Morgunblaðið - 27.02.2006, Blaðsíða 23

Morgunblaðið - 27.02.2006, Blaðsíða 23
MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 27. FEBRÚAR 2006 23 MINNINGAR eina sem fannst af dósinni var lokið af henni sem þeir fundu uppi á fjár- húskofa í nágrenninu. Slíkar sögur voru á hraðbergi í samkvæmum þar sem Árni var jafn- an hrókur alls fagnaðar. Þeim hjón- um var það sameiginlegt að njóta návista vina og ættingja og voru þau samhent um að gleðja gesti sína. Átti það jafnt við um heimili þeirra sem sumarbústaði. Sóttu þangað margir því að þar var fyrir rausn og glaðlyndi. Vinahópurinn var enda fjölmennur því að Árni hafði komið víða við um dagana og Sólveig er listmálari og löðuðust ýmsir úr þeirra hópi að þeim hjónum. Þótt liðagigtin léki Árna grátt síð- ustu tvo áratugina og hann yrði að lúta í lægra haldi fyrir Alzheimer- sjúkdómnum brást aldrei kímnigáfa hans og glettni. Sólveig sagði stund- um að það þýddi ekkert að senda hann einan til læknis því að hann neitaði yfirleitt að nokkuð væri að sér. Þótt hann yrði fyrir alls kyns hremmingum léku honum gam- anyrði á vör og æðruleysi hans var einstakt. Eitt sinn var Árni í ein- hverjum erindum ásamt móður Hrings Árnasonar, dóttursonarson- ar síns, Sigrúnu Nikulásdóttur. Gekk hann með hendur í vösum og þurfti að stíga yfir keðju. Skipti þá engum togum að hann féll fram yfir sig og stórslasaðist. Hlaut hann nef- brot, viðbeinsbrot og skaddaðist jafnframt á handleggjum. Hann var fluttur á slysavarðstofuna þar sem gert var að sárum hans. Læknar töldu ekki óhætt að hleypa Sigrúnu inn til hans en hún lét sig ekki og spurði Árna hvernig hann hefði það. „Aldrei haft það betra,“ svaraði hann. Hið sama var uppi á teningnum laugardaginn 18. febrúar síðastlið- inn. Hann hafði verið þungt haldinn daginn áður og voru ættingjar boð- aðir að beði hans. Þar á meðal kom Elfa Hrönn Friðriksdóttir, tengda- dóttir okkar hjóna, með lítinn son sinn, Birgi Þór, og sagði við langafa hans að fólk væri sammála um að þegar litli snáðinn setti upp glettn- issvip, líktist hann langafa sínum. „Aumingja barnið,“ sagði Árni og brosti við. Árni Jónson hafði unun af konum og lét ekkert tækifæri ónotað til þess að víkja einhverjum hrósyrðum að þeim. Kunni hann þá list betur en flestir aðrir allt fram á síðustu stund að gleðja þær með glettni sinni og jákvæðum athugasemdum. Fimmtudaginn 16. febrúar síðast- liðinn heimsóttum við hjónin hann eftir að við höfðum verið við útför yngsta bróður hans, Guðmundar. Þá var augljóst að honum var tekin að elna heldur sóttin. Þyngdi honum heldur daginn eftir, en laugardaginn 18. var hann heldur hressari. Heim- sóttu hann þá ýmsir og glöddu hann. Sunnudaginn 19. febrúar var ljóst að hverju dró og söfnuðust nánustu ættingjar saman við beð hans og biðu úrslitanna. Börn hans og barnabörn hlúðu að honum ásamt starfsfólki Hrafnistu. Sólveig hvísl- aði ástarorðum í eyra hans og um- vafði hann þeim kærleik sem kona getur eingöngu sýnt þeim manni sem hún ann hugástum. Árni lést skömmu fyrir miðnætti þessa dags, umvafinn ást nánustu ættingja sinna. Góður drengur hafði kvatt og lokið lífsstríði sínu. Guð styrki Sólveigu og ættingja Árna Jónssonar. Arnþór Helgason. Nú er fallinn frá maður