðinn og vissi að tónleikarnir báru yfirskriftina ménage à trois, eða ástarþríhyrn- ingur, og dagskráin öll um hjónin Róbert og Clöru Schumann og Brahms, sem var ástfanginn af Clöru, en líka besti vinur Róberts. Á tónleikunum las íslenskur leikari, Jón Laxdal, upp úr dagbókum og bréfaskriftum þeirra þriggja, og lestrinum var fléttað á milli verk- anna og inn á milli kafla. Jón gerði þetta svo vel og með svo miklum tilþrifum, að það mátti heyra saum- nál detta, þótt dagskráin hefði ver- ið fjögurra klukkustunda löng. Þetta var mikil upplifun. Eftir tón- leikana settist ég með honum á spjall, og þá kom upp úr kafinu að það var orðið langt síðan hann hafði komið til Íslands. Þá kviknaði sú hugmynd hjá mér að tala við Steinunni Birnu og sjá hvort það væri ekki hægt að fá Jón á hátíðina í Reykholti. Þetta gekk allt eftir, búið að þýða alla textana á íslensku og mikill spenningur að fá Jón heim eftir um aldarfjórðungs fjar- vist frá Íslandi. Fyrir tveimur mán- uðum, þegar við vorum að ganga frá prógramminu, dó Jón, og það var mikil synd. Það var svo gaman að tala við hann; – hann var eins og unglingur í anda og hefði gert þetta svo frábærlega vel.“ Ásdís starfaði um árabil með heimsfrægum strengjakvartett, Chilingirian kvartettinum, en sagði starfi sínu með honum lausu fyrir nokkrum árum. Hún hefur þó nóg fyrir stafni og er eftirsótt í sínu fagi. Á dögunum sögðum við frá leik hennar með Razumovsky kammerhópnum en í hann eru að- eins valdir bestu hljóðfæraleikarar sem völ er á. Með þeim hópi starf- ar líka fiðluleikarinn Philippe Griff- in sem einnig leikur í Reykholti nú. Aðrir gestir verða Michael Sterling og Bryndís Halla Gylfadóttir selló- leikarar, fiðluleikararnir Auður Hafsteinsdóttir og Jacqueline Shave, píanóleikarinn Caroline Palmer og tenórsöngvarinn Donald Kaasch. Hjá Finzi eru rödd og píanó eitt Kaasch hefur sannarlega tekið snöggu og miklu ástfóstri við Ís- land. Hann kom hingað fyrst í apr- íllok til að syngja í Fordæmingu Fásts með Sinfóníuhljómsveit Ís- lands og fleiri einsöngvurum. „Héð- an átti ég að fara til Hollands og syngja í erfiðu verki eftir Erwin Schulhof í Concertgebouw. Þetta voru íhlaup, ég átti að koma inn í staðinn fyrir forfallaðan söngvara. Nú voru góð ráð dýr, því ég þurfti að læra verkið. Ég spurði vin minn og söngfélaga í Fást, Kristin Sig- mundsson, hvernig ég færi að því að redda mér píanóleikara. Hann sagði: „Við skulum tala við Stein- unni Birnu – hún getur spilað allt!“ Og það var ekki að sökum að spyrja, við náðum saman strax, og á daginn kom að við höfum tamið okkur mjög svipuð vinnubrögð í tónlistinni. Ég var hér í tvær vikur að læra verkið og undirbúa sönginn í Hollandi, og hefði ekki getað stað- ið á sviði Concertgebouw ef Stein- unn Birna hefði ekki hjálpað mér svo fagmannlega í gegnum lær- dóminn. Á þessum tveimur vikum var dóttir mín að ljúka prófi heima í Denver, Colorado, og ég hringdi í hana, sagði henni að stökkva upp í vél og koma og upplifa Ísland með mér. Hún gerði það og það var frá- bært. Söngurinn í Hollandi gekk mjög vel. En ég var orðinn ástfanginn af Íslandi og þótti frábært að fá tæki- færi til að koma aftur núna og syngja í Reykholti.“ Fyrri hluti tónleika Donalds Kaasch er helgaður sönglögum Geralds Finzis, sem heyrast ekki oft á söngtónleikum hér. „Finzi skapar einstakt litróf í samspili texta og lags. Hjá honum eru rödd og píanó eitt, en hann kunni líka að leika á allt þetta dásamlega litróf söngraddar og slaghörpu til þess að draga fram jafnvel smæstu og viðkvæmustu atriði ljóðanna. Hann samdi talsvert við ljóð eftir Thomas Hardy, sem alla tíð stóð utan þess heims sem hann orti um. Þegar Finzi samdi tónlist við ljóð Hardys, tókst honum svo sérstaklega vel að draga fram með músíkinni einsemd hans og sérstöðu, og hvernig hann horfir á heiminn utan frá. Finzi er snillingur í að skapa fallegan og um leið merkingarfullan meðleik. Ég elska einfaldleikann í tónlist hans, skýrleikann og það hversu spar hann er á hvern tón. Það er engu ofaukið í söngvum hans.“ Kaasch og Steinunn Birna láta ekkert uppi um það sem sungið verður eftir hlé – en þá er von á nokkrum óp- eruatriðum, og einhverju því sem söngvarinn geðþekki segir að sé enn þá ríkisleyndarmál. Hvað skyldi það nú vera? Tónlist | Kammertónlist og sjaldheyrð sönglög eftir Finzi á Reykholtshátíð um helgina Í Reykholti verða tónleika- gestir eins og Spánverjar Morgunblaðið/Eyþór Jacqueline Shave, Caroline Palmer, Donald Kaasch, Steinunn Birna Ragn- arsdóttir, Philippe Graffin, Michael Stirling og Ásdís Valdimarsdóttir koma fram á Reykholtshátíð um helgina. Það gera líka þær Auður Haf- steinsdóttir og Bryndís Halla Gylfadóttir sem báðar vantar á myndina. TENGLAR .............................................. http://www.vortex.is/festival/ reykholt.htm Eftir Bergþóru Jónsdóttur begga@mbl.is

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.