Morgunblaðið - 20.08.2006, Síða 12
12 SUNNUDAGUR 20. ÁGÚST 2006 MORGUNBLAÐIÐ
Fá ríki eiga jafnlanga og flókna pólitíska,trúarlega og sögulega fortíð og Ísrael.Stofnun nútímaríkisstjórnar Ísr-aelsríkis var sögulega sérstæð og að
margra mati kveikjan að mörgum umtöluðustu
deilumálum samtímans. Tilurð Ísraelsríkis ár-
ið 1948, og stríðið sem fylgdi beint í kjölfarið,
eru því oft notuð sem byrjunarreitur þegar
menn vilja útskýra ástand mála í Mið-Aust-
urlöndum og stöðu og stefnu Ísraelsríkis. Bók-
stafstrúarmenn á meðal gyðinga og kristinna
manna leita þó þúsundir ára aftur í tímann til
að gera grein fyrir sýn sinni á deilumál svæð-
isins. Ef notast er við of þrönga sýn á söguna
og ekki er tekið tillit til raunsæis og sveigj-
anleika ákveðinna stjórnmálahreyfinga í Ísrael
getur þó margt tapast. Stefna Ísraelsríkis í
flestum meginmálum sem að landinu snúa hef-
ur tekið miklum breytingum á undanförnum
áratugum – breytingar sem rekja má bæði til
utanaðkomandi afla og óvenjulegrar uppbygg-
ingar samfélagsins.
Rætur Ríkisins
Til að skilja stjórnmál í Ísrael er nauðsyn-
legt að gera sér grein fyrir að rætur nútímarík-
isins liggja í Evrópu nítjándu aldar. Síonismi,
þjóðernishyggjuhreyfing gyðinga, fæddist í
andrúmslofti spennu og breytinga þar sem
gyðingar voru í vaxandi mæli farnir að fá borg-
araréttindi í Vestur-Evrópu og farnir að láta til
sín taka í viðskiptum, listum og menntamálum.
Aldrei fyrr höfðu samfélög gyðinga lifað jafn-
samofnu lífi við kristna nágranna sína á þessu
svæði – en bæði trúarleg og veraldleg hug-
myndafræði gyðingdóms hefur frá upphafi
snúist um að vernda þjóðarbrotið með mikilli
áherslu á aðskilnað frá öðrum þjóðum og mikla
samheldni innan hópsins. Hefðbundinn klæða-
burður strangtrúaðra hópa ber þessari hefð að
vissu leyti vitni í dag, en flestir Íslendingar
ættu að eiga auðvelt með að skilja þörf lítils og
aðþrengds hóps fyrir að halda í hefðir sínar og
sérstöðu.
Nýjar og hrottalegar ofsóknir á hendur gyð-
ingum, fyrst í Rússlandi, fylgdu í kjölfar auk-
innar velgengni þeirra í samfélögum Evrópu
og úr þeim farvegi spratt Síonismi. Stór hópur
auðugra og vel menntaðra gyðinga höfðu
myndað gyðinglegt menningarsamfélag sem
þekkti engin landamæri – en með tímanum
varð krafa þeirra um heimaland, þar sem þeir
gætu verið lausir við þær ofsóknir sem þeir
sættu í samfélögum kristinna manna í Evrópu,
æ háværari. Eftir afhroð arabaheimsins á
millistríðsárunum og hina óskaplegu helför af
hendi nasista í seinni heimsstyrjöldinni mynd-
aðist samstaða á milli stórveldanna um að gefa
gyðingum landsvæði til að mynda sitt eigið ríki
á slóðum hins forna Ísraelsríkis. Bretar réðu
Palestínu á þessum tíma og gátu því teiknað
landamærin eftir hentisemi. Arabaheimurinn
áleit sig hins vegar svikinn eftir loforð Breta í
sjálfstæðisstríði þeirra gegn Tyrkjum. Landa-
mærin sem dregin voru og samþykkt af Sam-
einuðu þjóðunum gerðu ráð fyrir tiltölulega
jafnri skiptingu Palestínu á milli gyðinga og
araba þótt gyðingar ættu á þeim tíma aðeins
8% lands í Palestínu. Stríðið, sem braust út um
leið og Ísrael var stofnað árið 1948, tryggði
gyðingum 78% af Palestínu. Stríðið átti eftir að
marka djúp spor í þjóðarsál ríkisins, sem og
nágranna þess.
