Fréttablaðið - 30.01.2007, Blaðsíða 22
Átæplega 12 ára valdatímabili núver-andi stjórnarflokka hefur tekjuskipt-
ing á Íslandi breyst verulega til hins verra
fyrir allan almenning í landinu. Munur á
hæstu og lægstu launum hefur aukist svo
gríðarlega að með ólíkindum verður að
teljast. Samfara þeirri breytingu hafa
stjórnvöld lagt áherslu á að rýra kaupmátt
þeirra lægst launuðu með því að halda
skattleysismörkunum niðri í stað þess að
leyfa þeim að hækka í takt við launaþróunina í land-
inu. Þessi stöðugu afskipti hafa orðið þess valdandi
að skattbyrðin hefur með síauknum þunga flust frá
hátekjufólkinu niður á lágu kauptaxtana, örorku-
bæturnar og ellilaunin, mest á þá sem minnst hafa.
Laun, sem duga ekki fyrir brýnustu nauðsynjum,
eru nú skattlögð sem um hátekjur væri að ræða.
Af hræðslu við fylgistap í alþingiskosningunum í
vor hækkuðu stjórnarflokkarnir skattleysismörkin
um síðustu áramót úr kr. 79.055 í kr. 90.000 á mán-
uði. Þessi hækkun er þó langt frá því að vera nóg. Til
að gefa þeim sem eru á lágmarkslaunum einhvern
möguleika til þess að ná endum saman í heimilis-
rekstri sínum hefðu þau þurft að hækka a.m.k. í kr.
125.000. Sú hækkun væri samt ekki nóg til þess að
bæta fyrir það sem upp á vantar að skattleysismörk-
in fylgi launaþróun frá 1988 þegar staðgreiðsla
skatta var tekin upp. Til þess þurfa þau að hækka í
kr. 133.000. Það er nöturleg staðreynd að í raun hafa
skattleysismörkin lækkað hlutfallslega, þó svo að
þau hafi hækkað í krónutölu.
Á liðnum árum hafa skattar hátekjufólks lækkað
verulega, en hækkað á lágu laununum. Fyrir nokkr-
um árum var t.d. 4% hátekjuskattur felldur niður.
Þetta var sérstaklega gert fyrir hátekjufólk, án þess
að hliðstæð skattalækkun kæmi á lágmarkslaunin.
Þessu til viðbótar hafa stjórnvöld með skipulegum
hætti lækkað tekjuskattinn um 4 prósentustig. Með
þeirri aðgerð, án hækkunar skattleysismarka, var
sköttum létt af þeim tekjuháu og þeir færðir yfir á
fólk sem er með laun á bilinu frá kr. 90.000 og upp í
kr. 160.000 á mánuði. Samt ætlar ríkisstjórnin ekki
að hækka skattleysismörkin nema í kr. 90.000 á mán-
uði. Þegar rætt er um lægstu kauptaxtana
þá skulum við ekki gleyma því að til eru
opinberar tölur sem sýna að tekjur ein-
staklings þurfa að vera yfir kr. 165.000 á
mánuði svo að hann geti lifað eðlilegu lífi í
íslensku þjóðfélagi. Núverandi lágmarks-
laun eru því langt frá því að geta talist líf-
vænleg og fjarri öllu réttlæti að skattleggja
þau.
Ávallt þegar samið er um kaup og kjör
verkafólks og annara lágtekjuhópa byrja
ráðherrar og þingmenn stjórnarflokkanna
að vara við of miklum kauphækkunum og segja að
framleiðslugreinar þjóðarinnar þoli þær ekki. Jafn-
vel hafa stjórnvöld gengið svo langt að vera með
hótanir í garð láglaunafólks undir þessum kringum-
stæðum. Svo þegar búið er að semja við þá lægst
launuðu og í ljós kemur að kauphækkanir eru litlar
og vel innan þolmarka efnahagslífsins þá þagna
þessar raddir. En nokkru síðar kemur úrskurður frá
kjararáði, kjaranefnd eða hvað sem þetta heimatil-
búna óskabarn þeirra heitir, þar sem tilkynnt er að
mánaðarlaun hvers ráðherra hækki sem svarar
mánaðarlaunum verkamanns. Og í kjölfar þess
hækka mánaðarlaun bankastjóra, forstjóra, fram-
kvæmdastjóra, seðlabankastjóra og annarra
hátekjumanna um ein, tvenn eða þrenn mánaðar-
laun verkamanns, án þess að athugasemd komi frá
stjórnvöldum. Og það skrítna er að nú minnist engin
á þenslu í efnahagslífinu eða stöðu atvinnuveganna
eða hver eigi að greiða öll þessi ósköp.
