Morgunblaðið - 23.02.2006, Qupperneq 47
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 23. FEBRÚAR 2006 47
MENNING :
Skóverslun - Kringlunni
Sími 553 2888
www.skor.is
Teg. 23260
Stærð 36-42
Litur Rautt, hvítt og
beige
Verð 12.950,-
Teg. 24210
Stærð 36-42
Litur Hvítt og bleikt
Verð 9.995,-
Teg. 22702
Stærð 36-42
Litur Svart, hvítt og
beige
Verð 11.995,-
Teg. 21741
Stærð 36-41
Litur Camel og hvítt
Verð 13.995,-
Teg. 25886
Stærð 36-41
Litur Grænt og svart
Verð 11950,-
Teg. 21494
Stærð 36-41
Litur Gyllt
Verð 14.995,-
Vorlínan frá
Gabor
er komin
Opið í kvöld til kl. 21
ÞRJÚ ÓLÍK verk voru á dag-
skránni í Kammermúsíkklúbbnum á
sunnudagskvöldið. Fyrst var kvart-
ett fyrir óbó, fiðlu, víólu og selló eftir
afmælisbarnið Mozart. Daði Kol-
beinsson óbóleikari spilaði þar með
þeim Gretu Guðnadóttur fiðluleik-
ara, Þórunni Ósk Marinósdóttur
víóluleikara og Hrafnkatli Orra Eg-
ilssyni sellóleikara og var flutning-
urinn í fremstu röð; tær og yfirveg-
aður, en líka innilegur og líflegur.
Næst á efnisskránni var strengja-
kvartett nr. 1 í e-moll eftir tékk-
neska tónskáldið Smetana og hvarf
Daði þá út í næturhúmið en Una
Sveinbjarnardóttir fiðluleikari kom
inn í staðinn og leiddi hópinn.
Kvartettinn eftir Smetana ber yf-
irskriftina „Úr lífi mínu“ og er eins-
konar tónræn mynd af lífshlaupi
tónskáldsins. Fyrir þá sem ekki vita
var Smetana uppi á nítjándu öldinni
og kvartettinn samdi hann átta ár-
um áður en hann lést. Tónlistin er í
síðrómantískum stíl með sterku
þjóðlegu ívafi og á fyrsti kaflinn að
lýsa „ástardraumum og listrænum
metnaði ungs manns“, svo vitnað sé í
tónleikaskrána. Miðað við það hefðu
fjórmenningarnir sennilega mátt
spila af auknum krafti til að yfir-
vinna nokkuð drungalegt tónmálið,
eins og það var virkaði kaflinn frem-
ur þunglyndislegur.
Hinir þættirnir voru meira sann-
færandi, t.d. var polkinn í öðrum
kaflanum skemmtilega galsa-
kenndur; innhverf og ljóðræn stef
þess þriðja voru sömuleiðis afar fal-
lega útfærð. Vissulega voru einstaka
hnökrar greinanlegir hér og þar, en
þeir gerðu flutninginn og verkið
bara mannlegri fyrir vikið.
Svipaða sögu er að segja um síð-
asta atriði dagskrárinnar; strengja-
kvartett ópus 13 eftir danska tón-
skáldið Carl Nielsen. Nielsen
fæddist um fjörutíu árum eftir
Smetana en ber ekki eins sterk höf-
undareinkenni; tónlist hans rennur
ljúflega áfram og er haganlega gerð
en ristir ekki sérlega djúpt.
Fjórmenningunum tókst þó að
gera viðfangsefni sitt áhugavert;
leikur þeirra var samstæður og í
prýðilegu jafnvægi og einhver ill-
skilgreinanleg heiðríkja var yfir
túlkuninni sem var einkar heillandi.
Tæknileg atriði voru jafnframt flest
á hreinu og þótt eilítið óöryggi væri
heyranlegt í fáeinum hendingum var
það ekki áberandi.
