Fréttablaðið - 01.10.2007, Blaðsíða 12

Fréttablaðið - 01.10.2007, Blaðsíða 12
Í upphafi þessa greina- flokks var greint frá því, að Íslendingar hefðu færi á að verða fyrsta þjóðin í heiminum sem yrði nánast óháð jarðefnaeldsneyti. Hér skal því nánar lýst hvernig hægt er að nálgast þetta markmið og hvað verið er að gera í þeim málum nú þegar. Árni Mathiesen fjármálaráðherra lýsti því yfir í ávarpi á ráðstefnunni Driving Sustainability ´07 fyrr í mánuðinum að íslenzk stjórnvöld væru „staðráðin í því að beita hag- rænum hvötum til að Íslendingar kaupi og noti umhverfisvæn farar- tæki og eldsneyti.“ Vinnuhópur með fulltrúum sex ráðuneyta – fjármála, samgöngu-, umhverfis-, iðnaðar-, utanríkis- og landbúnaðar- og sjávarútvegsmála – ynni nú að tillögum að heildstæðu regluverki, sem orðið gæti grundvöllur að nýrri löggjöf með þessu markmiði. Tillögurnar eiga að liggja fyrir í febrúar næstkomandi og stefnt er að því að ný lög á grundvelli þeirra geti tekið gildi í árslok 2008, en þá renna út tímabundnar bráðabirgða- reglugerðir sem kveða meðal annars á um afslátt af opinberum gjöldum af tilteknum gerðum umhverfisvænna bíla. Árni sagði þetta væntanlega nýja skattkerfi til hvatningar umhverfis- vænni samgangna hafa fimm megin- markmið: 1) að skapa hvatningu til notkunar umhverfisvænna farar- tækja, 2) að draga úr orkunotkun, 3) að draga úr koltvísýringslosun frá samgöngutækjum, 4) að auka notkun innlendra orkugjafa í sam- göngum, 5) að fjármagna uppbygg- ingu og viðhald vegakerfisins og verða eftir sem áður almenn tekju- lind fyrir ríkissjóð. Árni nefndi að verið væri að íhuga alvarlega að breyta stofni skattlagningar af farartækjum þannig að hann miðaðist við koltvísýringslosun þeirra í stað vélarstærðar og þyngdar eins og nú er. Mikilvægt væri að hinar nýju gjaldheimtureglur gerðu ekki upp á milli mismunandi kosta umhverfisvænnar tækni. Ágústa Loftsdóttir, sérfræðingur hjá Orkustofnun, velti í erindi á ráðstefnunni vöngum yfir því hvað stjórnvöld gætu gert til að ýta undir umhverfisvænni samgöngur hér á landi. Kynnti hún þar hug- myndir að því að byggja upp kerfi aðflutningsgjalda og skattheimtu af farartækjum miðað við kolt- vísýringslosun þeirra. Mögulegt væri að miða það kerfi við sjö þrepa (A til G) skalann sem notaður er til að flokka raftæki eftir því hve orkufrek þau eru – margir þekkja það til dæmis úr ísskápum. Þannig gætu vörugjöldin (tollur) af útblástursminnstu bílunum verið 10 prósent, af bílum sem lentu í næsta útblástursflokki 20 prósent og þannig koll af kolli upp í allt að 75 prósent fyrir þá bíla sem menga mest. Kosturinn við þetta kerfi væri að það næði yfir öll farartæki, sama hvernig þau eru knúin. Gallinn væri að það væri tiltölulega flókið með þessum sjö gjald- flokkum. Með því ætti að nást það markmið löggjafans að auka hlutfall umhverfisvænna farar- tækja í umferð hér á landi. Varðandi skattlagningu af eldsneyti benti Ágústa á að þar væri einn kosturinn að skattleggja eftir kolefnisinnihaldi, ekki rúm- máli (á lítra). Þá mætti veita skattafslátt af lífrænu eldsneyti, enda væri koltvísýringslosun af