Ég ítreka þá skoðun mína að strax á þessu ári eigi að
hækka skattleysismörkin upp í kr. 125.000 og þau
verði síðan látin fylgja launaþróun í landinu. Með
þeirri hækkun fengi almennt launafólk síðbúna en
nauðsynlega leiðréttingu á skattgreiðslum sínum.
Ég spyr: Eru núverandi stjórnarflokkar á móti því
að láglaunafólki, ellilífeyrisþegum og öryrkjum
verði gert jafn hátt undir höfði og þeim sem eru með
hærri laun? Ef ekki þá eiga þeir að hækka skattleys-
ismörkin því sú aðgerð skilar sér jafnt til allra, bæði
þeirra tekjulágu og þeirra sem hafa milljónir í mán-
aðarlaun, en það gerir lækkun á skattprósentu ekki.
Sjáumst á kjörstað í vor!
Höfundur er fyrrverandi formaður verkalýðsfélagsins
Hlífar.
Veruleikinn er ljótur
Íhaust var sýnd í frétt-um sjónvarpsins gömul
mynd af því þegar hvalur
var veiddur með skutli án
sprengjuhleðslu. Þurfti
að sögn þrjá skutla til
þess að drepa hvalinn.
Því var bætt við fréttina að nú væri
notaður sprengiskutull og hvalur-
inn dræpist strax í 80% tilfella.
Mér varð hugsað til stórra,
íslenskra landdýra – hesta. Gerum
okkur í hugarlund að hestar væru
felldir þannig að þeir væru eltir á
fjórhjóli um holt og móa. Þegar
nógu nærri væri komið væri skotið
skutli í hestinn sem kræktist ein-
hvers staðar í búk hans og spryngi.
Síðan væri hesturinn dreginn með
spili að farartækinu og hann skot-
inn í hausinn væri hann ekki dauð-
ur. Ég hef grun um að landsmenn
yrðu ekki sáttir við þessa aðferð
þótt það væri fullyrt að það væri
aðeins í 20% tilfella sem hestarnir
dræpust ekki strax. Það er ekki
meðaldánartíminn sem skiptir máli
heldur fjöldi þeirra dýra sem ekki
deyr samstundis eða innan nokk-
urra sekúndna eftir að hafa fengið
sprengiskutulinn í sig. Staðreyndin
er sú að það getur tekið 10, 15 eða
20 mínútur að drepa hval með
sprengiskutli – jafnvel enn lengri
tíma.
Fulltrúar hvalveiðiþjóða hafa
viðurkennt að aðalvandamálið væri
að hæfa hvalinn þannig að skutull-
inn skemmdi heilann eða spryngi í
efri hluta brjóstholsins. Jafnvel
skot beint í brjóstholið orsakar ekki
tafarlaust meðvitundarleysi vegna
hæfileika hvalsins til að lifa í lang-
an tíma án þess að anda. Heili hvals-
ins er umluktur æðakerfi sem getur
séð honum fyrir súrefni í margar
mínútur eftir að blóðstreymi frá
hjartanu er hætt.
Eftir stendur því sú staðreynd
að enn hefur ekki verið fundin upp
nein leið til þess að drepa hvali á
mannúðlegan hátt jafnvel þótt hval-
veiðimaðurinn sé allur af vilja
gerður, fær í sínu fagi og
búinn „bestu“ vopnum. Og
ekki er fyrirsjáanlegt að sú
aðferð finnist. Þegar bráðin
er svona miklu stærri en
veiðimaðurinn og bæði eru
á hreyfingu er útilokað, með
þeirri tækni sem nú þekk-
ist, að drepa dýr úr mikilli
fjarlægð, á mannúðlegan
hátt. Siðferðilega er því
ekki hægt að réttlæta dráp hvala.
