Morgunblaðið - 20.08.2006, Side 28
28 SUNNUDAGUR 20. ÁGÚST 2006 MORGUNBLAÐIÐ
Fyrir réttum 70 árum syntiReykvíkingurinn PéturEiríksson úr Drangey tillands. Níu ár voru þá liðinfrá því Erlingur Pálsson
synti þetta Grettissund fyrstur
manna á síðari tímum. Sund Péturs
vakti geysimikla athygli, ekki síst
vegna þess að hann var aðeins 18
ára og hafði ungur veikst af berkl-
um og orðið að ganga með hækjur
um hríð. Hann hafði æft sund í þrjú
ár. Um haustið árið áður hafði hann
synt úr Viðey inn í Reykjavíkur-
höfn. Hann var fremsti sjósunds-
maður landsins í heilan áratug.
Sundið færði honum heilsuna
Pétur Eiríksson fæddist 31. júlí
1917. Í æsku var hann pasturslítill
að eigin sögn. Árið 1924, þegar
hann var á 7. aldursári, fékk hann
berkla í annan fótinn og auk þess
brjósthimnubólgu. Var hann rúm-
fastur á fjórða ár, ýmist heima í
foreldrahúsum eða á Vífilsstöðum.
Þegar hann komst á fætur varð
hann að ganga við tvær hækjur um
hríð og oft að vera í gifsi.
Pétur gerði sér ljóst að hann
varð að gera eitthvað til að öðlast
góða heilsu. Hann byrjaði að sækja
gömlu sundlaugarnar og kenndi
sjálfum sér að synda. Af völdum
veikindanna var hann með stífa
ökkla. Hann gat ekki beitt þeim
eins og þurfti í sundi. Hann gafst
upp á bringusundinu og sneri sér
að skriðsundi. Það hentaði honum
betur því með armtökunum gat
hann togað sig áfram. Seinna sagði
hann að sundið hefði öðru fremur
hjálpað sér til heilsu. Brennisteinn-
inn í vatninu í laugunum hefði ráðið
niðurlögum sjúkdómsins.
Sextán ára var Pétur orðinn
frækinn sundmaður. Hann var rétt
orðinn 17 ára þegar hann hlaut
sundþrautarmerki ÍSÍ árið 1934
fyrir að synda 1.000 m sjósund.
Veturinn og sumarið 1935 synti
hann mikið í köldum sjó. Um miðj-
an september var hann reiðbúinn
að reyna við Viðeyjarsund. Hann
lagðist til sunds frá Hákarlabás við
Virkið á Viðey og synti skriðsund
beinustu leið að Steinbryggju í
Reykjavíkurhöfn á 1:30 klst. Tím-
inn var nýtt met sem stóð í áratugi.
Í fótspor Grettis og
Erlings Pálssonar
Í Grettissögu segir frá því er
Grettir synti úr Drangey til lands.
Vegalengdin er um 7,5 km eða ein
vika sjávar eins og segir í sögunni.
Árið 1927 lék Erlingur Pálsson
þetta eftir. Haustið 1935 fékk Pétur
þá hugmynd að synda Drangeyj-
arsund. Hann æfði sig af kappi þótt
hann ynni í bakaríi frá því um kl. 6
á morgnana til klukkan sjö á kvöld-
in. Eftir vinnu hélt hann inn í sund-
laugar til æfinga. Stundum æfði
hann í 2–3 klst. Síðustu tvo mán-
uðina fyrir sundið gat hann þó sinnt
sundæfingum eingöngu vegna þess
að hann fékk leyfi foreldra sinna til
taka sér frí úr vinnunni. Pétur naut
aðstoðar Ólafs Pálssonar sundkenn-
ara. Alla daga maí- og júnímánaðar
synti Pétur í 2–3 klst. annaðhvort í
sundlaugunum eða í lauginni á Ála-
fossi. Tvívegis synti hann út í Viðey
og einu sinni úr Engey. Í Engeyj-
arsundinu setti hann nýtt met,
synti á 1:02,00 klst.
Sunnudaginn 26. júlí 1936 hélt
Pétur norður á Sauðárkrók. Með
honum var sundkappinn Lárus
Rist. Daginn eftir var óhagstætt til
sunds. Á þriðjudagsmorguninn 28.
júlí var veður kyrrt. Var þá ákveðið
að fara út í Drangey. Tveimur bát-
um var siglt út í eyna, annar var
trillubátur en hinn árabátur. Lagt
var að í Uppgönguvík sem er vest-
an á eyjunni. Með í för var Jónas
Kristjánsson, læknir á Sauðárkróki,
sem síðar varð þekktur fyrir nátt-
úrulækningar og fjórir aðrir fylgd-
armenn.
Fyrir sundið var Pétur smurður
með lanolín (sauðullarfeiti) frá
hvirfli að iljum. Í það fóru 9 kíló. Þá
fór hann í ermalausa ullarskyrtu
næst sér, síðan í vaxdúksbol þar ut-
an yfir og yst í ullarsundbol sem
náði upp í háls og niður á mið læri.