Í það heila voru þetta prýðilegir
tónleikar og vonandi að þessi hópur
hljóðfæraleikara, sem enn ber ekk-
ert nafn, muni halda áfram að spila
opinberlega.
Nafnlausi strengjakvartettinn
TÓNLIST
Bústaðakirkja
Tónsmíðar eftir Mozart, Smetana og
Nielsen í flutningi Daða Kolbeinssonar,
Unu Sveinbjarnardóttur, Gretu Guðna-
dóttur, Þórunnar Óskar Marinósdóttur og
Hrafnkels Orra Egilssonar. Sunnudagur
19. febrúar.
Kammermúsíkklúbburinn
Jónas Sen
LISTVINAFÉLAG Hallgrímskirkju
efndi til kórtónleika án undirleiks á
sunnudag, er voru að vanda vel sótt-
ir. Fór hvort tveggja saman for-
vitnilegt viðfangsefni og vænlegir
flytjendur þar sem einn reyndasti og
einn yngsti kammerkór landsins
komu fram sem einn hópur.
Í ljósi árangurs hins eftirtekt-
arverða akureyrska kammerkórs
Hymnodiu á Myrkum músíkdögum
aðeins rúmri viku áður er von að
maður spyrji hvort íslenzkur kamm-
erkórsöngur, er tók hraustlega við
sér laust fyrir síðustu aldamót, hafi
nú hafið nýja sókn er gæti á end-
anum jafnvel leyst stóru blönduðu
kórana af hólmi. A.m.k. hefur lengi
þrengt illþyrmilega að stærri miðl-
inum miðað við ástand fyrri áratuga,
meðan áhugasöngvarar hafa í vax-
andi mæli flykkzt í karla- og kvenna-
kórana. Eftir ýmsu að dæma lítur því
út fyrir að stórum blönduðum kórum
fari senn fækkandi á móti fjölgun
kammerkóra, er með tilstyrk æ
menntaðri söngvara eiga auðveldara
með að sérhæfa sig í erfiðum verk-
efnum.
Meðal neikvæðari hvata kamm-
erkóra má auðvitað telja króníska
karlaeklu. Enda tókst jafnvel ekki
einu sinni hér að fullskipa í tenór (10-
8-5-8), er háði svolítið fullum heildar-
hljómi. Það var hins vegar nánast
eini dragbíturinn á frammistöðu kór-
anna tveggja, því hljómgæði hverrar
raddar fyrir sig voru óhikað í úrvals-
flokki, og í markvissri og sveigj-
anlegri mótun stjórnandans fékkst
hið bezta úr hverri í undragóðri sam-
blöndun. Gerði það, ásamt ósviknu
gæðamarki viðfangsefna, tónleikana
að einni samfelldri unaðsstund – og
er þá vægt til orða tekið.
Fjórar kórperlur Þorkels Sig-
urbjörnssonar – Til þín, Drottinn,
Legg ég nú bæði líf og önd, Heyr
himna smiður og Englar hæstir – er
jafnvel í miðlungsflutningi hafa yljað
landsmönnum um hjartarætur, náðu
hér virkilega að blómstra. Þ. á m. hin
næstsíðasttalda – þrátt fyrir óvenju-
hratt tempó sem raunar fór henni
betur en fyrst hefði mátt ætla. Túlk-
un hinnar rytmískt líflegu tónsetn-
ingar Hildigunnar Rúnarsdóttur á
Drottinsfagnandi 150. Davíðssálmi
hefði, ásamt kraftmestu stöðunum í
ljóðrænum Trois chansons Debussys
(einkum í Quant j’ai ouy la tambour-
in) að vísu mátt létta ögn af fáguninni
til ágóða fyrir beinskeyttari lífsgleði,
en listileg mótunin lét þó hvergi að
sér hæða. Hér fór seiðandi smíð er
þyldi jafnvel enn meira slagverk en
handsymbala Steefs van Oosterhout.