sem hafði að geyma stóra persónu. Maður sem áorkaði miklu og skildi eftir sig ár- angur öðrum til heilla. Maður sem ávann sér virðingu og vináttu þeirra sem hann umgekkst. Maður sem var fullur af glettni og hafði gott skop- skyn. Þetta var hann Árni afi minn. Frá fyrsta degi og vel fram á ung- lingsárin átti ég ýmist fast heimili hjá afa og ömmu eða dvaldi þar í skemmri tíma sem aufúsugestur. Það var alltaf gott að vera hjá afa og ömmu. Sem lítill strákur leit ég á miðjuna í hjónarúmi þeirra sem óskoraða eign mína. Ég lagðist sam- viskusamlega í mitt rúmið, tók helminginn af sæng afa og annan helming af sæng ömmu. Svo passaði ég rúmið þar til þau gömlu skriðu uppí sitt með hvora kiljuna, annað með ástarsögu en hitt reyfara. Þá var allt eins og það átti að vera og ég gat sofnað. Afi var alltaf með skrifstofu heima, enda virkur í viðskiptum og félagsstarfi utan síns hefðbundna vinnutíma. Skrifstofan hans afa var merkilegur staður. Skrifborð þar sem allt var í röð og reglu. Lax- amyndin uppi á vegg að ógleymdum skjalaskápnum. Mér fannst skjala- skápar bara vera í stórum fyrirtækj- um og svo heima hjá afa. Mér var það mikil upphefð þegar afi leyfði mér að hafa hólf í skjalaskápnum sem var merkt Árna Birgissyni. Mér hefur alltaf þótt einkar vænt um að heita í höfuðið á honum afa mínum og sem ungur drengur sagði ég hverjum sem heyra vildi að ég ætti besta afa í heimi og ekki nóg með það heldur héti ég sama nafni og hann. En samt var þetta ekki al- veg nógu gott, þar sem ég var Birg- isson en afi Jónsson. Með þá vissu að afi gerði næstum hvað sem væri fyrir mig sagði ég einhverju sinni við ömmu: „Amma. Ég er viss um að hann afi leyfir mér að heita líka Jónsson.“ Skömmu síðar var heitinu á skúff- unni minni í skjalaskápnum hans afa breytt í „Árni Birgisson Jónsson“. Í bernskuminningum mínum um jólin skipar afi stóran sess, en langt fram á fullorðinsár héldum við mamma jafnan jólin með afa og ömmu. Af einhverjum undarlegum ástæðum lenti mandlan yfirleitt á diskinum hjá afa. Lúmskur laumaði hann henni síðan til mín og þegar kom að því að upplýsa hver hefði fengið möndluna spratt ég sigri hrósandi á fætur. Þegar þetta hafði gengið svona nokkur jól spurði ég afa hvort þetta væri ekki svindl; að hann fengi möndluna en laumaði henni til mín. „Nei, alls ekki,“ sagði afi. „Sjáðu til. Við heitum báðir Árni og þess vegna er þetta ekki svindl.“ Ég samsinnti þessu og hélt áfram að taka við henni í hvert sinn sem hún rataði á diskinn hans afa. Afi hafði alltaf gaman af skoplegum frásögn- um. Þegar ég rifjaði upp söguna um möndluna, við sjúkrabeð hans, kvöldið áður en hann kvaddi var augljóst á viðbrögðum hans að hann mundi eftir þessu og hafði gaman af. Afi og amma áttu jafnan sumar- hús. Eitt þeirra voru Kleifar norður í Steingrímsfirði. Þangað fórum við oft. Kleifar voru í huga sjö ára drengs lengst norður á hjara ver- aldar og ferðalagið langt eftir því. Þar man ég eftir mér tínandi ull- arlagða af girðingunum í kringum Kleifa. Lögðunum safnaði ég í strigapoka og þegar pokinn var full- ur fórum við afi yfir á Hólmavík þar sem ég lagði stoltur inn ullina í kaupfélagið. Afi hafði gott viðskipta- vit og þarna sá hann sér leik á borði að kenna