Fréttablaðið - 19.08.2006, Síða 34
Xiamen er meðalstór hafnar-borg um það bil miðja vegu milli Shanghai og Hong
Kong. Þar býr um ein og hálf millj-
ón manns, margir af taívönskum
uppruna enda er eyjan Taívan ein-
ungis í 180 km fjarlægð handan
sundsins sem skilur að eyjuna og
meginland Kína.
Langaði að breyta til
„Við vorum búin að vera að fást
við ýmislegt hér heima undanfarin
ár, tónlist, fatahönnun og fleira en
svo ákváðum við að breyta til og
prófa að búa annars staðar en á
Íslandi og Kína varð fyrir valinu.
Okkur langaði til að prófa eitthvað
algjörlega nýtt og Kína er rosa-
lega forvitnilegt, öll þessi stærð
og þessi menning sem við þekkj-
um ekki, það er svo margt að sjá
þarna,“ segja þau Rúnar og Elín,
sem eru í stuttri heimsókn til
Íslands þessa dagana.
Og þau völdu að setjast að í
Xiamen vegna þess að þau þekktu
til Íslendings sem verið hefur í
borginni. Sá er Sigurður Guð-
mundsson myndlistarmaður sem
hefur verið með annan fótinn í
Kína síðustu ár ásamt konu sinni.
„Pabbi minn þekkir Sigurð og þess
vegna ákváðum við að skoða okkur
um þar,“ segir Elín.
Könnunarferð til Kína
Þau fluttu þó ekki umsvifalaust
heldur fór Rúnar í könnunarferð
til Kína í fyrrasumar og í beinu
framhaldi af því ákváðu þau að
drífa sig út. Með þeim fluttu líka
faðir Elínar og tvær hálfsystur
hennar og nú stendur til að fleiri
úr fjölskyldu þeirra flytji út til
lengri eða skemmri dvalar. „Ætli
við verðum ekki um tuttugu Íslend-
ingar í Xiamen um jólin,“ segir
Elín og hlær að tilhugsuninni.
Hún rifjar upp í framhaldinu að
íslenski hópurinn hélt 17. júní
hátíð í sumar og Norðmenn, Svíar
og Danir á svæðinu komu líka og
vildu fá að vera með. „Við bökuð-
um pönnukökur, spiluðum íslenska
tónlist og sungum Maístjörnuna
og þetta vakti allt svo mikla lukku
að Skandinavarnir vildu bara gera
17. júní að þeirra þjóðhátíðardegi
líka.“
Tekið opnum örmum
Tónlist er reyndar stór þáttur í því
sem Elín og Rúnar eru að fást við í
Kína. Rúnar gaf út plötu á Íslandi í
fyrra en náði ekki að fylgja henni
eftir þar sem þau voru á förum til
Kína. „Ég fylgdi henni bara eftir í
Kína í staðinn og hún hefur örugg-
lega selst betur þar en á Íslandi,“
segir hann og brosir breitt.
Rúnar og Elín hafa gert nokkuð
af því að halda tónleika í Kína og
þau segja það mjög sérstaka upp-
lifun. „Það hefur verið mjög erfitt
að koma vestrænni tónlist á fram-
færi þarna, en af því að við búum
þarna er okkur tekið opnum
örmum,“ segir Elín.
Hún lýsir því svo hvernig Kín-
verjar séu allt öðruvísi áheyrend-
ur en þau eigi að venjast. „Þeir eru
svo opnir, einlægir og ósnobbaðir
að þeir hika ekki við að fagna og
klappa í miðju lagi ef þeim finnst
ástæða til og eftir tónleikana
kemur fólk í hópum og vill fá eig-
inhandaráritanir og segja okkur
hvað því finnst þetta allt frá-
bært.“
Kínverjar yndislegt fólk
Þau upplifa Kínverja reyndar
almennt sem ákaflega opið og glað-
lynt fólk. „Það er eitt það besta við
að vera þarna hvað fólkið er gott,
afslappað og rólegt,“ segja þau og
viðurkenna að þau hafi gert sér
allt aðra mynd af Kínverjum áður
en þau komu til landsins. „Þetta
voru ekki beint fordómar heldur
hafði maður búið sér til einhvern
ramma sem Kínverjarnir áttu að
passa inn í en svo gerðu þeir það
ekki. Kínverjar eru eitthvert
jákvæðasta og fallegasta fólk sem
ég hef kynnst á ævi minni, þeir
eru svo góðir og yndislegir við
mann,“ segir Elín af hjartans ein-
lægni.
