Fréttablaðið - 18.09.2007, Blaðsíða 42

Fréttablaðið - 18.09.2007, Blaðsíða 42
 18. SEPTEMBER 2007 ÞRIÐJUDAGUR6 fréttablaðið gæludýr Hver kannast ekki við brandarann um páfagaukinn sem kjaftaði frá framhjáhaldi eigandans? Sá brandari byggir hæglega á raunveruleikanum því hægt er að kenna öllum páfagaukum að tala, þótt í mismiklum mæli sé. „Flestir páfagaukar geta sagt eitthvað, en gárinn, þessi litli og algengasti í eigu Íslendinga, er heimsmethafi í orðaforða og hefur náð valdi á 1.700 orðum. Hann talar í belg og biðu svo orðræðu hans þarf að taka upp á band og spila hægt til að skilja,“ segir Ingólfur Tjörvi Einarsson, eigandi Furðufugla og fylgifiska að Borgarholtsbraut 20 í Kópavogi. „Af stærri fuglum hefur grápáfinn náð mestum orðaforða þar sem auðveldlega má telja orðin, en hann getur haft vald á þúsund orðum. Stærri fuglar eru greindari og sagðir hafa greind á við fjögurra ára barn en hegðun á við tveggja ára. Grápáfinn getur talað af skilningi, tjáð sig, beitt orðum af viti og beðið um hluti,“ segir Ingólfur Tjörvi og minnist grápáfans Alex sem nýlega varð bráðkvaddur í Bandaríkjunum, 31 árs að aldri. „Alex var rannsakaður í aldarfjórðung, en hann gat talið upp í sex og þekkti í sundur liti. Páfagaukar geta orðið sjötugir og er sá elsti í Blómavali orðinn 45 ára. Hann talar eitthvað smávegis en hefur ekki fengið mikla kennslu. Það er mikilvægt að kenna fuglunum strax að tala því þeir eru í eðli sínu fljótir að grípa hljóð. Algengast er að byrja á „hæ“ og „bæ“ og nafni fuglsins en sé ekkert fyrir þeim haft eru þeir snöggir að grípa símhringingar og önnur rafræn hljóð,“ segir Ingólfur Tjörvi og leggur áherslu á að vanda orðaval páfagauksins. „Þeir eru miklar hermikrákur og því varhugavert að segja hvað sem er í þeirra eyru. Það er ekkert gaman að blótandi páfagauk eða fugli sem kjaftar frá,“ segir Ingólfur Tjörvi og bendir á að páfagaukar séu mikið fyrir mannleg samskipti. „Eftir að við komum á íslenska markaðinn urðu handmataðir fuglar vinsælir. Þá elur manneskja upp unga frá því hann kemur úr eggi og þar til hann verður sjálfbjarga, og fuglinn verður mannelskur í kjölfarið. Áður voru fluttir inn ótamdir fuglar og með höppum og glöppum hvernig til tókst. Það er engin skemmtun að skrækjandi, ótömdum fuglum sem ekki er hægt að hafa samskipti við. Páfagaukar þurfa að hafa nóg fyrir stafni, nóg að naga og nóg af leikföngum. Flestir taka sér síestu yfir miðjan daginn og gera þarf mun á nóttu og degi fyrir þá. Þeir eru ekki ósvipaðir ungbörnum að því leyti til að þurfa tólf tíma nætursvefn; annars verða þeir úrillir og taugaveiklaðir,“ segir Ingólfur Tjörvi og mælir hiklaust með páfagauk til að auðga heimilislífið; ekki síst fyrir þá sem eru einmana og fyrir aldraða. „Páfagaukar eru yndislegur félagsskapur. Þeir verða bestu vinir manns og hægt að hafa við þá mun persónulegri samskipti en ketti og hunda, auk þess sem ekki þarf sérstakt leyfi fyrir þá né sprautur. Þeim er mun hættara við að ná sér í umgangspestir í gegnum okkur en að við verðum lasin vegna þeirra.“ thordis@frettabladid.is Kjafta frá leyndarmálum Bananafugl er íslenskt heiti yfir túkana frá Kosta Ríka. Átta vikna Jandaya-páfaungi sem Tjörvi handmatar. Handmataðir fuglar eru vinsælir en þá elur manneskjan upp unga frá því hann kemur úr eggi og þar til hann verður sjálfbjarga og fuglinn verður mannelskur í kjölfarið. Ingólfur Tjörvi Einarsson bregður á leik með grænvængjuðum ara, en þeir geta náð valdi á um 350 orðum. FRÉTTABLAÐIÐ/HÖRÐUR Hann er á við meðalmann á hæð þegar hann rís upp á afturlappirnar og dansar við húsfreyjuna á laugardagskvöldum, sláandi myndarlegur og glettinn. Eins og hálfs árs og heitir Lúkas Logi. „Lúkas Logi er franskur fjár- hundur af tegundinni