Morgunblaðið - 19.08.2006, Síða 41
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 19. ÁGÚST 2006 41
MINNINGAR
Björg Þuríður blessuð
mær
búin æskufjöri.
Lífsins frið þig lindin tær
lauga ætíð gjöri.
Í heiminum er hætta mörg
hér á nótt sem degi.
Lausnarinn þig litla Björg
leiði á sínum vegi.
Þannig orti hann Guðfinnur afi
minn um litlu telpuna sína og sann-
arlega fylgdu orð hans og óskir
henni um langan æviveg. Hún var
einstaklega vel af guði gerð hún
móðir mín, heilsteypt, jafnlynd og
lauguð lífsins friði jafnt í meðlæti
sem mótlæti. Hún lifði langa og far-
sæla ævi og dó södd lífdaga eftir
nokkurra ára ójafna baráttu við elli
kerlingu.
Hún stóð meðan stætt var og bjó
heima fram yfir nírætt:
Ég þrái æskunnar unað,
eilífa sól og vor
en kertið í botn er brunnið
mig brestur nú kjark og þor.
(Björg Guðfinnsdóttir.)
Lífsbók er lokað. Lífsbók sem
hófst eina haustnótt fyrir 94 árum í
Litla Galtardal á Fellsströnd. Þá
skrifar Björg Magnúsdóttir ljós-
móðir, frænka mömmu og síðar
fóstra, í bókina sína: „30. ágúst tók
ég á móti 17 marka stúlkubarni hjá
Sigurbjörgu í Galtardal það er 9.
barnið hennar og er hún 38 ára göm-
ul. Henni varð ilt algjörlega kl. 12 í
gærkveldi en kl. 3 var barnið fætt og
kom fylgjan sjálf eftir hálftíma það
má segja að henni gengi vel. Hún
hefur verið lasin í alt sumar og hálf
kvíðandi fyrir þessu en alt fór vel.
Hamingjunni sé lof.“ Síðar bættust
tvö börn í hópinn hjá afa mínum og
ömmu, svo mamma varð hluti af
stórri og afar sterkri heild sem varð
henni styrkur og stoð, gleði og gæfa
alla tíð. Það átti þó ekki fyrir henni
að liggja að alast upp hjá foreldrum
sínum í Litla-Galtardalnum fyrr en
hún var á 12. árinu. Þar var nóg af
andans auði, elsku og kærleik en
minna um veraldleg gæði. Ársgömul
er móðir mín komin að Staðarfelli til
Soffíu frænku sinnar og Magnúsar
manns hennar. Þar bjó hún við
ómælda ást og umhyggju þeirra
hjóna og dætra þeirra Bjargar og
Þuríðar og Þuríðar mömmu, ömmu-
systur sinnar og fóstru móður sinn-
ar. Enginn staður var henni kærari
en Staðarfell, þangað leitaði hugur-
inn löngum og þaðan átti hún sínar
björtustu bernskuminningar. Stað-
arfellsfjaran var undraheimur með
sínum klettum og skeljum, brimi og
bárusogi. Legsteinar fyrirfólksins í
kirkjugarðinum á Staðarfelli voru
gersemar með perlum sínum og
skrauti og stjörnurnar á kirkjuloft-
inu glitruðu til hennar með álíka
ljóma og stjörnur himinsins.
Ung við haf ég undi,
aldan við mér hló
undrafegurð ætíð
er við lygnan sjó.
Finn ég fjöruangan,
finn ég sand í skó.
Yfir öllu hvílir
einhver himnesk ró.
Minningar í móðu
man ég sel við hlein,
fugl í fjöruborði,
fagurt sólin skein.
(Björg Guðfinnsdóttir.)
Sex ára gömul flytur móðir mín
með Björgu dóttur Staðarfells-
BJÖRG ÞURÍÐUR
GUÐFINNSDÓTTIR
✝ Björg ÞuríðurGuðfinnsdóttir
fæddist í Litla-Galt-
ardal á Fellsströnd
30. ágúst 1912. Hún
lést á Hjúkrunar-
heimilinu Skjóli 30.
júlí síðastliðinn og
var jarðsungin frá
Laugarneskirkju
16. ágúst.