mér hvernig peningar yrðu til. Allt frá ullarviðskiptum mínum norður í Steingrímsfirði bar ég öll stærri útgjöld og fjárfestingar undir afa og fékk jafnan góð ráð. Afi var líka góður langafi og því fleiri sem langafabörnin urðu, þeim mun meyrari varð hann gagnvart þeim. Synir mínir fóru ekki varhluta af því. Í Koti kom afi upp heilum ævintýraheimi handa litlu börnun- um og það voru ófáar stundirnar sem Hringur sonur minn varði úti í Litla Koti við bústang. Það var gam- an að sjá hvað barnabarnabörnin glöddu afa. Þegar við Birgir Þór vorum í feðraorlofi í lok síðasta árs, fórum við stundum í heimsókn til afa. Það var skemmtilegt að sjá hvað þeir Birgir Þór áttu auðvelt með að laða fram bros hvor hjá öðr- um. Ég geymi fallegar minningar um góðan afa í hjarta mínu. Árni Birgisson Jónsson.  Fleiri minningargreinar um Jón Jónsson bíða birtingar og munu birtast í blaðinu næstu daga.Árna Jónsson bíða birtingar og munu birtast í blaðinu næstu daga. Höf- undar þeirra eru: Þrúður, Elín Eg- gerz-Stefánsson, Hrafnhildur og Ingólfur Eyfells og Þorsteinn. REYNSLA • UMHYGGJA • TRAUST Þegar andlát ber að höndum Önnumst alla þætti útfararinnar ÚTFARARSTOFA KIRKJUGARÐANNA Vesturhlíð 2 • Fossvogi • Sími 551 1266 • www.utfor.is ✝ Sigurliði Jónas-son fæddist á Akureyri 22. júní 1911. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Seli á Akureyri 16. febrúar síðastliðinn. Foreldrar hans voru hjónin Margrét Valdemarsdóttir, f. 12. apríl 1877, d. 8. maí 1973, og Jónas Tómasson, f. 30. jan- úar 1878, d. 3. maí 1964. Þau bjuggu lengi í Syðri Vill- ingadal í Eyjafirði. Systkini Sig- urliða voru Árni (1903-1989), Valdemar (1905- 1972), Fanney (1907-1984), Þórhallur (1909- 1985), Jónína (1913-1988), Her- mann (1914-1994), Lilja (1917- 1993) og Hörður (1921-2005). Hálfsystur samfeðra voru Ólöf (1895- 1949) og Jenný (1904-1991). Hinn 20. nóvember 1943 kvænt- ist Sigurliði Jónu Gróu Aðal- björnsdóttur, f. 5. október 1923 að Unaósi í Hjaltastaðarþinghá. For- eldrar hennar voru hjónin Una Þóra Jónasdóttir, f. 7. júní 1898, d. 21. september 1949, og Aðalbjörn Magnússon, f. 7. febrúar 1887, d. 19. júlí 1933. Sigurliði og Jóna eignuðust þrjú börn. Þau eru: 1) Dagbjört Eygló, f. 1944, hennar maður er Birgir Pálsson, f. 1939, þeirra synir eru: a) Birgir Arnar, kvæntur Sesselju Jóhannesdóttur, þeirra börn eru Arnar Páll, Jóhanna Karen og Eygló Björk. b) Sigurpáll Örn, kvæntur Jónu Björt Magnúsdótt- ur, þeirra synir eru Egill Örn, Ívar Már og Máni Hrafn. c) Ómar Már, hans dóttir er Írena Björk. 2) Una Aðal- björg, f. 1950, hennar maður er Þórir Haraldsson, f. 1947, þeirra dætur eru: a) Rósa Rut, hennar sambýlismaður er Marwan Solim- an, b) Inga Jóna, hennar sambýlis- maður er Sigurður Úlfarsson, hans sonur er Kristófer. c) Ása Vala, hennar sambýlismaður er Rúnar Sigþórsson. 