Morgunblaðið - 09.11.2005, Síða 14
SÍÐARI umferð forsetakosninga
fór fram í Líberíu í gær og kjósend-
urnir völdu þá á milli George Weah,
þekktasta fótboltasnillings Afríku,
og Ellen Johnson-Sirleaf, sem köll-
uð hefur verið „Járnfrú“ Líberíu og
stefnir að því að verða fyrst kvenna
til að verða kjörin þjóðhöfðingi Afr-
íkuríkis.
Þetta eru fyrstu forsetakosning-
arnar í Líberíu – elsta sjálfstæða
lýðveldi Afríku – eftir fjórtán ára
stríð. Weah fékk flest atkvæði í
fyrri umferð kosninganna 11. októ-
ber, eða 28,3%, og Sirleaf varð í
öðru sæti með 19,8% fylgi.
Annálaður höfðingi
George Weah var valinn besti
knattspyrnumaður heims árið 1995
og lék með nokkrum af þekktustu
fótboltafélögum Evrópu: AC Milan,
Chelsea, AS Monaco, Paris Saint
Germain, Olympique Marseille og
Manchester City.
Weah er líklega þekktasti Líb-
eríumaðurinn í heiminum og hefur
verið kallaður „George konungur“ í
landi sínu. Hann er annálaður höfð-
ingi og margar sögur hafa verið
sagðar um örlæti hans. Til að
mynda er sagt að hann hafi eitt
sinn staðið fyrir utan heimili sitt í
Líberíu með poka fullan af pen-
ingum og gefið þeim sem komu til
hans sem samsvarar um 1,2 millj-
ónum króna.
Weah greiddi ferðakostnað lands-
liðs Líberíu í fótbolta til að það gæti
tekið þátt í alþjóðlegum mótum
þegar knattspyrnusamband lands-
ins var gjaldþrota. Þetta jók al-
menningshylli hans og síðustu miss-
erin hefur hann m.a. notað auð sinn
til að reka útvarps- og sjónvarps-
stöð í Líberíu til að koma pólitísk-
um skilaboðum sínum á framfæri.
„Framboð hans nýtur stuðnings í
öllum ættflokkum og það sannar að
fólkið vill frið,“ sagði Prince John-
son, fyrrverandi stríðsherra sem er
nú einn af mikilvægustu banda-
mönnum Weah í kosningunum.
Bandalag þeirra er harla undarlegt
þar sem það var Prince Johnson
sem lét pynta og myrða Samuel
Doe forseta – pólitíska hetju Weah
– árið 1990.
„Þegar við bárumst á banaspjót
lék hann fótbolta og sendi okkur
peninga til að hvetja okkur til að
koma á friði,“ sagði Johnson.
Peð í höndum
hentistefnumanna?
Andstæðingar Weah, sem er 39
ára, segjast hafa mestar áhyggjur
af því að menntunarskortur hans og
reynsluleysi í stjórnmálunum verði
til þess að hann reynist peð í hönd-
um pólitískra ráðgjafa sinna. Á
meðal nánustu samstarfsmanna
hans eru vildarvinir Charles Taylor,
fyrrverandi forseta sem sagði af sér
í ágúst 2003 til að binda enda á ann-
að af tveimur borgarastríðum sem
geisað hafa í Líberíu frá 1989.
„Í kringum hann eru henti-
stefnumenn og höfðingjasleikjur
sem hafa starfað með ótrúlega
óskipulegum hætti,“ hafði frétta-
stofan AFP eftir manni sem tekur
þátt í hjálparstarfi í Líberíu.
„Hvernig getur hann stjórnað land-
inu ef hann hefur ekki stjórn á hópi
vina sinna, getur ekki skipulagt þá
sem styðja hann mest?“
„Hillary Clinton Líberíu“
Ólíkt Weah er Ellen Johnson-
Sirleaf hámenntuð og nam hagfræði
við Harvard-háskóla. Hún er sögð
67 ára og hefur tekið þátt í stjórn-
málabaráttunni í landinu í 30 ár.
Hún var fjármálaráðherra seint á
áttunda áratugnum, starfaði fyrir
Alþjóðabankann og var um skeið
æðsti embættismaður Þróunaráætl-
unar Sameinuðu þjóðanna í Afríku.
Sirleaf fékk viðurnefndið
„Járnfrúin“ vegna járnvilja hennar
og staðfestu. Henni var tvisvar
sinnum varpað í fangelsi á níunda
áratug aldarinnar sem leið fyrir að
gagnrýna herforingjastjórn Samu-
els Doe. Hún studdi uppreisn Char-
les Taylors en seinna skarst í odda
milli þeirra og hún var ákærð fyrir
landráð eftir að hann varð forseti.
Hún fór tvisvar sinnum í útlegð
vegna deilna við ráðamenn landsins.
Andstaðan við Sirleaf stafar eink-
um af eindregnum stuðningi hennar
í fyrstu við Taylor sem á yfir höfði
sér ákærur fyrir stríðsglæpi vegna
meintra tengsla hans við uppreisn-
armenn í grannríkinu Síerra Leóne.
Andstæðingar Sirleaf hafa einnig
varað við því að hún kunni að not-
færa sér forsetaembættið til að
hefna sín á gömlum óvinum. „Hún
er mjög hörð í horn að taka og
óvinir hennar eru margir,“ sagði
stjórnarerindreki í Monróvíu, höf-
uðborg landsins. „Hún er örugglega
nokkurs konar Hillary Clinton Líb-
eríu – stuðningsmenn hennar eru
eins eldheitir í aðdáun sinni á henni
og andstæðingar hennar eru í and-
úðinni.“
25 ára hörmungasaga
Leysingjar frá Bandaríkjunum
stofnuðu lýðveldið Líberíu árið
1847. Innfæddir Líberíumenn voru
kúgaðir og fámenn yfirstétt afkom-
enda bandarískra þræla fór með öll
völd til ársins 1980 þegar Samuel
Doe hrifsaði til sín völdin. Þar með
hófst tímabil sem einkenndist af
stríðsátökum og valdaránum sem
hafa haft skelfilegar afleiðingar fyr-
ir landsmenn.