Ísraelsríki var stofnað af tveimur ólíkum
hópum sem höfðu þó svipaðra hagsmuna að
gæta. Annarsvegar var um að ræða bókstafs-
trúarfólk, sem kaus að líta framhjá þeirri stað-
reynd að verið væri að endurreisa Ísraelsríki
án guðlegs samþykkis, en enn í dag neita stórir
hópar bókstafstrúaðra gyðinga að viðurkenna
Ísrael af trúarlegum ástæðum. Hinn hópurinn
var fjölbreyttari en hann samanstóð m.a. af
fólki með þjóðernishugsjónir og einstaklingum
sem einfaldlega þráðu betra líf. Spennan á milli
þeirra sem álíta sig hina útvöldu þjóð Guðs og
hinna, sem vilja einfaldlega lifa lífinu og haga
utanríkismálum sínum eins og hver önnur
þjóð, hefur farið stigvaxandi með árunum. Þar
sem bókstafstrúarfólk stofnar yfirleitt stórar
fjölskyldur og er undanþegið herskyldu, ólíkt
öllum öðrum þegnum ríkisins, hefur vald þess
að mörgu leyti vaxið þrátt fyrir að veraldlegri
öfl af hægri- og vinstrivæng stjórnmálanna
hafi náð að halda stjórn á utanríkismálum
landsins. Þetta hefur þó oft verið á kostnað við-
kvæmra innanríkismála.
„Palestínuvandamálið“
Stærsta „innanríkismál“ Ísraels er að sjálf-
sögðu Palestína og þeir arabar sem búa innan
Ísraelsríkis. Þetta er þó eðlilega samofið hinu
viðkvæma máli, stöðu Ísraels í Mið-Austur-
löndum.
Ísrael var stofnað sem ríki eins trúarhóps,
gyðinga. Það er í sjálfu sér einsdæmi og margir
Ísraelar álíta allar tilraunir til að þynna út gyð-
inglegt eðli landsins vera árás á sjálfan tilveru-
rétt þess – sem og tilverurétt gyðinga. Tilvist
Palestínumanna hefur þó alltaf verið nokkuð
sem jafnvel hörðustu þjóðernishyggjumenn
Ísraels hafa þurft að sætta sig við og ýmsar
leiðir hafa verið farnar til þess að minnka hætt-
una, sem af þeim stafar, jafnframt því að nýta
landsvæði þeirra til að verjast öðrum her-
skáum nágrönnum.
Í kjölfar sex daga stríðsins, árið 1967, sem
Ísraelsríki hóf, var það sem eftir var af land-
svæði Palestínumanna hernumið af Ísrael en
nágrannaríki Ísraels höfðu þá um skeið hótað
árás á landið. Hernámið þjónaði upphaflega
fyrst og fremst þeim tilgangi að gefa Ísr-
aelsher betri aðstöðu til að verjast innrás. Þótt
alltaf hafi verið til minnihluti í landinu, sem
vildi halda öllum landsvæðum Palestínumanna,
var það aldrei bein stefna yfirvalda að innlima
Gazasvæðið og Vesturbakkann í Ísraelsríki.
Jórdandalurinn, og þar með Vesturbakkinn,
var svæðið sem skipti yfirvöld eftir 1967 mestu
máli, enda hafði þá komið í ljós að með góðri
staðsetningu vestarlega í þeim dal gæti stór-
skotalið Ísraels varist nánast hvaða innrásar-
liði sem léti sér detta í hug að ráðast á landið úr
þeirri átt. Einnig bentu margir í hinum hægri-
sinnaða Likud-flokki á að best væri að verjast
hryðjuverkum Palestínumanna með sterkum
herafla í Palestínu sjálfri. Það leið þó ekki á
löngu þar til sú hugmynd kom upp að hægt
væri að notast við áunnin landsvæði sem eins-
konar spilapeninga til þess að tryggja friðar-
samkomulag á forsendum Ísraela. Að auki óx
þeim öflum fylgi sem vildu stækka Ísrael af
þjóðernislegum og trúarlegum ástæðum.
