Morgunblaðið - 27.02.2006, Page 6
6 MÁNUDAGUR 27. FEBRÚAR 2006 MORGUNBLAÐIÐ
FRÉTTIR
FJÖLDI erlendra gesta hefur nú
um helgina heimsótt landið í
tengslum við alþjóðlegu matarhá-
tíðina Food & Fun og á meðal
þeirra er borgarstjóri höfuðborgar
Bandaríkjanna, Washington D.C.,
Anthony A. Williams. Williams
kom hingað til lands fimmtudaginn
síðastliðinn og sagði í samtali við
Morgunblaðið að dagskrá hans
hefði verið þéttriðin og hefði hann
meðal annars hitt fjármála- og ut-
anríkisráðherra, borgarstjóra
Reykjavíkur ásamt öðrum opin-
berum embættismönnum auk þess
sem hann heimsótti matvæladeild
Menntaskólans í Kópavogi. Hann
sagði að þetta væri fyrsta ferð sín
til Íslands þó svo að hann hefði
ætlað sér að koma áður til að veiða
en sú ferð hefði því miður verið
slegin af. Því hefði boð á hátíðina
verið upplagt tækifæri til að heim-
sækja landið.
Auk þess að heimsækja opin-
bera embættismenn heimsótti
Williams höfuðstöðvar Latabæjar
hér á landi og sagði hann að sér
hefði þótt það einkar ánægjulegt
að sjá að ein af aðalpersónum
Latabæjar væri borgarstjórinn.
Hann sagði að Magnús Scheving
væri ótrúlegur athafnamaður og
frumkvöðull og auðséð væri að
honum væri velferð barna ofarlega
í huga. Hann hefði haft mikil áhrif
á börn og framtak hans væri ótrú-
legt afrek í útflutningi Íslendinga.
Áhugaverð orkuframleiðsla
Williams sagðist hafa rætt mikið
um einkavæðingu opinberra stofn-
ana og fyrirtækja við hérlenda
embættismenn og benti á að
einkavæðing hefði verið mikilvægt
skref í stjórnartíð hans. Eignar-
hald á Orkuveitu Reykjavíkur
vakti áhuga Williams og sagði
hann að einkafyrirtæki í eigu op-
inberra aðila væri mjög áhugavert
rekstrarform á orkufyrirtækjum
en þau orkufyrirtæki sem starfa í
Washington eru í einkaeigu. Hann
sagði einnig að aðferðir Íslendinga
við orkuframleiðslu væru áhuga-
verðar og ættu orkufyrirtæki
vestra að kynna sér þessa tækni
en hann taldi að með góðri stjórn-
un væri mögulegt að innleiða
tækni sem myndi leiða til lægra
orkuverðs.
Íslenska lambið einstakt
Williams sagði að í kvöldverði
hjá utanríkisráðherra, Geir H.
Haarde, hefði aðalrétturinn verið
íslenska lambið. Hann sagði að
bragðið af lambinu væri einstakt
og bætti við að oft væri ekki hægt
að finna bragðmun á mismunandi
kjöt- og fisktegundum en svo væri
ekki með íslenska lambakjötið.
Greinilegt væri að lömb hér á
landi fengju gott og ferskt fæði
sem skilaði sér í bragði kjötsins.
Einnig minntist hann á annað hrá-
efni sem hér væri framleitt og þar
á meðal íslenska grænmetið sem
væri einstaklega gott.
Aðspurður hvort hann sjálfur
væri mikill kokkur sagðist hann
hafa gaman af því að elda og hann
eldaði talsvert heima hjá sér, þó
svo að það væri ekkert í líkingu
við það sem meistarakokkarnir á
Food & Fun væru að matreiða en
hann hefur farið víða um borgina
til að bragða á réttum matreiðslu-
mannanna sem nú eru hér á landi
vegna hátíðarinnar. Honum þótti
ánægjulegt að sjá matreiðslumenn
frá Washington á hátíðinni og
hafði hann meðal annars farið á
milli veitingastaða eitt kvöldið og
snætt forrétt á einum stað, aðal-
rétt á öðrum og eftirrétt á þeim
þriðja til að upplifa hæfileika sem
flestra matreiðslumannanna sem
væru hér.
