Fréttablaðið - 08.06.2007, Blaðsíða 36
BLS. 6 | sirkus | 8. JÚNÍ 2007
Þ etta er svakalegt sjokk en von-andi verður þetta dropinn sem fyllir mælinn og fær hann til að
snúa við blaðinu fyrir alvöru,“ segir
Sveinbjörg Karlsdóttir, móðir Karls
Bjarna Guðmundssonar, sem er betur
þekktur sem Kalli Bjarni, fyrsta Idol-
stjarna landsins. Sveinbjörgu var, líkt
og öðrum þeim sem standa nálægt
Kalla Bjarna, verulega brugðið þegar
hún frétti af handtöku hans vegna
smygltilraunar á tveimur kílóum af
kókaíni.
Segist ætla að taka sig á
Kalli Bjarni var að koma frá Frank-
furt í Þýskalandi og fannst kókaínið í
farangri hans. Hann var í kjölfarið
úrskurðaður í þriggja vikna gæslu-
varðhald og hefur Sveinbjörg, móðir
Kalla, ekki fengið að hitta son sinn þar
sem hann dvelur í einangrun. Aðal-
heiður Hulda Jónsdóttir eða Alla, eins
og barnsmóðir Kalla Bjarna er jafnan
kölluð, mætti á Keflavíkurflugvöll til
að taka á móti Kalla, sem þá var hvergi
sjáanlegur. Sveinbjörg var í símasam-
bandi við Öllu allan tímann.
„Ég vissi ekkert hvar hann væri og
var hrædd um að hann hefði verið
barinn þarna úti eða eitthvað enn
verra. Við reyndum að afla upplýsinga
um ferðir hans og hvort hann hefði
komið inn í landið en fengum ekkert
að vita. Um hádegisbilið daginn eftir
tilkynnti lögreglan mér að hann hefði
verið handtekinn og um kvöldið voru
fjölmiðlar komnir með þetta,“ segir
Sveinbjörg, sem vonast til þess að
þetta verði til þess að Kalli Bjarni
hverfi til betra lífernis.
„Ég vona að Kalli Bjarni muni snúa
við blaðinu. Hann sendi mér bréf úr
fangelsinu þar sem hann segist loks-
ins skilja þá leið sem hann var að feta
og segist ætla að taka sig á. Hann tal-
aði mikið um forvarnir og ætlar sér að
standa sig,“ segir Sveinbjörg.
Bara burðardýr
Sveinbjörg segist vera fullviss um
það að sonur sinn hafi aðeins verið
burðardýr. Hann hafi ekki verið að
flytja þetta inn fyrir sjálfan sig. „Það
segir sig sjálft. Hann var á frystitogara
með fín laun en átti aldrei krónu. Hann
gat ekki einu sinni keypt mjólk fyrir
heimilið. Það er ekki möguleiki að
hann hafi getað fjármagnað kaup á
þessum fíkniefnum. Ég þurfti meira
segja að láta hann hafa pening til að
hann gæti verslað í fríhöfninni fyrir
börnin sín.
Kalli hafði slasast á sjónum, var
búinn að vera í landi í rúman mánuð
og þurfti á aðgerð að halda. Ég held að
hann hafi verið byrjaður aftur í dópinu
en veit það ekki fyrir víst. Mitt álit er að
hann hafi skuldað peninga og hafi
verið neyddur til að gera þetta. Ég hef
samt enga sönnun,“ segir Sveinbjörg.
SVEINBJÖRG KARLSDÓTTIR, móðir Idolstjörnunnar Kalla Bjarna, hefur fengið að kynnast lífinu á þann hátt sem ekki er hægt að
óska neinni manneskju. Hún lenti í bílslysi þegar hún gekk með Kalla Bjarna og var ráðlagt að eiga hann ekki til að geta náð fullum
bata. Hún er nú öryrki en segist ekki sjá eftir neinu. Dóttir hennar var komin í ræsið vegna fíkniefnaneyslu og óttaðist Sveinbjörg á
hverjum degi í mörg ár að hún myndi fá símtal frá lögreglunni þar sem henni væri tjáð að dóttir hennar væri látin. Hún hefur nú náð
sér á strik en þá dynur ógæfan yfir Kalla Bjarna, sem tekinn var með tvö kíló af kókaíni í Leifsstöð á fimmtudaginn fyrir rúmri viku,
Sveinbjörg segist standa með syni sínum í gegnum þykkt og þunnt. Jafnvel þótt dópið hafi tekið allt frá Kalla Bjarna, fjölskylduna,
tónlistarferilinn og frelsið.
SVEINBJÖRG KARLSDÓTTIR, MÓÐIR KALLA BJARNA, SNÝR EKKI BAKI VIÐ BÖRNUM SÍNUM Í ERFIÐLEIKUM
„HANN HEFUR TEKIÐ
HÆFILEIKANA Í NEFIГ
Á TOPPNUM Kalli Bjarni sést hér fagna sigrinum í Idol Stjörnuleit snemma árs 2004.
„AUÐVITAÐ ER ÞETTA OFT ERFITT EN ÞETTA ERU BÖRNIN MÍN. SAMA HVAÐ Á GENGUR
MUN ÉG ALDREI SNÚA VIÐ ÞEIM BAKI. ÉG KEM ALLTAF TIL MEÐ AÐ HJÁLPA ÞEIM.“