Rúnar bætir því við að viðmót
fólksins hafi eiginlega haft úrslita-
áhrif á þá ákvörðun að flytja til
Kína. „Auðvitað vekur maður
athygli þarna sem hvítur Evrópu-
maður en fólkið er bara svo
jákvætt, brosmilt og viðkunnan-
legt að manni getur ekki annað en
líkað vel við það.“
Vekja mikla athygli
Strákarnir þeirra Elínar og Rún-
ars, sem eru níu og tveggja ára,
hafa líka vakið óskipta athygli Kín-
verjanna að þeirra sögn. „Þegar
við erum einhvers staðar á ferð-
inni er stundum eins og sirkus í
kringum þá, sumir þarna hafa
aldrei séð hvítan mann eða mjög
fáa að minnsta kosti og hvað þá
hvít börn þannig að þau vekja gíf-
urlega forvitni. Stundum safnast
50-60 manns í kringum okkur úti á
götu og það hefur gerst að fólk
eltir okkur en þetta er jákvæð
athygli og okkur líður ekkert illa
með þetta,“ segja þau.
Rúnar sem dvalið hefur í Banda-
ríkjunum segir að þetta sé gjör-
ólíkt því að vera hugsanlega eltur
af hópi fólks í New York. „Þá yrði
maður hræddur en þetta er bara
forvitni sem maður skilur alveg.“
Komin í viðskipti
Tónlistin er ekki eina lifibrauð
Rúnars og Elínar í Kína því þau
eru að hasla sér völl á viðskipta-
sviðinu. „Við erum búin að stofna
fyrirtæki þarna úti sem heitir
Trade Time (www.trade-time.com)
sem sérhæfir sig í að aðstoða
íslensk fyrirtæki og einstaklinga
sem eru að leita sér að vörum og
varningi í Kína,“ segja þau.
Trade Time tekur þannig við
fyrirspurnum frá fyrirtækjum hér
heima, til dæmis byggingafyrir-
tækjum sem vantar kannski mikið
magn af tilteknu byggingarefni,
steini eða hverju sem er. „Við leit-
um svo tilboða í Kína, finnum
besta verðið og komum á viðskipt-
um. Við tryggjum líka að öll gæði
standist kröfur og þess háttar og
sjáum svo um að varan sé send til
viðtakanda hér heima,“ útskýrir
Elín.
Hún hefur líka verið að hanna
föt í Kína en hún hefur fengist við
slíka hönnun undanfarin fjögur ár.
„Ég hef verið að hanna kjóla meðal
annars og það gengur mjög vel og
verslunin Húfur sem hlæja á
Skólavörustígnum er meðal ann-
ars að selja kjóla eftir mig.“
Kínverjar miklir kaupmenn
Viðskipti er nokkuð sem á vel við
Kínverja segja þau. „Kínverjar
eru einhverjir mestu kaupmenn í
heimi. Þrátt fyrir að hafa búið við
kommúnískt skipulag í áratugi þá
eru viðskipti þeim í blóð borin, það
eru allir þarna að reyna að selja
eitthvað,“ segir Rúnar og hlær.
En það þýðir ekki, segir Elín, að
þeir séu ósáttir við sitt þjóðskipu-
lag og orðnir afhuga kommúnism-
anum heldur er fólk farið að átta
sig betur á því að það á rétt á að fá
sinn skerf af efnahagskökunni
sem er sífellt að stækka í Kína.