3) Björn Hilm- ar, f. 1956. Sigurliði og Jóna byggðu sér hús að Engimýri 11 á Akureyri og bjuggu þar til ársins 2000 er Sig- urliði fór á hjúkrunarheimilið Sel og Jóna flutti á Mýrarveg 111. Sigurliði starfaði sem atvinnu- bílstjóri, lengst af á vörubifreið á vörubifreiðastöðinni Stefni. Sigurliði verður jarðsunginn frá Akureyrarkirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.30. Hvað eruð þið með af skepnum? Þannig spurði hann oft síðari árin þegar við Una dóttir hans komum í heimsókn til hans á Sel. Við svöruð- um að það væri lítið og þegar hann komst að því að við værum hvorki með sauðfé, kýr né hesta varð hann steinhissa og spurði á hverju við lifð- um þá eiginlega. Sigurliði tengdafaðir minn hafði alla sína ævi hugann við búskapinn, þó að bílstjórastarfið yrði hans lifi- brauð. Hann átti þó lengi nokkrar kindur og stundum hænur en lengst hesta, Skjónurnar sínar, sem hann naut að snúast í kringum. Sigurliði fæddist á Akureyri en ólst upp í Eyjafirði við kröpp kjör eins og þá voru algeng. Kornungur varð hann að fara úr foreldrahúsum og var á ýmsum bæjum í framfirðinum, þang- að til hann var uppkominn og dreif sig suður í meirapróf bifreiðastjóra. Síðan ók hann ýmsum gerðum bíla en lengst vörubílum, síðast á vöru- bifreiðastöðinni Stefni. Eftir það vann hann í nokkur ár í Sam- bandsverksmiðjunum. Sigurliði var alla tíð tengdur Eyja- firðinum sterkum böndum. Sunnu- dagsbíltúrar á árum áður sem áætl- aðir voru út í bláinn voru allir í Eyjafjörðinn, því að aðra staði í ná- grenninu sagðist hann vera búinn að fara margoft um og þar væri ekkert merkilegt að sjá. Fyrir nokkrum ár- um fór Sigurliði að missa minnið. Þá hvarf eitt af öðru og undir lokin fjöl- skylduminningarnar en lengst mundi hann bæjaröðina í Eyjafirðinum að vestan og að austurkjálkinn var ekki eins merkilegur og vesturkjálkinn. Ég kynntist Sigurliða á sjöunda áratug síðustu aldar þegar ég fór að venja komur mínar í Engimýrina til dóttur hans. Frá hinu fyrsta voru þau Sigurliði og Jóna mér einkar góð og hjálpsöm og þegar við Una flutt- um aftur til Akureyrar eftir fimm ára Reykjavíkurdvöl bjuggum við fyrsta árið inni á heimili þeirra Sigurliða og Jónu. Tengdapabbi var myndarlegur maður og bar sig vel langt fram á efri ár. Hann talaði ekki af sér við ókunnuga, sem ég held að sé eyfirsk heimanfylgja, en þegar hann hafði áttað sig á fólki gat hann verið allra manna skemmtilegastur enda fullur af húmor. Eftir að hann hætti akstri tók hann þátt í uppeldi dætra okkar Unu og kom henni oft á óvart með uppátækjum sem hún minntist ekki úr sinni æsku. Síðustu árin hefur Sig- urliði dvalist á hjúkrunarheimilinu Seli og notið þar einkar góðrar um- hyggju. Fjölskyldan þakkar starfs- fólkinu á Seli öll notalegheit liðinna ára. Sigurliði var trúaður maður þó ekki væri hann sérlega kirkjurækinn og ef hans trú er rétt mun hann lesa þessar línur og þá verð ég að þakka honum samfylgdina sem hefur auðg- að mig á margvíslegan hátt auk þess sem fjölskylda mín byggir á henni. Þórir Haraldsson. Barn og unglingur dvaldi ég flest öll sumur hjá afa og ömmu í Engi- mýri og á margar og góðar minning- ar frá þeim tíma. Ég þótti talsvert fyrirferðarmikill sem krakki en afi var alltaf ótrúlega rólegur og góður við mig. Afi var bílstjóri, keyrði vöru- bíl og ég man að ég leit mikið upp til hans. Aðaláhugamál afa voru hest- arnir hans, sem hann var stoltur af og hugsaði mjög vel um. Ein af fyrstu minningum mínum var þegar afi kom með hestana heim í garð og lét þá bíta grasið. Mér þótti það merkilegt og kallaði hestana klippurnar hans afa. Afi var reglufastur og vildi alltaf