brennslu slíks eldsneytis undan- þegin Kyoto-bókuninni. Þá mætti niðurgreiða framleiðslu lífræns eldsneytis og gera til dæmis olíu- félögum skylt að hafa að minnsta kosti eina dælu með umhverfisvænu eldsneyti á hverri bensínstöð. Þórunn Sveinbjarnardóttir um- hverfisráðherra lýsti því yfir í ávarpi á sömu ráðstefnu, að Ísland gæti tvímælalaust orðið forystuþjóð í nýtingu sjálfbærrar orku í sam- göngum, ef rétt væri á málum haldið. „Við getum séð öllum bíla- flota höfuðborgarsvæðisins fyrir endurnýjanlegri raforku ef honum yrði breytt í tengil-tvinnbíla og hlaðinn á nóttunni – án þess að reisa ný orkuver,“ sagði ráðherrann. Þar nefndi ráðherrann eina tiltekna gerð umhverfisvænni bíla, sem nú er að ryðja sér æ meira til rúms í framboði bílaframleiðenda. Toyota, brautryðjandinn í markaðs- setningu tvinntækninnar, mun fljótlega bjóða Prius-tvinnbílinn í tengilútgáfu; munurinn á henni og venjulegum tvinnbíl er að hægt er að hlaða rafhlöðuna í bílnum úr heimilisinnstungu. Þannig er hægt að knýja tengil-tvinnbílinn að meira leyti á rafmagni en venjulegan tvinnbíl. Eins og sjá mátti á bílasýningunni í Frankfurt fyrr í mánuðinum keppast nú bílaframleiðendur við að bjóða upp á tvinnútgáfur af bílum sínum og sumir eru á leiðinni á markað með tengil-tvinnbíla til að láta Toyota þann markað ekki eftir. Þess verður því ekki langt að bíða að bílkaupendum bjóðist úrval tengil-tvinnbíla. Þetta eru góð tíðindi fyrir Íslendinga, þar sem tengil-tvinntæknin gefur kost á því að nota hina innlendu, hreinu raforku til að knýja bíla landsmanna, án þess að nokkur afsláttur sé veittur af notagildi bílanna í samanburði við hefðbundna bensín- eða díselbíla. Einn tengil-tvinnbíll er nú þegar kominn í umferð hér á landi. Það er Toyota Prius, sem breytt var í tengilbíl af sérfræðingum Amber- jac Projects frá Bretlandi á vegum Orkuseturs Orkustofnunar. Eigandi bílsins, Guðmundur Árnason, segir fyrstu reynsluna lofa góðu. Elds- neytiseyðslan á styttri vegalengdum (allt að 100 kílómetrum) fari niður fyrir þrjá lítra á hundraðið. Og það án sérstaks sparaksturs. Tengil-tvinnbíl er líka hægt að gera alveg óháðan jarðolíueldsneyti með því að brennsluvélin í honum gangi fyrir öðru eldsneyti, en eins og nefnd voru dæmi um í síðustu grein kemur þar margt til greina: vél sem gengur fyrir etanóli, lífdísel eða metangasi, eða efnarafall knúinn vetni. Allar þessar tegundir elds- neytis er hægt að framleiða á Íslandi. Hagkvæmara kann þó að vera að flytja lífrænt eldsneyti inn. Íslenska lífmassafélagið hefur í hyggju að framleiða lífeldsneyti úr heyi og öðrum lífmassa sem hag- kvæmt kann að vera að rækta hér á landi. Eitt sóknarfærið í því sam- bandi er að nýta heitt affallsvatn frá jarðvarmavirkjunum landsins til að hámarka uppskeru lífmassans, hvort sem þar verður um að ræða gras eða aðrar jarðvegsplöntur eða þörunga, sem einnig þykja lofa góðu til lífmassaræktunar sem ekki yrði í samkeppni við landbúnað eða aðra landnýtingu. Að sögn Björns H. Halldórssonar, framkvæmdastjóra Sorpu og Metans hf, getur metangasið, sem nú er unnið úr hauggasi á land- fyllingunni í