Morgunblaðið - 03.04.2006, Side 27

Morgunblaðið - 03.04.2006, Side 27
MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 3. APRÍL 2006 27 MINNINGAR Bróðir minn Sigur- björn Stefánsson bóndi í Nesjum hefur kvatt þessa jarðvist. Sigurbjörn fæddist í Sandgerði 12. mars 1932 og ólst upp í Sandgerði og í Nesjum í Hvalsneshverfi. Það hefur verið skammt stórra högga á milli í fjölskyldunni, báðir bræður mínir hafa nú kvatt með að- eins 4 mánaða millibili. Sjúkrahúsið hefur því síðustu 6 mánuði verið okkar samverustaður, staður þar sem við höfum setið á kvöldin til þess að rækta okkar samband. Síð- ustu mánuðir hafa þess vegna verið mikill tilfinningalegur átakatími. Margt hefur verið rifjað upp og margar myndir fortíðar runnið í gegnum hugann. Samræður okkar bræðra voru þar eðlilega nokkuð á aðra lund en áður. Auðvitað var það líka svo að umræðurnar á sjúkra- húsinu á kvöldin voru mjög gefandi og snertu oft merkileg og mikilvæg mál liðinna tíma. Þar voru oft rædd- ir löngu liðnir atburðir sem tími hafði ekki reynst til að fara yfir áð- ur. En margt var því miður órætt þegar skilnaðarstundin rann upp. Eftir stendur að ýmiskonar þekking og reynsla sem snerti sögu fjöl- skyldunnar og heimahaganna, horfna ættingja, vini og nágranna er nú horfin. Þekking þeirra á öllum slíkum málum var svo langt umfram mína, bæði vegna aldursmunarins og þess að ég flutti mjög ungur í burtu frá heimahögunum. Það var þannig að ég sem yngsti bróðirinn naut alla tíð ýmissa for- réttinda sem því fylgja stundum að vera yngstur. Áhugi þeirra bræðra og umhyggja beindist öll að mér framan af, fyrst uppvextinum, síðar námi og svo störfum mínum. Þessi áhugi og umhyggja færðist svo yfir á börnin okkar og barnabörnin. Enginn dagur leið, einkum í seinni tíð, án þess að leitað væri fregna af gangi mála hjá þeim, hvernig gengi í leikskólanum, grunnskólanum, fjöl- brautaskólanum eða háskólanum. Þroski þeirra og velferð var þeim allt og þannig var það til hinstu stundar. Og eins og börnin litu á þá frændur sína eins og afa, þá var það algjörlega gagnkvæmt að þeir horfðu á þau sem sín eigin börn og komu á allan hátt fram við þau sem slík. Gagnkvæm væntumþykja var einstök og áreiðanlega öllum aug- ljós. Fyrir þennan þátt í fari þeirra bræðra getum við hjónin og fjöl- skyldan aldrei full þakkað. Að missa þá bræður báða á svo stuttum tíma er ótrúlega þungt högg og ég finn fyrir miklu tóma- rúmi. Mér finnst vanta eitthvað í sjálfan mig og jafnvel finnst mér ég stundum ekki vera ég sjálfur. Diddi bróðir minn var um margt mjög sérstakur maður, hann var al- gjör öðlingur sem vildi allt fyrir alla gera. Hann var greiðvikinn fram úr hófi og hefur áreiðanlega aldrei neitað manni um aðstoð eða greiða, enda líklega ekki ofnotað orðið „nei“. Það væri þá frekast ef einhverj- um skyldi hafa dottið í hug að reyna að hafa áhrif á skoðanir hans á stjórnmálum eða afstöðu hans til græðgi og óhóflegrar auðsöfnunar eða óhófs. Hann var reiðubúinn til að gera jafnt skyldum sem vanda- lausum alla þá greiða sem hann gat og eru áreiðanlega margir sem þess hafa notið. Frændrækinn var hann svo af bar. Þekkti held ég alla sem á ein- hvern hátt töldust okkur skyldir og marga mjög vel og ræktaði vináttu SIGURBJÖRN STEFÁNSSON ✝ Sigurbjörn Stef-ánsson fæddist í Landakoti í Sand- gerði 12. mars 1932. Hann lést á Heil- brigðisstofnun Suð- urnesja 19. mars síðastliðinn og var útför hans gerð frá Hvalsneskirkju 29. mars. og kunningsskap við mikinn fjölda fólks. Diddi lagði ungur fyrir