Fuglaáhugamaður
Á laugardeginum heimsótti
Williams Bessastaði. Auk þess að
hitta fyrir forseta Íslands hafði
hann vonast til að fá að skoða
fugla en aðspurður sagðist hann
vera fuglaáhugamaður. Þó hefði
ekki verið mikið að sjá þegar hann
kom á Bessastaði enda hafði Ólaf-
ur Ragnar tjáð honum að flestir
farfuglarnir væru á suðlægari
slóðum og kæmu ekki fyrr en sum-
arið nálgaðist. Þó sá hann nokkr-
um fuglum bregða fyrir og minnt-
ist á það að hann sæi ekki betur en
að íslenskar aðstæður væru kjörn-
ar fyrir fugla.
Vinsæll borgarstjóri
Frá því að Williams var kjörinn
borgarstjóri Washington D.C. árið
1999 hefur hann unnið að því að
bæta fjárhag borgarinnar en áður
var hann skipaður fjármálastjóri
borgarinnar og leiddi einnig þing-
skipaða nefnd sem hafði það að
markmiði að eyða fjárhagsörðug-
leikum borgarinnar og auka stöð-
ugleika. Árangurinn lét ekki á sér
standa og skilaði borgin 185 millj-
ón dala afgangi, tveimur árum fyrr
en áætlað var. Í kjölfar þess varð
Williams mjög vinsæll í borginni
og var kjörinn í embætti borg-
arstjóra ári síðar. Hann sagði að í
þessari baráttu hefði hann lagt
mikla áherslu á ferðamannaþjón-
ustu og væri það vaxandi atvinnu-
grein í Washington, líkt og hér á
landi og því væri kjörið að kynna
sér aðstæður í Reykjavík, sem
reyndar væri um margt lík banda-
rískum borgum.
Er hann var spurður hvaða lík-
indi mætti sjá benti hann á að
borgin væri mjög bílvædd og þró-
un hennar væri einnig mjög svipuð
og í bandarískum borgum, út-
hverfavæðingin ríkjandi á svipuð-
um tímabilum og í kjölfarið kæmi
bílavæðingin. Hann bætti við að í
seinni tíð væru borgir vestra að
þéttast í elstu hverfunum líkt og
sjá mætti hér á landi. Hann sæi
einnig svipaða uppbyggingu við
strendur landsins, áherslan á að
byggja upp iðnað og athafnasvæði
væri að minnka og íbúðar- og
ferðamannasvæði væru að aukast
við strandlengjuna.
Williams tók sem dæmi um frá-
bæra uppbyggingu, við strand-
lengju eða vatnasvæði, Ráðhús
Reykjavíkur, sem hann taldi vera
stórglæsilega byggingu.
Anthony A. Williams, borgarstjóri í Washington D.C., heimsótti Food & Fun-hátíðina í Reykjavík
Morgunblaið /RAX
Anthony Williams, borgarstjóri Washington D.C., heimsótti forsetahjónin á Bessastöðum í ferð sinni til Íslands.
Við hlið Williams er Dorrit Moussaieff forsetafrú, Diane Williams og Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands.
Reykjavík lík
bandarískum
borgum
Eftir Sigurð Pálma Sigurbjörnsson
siggip@mbl.is
UM HELGINA bauðst háskólanem-
um framtíðarinnar að kynna sér það
mikla úrval námsleiða sem í boði er
við íslenska háskóla, en alls voru
kynntar um 400 námsleiðir á grunn-
og framhaldsstigi.
Á námskynningu Háskóla Íslands
í gær voru tæplega þrjú þúsund
manns saman komin en í fimm bygg-
ingum skólans voru kynntar um 300
námsleiðir auk stoðþjónustu skól-
ans. „Þetta gekk ofsalega vel, stöð-
ugur straumur af fólki og mikil
stemmning,“ segir Guðrún Bach-
mann, kynningarstjóri Háskóla Ís-
lands. Í fyrra var tekin upp sú ný-
breytni að kynna grunn- og fram-
haldsnám við HÍ samhliða sem hún
segir hafa gefist vel. Í ár var fjöldi
nýrra námsleiða kynntur en flestar
eru þær á framhaldsstigi. „Vítt
fræðasvið er styrkur Háskóla Ís-
lands og þessi mikla fjölbreytni þýð-
ir meðal annars að mikill sveigj-
anleiki er í samsetningu námsins.“
Meðal nýrra námsleiða sem kynntar
voru í ár, má nefna skurðhjúkrun,
umhverfis- og náttúrusiðfræði, heil-
brigðis- og lífsiðfræði, hagnýta
menningarmiðlun, hagnýta ritstjórn
og útgáfufræði, fjármál fyrirtækja,
vísindasiðfræði, hagnýtt nám í sam-
félagstúlkun og fjármálahagfræði.