Eftir lok kalda stríðsins breyttist staðan í
deilunni gríðarlega. Ísraelar þurftu ekki leng-
ur að hafa eins miklar áhyggjur af innrás ná-
grannaríkja sinna sem voru flest farin að fórna
stuðningi sínum við Palestínumenn fyrir betri
samskipti við Bandaríkin. Raunsæir stjórn-
málamenn, bæði á hægri og vinstri vængjum í
Ísrael, nýttu sér þessar aðstæður sem og
þreytu þjóðarinnar á endalausu stríði. Útkom-
an var hið svokallaða Óslóar-friðarferli sem
hafði í raun hafist í Madríd árið 1991 og náði
hámarki við undirritun samningsins í höfuð-
borg Noregs tveimur árum síðar. Almennings-
álit í Ísrael hafði snúist og nú var vænlegasta
leiðin til friðar almennt talin felast í að gefa
Palestínumönnum land í stað friðar. Staðan
átti þó eftir að breytast enn á ný.
Camp David viðræðurnar eru sennilega eitt
umdeildasta atvik í nýlegri sögu deilunnar.
Ekki ber öllum saman um hvað þar fór fram;
Bandaríkjamenn og Ísraelsmenn segja að
Yasser Arafat hafi verið boðið nánast allt, sem
hann hefði nokkru sinni getað látið sig dreyma
um, en samt hafi hann ekki viljað leggja niður
vopn eða viðurkenna Ísrael. Palestínumenn
neita þessu alfarið og benda á ýmis vafaatriði
og varnagla í samningnum sem þeir töldu sig
ekki geta fengið nægilegar skýringar á. Fram-
tíðarstaða Jerúsalem og heilagra staða bæði
múslíma og gyðinga voru meðal deilumála en
þó hefur það líklegast vegið þyngst að Palest-
ínumenn voru ekki tilbúnir að fyrirgera rétti
flóttamanna til að snúa aftur til heimalands
síns. Sú krafa var af Ísraelsmönnum talin til-
raun til að þynna út og jafnvel eyða gyðinglegu
eðli Ísraelsríkis en Palestínumenn og ná-
grannaþjóðir þeirra töldu rétt flóttamanna til
að snúa heim vera mannréttindi og alþjóðalög
sem þeir gætu ekki haft af fólki við samninga-
borðið.
Endurkoma Sharons
Eftir hrun Camp David samningaferlisins
tók við tímabil óvissu í ísraelskum stjórnmál-
um. Frægur hershöfðingi og alræmdur stjórn-
málamaður að nafni Ariel Sharon varð leiðtogi
stærsta hægriflokksins, Likud. Hann hafði
sagt af sér ráðherradómi í ríkisstjórn Ísraels
fyrir að vera að hluta til ábyrgur fyrir fjölda-
morðum líbanskra skæruliða á palestínsku
flóttafólki árið 1982. Harðlínuhugmyndir hans
áttu hins vegar hljómgrunn meðal fólks sem
misst hafði trú á heiðarleika Yassers Arafat.
Eftir að Sharon heimsótti heilaga staði músl-
íma í Jerúsalem hófst áralalöng uppreisn Pal-
estínumanna og ísraelskra araba gegn hervaldi
Ísraels, uppreisn sem átti eftir að setja svip á
komandi forsætisráðherratíð hans.
Vaxandi skilningur var á því innan flestra
flokka, og í ísraelsku samfélagi almennt, að
tvær meginstefnur hefðu verið reyndar til að
leysa hið svokallaða „palestínska vandamál“ og
að báðar væru misheppnaðar og úreltar. Ariel
Sharon var ekki tilbúinn í samningaviðræður
við Yasser Arafat, enda hafði hann löngu af-
skrifað hann sem hryðjuverkamann sem ekki
væri hægt að koma vitinu fyrir. Al Aqsa sjálfs-
morðssveitirnar herjuðu á saklausa borgara
Ísraels á þessum tíma og á endanum kom í ljós
að þær höfðu bein tengsl við uppreisnarsinna
innan ríkisstjórnar Palestínu. Það hentaði
Sharon ágætlega þar sem hann gat eyðilagt ör-
yggissveitir Palestínumanna og PLO, samtök
Arafats, í ljósi þeirra upplýsinga – allt með
samþykki Bandaríkjanna. Sú stefna að hafa
herlið Ísraels í stöðugri viðbragðsstöðu út um
alla Palestínu virtist Sharon hins vegar jafn-
augljóslega misheppnuð og óvinsæl og fyrri til-
burðir til samningaviðræðna. Hann átti eftir að
sannfæra þjóð sína um ágæti þriðju leiðarinn-
ar: einhliða „aftengingu“ Ísraels frá Palestínu.