hjónanna að Túngarði
og hjá Björgu og
Magnúsi manni henn-
ar elst hún upp næstu
sex árin. Túngarður
var einstakt myndar-
heimili og þar, eins og
á Staðarfelli, var
mamma lengst af eina
barnið. Hún var
snemma óhemju dug-
leg til vinnu, áræðin,
bjartsýn og kraftmik-
il. Hún lærði vel til
verka hjá Björgu sem
ætíð var henni sem
besta móðir. Hún elskaði hesta og
naut þess að þeysa fram Flekkudal-
inn í leit að fé eða hrossum. Bæk-
urnar í kofforti Markúsar Hall-
grímssonar vinnumanns í Túngarði
opnuðu henni nýja undraheima og
María móðir Magnúsar kenndi
henni að þekkja grös og blóm. Þær
Soffía dóttir Túngarðshjónanna og
mamma yljuðu sér á seinni árum við
minningarnar að vestan og mamma
fræddi hana á öllu sem hún mundi,
sem Soffíu var hulið.
Á tólfta árinu fer mamma heim í
Litla-Galtardal til foreldra sinna.
Það voru ekki auðveld vistaskipti og
mamma hálfráðvillt í fyrstu. Þá tók
Guðfinnur afi hana í fangið og sagði
að hún skyldi vita það að þau elsk-
uðu hana alveg jafnmikið og hin
börnin þótt hún hefði ekki alist upp
hjá þeim. Þessi orð geymdi mamma
hjá sér alla tíð.
Ég undraðist oft hvernig hægt
væri að koma jafnheil og móðir mín
var út úr slíkri æsku, vera alinn upp
á þrem heimilum. Þá sagði mamma
alltaf að það sem skipti máli væri að
finna að maður væri elskaður. Auk
þess voru alla tíð afar náin og kær
tengsl milli allra heimilanna.
Í Litla-Galtardalnum kynntist og
tengdist mamma systkinum sínum
betur. Þar ríkti einstakur menning-
arandi. Guðfinnur afi var búfræð-
ingur frá Ólafsdal og bar með sér
þaðan mikla menningarstrauma. Í
Dalnum var ort og kveðist á, allur
fróðleikur skráður, leystar reikn-
ingsþrautir á síðkvöldum og mikið
lesið og spjallað. Enda fylgdu ljóðin
mömmu alla tíð. Það var mér og
mínum ómetanlegur fjársjóður að
sitja við fótskör þeirra Galtardals-
systkinanna og hlusta á þau rifja
upp og ræða lífið í Dalnum, náttúr-
una, örnefnin, ættir og mannlíf.
Sextán ára lá leið mömmu til
Reykjavíkur. Á undan henni voru þá
farin þangað systkini hennar Ósk,
Hólmfríður, Ólafur og Björn.
Mamma var í vistum og í fiski bæði í
Melshúsum og á Kirkjusandi. Hún
gekk iðulega í karlmannsstörf, m.a.
í uppskipun, enda forkur dugleg.
Hún elskaði að dansa og oft, sagði
mamma, lánaði Óli bróðir mér túkall
og Fríða systir hringinn sinn og
skóna þegar ég fór út að skemmta
mér. Svo birtist hann einn daginn
draumaprinsinn, hann faðir minn,
með kolsvart hár, glæsilegur og
góður, greindur og gull að manni,
vel vaxinn og spengilegur, í meist-
araflokki í fótboltanum í Fram, létt-
ur og kátur, umhyggjusamur og
yndislegur. Og saman örkuðu þau
sinn æviveg í blíðu og stríðu í meira
en hálfa öld. Kreppuárin voru erfið,
eilífir flutningar milli hráslagalegra
kjallara og háalofta. Fátæktin og at-
vinnuleysið stöðugir fylgifiskar. En
þau áttu æskunnar kjark og þor. Og
þótt pabbi kæmi úr sárustu fátækt
vissi mamma að það var til betra líf.
Hún mundi plusssófana, buffetin og
postulínsservantana á Staðarfelli og
fullar tunnur af mjöli og mat. 1935
fæddist Erla systir mín og 1939
fluttu þau mamma og pabbi að
Skólavörðustíg 11 í litla bæinn
hennar Þorbjargar Sveinsdóttur.
Þar var gott að vera. Þau leigðu hjá
því mikla sómafólki hjónunum Guð-
rúnu Pétursdóttur frá Engey og
Benedikt Sveinssyni. Skólavörðu-
stígsfólkið, eins og mamma kallaði
það, reyndist okkur einstaklega vel
og hélst vinátta milli þeirra alla tíð.