sig landbúnaðar- störf, annaðist framan af búrekstur fyrir föð- ur okkar, en síðustu 40 árin var hann sjálf- stæður bóndi í Nesj- um. Hann var lengst af með kúabú og nokkra kartöflurækt. Hann var mikill dýra- vinur og hændust all- ar skepnur að honum enda hugsaði hann ákaflega vel um skepnurnar sínar. Búskapur eins og sá sem Diddi stundaði var mjög bindandi, því ekki gekk að láta kýrnar bíða eftir fóðr- inu sínu eða að hafa mjaltatíma óreglulega. Ég held því að ég fari rétt með, þegar ég fullyrði að hann hafi ekki í um 35 ár tekið sér frí í heilan dag, hvorki vegna veikinda né ferðalaga. Hans lengstu frí voru frá kl. 10 að morgni og til kl. 18 að kvöldi allan þennan tíma. Þetta lýsir betur en margt annað mörgum einkennandi þáttum í fari bróður míns. Ég nefni sterkan sjálfsaga, samviskusemi, umhyggju- semi, trygglyndi og að fórna sjálfum sér fyrir bæði menn og skepnur var einfaldlega sjálfsagt mál. Eitt dæmi um trygglyndi Didda og umhyggjusemi sem ég vil nefna er umhyggja hans fyrir öldruðum föður okkar sem hann hugsaði alfar- ið um síðustu æviár hans. Það var ekki lítið atriði fyrir gamla manninn að hafa tækifæri til þess að vera í sveitinni sinni eins lengi og þess var nokkur kostur. Þetta var sönn um- hyggja og staðfast trygglyndi. Didda þótti ekki aðeins vænt um skepnurnar sínar, honum þótti ákaf- lega vænt um jörðina sína og gekk vel um landið. Landið okkar, Ísland, var honum líka alltaf ofarlega í huga og mér fannst sérstakt, hversu mikla þekkingu hann hafði á landinu og virtist þekkja flesta staði lands- ins mjög vel og þá ekki síst sveitabæi allt í kringum landið. Þetta er einkum sérstakt miðað við hvað hann var stóran hluta ævinnar bundinn við heimahagana og gat lít- ið ferðast. Síðar, eftir að hann hætti búskap, bætti hann sér það upp og ferðaðist þá talsvert innanlands og hafði mjög gaman af. Sjálfur fór ég einu sinni með honum í bíl vestur á Snæfellsnes og alla leiðina gat hann verið að segja mér frá nöfnum á þessari og hinni jörðinni og ýmsu öðru sem fyrir augu bar. Hann fylgdist einfaldlega svo vel með öllu og var stálminnugur. Eina utan- landsferð fór Diddi og það með fé- lögum sínum úr Sandgerði. Hann vitnaði oft til þessarar ferðar og ekki síst félagsskaparins sem hann mat svo mikils. Diddi var mjög fé- lagslyndur og starfaði mikið að fé- lagsmálum, einkum í seinni tíð. Hann starfaði í Lionsklúbbi Sand- gerðis í mörg ár og var m.a. sæmdur Melvin Jones-viðurkenningu fyrir störf sín. Hann átti um árabil sæti í sóknarnefnd Hvalsneskirkju, var formaður Jarðanefndar og einnig Búnaðarfélags Sandgerðis og Garðs. Hann var virkur í starfi Framsóknarflokksins bæði í Sand- gerði og síðar einnig í Keflavík. Samvinnumaður var Diddi mikill og hafði feiknarlegan áhuga á starfi Kaupfélags Suðurnesja og sat í deildarstjórn félagsins um langt árabil. Kaupfélagshugsjónin var honum í blóð borin, enda var hann alinn upp í Pöntunarfélagi Sandgerðis sem var um tíma til húsa á heimili for- eldra okkar. Einhvern tíma nú á síðari árum voru þeir bræður Diddi og Maggi á leið út í Kaupfélag að kaupa eitt- hvert magn af matvörum og ræddu þá hvort þeir ættu að fara í Kasko. Það fór svo að þeir töldu það ekki rétt því að verðið þar væri svo lágt um þessar mundir að félagið væri áreiðanlega að tapa stórlega á þessu og vildu ekki vera valdir að tapi hjá félaginu. Diddi var mikill húmoristi og hafði ákaflega gaman af sögum og kunni margar góðar sögur og átti líka gott með að sjá skoplegu hliðar lífsins. Diddi ræktaði vel