Briard,“ segir Dóra Kjartansdóttir Welding, lyfjatæknir og eigandi Lúkasar, sem er einn fárra sinnar tegundar á Íslandi. „Ætli hann sé ekki orðinn 50 kíló en mest verða þessir hundar um 60 kíló þegar þeir hætta að stækka,“ segir Dóra, sem nýlega missti öldruðu tíkina Mistý sem var amerískur Cocker. „Mig hafði alltaf dreymt um stóran hund, kynnti mér Briard- tegundina vel og fannst hann bera af í stóra hundaflokknum. Hann er ákaflega heillandi skepna, bæði í útliti og innræti. Það skiptir miklu að stórir hundar séu ljúfir í skapi og Lúkas er yndislega geðgóður. Hann gerir auðvitað mikinn mannamun enda mikill varðhundur sem passar vel upp á fjölskyldu sína,“ segir Dóra, en Briard-hundar eru þekktir fyrir að halda strangan vörð um eigur, líf og limi húsbónda sinna. „Það fer enginn pípari hingað inn nema ég standi við hliðina á honum og pósturinn þorir varla með bréfin í lúguna. Lúkas lætur vita um leið og einhver ókunnur nálgast húsið, en ég stjórna honum og hann lúffar fyrir mínum fyrirskipunum,“ segir Dóra, sem gengur með Lúkas í einn og hálfan tíma á degi hverjum. „Það þarf að sinna honum vel. Ef hann er vel hreyfður liggur hann sáttur á mottunni sinni, en annars er hann að elta mann og vesenast. Það bregst ekki að við erum stoppuð á göngunni því fólki finnst óneitanlega sérstakt að sjá svona hálfgildings hestastærð á hundi. Börn vilja klappa honum og Lúkas fagnar ungviðinu á móti, enda barnelskur með eindæmum. Þess má geta að leikskólinn Mánabrekka kom hingað sérstaka ferð til að skoða Lúkas. Briard-hundar eru ofsalega kátir og muna margir eftir stóra hundinum með rauðu tunguna og síða toppinn sem elti Denna dæmalausa í samnefndri bíómynd. Hann er gjarnan skil- greindur sem góður bangsi með gullhjarta, en er á sama tíma óvæginn varðhundur ef honum er ógnað,“ segir Dóra, sem skammtar Lúkasi kíló af fóðri í hvert mál. „Hann borðar auðvitað mikið. Stundum fær hann kjúkling í ólífuolíu sem ég set undir þurrfóðrið og þá glommar hann skammtinum í sig af mikilli nautn. Stórir hundar borða einu sinni á dag en einstaka sinnum gauka ég að honum samloku með kæfu á morgnana. Þetta er nú einu sinni einkasonurinn, en svoleiðis dekur kemur í hausinn á manni með niðurgangi og möttum feldi,“ segir Dóra, sem fer mánaðarlega með Lúkas í bað, blástur og naglasnyrtingu í Dýrabæ í Hlíðarsmára og burstar feldinn þrisvar í viku til að fyrirbyggja hárflækjur, en Lúkas er sýningarhundur sem unnið hefur til verðlauna. „Mín reynsla er að stórir hundar séu þúsund sinnum geðprúðari en litlir hundar. Ég er miklu rólegri með Lúkas á tjaldstæði en ég var með Mistý sálugu. Lúkas tekur ekki á móti nema einhver sé vondur við hann. Hann er svolítil pissu- dúkka og gert grín að honum á hundanámskeiðum vegna þess að hann þorir ekki að stökkva yfir girðingar eða upp í bíla. Hann er hræddur við hesta og flugur og heilmikil kveif, en mundi láta til sín taka ef að honum væri vegið,“ segir Dóra um Lúkas. „Varðhundar verða að vera góðir á taugum. Meðan þeir eru hvolpar þarf að kenna þeim á öll möguleg dagleg áreiti, innanhúss sem utan, því annars sjá þeir raðmorðingja alls staðar. Innsæið virkar svo þannig að þeir skynja ótta eigandans og illan ásetning um leið.“ thordis@frettabladid.is Stór bangsi með gullhjarta Dóra Kjartansdóttir Welding og einkasonurinn Lúkas Logi, sem hvarvetna vekur aðdáun og eftirtekt fyrir stærð sína og glæsileika. FRÉTTABLAÐIÐ/HÖRÐUR
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56
Blaðsíða 57
Blaðsíða 58
Blaðsíða 59
Blaðsíða 60
Blaðsíða 61
Blaðsíða 62
Blaðsíða 63
Blaðsíða 64
Blaðsíða 65
Blaðsíða 66
Blaðsíða 67
Blaðsíða 68
Blaðsíða 69
Blaðsíða 70
Blaðsíða 71
Blaðsíða 72

x

Fréttablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.