„Það má segja að hjarta Kínverja
tilheyri kommúnismanum en hug-
urinn kapítalismanum. Þetta er
mjög sérstakt ástand sem er þarna
og ég held að það sé alveg ljóst að
Kína verður orðið stærsta efna-
hagsveldi heims eftir nokkur ár,“
segir Elín og bætir við að þau verði
ekki vör við að yfirvöld séu að
skipta sér mikið af lífi fólks dags
daglega og viðskipti virðast mjög
frjáls.
Vestræn borg
Xiamen er raunar mikil viðskipta-
borg enda fríverslunarsvæði og
ein af stærri útflutningshöfnunum
í Kína. Þar gætir því meiri vest-
rænna áhrifa en víða annars stað-
ar á þessu svæði, þar er meðal
annars talsvert um háhýsi, tísku-
vöruverslanir og aðrar vestrænar
verslanir. „Þetta er ekki stór borg
á kínverskan mælikvarða en þetta
er talin ein fallegasta og hreinasta
borgin í Kína,“ útskýrir Rúnar og
nefnir sérstaklega í því sambandi
að borgaryfirvöld hafi bannað
umferð mótorhjóla í borginni. „Svo
er líka bannað að flauta þannig að
þetta er ekki eins og í mörgum
öðrum borgum í Kína þar sem
hávaðinn er gífurlegur,“ skýtur
Elín inn í.
Tónleikar og plötuupptaka
Þau Elín og Rúnar hafa ekki tekið
neina ákvörðun um það hversu
lengi þau ætla að dvelja í Kína.
„Það kemur bara í ljós, við erum
ekki mikið fyrir að skipuleggja
hlutina langt fram í tímann og
höldum þessu bara opnu,“ segja
þau og eru bjartsýn á framtíðina.
Framundan eru líka spennandi
verkefni, þeim hefur verið boðið
að koma fram á stærstu svokall-
aðri „indie“ tónlistarhátíð Kína
sem haldin verður í Beijing næsta
vor og svo er plötuupptaka og tón-
leikaferð í bígerð þegar þau koma
aftur til Kína. „Fyrst ætlum við þó
að troða upp hér heima, því við
munum hita upp í kvöld fyrir
hljómsveitina Mínus og Langa Sela
og skuggana í Sirkusportinu á
menningarnótt,“ segja þau Elín og
Rúnar og hvetja sem flesta Íslend-
inga til að kynna sér Kína. ■
19. ágúst 2006 LAUGARDAGUR34
Í borginni Xiamen á suðausturströnd Kína er að myndast lítil íslensk ný-
lenda. Þar býr nú þegar tæpur tugur Íslendinga og þeim fer fjölgandi. Þau
Elín Ólafsdóttir og Rúnar Sigurbjörnsson fluttu til Xiamen fyrir tæpu ári
ásamt sonum sínum og sögðu Sigurði Þór Salvarssyni frá reynslu sinni af því
að búa í Kína.
Kína verður næsti
efnahagsrisi heims
FÓLK Á GÖTU Í XIAMEN Kínverjar eru einstaklega brosmilt og vingjarnlegt fólk, segja þau Elín og Rúnar um kynni sín af heimamönnum í
Xiamen. FRÉTTABLAÐIÐ/RÚNAR SIGURBJÖRSSON
GÖTUMYND FRÁ XIAMEN Farartæki eru fjölbreytt í Kína og menn víla það ekkert fyrir sér að
draga kerrur með þungu hlassi á eftir sér langar leiðir. FRÉTTABLAÐIÐ/RÚNAR SIGURBJÖRNSSON
FREISTA GÆFUNNAR Í KÍNA Þau Elín Ólafsdóttir og Rúnar Sigurbjörnsson hafa búið í Kína í tæpt ár og láta vel af dvölinni. Kínverjar séu eitt
jákvæðasta og hlýlegasta fólk sem þau hafi kynnst um dagana. FRÉTTABLAÐIÐ/HÖRÐUR