Þar vann mamma af sér húsaleiguna
í átta ár með því að hjálpa Guðrúnu
við heimilisstörfin, þrif, þvotta og
annað. Amma og Palla voru hjá okk-
ur í tvö ár og Gestur og Geiri einn
vetur. 1942 fékk pabbi loks fasta
vinnu og þá fóru hjólin að snúast.
1947, þegar ég var rétt fjögurra ára,
fluttum við að Hofteigi 4, þar sem
heimili foreldra minna stóð alla tíð
síðan. 1948 fæddist svo Ingveldur
Ólöf yngsta dóttirin. Á Hofteignum
var rúm fyrir alla. Þar bjuggu um
tíma Erla systir, Hilmar og Hrönn,
sömuleiðis Ragnheiður vinkona
meðan hún var í námi og Kristín
Björg dóttir hennar.
Starfsvettvangur foreldra minna
var í Austurbæjarskólanum í rúm-
lega 40 ár. Þar áttu þau ótalin spor-
in. Austurbæjarskólinn varð órjúf-
anlegur hluti af lífi okkar allra. Þar
þróaðist einnig merkilegt samfélag
og vinátta starfsfólksins, en margir
unnu þar líkt og þau áratugum sam-
an. Alltaf voru börnin velkomin með
í vinnuna og farið var í skemmti-
ferðir hvert sumar með fjölskyldun-
um. Mamma stofnaði menningar-
klúbb þar sem ræstingakonurnar
hittust mánaðarlega og lásu ljóð og
sögur.
Seinustu tvo áratugina sem
mamma var úti á vinnumarkaðnum
skúraði hún í Slökkvistöðinni. Þar
eins og í Austurbæjarskólanum
eignaðist hún sína góðu vini. Strák-
arnir mínir kallaði hún þá og ég fann
að þeim þótti mörgum vænt um
hana. Hún var lífsreynd, hlustaði og
gaf góð ráð þegar að kreppti í þeirra
erfiða starfi. Þótt hugur mömmu
hafi staðið til mennta var ekki um
slíkt að ræða sökum fátæktar og
allsleysis. En hún lagði ætíð ríka
áherslu á að öll störf væru mikilvæg
og að maður skyldi vinna sín verk
vel. Snobb var ekki til í hennar hug-
arheimi.
Mömmu þótti erfitt að hætta að
vinna, hún elskaði að vera innan um
fólk, hafa hlutverk, skapa og áorka.
Hún lýsti því þannig:
Mig langar að vaka og vinna
og verða svo mörgum að liði.
En ellin hún kemur og kallar,
þú kemur að lokuðu hliði.
Alla tíð ríkti einstakt samband
milli Galtardalssystkinanna. Með
Birni og Halldóru og Óla og Lauf-
eyju deildu þau samverustundum á
árum áður og síðar urðu Ósk og
Palla, Gestur og Geiri og Fríða með
fjölskyldu órjúfanlegur hluti tilver-
unnar. Fjölskylduboðin á Hofteign-
um vekja ljóma í minningunni, þar
svignuðu borðin undan kræsingum
og allir nutu þess að vera saman.
Mamma var einstaklega vel gerð
kona og sterkgreind. Hún var traust
og heilsteypt, kraftmikil og ákveðin,
harðdugleg og handfljót svo til var
tekið. Hún var um árabil trúnaðar-
maður stéttarfélagsins og öllum
þótti gott til hennar að leita. Hún
var kát og ræðin og ættfróð með
eindæmum, minnug og glögg. Hún
var ávallt opin fyrir nýjungum, til í
að skoða og prófa en dæmdi aldrei
fyrirfram. Einstrengingsháttur var
henni víðs fjarri. Hún var fremur
lágvaxin, líkt og hún átti kyn til, og
gildnaði nokkuð með árunum, en
var kattliðug og fim fram undir síð-
ustu ár.
Mamma var alla tíð minn besti
vinur og ráðgjafi, huggari og styrka
stoð. Hún fræddi mig og glæddi
áhuga minn á ætt minni og uppruna,
hvatti mig og deildi með mér sorg
og gleði.