Í Líberíu eru ekki vatns- eða raf-
veitur og ríkið rekur hvorki sjúkra-
hús né skóla. Aðeins um 20% íbú-
anna eru læs og um 80% eru án
fastrar, launaðrar atvinnu.
„George konungur“ etur
kappi við „Járnfrú“ Líberíu
Knattspyrnusnill-
ingurinn Weah
gegn konu sem
vill verða fyrst
kvenna til að
verða kjörin þjóð-
höfðingi í Afríku
Forsetaefnið George Weah eftir að hafa greitt atkvæði í Monróvíu. Ellen Johnson-Sirleaf á kjörstað í bænum Tubmanaburg, nálægt Monróvíu.
Eftir Boga Þór Arason
bogi@mbl.is
14 MIÐVIKUDAGUR 9. NÓVEMBER 2005 MORGUNBLAÐIÐ
ERLENT
Motorlift
Ke›judrifnu Chamberlain Motorlift bílskúrshur›aopnararnir
eru öflugir og sterkbygg›ir og fást fyrir allar stær›ir og ger›ir
bílskúrshur›a. Motorlift er me› kröftugum en hljó›látum
mótor og flægilegri fjarst‡ringu sem au›veldar umgengni um
bílskúrinn e›a geymsluhúsnæ›i› í hva›a ve›ri sem er.
Motorlift fæst í byggingavöruverslunum um land allt.
Íslenskar lei›beiningar fylgja
bílskúrshur›aopnarar
Sydney. AFP. | Stjórnvöld í Ástralíu
kváðust í gær hafa náð að koma í
veg fyrir „meiriháttar hryðjuverk“
í landinu. Sautján menn sem taldir
eru fylgjendur íslamsks klerks voru
handteknir.
Mennirnir voru handteknir
skömmu fyrir dögun í tveimur
stærstu borgum Ástralíu, Mel-
bourne og Sydney. Einn maður var
særður skotsári er hann veitti lög-
reglu viðnám. Rúmlega 450 þung-
vopnaðir lögreglumenn, studdir
þyrlum, tóku þátt í aðgerðinni. Er
þetta umfangsmesta aðgerð vegna
yfirvofandi hryðjuverkaógnar sem
skipulögð hefur verið í Ástralíu.
Mennirnir 17 voru leiddir fyrir
dómara skömmu eftir handtökurn-
ar. Sagði ákæruvaldið að í fórum
þeirra hefðu fundist efni svipuð
þeim sem notuð voru í árás rót-
tækra íslamista í London í júlímán-
uði þar sem 50 manns voru drepnir.
Fyrir dómi í Melbourne var því
haldið fram að mennirnir hefðu lýst
yfir „heilögu stríði“ gegn áströlsku
þjóðinni og að þeir hefðu ráðgert
að drepa óbreytta, ástralska rík-
isborgara. Þá hefðu mennirnir og
rætt þann möguleika að fremja
sjálfsmorðsárásir í landinu. Að
minnsta kosti fimm þeirra sem
handteknir voru eru ástralskir rík-
isborgarar.
Unnið hafði verið að rannsókn
málsins í 16 mánuði. Sjö mannanna
voru handteknir í Sydney og níu í
Melbourne. Sveitir lögreglu rudd-
ust inn á 20 heimili í borgum þess-
um. Einn maður veitti viðnám er
hann var handtekinn þar sem hann
var á göngu nærri mosku einni í
Sydney eftir að hinar handtökurnar
höfðu farið fram. Greip hann til
byssu sinnar en særðist alvarlega
þegar lögregla hóf skothríð. Tals-
menn lögreglu sögðu hugsanlegt að
fleiri menn yrðu handteknir á
næstunni.
Á meðal hinna handteknu í
Melbourne er íslamskur klerkur
einn, Abu Bakr að nafni en hann
gengur einnig undir nafninu Abdul
Nacer Benrika. Klerkurinn er
fæddur í Alsír en talið er að hann
hafi verið leiðtogi beggja hryðju-
verkahópanna. Bakr, sem er 45 ára,
hefur ekki farið dult með aðdáun
sína á hryðjuverkaleiðtoganum
Osama bin Laden og meðal annars
lýst honum sem „mikilmenni“.
Klerkurinn var ákærður fyrir að
stýra hryðjuverkasamtökum en
hinir mennirnir voru ákærðir fyrir
að tilheyra slíkum samtökum.
Í máli ákæruvaldsins kom fram
að einn mannanna hefði rætt um að
fremja sjálfsmorðsárás gegn „trú-
leysingjunum“ til að hefna fyrir
innrásina í Írak. Stjórnvöld í Ástr-
alíu hafa stutt hana og leggja til
hermenn þar. Ekki kom fram hver
möguleg skotmörk mannanna hefðu
verið en á undanliðnum mánuðum
hafa yfirvöld skýrt frá því að
hryðjuverkamenn kunni að hafa
ráðgert árásir m.a. á óperuhúsið í
Sydney, hafnarbrúna þar, kauphöll-
ina í Melbourne og járnbrautar-
stöðvar.
Segjast hafa afstýrt
hryðjuverki í Ástralíu