Stjórnvöld hafa varið stórum
upphæðum af almannafé til þess að
reyna að sannfæra umheiminn um
að við höfum rétt á því að veiða
hvali og ráðamenn tala gjarnan um
hvali sem „auðlind“ okkar Íslend-
inga. Þessi ætlaða „auðlind“ hefur
reyndar aldrei skilað þjóðarbúinu
miklu – fór ekki upp fyrir 1% af
þjóðartekjum þegar veiðarnar voru
í hámarki. Höfum við efni á því að
kosta áfram stórfé til þess að reyna
að breyta viðhorfi heimsbyggðar-
innar til hvalveiða þegar útséð er
að það mun aldrei takast? Þrjóskan
hefur svoleiðis blindað íslenska
ráðamenn að þeir sjá ekki það sem
blasir við. Hvalurinn er hluti af líf-
ríki jarðarinnar allrar en ekki prí-
vat auðlind eins né neins. Fólk um
víða veröld hefur samúð með hvöl-
um og sættir sig ekki við að þeim sé
miskunnarlaust slátrað en vill aftur
á móti gjarnan borga fyrir að fá að
sjá þá lifandi í hafinu. Hvað þarf til
svo að við Íslendingar hættum að
veiða hvali? Ég veit það ekki. Ríkis-
stjórnin hefur hingað til ekki tekið
neinum skynsemisrökum. Von mín
er bundin við þær þjóðir sem vilja
ekki láta okkur Íslendinga komast
upp með að veiða hvali, að þær
finni þau ráð sem duga.
Höfundur er kennari.
Engar hvalveiðar
Sigurjón Þórðarson, alþingismaður, ritaði
stutta grein í Fréttablaðið
í desember sl. þar sem
hann fjallar um veiðálag á
þorski. Sigurjón byggir
umfjöllun sína á nýlegri
skýrslu Hafrannsókna-
stofnunarinnar (Sigfús A. Schopka,
Jón Sólmundsson, Vilhjálmur Þor-
steinsson 2006. Áhrif svæðafrið-
unar á vöxt og viðgang þorsks.
Niðurstöður úr þorskmerkingum
út af norðanverðum Vestfjörðum
og Húnaflóa sumurin 1994 og
1995. Fjölrit Hafrannsóknastofn-
unarinnar # 123) og vitnar til þess
að hlutfall þorsks sem endur-
heimtist á 5 ára tímabili hafi verið
14%. Sigurjón ber þessa stærðar-
gráðu saman við 25% aflareglu og
telur að þessi mismunur verði
ekki skýrður með merkjadauða
eða merkjatapi og telur sýnt að
um 80% af þorski drepist af öðrum
orsökum en fiskveiðum. Rétt er að
taka það fram hér að 25% afla-
reglan miðast við þyngd veiði-
stofns en endurheimtuhlutfall er
reiknað út frá fjölda fiska. Að öllu
jöfnu er talið að 25% aflareglna
jafngildi veiðihlutfalli í fjölda upp
á um 30%. Sigurjón byggir álykt-
anir sínar um veiðiálag á endur-
heimtuhlutfalli merkja, aðferð
sem er vel þekkt innan stærð-
fræðilegrar fiskifræði. Í góðum
bókum eru dregnir fram ýmsir
vankantar við aðferðafræðina
vegna merkjadauða, merkjataps,
merkjaskila sem og annarra þátta.
Sigurjón vísar til þessara ann-
marka þegar hann tilgreinir að
mismunurinn á milli 14%
og 25% verði ekki skýrður
með „tapi á fiskmerkjum
eða dauða sem verður við
merkingar“.
Í umræddri skýrslu er
fjallað nokkuð um þessa
þætti, m.a. vegna þess að
mikill munur var á endur-
heimtum eftir tegund
merkja sem notuð voru.
