Fréttablaðið - 06.09.2007, Síða 42
6. SEPTEMBER 2007 FIMMTUDAGUR6 fréttablaðið norðurland
Á Húsavík blasa við nokkur aldargömul
hús sem á sínum tíma var bjargað frá
niðurrifi og hafa nú verið gerð upp af
hvalaskoðunarfyrirtækinu Norðursigl-
ingu.
„Þetta er náttúrlega ein sorgarsaga hvern-
ig farið var með gamalt húsnæði hér á Ís-
landi,“ rifjar Hörður Sigurbjarnarson
upp, framkvæmdastjóri hvalaskoðunar-
fyrirtækisins Norðursiglingar. „Á Húsa-
vík líkt og víða á Íslandi rifu menn gömul
hús á báðar hendur. Drógu tennurnar úr
miðbæjum svo þeir litu út eins og tann-
lausar kerlingar. Það er ekki lengra síðan
en 1980 að ekki þótti fínt að eiga gömul hús
á Íslandi.“
Hörður segir að eftir það hafi til allrar
hamingju átt sér stað töluverð viðhorfs-
breyting með þeim afleiðingum að tekið
var að vernda gömul hús og gera upp.
„Fyrir tæpum áratug, sagði Húsavíkur-
bær hingað og ekki lengra. Þá var ákveð-
ið að bjarga gömlu húsunum og tók bærinn
þátt í að flytja þau.“
Norðursigling, fyrirtæki Harðar, keypti
þá Bjarnabúð, sem Bjarni Benediktsson,
kaupmaður á Húsavík, byggði fyrir einni
öld, þar sem álitið var að þarna væru
menningarminjar í hættu. Þá höfðu veru-
legar endurbætur verið gerðar á húsinu af
Jóni Ármanni Árnasyni.
„Við lukum starfi Jóns,“ segir Hörður.
„Núna eru í húsinu þrjár íbúðir, tvær stúd-
íóíbúðir og ein stærri, teknar í notkun árið
2006. Sonur minn og sambýliskona hans
keyptu þær, búa í einni og eru með hinar
í útleigu.“
Innvolsi hússins hefur þar af leiðandi
verið breytt töluvert frá því sem áður var
enda hýsti það upphaflega verslun eins og
heitið gefur til kynna.
Bjarnabúð var þó ekki eina húsnæð-
ið sem Hörður bjargaði þar sem Norður-
sigling fékk leyfi hjá bænum til að taka
húsið Skuld sem til stóð að rífa í byrjun
2006. Eigendur Norðursiglingar sáu mögu-
leikana sem í því leyndust og eftir nokkr-
ar endurbætur var þar opnað kaffihúsið
Skuld, sem nýtur töluverðra vinsælda.
Þá er óupptalið húsið Hallandi, sem
Norðusigling keypti árið 1997. Það var
byggt árið 1907 og þykir vera með glæsi-
legri húsum á Húsavík eftir gagngerar
endurbætur.
Hörður segir að í dag njóti Húsvíkingar
og gestir góðs af þessari fyrirhyggju þar
sem húsin, ásamt Húsavíkurkirkju, myndi
hlið inn í bæinn og skipti máli fyrir bæjar-
myndina. roald@frettabladid.is
Menningarminjum bjargað á Húsavík
Hérna sést Bjarnabúð að utan sem hefur gegnt margvíslegu hlutverki í
gegnum tíðina.
Norðursigling hefur staðið í ströngu við að gera
upp gamalt húsnæði á Húsavík. Hörður segir það
kostnaðarsamt en á móti komi að hlutirnir endist
þá betur. MYND/HILDUR HARÐARDÓTTIR
Norðursigling bjargaði húsinu Skuld frá niðurrifi og fann því nýtt hlutverk. Nú
er þar rekið vinsælt kaffihús.