Vinsæl Guðsmóðurlög Báru Gríms-
dóttur, María Drottins liljan og erki-
smellurinn Ég vil lofa eina þá, stein-
lágu eins og sagt er.
Loks var komið að „munkinum
með götustráksinnrætið“, skv. sjálfs-
lýsingu Francis Poulencs. Einlæg
hómófónísk mótetta hans Salve Reg-
ina (1941) skartaði, líkt og fleira und-
angengið, skemmtilega víðfeðmri
dýnamík og næmari textatúlkun en
gengur og gerist í hérlendum kór-
söng. Lokaverkið, 16 mín. löng
Credo-laus Messa Poulencs í G-dúr
(1935), var kröfuharðasta atriði dags-
ins, m.a. fyrir krómatískt djarfa
hljómabeitingu, auk þess sem mikið
var lagt á einsöngvara og smærri
sönghópa (einkum í háttlægum kven-
röddum), en í óþvingaðri túlkun kór-
anna var samt engu líkara en að flest
væri þeim kálfskinn eitt. Sérstaklega
bar Agnus Dei lokaþátturinn yf-
irbragð innblásins frumleika, enda
nánast eins og mannshugurinn næði
þar þyngdarlausri „satori“ alsælu í
eftirminnilega ómsætri meðferð kór-
anna. Þar sem fyrr mátti og heyra
bráðfallegan smáhóp- og einsöng. Er
vonandi á engan hallað þó sér-
staklega sé tilgreint íðiltært sóló-
framlag Hallveigar Rúnarsdóttur, er
í Kyrie og Agnus Dei jafnaðist á við
það fegursta sem maður hafði
nokkru sinni heyrt frá þeirri frábæru
seiðkonu efstu upphæða.
Samfelld unaðsstund
TÓNLIST
Hallgrímskirkja
Frönsk og íslenzk verk fyrir kór a capp-
ella eftir Þorkel Sigurbjörnsson, Hildi-
gunni Rúnarsdóttur, Debussy, Báru
Grímsdóttur og Poulenc. Kór Áskirkju og
Hljómeyki.
Stjórnandi: Kári Þormar. Sunnudaginn
19. febrúar.
Kórtónleikar
Ríkarður Ö. Pálsson
Það var alveg sérstök tilfinningsem fylgdi því í gamla dagaað fara á bókamarkað Félags
íslenskra bókaútgefenda í Lista-
mannaskálanum. Þar mátti finna
gömul númer í strákabókaseríur
sem maður var að safna og lá svo á
eins og ormur á gulli og lánaði helst
ekki nema gegn afarkostum.
Á fullorðinsárum hafa ferðir á
bókamarkaðinn ekki verið jafn ár-
vissar og stundum hef ég markvisst
haldið mig fjarri af einskærri nísku;
veit sem er að ef ég fer á bókamark-
aðinn þá kaupi ég alltof margar
bækur, á mig rennur útsöluæði sem
ég er annars blessunarlega laus við.
Þetta fór í gegnum hugann þegar
ég hitti þá Benedikt Sigurðsson,
framkvæmdastjóra Félags íslenskra
bókaútgefenda, og Snæbjörn Arn-
grímsson, formann hins sama félags,
þar sem þeir voru í óða önn að setja
upp markaðinn (ásamt fjölda ann-
arra) í Perlunni í gær, fyrir opn-
unina í dag klukkan 10 fyrir hádegi.
Og hvílíkt úrval af bókum sem nú er
í boði.
„Í ár eru útgefendur sem eiga
bækur á bókamarkaðnum nærri 100
talsins og fjöldi titla er um tíu þús-
und,“ segir Benedikt.
Hann bætir því við að þar sem
fornbóksalinn Bragi Kristjónsson sé
með sérstakan bás á Bókamark-
aðnum og keyri inn heilu bílfarmana
af bókum og aðeins eitt eintak af
hverri þá mætti segja að titlafjöldinn
færi vel yfir tuttugu þúsund!