Þau pabbi áttu gott líf saman og
óteljandi voru ferðirnar um landið
þar sem tjaldað var í hverjum móa
og rennt fyrir silung. Að ekki sé
minnst á allar ferðirnar austur að
Hömrum til elsku Siggu minnar og
Jóhannesar, þar sem við áttum sem
annað heimili. Og þá var ósjaldan
rennt í Hveragerði til Dísu, systur
pabba, og hennar fjölskyldu, en milli
þeirra systkinanna var afar náinn
strengur. Barnabörnin þrjú; Hrönn,
Björg og Ragnar elskuðu mömmu
og dáðu, og hún og pabbi áttu stóran
þátt í uppeldi þeirra. Þeirra missir
er mikill. Og hún gerði það ekki
endasleppt því hún gætti Adams
langömmubarnsins síns allt þar til
hann fór á leikskóla og síðar Ragn-
hildar Erlu þótt hún væri þá komin
á níræðisaldur. En stórvirkið henn-
ar móður minnar er þó enn ótalið en
það er ást hennar og umhyggja fyrir
Ólöfu systur minni alla tíð. Í þau
spor færu fæstir, enda voru þær
eins og ein sál undir það síðasta og
gat hvorug án hinnar verið. Ólöf ber
með sér alla þá elsku og gæði,
menningu og góðu framkomu sem
hún fékk í foreldrahúsum. En hún,
líkt og ég og við öll sem elskuðum
hana móður mína, máttarstólpann í
lífi okkar allra, er sátt við að kveðja
hana. Mamma var hvíldinni fegin.
Hún trúði á annað líf og hlakkaði til
að hitta alla ástvini sína sem farnir
eru:
Brátt í nýjan heim ég held
hér þá lýkur dögum.
Enginn fréttir af mér þá
eða mínum högum.
Hvíli ég í mjúkri mold
í móðurskauti hlýju.
Um mig lykur Íslands fold
sem aðra að fornu og nýju.
(Björg Guðfinnsdóttir.)
Það er gott að leggjast til hinstu
hvílu eftir að hafa skilað jafn far-
sælu dagsverki og hún móðir mín
gerði. Við sem eftir stöndum getum
aðeins kvatt, þakkað og glaðst yfir
þeim yndislegu minningum sem hún
skilur eftir hjá okkur. Þær fylla
hjörtu okkar. Far þú í friði, elsku
mamma mín.
Guðfinna Sigurbjörg
Ragnarsdóttir.
Pantanir í síma 562 0200
Á fallegum og notalegum
stað á 5. hæð Perlunnar.
Aðeins 1.350 kr. á mann.
Perlan
ERFIDRYKKJUR
Þökkum af einlægni hlýhug og vináttu við andlát
og útför hjartkærrar móður minnar, ömmu og
langömmu,
KRISTÍNAR LÁRU KRISTINSDÓTTUR,
Birkimel 10b,
Reykjavík.
Ragnheiður Valtýsdóttir,
Sveinn Valtýr Sveinsson, Helena Hallgrímsson,
Bjarki Þór Sveinsson, Laufey Unnur Hjálmarsdóttir
og barnabarnabörn.
Við þökkum öllum þeim sem veittu okkur
stuðning og umvöfðu okkur hlýju við andlát og
útför
BENEDIKTS B. BJÖRNSSONAR
frá Þorbergsstöðum.
Magnþóra Þórðardóttir
Birna Dís Benediktsdóttir.
Ástkær eiginmaður minn, faðir okkar, tengda-
faðir, afi og langafi,
JÓN GUNNAR ÍVARSSON
fyrrverandi verslunarstjóri og
fulltrúi skattstjóra,
Skarphéðinsgötu 4,
Reykjavík,
sem lést á Landspítalanum fimmtudaginn
10. ágúst, verður jarðsunginn frá Fossvogskirkju mánudaginn
21. ágúst kl. 15.00.
Þeim sem vilja minnast hans er vinsamlega bent á Hjartavernd.
Guðrún Guðlaug Sigurgeirsdóttir,
Sigurgeir A. Jónsson, Þóra Hafsteinsdóttir,
Sonja B. Jónsdóttir, Guðmundur Kristjánsson,
Ívar Jónsson, Lilja Mósesdóttir,
Fannar Jónsson, Elísabet S. Auðunsdóttir,
Jón Þór Sigurgeirsson,
Guðrún Iðunn Sigurgeirsdóttir, Einar Bjarni Sigurðsson,
Birkir Kristján Guðmundsson, Jón Reginbaldur Ívarsson,
Hrafnhildur Fannarsdóttir,
Fannar Gunnsteinsson
og Óskar Þór Einarsson.