Fréttablaðið - 29.12.2006, Page 73
F
í
t
o
n
/
S
Í
A
Undanfarið hafa borist af því
fréttir að sala á tónlist gegnum
iTunes sé langt undir væntingum
og að flestir hlustendur kjósi enn
geisladiska fram yfir niðurhal af
netinu. Þetta eru athyglisverð
tíðindi og verður fróðlegt að sjá
hvernig málin þróast næstu
misserin. Það hefur nefnilega
komið í ljós að iTunes-markaðurinn
er um margt einstakur. Nýlegar
kannanir sýna t.d. að ungt fólk
notar netið í ríkum mæli til að
sækja sér klassíska tónlist. Í
geisladiskaverslunum er klassísk
tónlist ekki nema 3-4 prósent af heildarsölu, en hlutfallið er 12 prósent
á iTunes. Þá sýna kannanir að þeir sem kaupa klassíska tónlist gegnum
iTunes eru flestir tiltölulega ungir og vita ekki mikið um tónskáld og
flytjendur. Þeir eru hins vegar forvitnir og nota tækifærið til að kynna
sér, fyrir lágt verð, tónlist sem þeir myndu ekki kaupa á geisladiski að
svo komnu máli.
Eftir súrrealísk uppgangsár frá því að geisladiskurinn kom til
sögunnar hafa klassísku útgáfufyrirtækin barist í bökkum um nokkurt
skeið. Markaðurinn var orðinn mettaður, sögðu menn; engan langar í
fleiri geisladiska með sömu gömlu verkunum. En eftir að iTunes kom á
markaðinn hafa ótrúlegustu hlutir gerst. Í fyrra gaf útgáfufyrirtækið
Decca út Árstíðir Vivaldis með hollenska fiðluleikaranum Janine
Jansen og dreifði upptökunum einnig á iTunes. Og viti menn: Árstíðirn-
ar fóru í 19. sæti bandaríska iTunes-listans og yfir 80 prósent af
heildarsölunni hafa farið fram gegnum niðurhal. Í breskum blöðum
hlaut Jansen viðurnefnið „Queen of the Download“ eða Drottning
niðurhalsins, og nú bendir allt til þess að þessi 27 ára gamli fiðlari
verði næsta stórstjarna klassíska tónlistarheimsins.
Það eru ekki bara stúdíóupptökur sem hafa slegið í gegn á netinu.
Hljómsveitin Fílharmónía var ein fyrsta sinfóníuhljómsveitin til að
bjóða upp á svonefnt „podcast“ þar sem tónleikar sveitarinnar voru
aðgengilegir til niðurhals á netinu. Á innan við ári höfðu tónleikarnir
verið sóttir 600.000 sinnum, og forsvarsmaður hljómsveitarinnar
fullyrti að netið myndi í framtíðinni gegna grundvallarhlutverki þegar
kæmi að því að ala upp framtíðarhlustendur klassískrar tónlistar.
Það leið heldur ekki á löngu þar til útgáfurisinn Deutsche
Grammophon sá sér leik á borði og stofnaði DG Concerts með samn-
ingi við tvær fremstu hljómsveitir Bandaríkjanna: Fílharmóníuhljóm-
sveitirnar í New York og Los Angeles. Á hverju ári eru hljóðritaðir
fernir tónleikar með hvorri hljómsveit og þeim dreift á iTunes.
Viðtökurnar hafa farið fram úr björtustu vonum enda er úr frábæru
efni að velja, m.a. bandarískri nútímatónlist undir stjórn hins þrótt-
mikla finnska stjórnanda Esa-Pekka Salonen, og síðustu sinfóníum
Mozarts undir stjórn Lorin Maazel (www.deutschegrammophon.com).
Decca hóf nýverið samskonar röð með fjórum fremstu hljómsveitum
Evrópu. Fyrstu „podcast“-tónleikarnir þar á bæ voru helgaðir Robert
Schumann í tilefni þess að 150 ár voru frá andláti hans, og einleikarinn
var argentínska píanógyðjan Martha Argerich (www.decca.com).
Það virðist semsagt ástæða til bjartsýni. Ungt fólk hefur aldrei átt
jafngreiðan aðgang að klassískri tónlist og nú. Stóra spurningin er
samt hvort það tekst að nýta
tækifærið til að vekja áhuga ungu
kynslóðarinnar á því að sækja
klassíska tónleika. Sumir vilja
meina að það gildi einu hvort
maður hlustar á tónlist í geislaspil-
ara eða í tónleikasal, og mun ég
fjalla nánar um það mál allt í næsta
pistli. Það hlýtur samt að vera
hverjum manni ljóst að það lifir
engin hljómsveit, einleikari eða
listahátíð á geisladiskaupptökum,
útvarpsútsendingum eða niðurhali. Tónleikahald er spurning um
lífsafkomu fjölmargra hljómsveita og einleikara um allan heim.
Með það fyrir augum að nota iTunes-æðið til að hvetja ungt fólk til
að sækja tónleika er Carnegie Hall farið að senda út á netinu dagskrá
þar sem skærustu stjörnur klassískrar tónlistar leika í hinu sögu-
fræga tónleikahúsi, en tjá sig einnig um listsköpun sína, verkin sem
flutt eru og margt fleira (www.carnegiehall.org). Með iTunes hefur
skapast einstakt tækifæri til að brjóta niður múra og kynna klassíska
tónlist fyrir gríðarlegum fjölda fólks. Hvernig væri að Ríkisútvarpið
sýndi frumkvæði á tæknisviðinu og færi að „podcasta“ tónleikum
Sinfóníunnar? Varla getur það verið svo flókið mál að semja um
réttindi ef þess þarf með. Myndu ekki allir hlutaðeigandi græða á því
ef hundruð eða þúsundir íslenskra unglinga – svo ekki sé nú talað um
alla hina iPod notendurna um allan heim – færu að ganga um með
Melabandið í vasanum?
iTunes og klassíkin