Snæbjörn stingur því að mér aðnýjung á Bókamarkaðnum í ár
sé að nú verði bækur síðasta árs – já
þessarar nýliðnu jólavertíðar – einn-
ig á boðstólum. „Við ákváðum að
heimila hverjum útgefanda að setja
nokkra titla af nýjum bókum á
markaðinn svo hér gefst kjörið tæki-
færi til að kaupa bækurnar sem þig
langaði í en fékkst ekki í jólagjöf.“
Það er engin ástæða til að hugsa
sig lengi um því nýjustu bækurnar
verða ekki í ótakmörkuðu upplagi
að sögn Benedikts. „Útgefendur
setja kannski 50 eintök af völdum
bókum í sölu og þegar þau eru upp-
seld verða ekki fleiri í boði.“
Ef haft er í huga að undanfarin ár
hafa allt að 80 þúsund manns komið
á bókamarkaðinn þá eru 50 eintök
býsna fljót að seljast upp. Hvenær er
annars opið?
„Það verður opið alla daga til 7.
mars frá kl. 10 á morgnana til 18 hér
í Perlunni en á Akureyri til kl. 19.“
Og verðið sem verið var að skella
á bækurnar er allt að því hlægilegt –
eða hættulegt eftir því hvernig á það
er litið – því afslátturinn er í sumum
tilfellum nærri 90% og Benedikt
bendir til dæmis á eina veglega bók
sem kostaði út úr búð 24.700 en kost-
ar hér 7.900. Það er góður afsláttur.
Barnabækur eru í hundraðatali og
algengt verð á þeim virðist vera frá
99 krónum og upp í 499 og dettur
sjálfsagt fleirum en mér í hug að hér
sé gott tækifæri til að kaupa árs-
birgðir af barnaafmælisgjöfum. Svo
hafa allir svo gott af því að lesa og
þarf þá eitthvað að réttlæta bóka-
kaup frekar. Jú, það er hægt að
kaupa ævisögur, skáldsögur og
fræðirit fyrir spottprís og setja sér
það markmið að lesa þær allar fyrir
næsta haust og vera þar með búinn
að vinna upp áralangan hala af
ólesnum jólabókum fyrri jóla sem
samviskan hefur sífellt nagað mann
yfir. Og handbækur um hreyfingu,
útivist, megrun, fluguhnýtingar,
innri ró og ytri frið, og hvaðeina
annað sem hugurinn stendur til, eru
hér í stórum stöflum. Að ógleymdum
reyfurum og ástarsögum.
Benedikt segir að veltan á bóka-markaðnum hafi undanfarin ár
verið á milli 40 og 50 milljónir króna
og Félag íslenskra bókaútgefenda
njóti góðs af. „Við fáum í okkar hlut
það sem gengur af þegar búið er
gera upp við útgefendur og greiða
allan kostnað af rekstri Bókamark-
aðarins. Við nýtum síðan hagnaðinn
til að greiða niður kostnað við Ís-
lensku bókmenntaverðlaunin og
Viku bókarinnar sem haldin er í lok
apríl.“
Bókaunnendur geta því glaðst yf-
ir því að aurarnir fara í að styrkja ís-
lenska bókaútgáfu á ýmsa vegu sam-
tímis því að þeir styrkja eigin
bóklestur og annarra með því að
hamstra bækur þessa 11 daga sem
Bókamarkaðurinn í Perlunni og á
Akureyri er opin.
Þúsundir bóka á spottprís
’Í ár eru útgefendur sem eiga bækur á
bókamarkaðnum nærri
100 talsins og fjöldi titla
er um tíu þúsund.‘
Morgunblaðið/Ásdís
Snæbjörn Arngrímsson og Benedikt Sigurðsson í bókaparadísinni í Perlunni.
havar@mbl.is
AF LISTUM
Hávar Sigurjónsson