hafa vaðið fyrir neðan sig. Hann passaði vel upp á mig og til þess að ég færi mér ekki að voða setti hann mér alltaf ákveðnar reglur til að fara eft- ir. Ég man eftir okkur afa við ýmsa skemmtilega iðju, t.d. að taka upp kartöflur eða rabarbara úti í garði eða við fórum á vörubílnum upp í hesthús eða út í haga að sinna hest- unum. Afi hafði líka mjög gaman af sígildri tónlist, keypti mikið af plöt- um og sat löngum stundum inni í stofu og hlustaði. Ég á því ekki langt að sækja tónlistaráhuga minn. Þegar ég var 13 ára fór ég að hlusta á Stranglers og fleiri rokkhljómsveitir foreldrum mínum til mikils ama. Í einni heimsókn afa og ömmu til okk- ar kom afi til mín og sat og hlustaði með mér. Það þótti okkur vinunum mjög svalt. Ég man eftir afa í eldhús- inu í Engimýri; hann átti sitt fasta sæti vinstra megin við gluggann og hlustaði á hádegisfréttirnar á Guf- unni og þeirri athöfn fékk ekkert breytt. Afi var frekar alvörugefinn að eðl- isfari en átti samt oft skemmtileg til- svör og var lúmskur húmoristi. Okk- ur fjölskyldunni þótti alltaf gaman að koma í Engimýri. Afi og amma voru svo glöð að sjá okkur og vildu allt fyr- ir okkur gera. Afi var veikur síðustu árin og dvaldi á Hjúkrunarheimilinu Seli við góða umönnun. Við sáum hann síðast í ágúst og þá var heilsan orðin mjög léleg. Afi minn hefur nú fengið hvíld- ina eftir langa og gæfuríka ævi og ég kveð hann með söknuð og þakklæti í huga. Birgir Arnar. Okkur langar að minnast afa okk- ar í örfáum orðum. Þar sem föðurafi okkar dó þegar pabbi var enn ung- lingur var Sigurliði „afinn“. Það fór ekki mikið fyrir húmor við lítt kunn- uga en þó var afi mikill grínisti. Til dæmis þegar við spurðum hann hvað hann vildi í jólagjöf var hann stór- tækur í svörum og sagðist alvarlegur í bragði vilja fá sportbíl eða píanó, þó svo hann spilaði ekki einu sinni á slíkt. Síðan brosti hann og sagðist vera að gantast. Minningarnar sem við eigum um afa eru margar og góðar. Mann lang- ar til að segja svo margt en ofarlega í huga er morgunn einn eftir að hafa gist hjá ömmu og afa. Amma var far- in í vinnuna og hafði sagt afa að gefa okkur pakkamat með mjólk út á í morgunmat. Þegar afi tók svo rauðan Bugles-pakka út úr skápnum, gjóuð- um við augunum sigurvissar hvor til annarrar. Þegar hann hins vegar hellti mjólk yfir allt saman leist okk- ur ekki lengur á blikuna. Við sett- umst samt með skálarnar okkar við matarborðið og smökkuðum. Blandið af mjólk, salti og maísflögum var al- gjörlega óætt. Við vildum fyrir alla muni ekki særa afa og báðum því um að fá að borða morgunmatinn úti á palli. Við fórum hins vegar beina leið í kartöflugarðinn þar sem við grófum allt saman. Þegar Ása var komin á leikskóla- aldur var afi kominn á eftirlaun og eyddu þau saman morgnunum. Eitt af því sem afi kenndi Ásu var að kveðast á, hann fór með ferskeytlur og hún svaraði með leikskólalögum. Seinustu árin höfum við horft á afa hverfa smám saman. Maðurinn sem við þekktum vék fyrir öðrum sem mundi ekki hverjar við vorum en var samt sem áður alltaf jafn glaður að fá okkur í heimsókn. Megi minningin um afa lifa með okkur. Rósa Rut, Inga Jóna og Ása Vala. SIGURLIÐI JÓNASSON

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.