Fréttablaðið - 27.10.2006, Page 46

Fréttablaðið - 27.10.2006, Page 46
Þú dýfir þér í Vesturbæjarlaugina og opnar dyr í nýjan heim. Gamaldags laugin er vin í eyðimörk borgarinnar. Það eru engin rauð ljós í Vesturbæjarlauginni, engir öskrandi símar eða gargandi sjónvarpsskjáir. Heldur vinaleg stemning, ró og næði. Góður vinur minn sagði eitt sinn: Í sundi kemstu næst þeirri tilfinningu að svamla í móðurkviði. Einhverjar stöðvar í undirmeðvitundinni virkjast og vellíðunartilfinn- ing kviknar um leið og þú finnur heitt vatnið umlykja þig. Tásublásari í inniklefa Hvað sundfíkla varðar uppfyllir Vesturbæjarlaugin flest öll skilyrði góðrar sundlaugar. Henni er vel við haldið, hún er þrifaleg og skemmtilega hönnuð. Starfsfólkið heilsar þér með brosi á vör og býður þig velkominn. Þú ert meira að segja varaður við ef þú færð lykil að skáp númer 13. Okkur karlmönnum bjóðast þrír valkostir í Vesturbæj- arlauginni. Inniklefinn er ágætur, sturturnar kraftmiklar og gott pláss til að þurrka sig. Skemmtileg „rúsína í pylsuendanum“ er hárblásari eða réttara sagt – tásublás- ari – sem komið hefur verið upp við gólfið hjá skápunum. Það er frábær tilfinning að smella sér í sokkana með skraufþurrar tær. Kynlegur baðklefi Fyrir þá sem kunna betur að meta heiðskíran himininn og hvíld frá öskrandi krakkaskara er sem betur fer útiklefi í Vesturbæjarlauginni. Þar eru yfirleitt fáir á ferli og tilvalið að gera æfingar á rimlum eða gólfinu til að koma blóðinu á hreyfingu. Stór galli á útiklefanum er þó sturtuleysið. Það er undarleg tilhögun að þurfa að hlaupa yfir laugarbakkann og aftur inn til að komast í sturtu og sápu. Þriðji valkosturinn er svo baðklefinn þar sem hægt er að skella sér í þurrgufu. Baðklefinn var afar vinsæll meðal samkynhneigðra gesta og kunna margir „kynlegar“ sögur af því sem þar fór fram. Ég mæli þó eindregið með útiklefanum enda órjúfanlegur þáttur af sundreynslunni að láta líkamann þorna undir berum himni. Egyptar bannaðir! En aftur að lauginni. Yfirleitt er nóg pláss á sundbrautun- um en ef í hart fer er ein braut sérstaklega merkt fyrir þá sem vilja synda rösklega. Barnalaugin er svo rúmgóð og vel afmörkuð. Auk þess er nóg pláss til að liggja í sólbaði þegar vel viðrar. Eitt af því sem skapar gæði í sundlaug eru heitu pottarnir. Þar er hreinlega skorið úr um hvort laugin sé góð eða slæm. Í Vesturbæj- arlauginni eru pottarnir fjórir, afar þægilegir en því miður frekar litlir og stundum er erfitt að finna sér pláss. Miðjupotturinn er sérstaklega vinsæll enda 39-41 gráðu heitur sem er vinsælasta hitastigið í pottum landsins. Þar er einnig nuddtæki sem fólk bíður í röðum eftir að nota. Ein skondin saga sem gaman er að rifja upp er frá síðasta sumri. Ég sat í pottinum ásamt pari frá Þýskalandi. Stúlkan starði á skilti fyrir ofan nuddtækið. Á skiltinu er rautt strik dregið yfir mynd af síðhærðum manni teiknuðum frá hlið. Eftir stutta þögn spurði stúlkan manninn hvað hann héldi að þetta skilti táknaði. „Það er augljóst,“ svaraði maðurinn. „Egyptar bannaðir!“ Mafíósar í eimbaði Þegar skrifað er um Vesturbæjarlaugina er ekki hægt að sleppa að minnast á eimbaðið, tromp Vesturbæjarlaugar, sem sumir segja einna líkast sviðsmynd í Sopranos-þætti ... Í flestum laugum eru litlir vatnsgufuklefar úr plasti þar sem maður nánast þjáist af innilokunarkennd. Ekki í Vesturbæjarlauginni. Klefinn er bæði stór og á sólardög- um lýsa geislarnir upp vatnsúðann svo að litlir regnbogar myndast inni í gufunni. Það verður því enginn svikinn af heimsókn í þessa frábæru sundlaug sem er svo sannarlega falinn gimsteinn í Vesturbæ Reykjavíkur. SÍMON BIRGISSON GAGNRÝNIR SUNDLAUGAR Vesturbæjarlaugin: Vin í eyðimörkinni BÚINN AÐ SYNDA Gott pláss er á sundbrautunum í Vesturbæjarlauginni. Í HEITA POTTINUM Tilfinningin líkust því að vera í móðurkviði. Í STURTU EFTIR EIMBAÐIÐ Tromp Vesturbæjarlaugarinnar eins og sviðsmynd í Sopranos-þætti. UNDIR BERUM HIMNI Gott að gera æfingar í útiklefanum. „Það er frá- bær tilfinn- ing að smella sér í sokkana með skrauf- þurrar tær.“ EGYPTAR BANNAÐIR! Skiltið sem útlendingarnir misskildu svo hrapalega www.bluelagoon.is Líf 6

x

Fréttablaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.