Þannig voru meðalend-
urheimtur plötumerkja 9,5% en
endurheimtur slöngumerkja mun
hærri eða 17,6%. Lausleg greining
undirritaðs á merkingargögnum
Hafrannsóknastofnunarinnar frá
síðastliðnum árum, sýna að endur-
heimtuhlutfall hefðbundinna
slöngumerkja fyrir þorska stærri
en 60 cm sé í kringum 20%. End-
urheimtuhlutfall rafrænna merkja
frá sama tíma er hins vegar mun
hærra, eða um 30% og þar af um
25% á fyrsta árinu. Líklega má
rekja helmingi hærra endur-
heimtuhlutfall á rafeindamerkj-
um til betri skila á þeim merkjum
þó svo að aðrir þættir geti einnig
skýrt þennan mun. Merkingar-
dauði, merkjatap og endurheimtu-
skil hafa hins vegar ekki verið
rannsökuð og því er ekki hægt að
álykta að 25% merkjaskil séu
ígildi 25% veiðihlutfalls. Slíkar
rannsóknir væru hins vegar mjög
æskilegar, þar sem aðferðafræðin
býður upp á mat á veiðihlutfalli
sem er óháð öðrum aðferðum. En
á meðan slíkt liggur ekki fyrir eru
ályktanir Sigurjóns Þórðarsonar
um að veiðihlutfallið sé í raun mun
lægra en metið er með hefðbundn-
um aðferðum markleysa.
Höfundur er fiskifræðingur hjá
Hafrannsóknastofnun.
Endurheimtur fisk-
merkja og veiðihlutfall
Höfum við efni á því að kosta
áfram stórfé til þess að reyna
að breyta viðhorfi heimsbyggð-
arinnar til hvalveiða þegar
útséð er að það mun aldrei
takast?
LEONARDÓCOMENIUSERASMUSGRUNDTVIG
MENNTAÁÆTLUN EVRÓPUSAMBANDSINS
til ársins 2013 var ýtt úr vör í janúar 2007. Markmið áætlunarinnar er að stuðla að þróun
öflugs þekkingarsamfélags í Evrópu. Sérstök áhersla er lögð á samstarf og samnýtingu
reynslu og þekkingar um menntun og þjálfun í 31 Evrópulandi.
OPNUNARRÁÐSTEFNA MENNTAÁÆTLUNARINNAR
verður haldin í Borgarleikhúsinu fimmtudaginn 1. febrúar klukkan 13:00
DAGSKRÁ
13.00-13.10 Tónlistaratriði og setning
13.10-13.20 Ávarp menntamálaráðherra, Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur
13.20-13.50 Ávarp fulltrúa Evrópusambandsins
13.50-14.05 Ný Landskrifstofa - hlutverk og skipulag,
Karítas Kvaran, forstöðumaður Alþjóðaskrifstofu háskólastigsins
14.05-14.10 Opnun nýrrar heimasíðu Landskrifstofu Menntaáætlunar ESB
14.10-14.30 Reynslusögur tveggja þátttakenda úr fyrri menntaáætlunum
14.30-15.00 Kaffi
15.00-16.30 Málstofur - Comenius, Erasmus, Grundtvig og Leonardó áætlanirnar
16.30 Móttaka í boði menntamálaráðuneytis
Ráðstefnustjóri: Ágúst Hjörtur Ingþórsson,
forstöðumaður Rannsóknaþjónustu Háskóla Íslands
Allir sem starfa að menntun og hafa áhuga á kynna sér möguleika til styrkja í gegnum
Menntaáætlun ESB eru hvattir til að taka þátt.
Vinsamlegast staðfestu þátttöku með skráningu á
www.leonardo.is, www.ask.hi.is eða í síma 525 4311
LANDSKRIFSTOFA MENNTAÁÆTLUNAR ESB.
Leonardó áætlunin: Dunhaga 5 | 107 Reykjavík | Sími: 525 4900
Erasmus, Comenius, Grundtvig: Neshagi 16 | 107 Reykjavík | Sími: 525 4311