„Aftengingaráætlun“ Ariels Sharons átti
eftir að kljúfa Likud-flokkinn og leiða til stofn-
unar hægri/miðjuaflsins Kadima undir hans
forystu. Þrátt fyrir að öfgakennd öfl á báðum
vængjum stjórnmálanna gerðu heiðarlegar til-
raunir til að sannfæra ísraelsku þjóðina um
ágæti sitt kom allt fyrir ekki og miðjuöflin sigr-
uðu. Vinstrimenn bentu á stóraukna misskipt-
ingu auðs og fátækt innan Ísraels og báðu kjós-
endur um að láta ekki blekkjast af stríðsáróðri.
Hægrimenn vöruðu við því að gefa Palestínu-
mönnum full yfirráð yfir Gazasvæðinu og hluta
Vesturbakkans og spáðu hryðjuverkaöldu.
Niðurstaðan varð sú að þjóðin einbeitti sér að
Palestínuvandanum og tók afstöðu með Ka-
dima-flokknum.
Í einni skoðanakönnun sögðust 80% Ísraela
styðja minnkun heraflans á svæðum Palest-
ínumanna. Helstu rökin fyrir þessum breyt-
ingum er breyttur veruleiki á svæðinu; sú stað-
reynd að helsta ógn Ísraels er ekki lengur
innrásarlið heilu arabaþjóðanna, heldur til-
raunir hryðjuverkamanna til að komast inn
fyrir eða að landamærum þeirra. Í ljósi þessa
er það varla raunsæ stefna að dreifa herliði um
svæði sem hefur lítinn sem engan hernaðarleg-
an tilgang í nútímalegu samhengi. Þeir Ísrael-
ar sem vilja ekki fækka stórkostlega litlum,
ósjálfbærum og óvörðum „landnemabyggðum“
innan Palestínu eru í algjörum minnihluta.
Þetta sést kannski best á sterkri stöðu þeirra
flokka sem styðja hina umtöluðu aftengingar-
áætlun sem að lokum mun fela í sér töluverðar
breytingar á skipulagi landnemabyggða og
landamæravarna Ísraels.
Heilablóðfall Ariels Sharon færði fyrrver-
andi borgarstjóra Jerúsalem, harðlínumann-
inn Ehud Olmert, í forsætisráðherrastólinn.
Hingað til hefur lítið borið á stórum stefnu-
breytingum hjá Kadima en nýafstaðið stríð í
Líbanon er sennilega hluti af stærri áætlun
ríkisstjórnar Olmerts sem kann að eiga rætur
innan Ísraels og Palestínu. Samsæriskenning-
ar um samráð Bandaríkjanna og Ísraela gegn
Hezbollah og stuðningsmönnum þeirra í Íran
eru vissulega á allra manna vörum í Mið-Aust-
urlöndum en eins og staðan er í dag lítur
verknaður Ísraela í Líbanon út eins og tilraun
til að styrkja Kadima og Ehud Olmert, þótt
ekki sé eins víst um árangurinn. Stríðið hafði
frá upphafi víðtækan stuðning um allt Ísrael og
gæti gefið núverandi ríkisstjórn möguleika á
frekari aftengingu við Palestínu, án þess að á
það væri litið sem veikleikamerki eða uppgjöf
gegn hryðjuverkum.
Rætur og raunsæi
Höfundur er sjálfstætt starfandi blaðamaður.
Þróun ísraelskra stjórnmála á und-
anförnum misserum endurspeglar
aðlögun Ísraelsríkis að breyttum
veruleika. Gunnar Hrafn Jónsson
fjallar um sögu Ísraels og stöðu og
tilraunir til að tryggja öryggi með
breyttum áherslum við nýjar að-
stæður.
Reuters
Rétttrúaður gyðingur fylgist með er ísraelskar hersveitir skjóta úr vopnum sínum inn fyrir landamæri Líbanon nú í lok júlı́mánaðar. Saga Ísraelsríkis er
saga ríkis sem stofnað var af tveimur ólíkum hópum sem höfðu þó svipaðra hagsmuna að gæta.
Ehud Olmert
Ariel Sharon