Fréttablaðið


Fréttablaðið - 21.06.2003, Qupperneq 14

Fréttablaðið - 21.06.2003, Qupperneq 14
14 21. júní 2003 LAUGARDAGUR Omar Kitmitto, sendifulltrúi Palestínumanna, er enn vongóður um að hægt verði að koma á friði fyrir botni Miðjarðarhafs með aðstoð vegvísisins. Hann segir að Ísraelar og Palestínumenn verði að fylgja friðaráætluninni úr hlaði í sameiningu. Við berum sameiginlega ábyrgð á friði Þrátt fyrir átök síðustu daga áVesturbakkanum og Gaza- ströndinni er vegvísirinn til friðar ennþá raunhæf lausn á deilum Palestínumanna og Ísraela, að mati Omar Kitmitto, formanns sendinefndar Palestínu í Noregi og á Íslandi. „Það ber að hafa í huga að vegvísirinn er verkfæri en ekki samningur. Það er ekki hægt að ætlast til þess að annar aðilinn hafi frumkvæðið að því að hrinda honum í framkvæmd.“ Kitmitto ítrekar að Ísraelar og Palestínumenn verði að vera sam- taka í því að leggja niður vopn. „Við erum á sama báti og berum sameiginlega ábyrgð á því að koma á friði á svæðinu.“ Sendifulltrúinn hefur efasemd- ir um raunverulegan vilja Ariel Sharon, forsætisráðherra Ísraels, til að taka þátt í framkvæmd veg- vísisins. „Þegar friðaráætlunin var á afar viðkvæmu stigi gerðu Ísraelar tilraun til þess að ráða af dögum leiðtoga Hamas-samtak- anna. Eins og við mátti búast kall- aði þetta á hefnd samtakanna.“ Palestínumenn hafa fallist á vegvísinn en Ísraelar hafa ýmis- legt við hann að athuga. „Banda- rísk stjórnvöld lýstu því yfir að engar breytingar kæmu til greina og við samþykktum áætlunina á þeim forsendum,“ segir Kitmitto. Ríkisstjórn Sharon hefur einnig lagst hart gegn ályktun Samein- uðu þjóðanna sem kveður á um það að palestínskir flóttamenn eigi að fá að snúa aftur til Ísraels. Um er að ræða hátt í fjórar millj- ónir manna sem búsettar eru víðs vegar í heiminum. „Ég get ekki svarað því hvers vegna Ariel Sharon leggst svo hart gegn því að flóttamennirnir fái að snúa til baka. Ég hef heldur enga trú á því að allt þetta fólk kæri sig um að snúa aftur.“ Ríkisstjórn George W. Bush Bandaríkjaforseta hefur gegnt lykilhlutverki í friðarumleitunum fyrir botni Miðjarðarhafs og það er hún sem stendur á bak við veg- vísinn. Kitmitto viðurkennir að bandarísk stjórnvöld séu ekki að öllu leyti hlutlaus milligönguaðili en telur þó að þátttaka þeirra hafi mikið að segja. „Ég hef fulla trú á því að Bush sé alvara með yfir- lýsingum sínum. Hann verður þó að vera tilbúinn að beita ísraelsk stjórnvöld þrýstingi ekki síður en okkur Palestínumenn.“ Kitmitto segist jafnframt fagna því ef Bandaríkin ákveði að senda frið- argæslulið til Ísrael. Omar Kitmitto ber traust til Mahmoud Abbas forsætisráð- herra. „Abbas er afbragðsstjórn- málamaður og hann nýtur stuðn- ings þingsins, sem kosið er af palestínsku þjóðinni. En það er mjög erfitt fyrir hann að reyna að semja við Hamas-samtökin á meðan Ísraelar halda áfram að ráðast gegn liðsmönnum samtak- anna og jafna hús þeirra við jörðu. Það er ekki hægt að ganga til samninga við slíkar aðstæður.“ Aðspurður segir Kitmitto að Hamas-samtökin njóti mikils stuðnings meðal palestínsku þjóð- arinnar. „Ítrekaðar árásir ísraelska hersins gegn Palestínumönnum hafa aukið stuðning almennings við Hamas-samtökin. Fólkið sjálft hef- ur orðið vitni að ofbeldinu og legg- ur traust sitt á þá sem leita hefnda.“ Mahmoud Abbas forsætisráð- herra hefur boðið Hamas-samtök- unum aðild að ríkisstjórn Palestínu en ekki hefur náðst samkomulag þar um. „Við viljum auðvitað að all- ir flokkar fái tækifæri til þess að taka þátt í stjórn landsins. Ef Hamas-samtökin afþakka þátttöku munum við líta á þau sem pólitísk- an andstæðing. Við sættum okkur aftur á móti ekki við það ef aðrar þjóðir ætla að segja okkur hverjir eiga að stjórna landinu. Það er okk- ar að ákveða,“ segir Kitmitto. brynhildur@frettabladid.is PALESTÍNUMENN MÓTMÆLA Ísraelsk stúlka með hlekkjaðar hendur tekur þátt í mótmælagöngu í bænum Nablus á Vesturbakkanum til stuðnings palestínskum föngum í ísraelskum fangelsum. OMAR KITMITTO Formaður aðalsendinefndar Palestínu- manna í Noregi og á Íslandi var staddur hér á landi í tilefni af þjóðhátíðardeginum 17. júní. Kitmitto er búsettur í Noregi og er giftur norskri konu. Sonur þeirra hjóna á íslenska eiginkonu og eiga þau saman tveggja ára gamalt barn. HEFT FERÐAFRELSI Ísraelskur hermaður hindrar för palestínskra kvenna og barna út úr borginni Hebron á Vesturbakkanum.

x

Fréttablaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.