Morgunblaðið - 16.02.2006, Side 26
26 FIMMTUDAGUR 16. FEBRÚAR 2006 MORGUNBLAÐIÐ
MENNING
Í KVÖLD verður leikritið Maríu-
bjallan frumsýnt í Rýminu, nýju
leikhúsi Leikfélags Akureyrar í
Hafnarstræti 73.
Maríubjallan er kraftmikið nú-
tímaverk eftir Vassily Sigarev.
Dima er 19 ára. Hann býr í
blokk við hliðina á kirkjugarðinum,
þaðan sem hann stelur legsteinum
og selur. Á morgun hefur hann
herþjónustu en í kvöld heldur hann
vinum sínum kveðjupartí. Þangað
koma vinir hans Slavik og Arkasha
auk stúlknanna Leru og Júlkua. Á
einu kvöldi fáum við innsýn í líf
persónanna, kynnumst sorgum
þeirra og þrám. Í ömurlegum að-
stæðum er að finna allt litróf
mannlegra tilfinninga og hver um
sig hefur fundið sína leið til að lifa
af.
Vassily Sigarev er talinn eitt
fremsta leikskáld nýrrar kynslóðar
í Evrópu og hefur hlotið fjölda
verðlauna á síðastliðnum miss-
erum. Meðal annarra verka hans
eru Plasticine og Svört mjólk sem
bæði voru frumsýnd í Royal Court-
leikhúsinu í London. Það síðast-
nefnda var einnig sýnt í Þjóðleik-
húsinu fyrir skömmu.
Jón Páll Eyjólfsson er leikstjóri
sýningarinnar. Hann segir að verk-
ið sé heimur Sigarevs og rúss-
neskra ungmenna í dag, hífður upp
á svið í allri sinni ómynd. Unga
fólkið stendur á mörkum hins
horfna heims Sovétríkjanna, þar
sem ekkert er til, og markaðs-
hagkerfisins, þar sem allt er falt.
„Dima stelur járnminnisvörðum úr
kirkjugarðinum og dregur fram líf-
ið með því að selja þá í brotajárn.“
Hversu dýr mella er ég?
„Sigarev sagði frá því sjálfur í
viðtali í Independent, að hann
kæmi úr litlu þorpi í Úralfjöllunum
þar sem höfðu verið títan-námur.
Þegar hrunið kom – eða upprisan –
eftir því hvernig það er skilgreint,
sem sjálfsagt fer eftir tengslum
fólks við markaðskerfið – þá hirtu
bæjarbúar, og hann sem ungur
strákur þar með, þá títan-mola sem
eftir urðu í námunum þegar starf-
seminni var hætt, og gátu selt þá. Í
nokkurn tíma var allt gott. En svo
kom að því að allt kláraðist og þá
var stutt í að krakkarnir færu í
fíkniefni og dræpu hvert annað
hreinlega úr leiðindum. Kvöl
Sigarevs – og um leið kvöl okkar –
er sú, að ef þú býrð þar sem guð er
ekki til, samkvæmt skilgreiningu
ríkisins, er auðvelt að trúa á mátt
peninga til breytinga. Okkar nán-
asta umhverfi er orðið þannig að
auður og gróðavon réttlæta hvaða
gjörð eða gjörning sem er. Ef ein-
hver vill kaupa þjónustu eða vöru
þá segir lögmál markaðarins að
þeirri þörf skuli mætt. Enginn rök
trúarlegs eða siðferðislegs eðlis
duga gegn því lögmáli. Sama hver
fórnin er. Lögmál markaðarins
segja honum að um leið og hann
geti grætt á einhverju sé það rétt-
lætanlegt. Eina spurningin er hvað
er ég dýr mella. En sem mann-
eskjur höfum við alltaf val. Mark-
aðurinn er búinn til af okkur og við
ráðum því hvort peningar séu
hreyfiafl alls eða ekki. Þetta er
grundvallarsetning verksins.
Krakkarnir í verkinu upplifa mikla
niðurlægingu og örvæntingu, en
mitt í þessum skít og vonleysi, þá
ákveða þau þetta. Þau hafa val um
að vera manneskjur.“
Jón Páll segir að þegar krakk-
arnir hafi verið sviptir öllu – sjálfs-
virðingunni líka, og jafnvel minn-
ingunum, sem Dima selur í
brotajárn; þá geti þau alveg eins
trúað þjóðsögunni um að það að
elta maríubjölluna og fanga hana,
geti fært þeim eitthvað – kannski
gæfu. Sú ákvörðun er þó alla vega
óháð peningum.