Hann klæddist einnig háum sokk-
um sem saumaðir voru fastir við
bolinn. Vaxdúkshettu hafði hann á
höfðinu og gúmmíhettu þar utan yf-
ir, hlífðargleraugu og svo hanska á
höndum. Auk þessa hafði hann
sokkboli á lærum og upphandleggj-
um. Þetta var nokkuð þungur bún-
ingur. Það tók á aðra klukkustund
að búa Pétur undir sundið. Var
honum þá orðið sárkalt.
Fannst Drangey elta sig
Pétur lagði loks til sunds en fann
fljótt að sjór rann inn um hálsmálið.
Sneri hann þá við og lét vefja sára-
bindi yfir brjóstið. Hann lagði svo
aftur af stað klukkan rúmlega ell-
efu. Veður var gott, blæjalogn og
sjávarhiti um 9 gráður. Til að fá í
sig hita synti Pétur greitt út víkina.
Tók síðan stefnuna í land. Þegar
hann var kominn út á mitt sundið
leit hann snöggvast til baka. Sýnd-
ist honum þá Drangey vera rétt
fyrir aftan sig. Við Morgunblaðið
sagði hann „Og svo var eins og mér
miðaði ekki neitt, eða eyjan elti mig
alltaf.“
Pétur og félagar gerðu afdrifarík
mistök í upphafi sundsins. Í stað
þess að velja stystu leiðina til lands,
þ.e. að Reykjadiski, settu þeir
stefnuna nyrst á Tindastól (Land-
senda), langt fyrir norðan Reykja-
disk. Sú leið var a.m.k. 1.000 m
lengri. Ætlunin var að Pétur gæti
nýtt sér sjávarstrauma að landi. Sú
varð ekki raunin. Engir straumar
léttu honum sundið. Þvert á móti
fékk hann útfallið á móti sér. Stór-
an hluta leiðarinnar synti hann á
móti straumi.
Vonleysi grípur Pétur
Þegar Pétur hafði synt rösklega í
klst. fór sjávarkuldinn að gera hon-
um erfitt fyrir. Blaðið Vísir hafði
eftir honum: „Það var óhugnanleg
reynsla þegar ég fann að kuldinn
var að komast í skrokkinn. Það var
eins og að vera stunginn með nál-
um.“ Honum varð stöðugt kaldara
er á leið sundið og að því kom að
vonleysið greip hann. Það hvarflaði
að honum að gefast upp – gefa upp
vonina um að komast í land. Hann
átti þá um 500 m eftir. Kraftarnir
voru þrotnir og hann óttaðist að fá
stjarfa. Lárusi og félögum í ára-
bátnum tókst að róa hann svo hann
hélt áfram. Það tók hann röskar 3
klst. að synda þessa 500 m sem eft-
ir voru.
Pétur hvíldi sig aldrei á sundinu
nema í þau 4–5 skipti sem hann
fékk sér hressingu. Tróð hann þá
marvaðann á meðan. Hressingin
var eggjarauða, sardínur í olíu,
heitt kaffi sterkt og volg mjólk.
Kaffið og sardínurnar hresstu hann
mest.
Synti síðasta spölinn
með lokuð augun
Pétur var með gleraugu eins og
áður segir. Trúlega hefði hann aldr-
ei komist yfir sundið ef hann hefði
ekki haft þau. En kvikan slóst sí-
fellt í andlit hans og skolaði feitinni
smátt og smátt af gleraugunum.
Sjórinn komst við það undir þau og
í augu Péturs. Undir lokin sveið
hann svo undan sjónum að hann gat
varla haldið augunum opnum. Síð-
asta spölinn synti hann með þau
lokuð.
Sjónarvottur í landi sagði síðar
frá því að þegar Pétur hefði átti
stutt eftir í land hafi hann gripið í
árabátinn. Hefðu þeir, sem í bátn-
um voru, þá slitið hann frá bátnum.
Við það tók Pétur ranga stefnu.
Bátsverjar náðu til hans með stöng
og sneru honum við. Synti hann þá
í land.
„Land! Húrra!“
Pétur kom að landi í Sandvíkinni
rétt fyrir norðan Reykjadisk. Hann
fann allt í einu fyrir sjávarbotni og
hrópaði þá ósjálfrátt „Land!
Húrra!“ Hann ætlaði að standa á
fætur en var svo þreyttur og
stirður að hann féll kylliflatur. Þá
reyndi hann að skríða upp á sjáv-
arbakkann en það leið yfir hann áð-
ur en hann komst alla leið. Í fjör-
unni voru bóndinn á Reykjum og
nokkrir piltar frá Sauðárkróki.
Studdu þeir Pétur á milli sín upp á
sjávarbakkann og lögðu hann þar
niður.