kunningsskap og vináttu, ófáar ferðir gerði hann sér með nokkrar nýjar kartöflur í poka til kunningjanna, það var hans aðferð til að láta vita hversu mikils virði kunningsskapurinn væri hon- um. Það var undantekningarlítið, að ef hann fór með manni út í kálgarð að sækja nýjar kartöflur handa okk- ur, þá spurði hann gjarnan hvort maður gæti ekki tekið nokkrar kart- öflur til hans vinar síns í leiðinni. Þetta var Diddi. Ég sakna þeirra bræðra minna ákaflega sárt. Ég kveð þá með mikl- um söknuði. Þeir voru einstakir menn, að sumu leyti ólíkir, en samt um margt líkir þegar vel er að gáð, einkum hvað varðar trygglyndið við allt og alla og hversu gegnheilir per- sónuleikar þeir voru og alltaf reiðu- búnir þegar á þurfti að halda. Það er stórt skarð höggvið í litla fjölskyldu. Ég bið góðan Guð að blessa alla þá sem þeim þótti svo vænt um. Blessuð sé minning Didda og Magga. Guðjón Stefánsson. Nú hefur hann Diddi frændi kvatt þessa jarðvist og mun hans verða sárt saknað. Diddi var einstakur fé- lagi sem á sér engan líka. Ég á margar góðar minningar með Didda enda hefur samband hans við okkur systkinin verið mjög mikið. Diddi var nær því að vera afi okkar en frændi. Hann hafði ávallt fyrir því að hringja þegar ég var á ferðalög- um og spyrja hvar ég væri nákvæm- lega staddur, síðan sagði hann mér frá helstu merkisstöðum í kring. Diddi var alltaf reiðubúinn að hjálpa og er mér minnisstætt þegar ég keypti mitt fyrsta hús að Diddi var strax kominn til að aðstoða við að mála, skrúfa saman borðstofu- borðið og vera okkur innan handar í einu og öllu. Ég á góðar minningar frá Nesjum þar sem ég fékk að koma í heyskap, setja niður kart- öflur og taka upp kartöflur. Það var mikil stemmning þessa daga og mikið fjör. Diddi sat á traktornum og stoppaði reglulega til að athuga hvort ekki væri allt í góðu hjá okkur aðstoðarmönnunum. Kaffitímarnir voru líka minnisstæðir þar sem spjallað var um daginn og veginn. Má segja að Diddi hafi kennt mér að vinna. Eftir að ég hóf að stýra mat- vöruversluninni Kaskó þá keypti ég af Didda kartöflurnar og var mikil ánægja meðal viðskiptavina þegar þær komu í hús. Diddi var heið- arlegur í viðskiptum og vorum við frændurnir ekki lengi að semja um rétt verð. Diddi var í miklu uppáhaldi hjá Guðjóni Pétri syni mínum og átti Diddi auðvelt með að ná athygli Guðjóns. Mér er minnistætt þegar Diddi kom í heimsókn og Guðjón átti að vera kominn í háttinn, lædd- ist Guðjón þá til Didda og settist í fangið á honum og taldi sig full- komlega hólpinn frá því að fara að sofa. Þetta fannst þeim Didda og Guðjóni Pétri ágætur samningur. Einnig fóru þeir Diddi og Guðjón Pétur stundum á rúntinn í stóra jeppanum hans Didda og var vart hægt sjá hvor væri meira spenntur frændinn eða litli drengurinn. Undanfarna daga hef ég rifjað upp margar góðar stundir okkar Didda og hafa margar myndir kom- ið upp í kollinn. Ég þakklátur því að hafa átt svo margar stundir með Didda, þær stundir voru forréttindi og í raun ótrúlegur skóli. Diddi sýndi mér og mínum nánustu alltaf mikla ást og umhyggju. Nú veit ég að þeir bræður Sigurbjörn og Magnús eru komnir í fang fjölskyld- unnar og er ábyggilegt að mikið verður spjallað. Þakka þér fyrir allt Diddi minn. Stefán. Látinn er Sigurbjörn Stefánsson eða Diddi eins og hann var kallaður. Didda hitti ég fyrst er hann hélt upp á sextugsafmælið sitt. Þar var sam- ankomin fjölskylda hans og ég að hitta hana alla í fyrsta sinn. Diddi kom mér fyrir sjónir sem mjög myndarlegur maður sem hafði mikla