Ef við gæfum öllum
rónum þúsund kall …
„Umhverfið skilgreinir samúð og
meðaumkvun sem veikleika. Það
þykir veikleiki í viðskiptum að hafa
samúð með fyrirtækinu sem þú
skiptir við. Útvegsmaður sem
kaupir upp kvóta í litlu plássi má
ekki leyfa sér að hafa samúð með
þeim sem þar með missa vinnuna.
Sum okkar fara í kirkju og hlusta á
sögur af manni sem var hengdur
upp á kross fyrir að segja sannleik-
ann fyrir tvö þúsund árum, en svo
förum við út, og vitum að við get-
um ekki iðkað þennan sannleika og
megum það ekki, því þá erum við
að brjóta markaðsreglurnar. Ef við
gæfum öllum rónum á vegi okkar
þúsund kall yrði það til þess að við
sjálf yrðum blönk.
Það er mikil eskja í verkinu og
það er ekki fyrr en undir lokin að
krakkarnir ná að sýna þann þátt
mannlegs eðlis, sem ég held að
okkur sé jafnt í blóð borinn og
drápseðlið; – að hugsa hvert um
annað. Við erum hópdýr og eigum
að sjá um náungann. Þetta er
svartur og myrkur heimur, en alls
staðar heldur fólk í glóðina; – von-
arglætuna. Vonin getur líka búið í
skítnum.“
Hvað segir plasmasjónvarpið
um mig sem manneskju?
Jón Páll Eyjólfsson kveðst vera
úr Keflavík, en í London lærði
hann til leikara. Hann segist vera
búinn að böðlast út um allt síðan
hann kom heim úr námi; – um tíma
hjá Hafnarfjarðarleikhúsinu, að-
eins í Þjóðleikhúsinu – og víðar.
Þörfina til að leikstýra rekur hann
til þess hve íslenskt samfélag hafi
breyst mikið á fáum árum. „Sem
leikara fannst mér leikhúsið ekki
vera að taka á stóru spurningunum
sem brenna á okkur öllum. Tökum
sem dæmi að margir voru í þeim
sporum fyrir jólin að vera allt í
einu komnir með plasmaskjá inn á
heimili sín. Svo horfir fólk á tækin
og hugsar með sér: „Hvað er ég
eiginlega að gera með 300 þúsund
króna rafmagnstæki á stofugólfinu
hjá mér. Segir þetta plasma-
sjónvarp eitthvað um það fyrir
hvað ég stend sem manneskja?“
Ég stóð frammi fyrir spurningunni
fyrir hvað ég sjálfur stæði sem
leikari. Ég hef nefnilega þá barna-
legu trú á leiklistinni að hún geti
hreyft við fólki og að tilgangur
hennar sé sá að viðhalda manneskj-
unni í okkur. Það hefur aldrei verið
eins áríðandi fyrir okkur að eiga
það tæki sem leiklistin er, því við
verðum að geta sýnt hluttekningu.
Plasmasjónvarpið okkar er tækið
sem græðir á hinu. Þar ganga heilu
þættirnir út á það að niðurlægja
fólk: survivor-alzheimer, whore-
factor, og hvað þetta heitir nú allt.
Og lógíkin er auðvitað sú að þetta
sé eitthvað sem fólk vilji sjá. Mark-
aðurinn krefjist þess.
Ég hafði fengið tækifæri hjá
Stúdentaleikhúsinu að skapa ná-
kvæmlega það leikhús sem mig
langaði til, og í þessum tveimur
uppfærslum mínum; í Þjóðleikhús-
inu og hér núna, hef ég viljað gefa
leikurunum tækifæri til að skapa
góðar og skemmtilegar vinnuað-
stæður. Þetta snýst líka um það að
við verðum eftir sem áður að halda
í þá barnatrú að það sé í lagi að
brenna fyrir það sem manni þykir
vænt um – brenna fyrir málstað-
inn; – annars væri engin ástæða til
að setja upp leikhúsverk.“
Jón Páll kveðst alltaf hafa verið
pólitískur, enda alinn upp við sam-
ræður og skoðanaskipti og kominn
af stjórnmálamönnum. Afi hans var
Eysteinn Jónsson ráðherra. „Sam-
félagsumræðan hefur alltaf verið
rík í mér, en leikhúsið er mín leið
til að ræða málin.“
Leiklist | Leikfélag Akureyrar frumsýnir Maríubjölluna eftir Sigarev í Rýminu í kvöld
Að viðhalda manneskjunni í okkur
Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
Guðjón Þorsteinn Pálmarsson í hlutverki vinarins, Slavik.