Púls ófinnanlegur
Jónas læknir kom brátt til Pét-
urs, hlustaði hann og greindi að
hjarta hans sló afar hægt. Var Pét-
ur þá studdur yfir tangann að
Reykjalaug. Fylgdarmennirnir
byrjuðu að þrífa hann – skafa af
honum feitina. Á meðan leið yfir
hann hvað eftir annað. Jónas hlust-
aði hann á ný og ákvað síðan gefa
honum sprautur til að lífga hann við
því hjartað væri rétt við að stoppa.
Alls urðu sprauturnar tólf. Pétur
minntist þess að hafa heyrt Jónas
segja eftir sprautugjöfina: „Ég held
að hann ætli að hafa það.“
Í blaðagrein eftir sundið sagði
Jónas að Pétur hafi verið „yfirkom-
inn af kulda svo mjög, að ég tel
slíka ofkælingu stórhættulega
heilsu og lífi. Þannig var púls ófinn-
anlegur á úlnliðnum. Meðvitund
sljó, og vöðvaafl nálega þrotið. Æð-
ar engar sjáanlegar nema blá strik
á handleggjum. Hjartslátturinn var
29 slög á mínútu,“
Fljótur að ná sér
Pétur var 5 klukkustundir og 19
mínútur á sundi. Hann var því
næstum því einni klst. lengur í
köldum sjónum en Erlingur sem
synti á 4:24 klst. Árið 1939 synti
Haukur Einarsson á 3 klst. og 20
mín.
Við Reykjalaug var Pétur færður
í hlýjan fatnað. Gekk hann svo heim
að Reykjum. Þar fékk hann rúm til
hvíldar. Eftir að hafa sofið í 11⁄2
klst. vaknaði hann og var eins og
nýsleginn túskildingur.
Ekki var til setunnar boðið og
Pétur og Lárus héldu brátt af stað
ríðandi inn á Sauðárkrók – um 17
km leið. Þegar til Reykjavíkur kom
var Pétur skoðaður af þremur
læknum. Kom þeim öllum saman
um að hann væri stálsleginn.
Fleiri sundafrek
Eftir Drangeyjarsundið lét Pétur
sig dreyma um meiri afrek. Strax
árið eftir hafði hann hug á því að
synda yfir Stórabeltið í Danmörku
(um 18 km). Danska sundkonan
Lilli Andersen var fyrst til að synda
það sund sumarið áður. Pétur skrif-
aði henni og leitaði ráða. Ekkert
varð þó úr þessari fyrirætlan hans.
Síðar hafði hann hug á að reyna við
Ermarsundið en heimsstyrjöldin
síðari kom í veg fyrir það.
Árið 1937 synti Pétur Viðeyjar-
sund öðru sinni fyrstur manna. Árið
eftir synti hann yfir Oddeyrarál
(850 m) á nýju meti (18:33 mín.)
Nokkrum dögum síðar varð hann
fyrstur til að synda yfir Eyjafjörð,
þ.e. úr Veigastaðabás að Torfunes-
bryggju, um 2.100 m langt sund á
38 mín. Árið 1939 sigraði hann í
kappsundi úr Engey inn að Stein-
bryggju. Keppendur voru þrír. Pét-
ur synti á 53:35,7 mín. Annar varð
Haukur Einarsson á 53:46,8 mín.
Pétur dvaldist á Siglufirði sumarið
1944. Synti hann þá yfir Siglufjörð.
Þjálfari og leiðbeinandi
Þegar sundferli Péturs lauk
gerðist hann þjálfari og leiðbein-
andi yngri sjósundsmanna eins og
Eyjólfs Jónssonar og Axels Kvaran.
Má segja að Pétur hafi verið viðrið-
inn nánast öll sjósundsafrek sem
unnin voru um miðja öldina.
Pétur útskrifaðist sem fiskmats-
maður árið 1948 en vann aðallega
sem hleðslustjóri á saltfiski og
skreið á vegum Skreiðarsamlagsins
og SÍF. Hann lést 5. júlí 1998.
Helstu heimildir: Minnisgreinar eftir Pétur
Eiríksson.
Mbl. 28. júlí, 2. ágúst og 12. ágúst 1936.
Nýja dagblaðið 13. september 1935 og 6.
ágúst 1936.
Vísir 4. september 1936, 28. júlí 1961 og 29.
nóv. 1980.
Pétur með verðlaunagripina fyrir sundið 1936.
!
"
!
!
"
!
#$% " &' '
Drangeyjar-
sund Péturs
Eiríkssonar
Pétur Eiríksson (1917 - 1998) var fremsti sjósundsmaður
landsins í heilan áratug. Aðeins 18 ára afrekaði hann að
synda úr Drangey til lands. Ingimar Jónsson lýsir sundinu,
sem var um margt merkilegt.
’Fyrir sundið var Pét-ur smurður með la-
nolín (sauðullarfeiti)
frá hvirfli að iljum. Í
það fóru 9 kíló. ‘
Höfundur er íþróttafræðingur
og rithöfundur
Pétur með sárabindi vafin yfir brjóst-
ið í Uppgönguvík Drangeyjar.