Mjög góð þátttaka
Á laugardag var haldinn Stóri há-
skóladagurinn í Borgarleikhúsinu en
þar stóðu sjö háskólar saman að
kynningu; Háskólinn á Akureyri,
Háskólinn í Reykjavík, Hólaskóli,
Kennaraháskólinn, Landbúnaðar-
háskólinn, Listaháskólinn og Við-
skiptaháskólinn á Bifröst.
Jóhann Hlíðar Harðarson, mark-
aðsstjóri HR, segir daginn hafa
gengið vel fyrir sig og talið sé að um
2-3000 manns hafi mætt sem sé svip-
að og í fyrra.
Aðspurður segir Jóhann að mjög
vel gangi að blanda saman kynningu
á skólunum sjö sem eru jafn ólíkir og
raun ber vitni. „Það gerir daginn
skemmtilegri og líflegri. Þarna kem-
ur saman ólíkur hópur fólks sem er
ekki endilega visst um hvað það vill
lesa. Því er gott að geta kynnt sér
um hundrað mismunandi námsleiðir
á einum stað, rætt við fólk frá skól-
unum og sest svo yfir lesefni heima
hjá sér. “
Morgunblaðið/Árni Sæberg
Fjöldi áhugasamra gesta kynnti sér starfsemi Listaháskóla Íslands við kynninguna í Borgarleikhúsinu.
400 námsleiðir kynntar
Eftir Önnu Pálu Sverrisdóttur
aps@hi.is
„Í ÞESSU er fólgin afar mikil við-
urkenning á því starfi sem hefur
verið unnið hér á landi. Það er afar
dýrmæt hvatning til okkar sem
störfum að þessum málaflokki að
fá svona sterka viðurkenningu á
því að við séum á réttri leið og að
starfsaðferðir okkar séu til fyrir-
myndar þegar litið er til heimsins,
því að þessi verðlaun eru klárlega
ekki veitt nema um framúrskar-
andi úrræði sé að ræða,“ segir
Bragi Guðbrandsson, forstjóri
Barnaverndarstofu, en honum var
nýverið tilkynnt að Alþjóðlegu
barnaverndarsamtökin ISPCAN
(International Society for the Pre-
vention of Child Abuse and Neg-
lect), hefðu ákveðið að Barnahúsið
hlyti svonefnd Multidisciplinary
Team Award fyrir árið 2006. Verð-
launin verða afhent á heimsráð-
stefnu samtakanna í York á Eng-
landi í byrjun september nk.
Aðspurður segir Bragi verðlaun-
in nú vera veitt í annað sinn. Það
var dr. Patty Toth, lögfræðingur
hjá Washington State Criminal
Justice Commission, og fyrrum
samstarfsmenn hennar hjá
Harbourview Medical Center í
Seattle, sem tilnefndu Barnahús en
þau hafa, að sögn Braga, fylgst
með stofnun og starfsemi Barna-
húss frá upphafi. Í tilnefningunni
kom fram það álit að Barnahúsið
hefði valdið þáttaskilum á meðferð
kynferðisbrotamála á Íslandi, eink-
um með tilliti til þarfa og réttinda
barna.
Að sögn Braga hefur Barnahús-
ið nú þegar vakið mikla athygli á
alþjóðavettvangi og eru hinar
Norðurlandaþjóðirnar sem og
Eystrasaltslöndin flest að skoða
hvort unnt sé að opna þar barna-
hús að íslenskri fyrirmynd, en Sví-
ar opnuðu sem kunnugt er barna-
hús fyrir skemmstu. Segist Bragi
sannfærður um að viðurkenning
ISPCAN muni vekja enn meiri al-
þjóðlega athygli á starfinu hér-
lendis. Bendir Bragi á að ISPCAN
séu einu þverfaglegu heimssam-
tökin á sviði barnaverndar og hafa
þau það að markmiði að vinna gegn
hvers konar ofbeldi og vanrækslu
barna alls staðar í veröldinni. Sam-
tökin voru stofnuð 1977 og annast
m.a. margháttaða þjálfun og
fræðslu, t.d. með útgáfu ritsins
Child Abuse and Neglect, sem er,
að sögn Braga, helsta fræðitímarit
um barnavernd sem þekkist. Frek-
ari upplýsingar um ISPCAN má
finna á heimasíðu samtakanna
www.ispcan.org.
Alþjóðabarnaverndarsamtökin
ISPCAN verðlauna Barnahús
„Til marks um að við
séum á réttri leið“
Eftir Silju Björk Huldudóttur
silja@mbl.is