Eftir Bergþóru Jónsdóttur
begga@mbl.is
Guðjón Davíð Karlsson fer með aðalhlutverkið, Dima.
eftir Vassily Sigarev
Íslensk þýðing: Árni Berg-
mann
Leikmynd og búningar: Halla
Gunnarsdóttir
Lýsing: Björn Bergsteinn Guð-
mundsson
Tónlist: Hallur Ingólfsson
Leikarar: Álfrún Helga Örn-
ólfsdóttir, Esther Thalía Cas-
ey, Guðjón Davíð Karlsson,
Guðjón Þorsteinn Pálmarsson,
Jóhannes Haukur Jóhannesson
og Þráinn Karlsson
Maríu-
bjallan
TENGLAR
.......................................
Leikhópurinn heldur úti æfinga-
dagbók á netinu. Slóðin er:
www.mariubjallan.blogspot.com
„Í lagi að brenna fyrir það sem manni þykir vænt um …“ Jón Páll Eyjólfsson, leikstjóri Maríubjöllunnar.
FJÖGUR tónverk eftir Lars
Graugaard voru á dagskránni á tón-
leikum í Norræna húsinu á sunnu-
daginn. Þar af var eitt frumflutt og
var það tileinkað Eydísi Franzdótt-
ur óbóleikara, sem lék það. Og hún
lék það í orðsins fyllstu merkingu;
verkið hét Those Gestures You
Made og spilaði gagnvirk tölva
stórt hlutverk. Bæði réðu óbó-
hljóðin ýmsum bakgrunnshljóðum
úr tölvunni, og í síðari hluta nam
hreyfiskynjari allskonar bendingar
og líkamsstellingar Eydísar og
breytti tölvan þeim í hin kynlegustu
hljóð.
En þótt þau væru sérstæð voru
þau ekki sérlega fjölbreytt; í raun-
inni virtust þau aðeins vera fram-
hald hljóðanna sem höfðu skreytt
tónlistina frá byrjun. Og hvað varð-
ar hreyfingar óbóleikarans hefur
maður hefur séð svona kúnstir áð-
ur, svo ekki er hægt að segja að þau
hafi komið á óvart. Það sem eftir
stóð var fremur klaufalegur dans,
það var eins og Eydís væri að reyna
að gera tai chi án þess að kunna
það. Eða leika eitthvað sem ekki
nokkur leið var að skilja hvað átti
að vera. Eða bara hvað sem var.
Og tónlistin í heild var fremur lit-
laus og náði engan veginn þeim
hæðum sem tvær tónsmíðar á und-
an höfðu náð. Því miður.
Öll verkin á tónleikunum voru
fyrir hljóðfæri og gagnvirka tölvu.
En þau voru samt býsna ólík;
bassaklarinettutónsmíðin Conceal-
ed Behaviours var t.d. frábær.
Djúpir tónar Guðna Franzsonar
voru einstaklega seiðandi og hljóðin
sem þeir framkölluðu úr tölvunni
voru gæddir stórfenglegum lit-
brigðum, sem réðust af ólíkum þátt-
um klarinettuleiksins.
Og flautuverkið Speak My Mind í
flutningi Kolbeins Bjarnasonar var
líka fallegt; hrífandi var hve tölvu-
hljóðin smátt og smátt greindu sig
frá flautuleiknum og mynduðu
sterka heild í lokin.
Sísta tónsmíðin á efnisskránni
var að mínu mati sú fyrsta, en einn-
ig hún var fyrir flautu og spiluð af
Kolbeini. Hún hét Doors, Windows:
Handles. Þar náðu tölvuhljóðin
aldrei að verða neitt annað en
gervilegt bergmál flautuleiksins, og
þar eð laglínurnar sem Kolbeinn
lék voru óttalega flatneskjulegar
var tónsmíðin í heild gleymd um
leið og hún var búin.
Samræða manns og tölvuTÓNLISTNorræna húsið
Fjórar tónsmíðar eftir Lars Graugaard í
flutningi Guðna Franzsonar, Kolbeins
Bjarnasonar og Eydísar Franzdóttur.
Sunnudagur 14. febrúar.
Myrkir músíkdagar: Kammertónleikar
Jónas Sen