útgeislun og góða nærveru. Frá þessu fyrsta kvöldi og allt til enda höfum við átt margar stundir og þau voru ófá símtölin sem við átt- um í gegnum árin. Á þessum árum var Diddi með búskap í Nesjum með kýr og einnig ræktaði hann kart- öflur. Gaman var að sjá hversu kraftmikill Diddi var við bústörfin og ekki skemmdi fyrir að Diddi átti marga góða félaga sem hjálpuðu honum þegar á þurfti. Diddi var vinamargur og ræktaði vini sína vel og þeir hann, ég held að varla hafi liðið sá dagur meðan hann hafði heilsu til að ekki færi hann í heim- sókn til einhvers þeirra eða þeir hittust hjá honum í Nesjum. Þessi vinátta var Didda mikils virði og tal- aði hann um vini sína af virðingu og hlýju. Aldrei heyrði ég Didda hall- mæla nokkrum manni og held ég að sú staðreynd lýsi honum nokkuð vel. Eftir að Diddi hætti með kýrnar gafst honum meiri tími til að ferðast og þótti honum það ákaflega gaman. Einnig var honum mikið boðið í veislur og mætti hann alltaf tím- anlega og stundum var dagskráin hjá honum ansi þétt en alstaðar mætti hann þar sem honum var boð- ið. Diddi var félagslyndur maður og tók virkan þátt í samfélaginu, var meðal annars lengi í sóknarnefnd Hvalsneskirkju og Lionsklúbbnum í Sandgerði og held ég að ég megi fullyrða það að þar hafi hann verið með 100% mætingu öll hans árin. Diddi mat mikils þennan félagsskap og lagði sitt af mörkum til hans. Diddi var ákaflega skapgóður en var þó mjög fastur fyrir og ef hann varð búinn að taka eitthvað í sig þá var því ekki auðveldlega breytt. Gott dæmi um það var kartöfluræktin hjá honum, en Diddi ræktaði þrjár tegundir af kartöflum og seldist ein miklu betur en hinar og færðu ég og fleiri það oft í tal við hann að ein- beita sér að ræktun þeirrar tegund- ar og alltaf fékk ég sama svarið að líklega væri það best að gera það, en á hverju vori var sett niður ná- kvæmlega sama hlutfallið og áður. Honum fannst þessar rauðu einfald- lega bestar. Diddi var ákaflega barngóður og ræktarsamur við alla og ekki fóru mín börn varhluta af því. Hann fylgdist vel með þeim og var alltaf að færa þeim eitthvað og er hann kom vestur á Snæfellsnesið var ávallt súkkulaði í vasanum hjá hon- um sem hann færði börnunum. Diddi fylgdi Framsóknarflokknum í pólitíkinni og var mikill samvinnu- maður og fór aldrei út af þeirri braut. Þrátt fyrir að ég væri ekki á þeirri línu þá fann ég aldrei fyrir því að hann hefði nokkuð við það að at- huga. Nú er komið að leiðarlokum hjá Didda, í minningunni er mynd af góðum manni sem kunni þá list að rækta samband sitt við fjölskyldu og vini. Blessuð sé minning Sigur- björns Stefánssonar. Kristinn Jónasson. Margar góðar og skemmtilegar minningar koma í hugann þegar hugsað er til baka um kynni okkar af Sigurbirni Stefánssyni, bónda í Nesjum. Hann var vel þekktur um öll Suðurnes sem Diddi bóndi í Nesjum. Hann mun hafa verið einn síðasti mjólkurframleiðandinn í Gullbringusýslu þegar hann hætti búskap og flutti til Keflavíkur. Með- fram kúabúskap stundaði hann alla tíð talsverða kartöflurækt. Diddi var góður bóndi. Hann var natinn við bústofninn og eljusamur við garðræktina. Nágrannarnir nutu hjálpsemi og greiðvikni hans alla tíð. Diddi var frábær sögumaður og félagi og var ávallt aufúsugestur hjá okkur á Hvalsnesi. Unga fólkið var nálægt til að heyra hvað Diddi hafði til málanna að leggja, hlustaði og beið eftir því hvort ekki kæmi eins og ein skemmtisaga frá honum. Svo voru hláturinn hans og gleðin smit- andi. Samvera okkar á Hvalsnesi með honum á jóladag um