Gufunesi, séð 3.000- 4.000 bílum fyrir eldsneyti fram yfir árið 2030. Að hans sögn gæti lífrænn úrgangur sem til fellur á Íslandi nægt til að gefa af sér eldsneyti í formi metangass fyrir 10.000-15.000 fólksbíla. Miklir mögu- leikar gætu legið í nýtingu annars lífmassa. Hann segir að með uppskeru af um 190.000 hektörum lands – sem samsvarar þremur prósentum af örfoka landi og 8 prósentum af grónu landi hérlendis – væri hægt að sjá öllum bílaflota landsmanna fyrir eldsneyti. Og það miðast við núverandi eldsneytisþörf, sem yrði miklu minni ef stór hluti bílaflotans væru tengil-tvinnbílar, knúnir rafmagni að miklu leyti. Ljóst er að eldsneyti framleitt úr íslenzkum lífmassa með þessum hætti yrði dýrt, en hluti þess kostnað- ar færi í uppgræðslu lands, sem á að ráðast í hvort eð er enda er upp- fok og landeyðing eitt mesta umhverfisvandamál sem Ísland á við að glíma. Að geta nýtt uppgrætt land til eldsneytisframleiðslu er þannig aukahvatning til að unnið sé gegn landeyðingu með landgræðslu. Eins og áður var rakið í þessum greinaflokki er sennilegast að framtíðin felist í fjölorkukerfi, þar sem engin ein lausn muni taka við af olíugrundvallaða samgöngu- kerfinu heldur verði allir fáanlegir orkugjafar nýttir í blöndu sem fer eftir aðstæðum í hverju landi. Á Íslandi verður mikilvægast að nýta tækni sem gerir kleift að nota hina innlendu, sjálfbæru raforku sem mest til að knýja farartæki landsmanna. Sú tækni sem að svo stöddu lofar beztu í þessum tilgangi er tengil- tvinntæknin. Slíka bíla er hægt að gera alveg óháða jarðefnaeldsneyti með því að brennsluvélin í þeim gangi fyrir lífrænu eldsneyti eða vetni. Reynslan á eftir að sýna hvern þeirra eldsneytiskosta verður hagstæðast að nýta hér á landi. Framtíðin á síðan eftir að sýna hvort rafhlöðutæknin nær nægilegum framförum til að brennsluvél verði alveg óþörf í bílum, því langbezta orkunýtnin næst með hreinræktuðum raf- bílum. Með þessu er það fullkomlega raunhæft að gera landsamgöngur á Íslandi algerlega óháðar jarðefna- eldsneyti á tiltölulega skömmum tíma – það mætti til dæmis stefna að því að ná þessu markmiði fyrir árið 2030. Þar sem skipafloti lands- manna eyðir meira eldsneyti og losar meiri koltvísýring en allur bílaflotinn, og flugflotinn er sömu- leiðis mjög eyðslufrekur, verður íslenzkt samfélag þó ekki alveg óháð jarðefnaeldsneyti fyrr en tekizt hefur að finna arftaka skipa- olíu og kerósíns. Þar sem stjórnvöld hafa sett sér það langtímamarkmið að draga úr losun gróðurhúsa- lofttegunda um 50-75 prósent fram til ársins 2050 er mikið undir því komið að það takist. Hvernig Ísland getur kvatt olíuna H2 CO2 O2 Rekstrarvörur - vinna með þér Réttarhálsi 2 • 110 Reykjavík Sími: 520 6666 • Fax: 520 6665 sala@rv.is • www.rv.is TASKI gólfþvottavélar á rekstrarleigu RV U N IQ U E 10 07 01 Fáðu nánari upplýsingar hjá sölumönnum og ráðgjöfum RV TASKI swingo XP TASKI swingo 3500 B TASKI swingo 1250 B TASKI swingo 750 B TASKI swingo gólfþvottavélar - engin útborgun, engin fjárbinding aðeins mánaðarlegar greiðslur

x

Fréttablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.