árabil skreyta nú safn minninganna. Diddi var vel máli farinn og stjórnaði hann sem formaður Búnaðarfélagsins á svæðinu fundum þess af eftirminni- legu öryggi. Þegar Diddi hætti búskap fór hann að ferðast um landið með fé- lögum sínum og hafði mikla ánægju af. Þegar heim kom var rætt um bú- skaparhætti og kosti til lands og sjávar. Minni hans og gáfur komu þá í ljós og hans meðfædda hógværð og innsýn urðu þess valdandi að þeir sem á hlýddu sáu mál landsbyggð- arinnar í nýju ljósi. Bóndinn í Nesjum var vinamarg- ur, margfróður, ósérhlífinn, góður drengur og er nú kvaddur með söknuði. Spor hans fyrir kirkjuna sína og samfélagið er minnst með þakklæti. Fjölskyldu Didda sendum við hlýjar samúðarkveðjur. Fjölskyldan á Hvalsnesi, Tómas Grétar Ólason. Sigurbjörn Stefánsson bóndi á Nesjum er látinn. Ég varð þess heiðurs aðnjótandi að kynnast Sig- urbirni í gegnum félagsstarf Fram- sóknarflokksins í Reykjanesbæ, sér- staklega hin síðari ár. Meiri Fram- sóknarmann er erfitt að finna, en Sigurbjörn var alltaf áhugsamur um flokksstarfið, hafði miklar pólitískar skoðanir og var annt um velferð Framsóknarflokksins. Ég ásamt fleirum munum sakna hans í fram- tíðinni, sérstaklega á laugardags- kaffifundum okkar Framsóknar- manna þar sem hann var oftast mættur með góðar athugsemdir og tillögur. Fjölskyldu Sigurbjörns færi ég innilegar samúðarkveðjur. Eysteinn Jónsson. Kær vinur og frændi er látinn. Þessi góði nágranni okkar hefur verið órjúfanlegur hluti af lífinu að Löndum, jörðinni okkar suður með sjó. Samgangur okkar var í takt við árstíðirnar, hófst að vori og lauk að hausti. Þegar lóan mætti fór Sig- urbjörn að hreinsa túnin af því sem hafið hafði kastað á land yfir vet- urinn, bar á og við fórum að huga að vorverkum. Þegar sólin hækkaði á lofti urðu ferðir okkar tíðari suður eftir og þá áttum við heimsins besta nágranna í honum Sigurbirni. Vand- fundinn var hjálpsamari maður og margt hefur hann aðstoðað okkur við án þess að vilja þiggja neitt fyr- ir, í besta falli kaffi eða kvöldmat. Þegar okkur borgarbörnunum fannst kominn tími til að hefja eigin garðrækt var fyrr en varði kominn risagarður, plægður og herfaður. Þegar íbúarnir úr 101 Reykjavík skildu ekki af hverju ekki var hægt að fá í soðið í útgerðarplássinu Sandgerði og viðruðu þessa undrun sína við Sigurbjörn hummaði eitt- hvað í honum, árla næsta morgun biðu nýdregnir þorskar á hlaðinu eftir að komast í pottinn. Við fylgdumst saman með komu vorsins, hvenær æðurin færi að setj- ast upp og krían mætti á staðinn, fengum fréttir af gróðurfari og refa- og minkaveiðum í heiðinni. Við fylgdumst með grassprettunni þar til kom að þeim viðburði að Sig- urbjörn byrjaði að slá. Yfir sumarið leit hann reglulega við, þáði kaffi og spjallaði, um sveitalífið áður fyrr, búskap og ættfræði, um fréttir af mönnum og málefnum. Þessi einbúi var vinamargur og félagslyndur, dulur en þó glaðvær, tryggur mað- ur, frændrækinn og fróður. Þegar haustaði kíktum við undir kartöflugrösin, hann alltaf á undan með sínar Premier og gaf okkur að smakka fyrstu uppskeruna. Við gengum frá húsinu um svipað leyti og farfuglarnir hópast saman á þessum litla bletti við Atlantshafið og kvöddum. Þar til næst. Ekki verða fleiri vorverk á trakt- ornum, eða samverustundir í tún- fætinum og tilveran að Löndum verður tómlegri en áður. Við þökkum góðum manni sam- fylgdina. Hvíl í friði. Guðmundur Óli, Brynja og dætur, Löndum. Brynja Ingadóttir.

x

Morgunblaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.