Morgunblaðið - 10.11.2006, Síða 54
54 FÖSTUDAGUR 10. NÓVEMBER 2006 MORGUNBLAÐIÐ
MINNINGAR
✝ Andrés Þór-arinn Magn-
ússon fæddist í Vík í
Mýrdal 22. júní
1924. Hann lést á
Landspítalanum í
Fossvogi 2. nóv-
ember síðastliðinn.
Foreldrar hans voru
Steinunn Karitas
Andrésdóttir, f. 4.
maí 1885, d. 28.
febrúar 1963 og
Magnús Ingileifsson,
f. 4. febrúar 1888, d.
15. desember 1967.
Systkini Andrésar voru Ingigerð-
ur Fanney, f. 2. júlí 1916, d. 16.
febrúar 1992, Björn Bergsteinn, f.
3. apríl 1918, d. 23. júní 1936, Guð-
mundur Óskar, f. 30. júlí 1922, d.
1. maí 1931 og Magnea Steinunn,
f. 17. nóvember 1925.
Andrés kvæntist 10. ágúst 1947
Jóhönnu Svövu Jónsdóttur frá
Kirkjubæ í Vestmannaeyjum, f.
19. febrúar 1927. Þau bjuggu
lengst af við Kleppsveg í Reykja-
vík. Foreldrar hennar voru Guð-
rún Hallvarðsdóttir, f. 17. október
1888, d. 15. febrúar 1993 og Jón
Valtýsson, f. 23. október 1890, d.
13. maí 1958. Systkini Svövu voru
Aðalheiður, f. 20. ágúst 1918, d. 4.
desember 1995, Jóhann Valtýr, f.
10. maí 1922, d. 16. júní 1922 og
Sigurbergur, f. 19. maí 1923, d. 17.
júní 1992.
Börn Andrésar og Svövu eru: 1)
Jóna Berg, f. 5. janúar 1947, gift
Sigurði Inga Ing-
ólfssyni, f. 28. jan-
úar 1945. 2) Edda
Guðrún, f. 28. des-
ember 1952, gift
Stefáni Ólafssyni, f.
29. janúar 1951. 3)
Gunnar Magnús, f.
8. ágúst 1959,
kvæntur Margréti
Jónsdóttur, f. 11. júlí
1959. Andrés og
Svava eiga níu
barnabörn, sjö
barnabarnabörn og
eitt barnabarna-
barnabarn.
Andrés vann ýmis störf til sjós
og lands. Á yngri árum stundaði
hann sjómennsku og siglingar á
stríðsárunum. Seinna vann hann
meðal annars við vega- og brúar-
gerð hjá Vegagerð ríkisins en
lengst af í Hvalstöðinni í Hvalfirði
þar sem hann hóf störf við hval-
skurð 1958 og var ráðinn verk-
stjóri 1970. Hann starfaði þar
óslitið til ársins 1994 þótt hval-
veiðum væri hætt nokkru fyrr.
Andrés var náttúrunnandi, hag-
yrðingur og hagleiksmaður og
verk eftir hann er meðal annars að
finna í Brydebúð í Vík í Mýrdal.
Myndlist og bókmenntir áttu þó
hug hans. Myndlistarhæfileikar
hans komu snemma í ljós og hann
hélt margar málverkasýningar.
Útför Andrésar verður gerð frá
Fossvogskirkju í dag og hefst at-
höfnin klukkan ellefu árdegis.
Góðar minningar tengjast tengda-
föður mínum, sem var hvers manns
hugljúfi. Andrés var listhagur, og
eru margir skemmtilegir hlutir til
eftir hann. Mest hafði hann einbeitt
sér að málaralist, og haldið nokkrar
sýningar víða um land. Hann stund-
aði sjómennsku til fjölda ára, og fór
ungur á vertíð til Vestmannaeyja,
þar sem hann kynntist eftirlifandi
eiginkonu sinni, Svövu Jónsdóttur
frá Kirkjubæ.
Andrés og Svava stofnuðu heimili
sitt í Reykjavík. Auk sjómennsku
vann hann á sumrin í brúarvinnu og
var Svava ráðskona með honum.
Hann var lengi á mb. Andvara
með Jóni Guðjónssyni. Þar um borð
voru einungis afbragðsmenn, enda
fast sótt og mikill afli. Seinna var
Andrés starfsmaður Hvals hf. og var
þar verkstjóri til fjölda ára, eða þar
til hvalveiðar stöðvuðust. Gaman var
að koma í heimsókn í hvalstöðina til
Andrésar og Svövu, en Svava sá um
allan bakstur fyrir starfsmenn Hvals
hf., og var oft gott að koma við í eld-
húsinu hjá henni og fá nýbakaðar
kræsingar með kaffinu.
Þau höfðu fyrir sig einn af brögg-
um Hvals hf. og bjuggu sér þar fal-
legan og heimilislegan sumardvalar-
stað. Það var Andrési mikið áfall er
hvalveiðar voru aflagðar, en hann
vann nokkur ár eftir það við viðhald
eigna í Hvalfirði. Það var alltaf von
Andrésar að veiðar hæfust á ný, og
sorglegt, að þegar þær hófust loks-
ins aftur lá tengdafaðir minn bana-
leguna á sjúkrahúsi.
Margt kemur upp í hugann nú,
eins og þegar hann var við veiðar við
Dyrhólaós ásamt afabörnum sínum.
En eftirminnilegastar eru tvær
síðustu veiðiferðirnar að Heiðar-
vatni, en þar áttu Svava og Andrés
veiðirétt í net. Veitt var á báti og oft
ágæt veiði. Þarna naut Andrés sín,
og varð hreinlega ungur aftur. Hann
sagði mér frá hvernig þeir í Vík, en
þar ólst hann upp, hefðu notað Heið-
arvatn sem matarkistu, enda fiskur
og fugl mikils virði fyrir heimilin í
Vík á þessum árum. Þá var dregið
fyrir með aðstoð hesta og náð í
bleikju og urriða, sem var svo flutt á
hestum í Víkina. En þessi aðferð er
löngu aflögð. Það hefur verið aðdá-
unarvert hvernig Svava tengdamóð-
ir mín hefur annast um mann sinn í
veikindum hans og dvalið langtímum
hjá honum á sjúkrahúsinu síðustu
mánuðina.
Blessuð sé minning Andrésar,
tengdaföður míns.
Sigurður Ingi Ingólfsson.
Tengdafaðir minn hann Andrés
Magnússon er fallinn frá. Ég vil
minnast hans með nokkrum orðum.
Andrés var óvenjulegur maður að
mörgu leyti. Hann var fæddur í fjöl-
skyldu alþýðufólks í Vík í Mýrdal ár-
ið 1924 og alinn upp við kröpp kjör,
eins og algengt var á þeim tíma.
Skólaganga var almennt takmörkuð
og þörfin á að ungir menn tækju
snemma þátt í brauðstriti fjölskyld-
unnar var ráðandi. Andrés vann á
unga aldri að ýmsum störfum í Vík
og þótti vel liðtækur. Hann fékk því
góða innsýn í samfélagið frá fyrstu
tíð. Þótt dökka skugga hafi lagt yfir
bernskuárin með sviplegu fráfalli
tveggja ungra bræðra voru minning-
ar Andrésar um bernskuna í for-
eldrahúsum hlýjar. Hann hlaut enda
gott upplegg sem hann gerði sér
mikinn mat úr á lífsleiðinni.
Þegar ég kynntist Andrési, árið
1982, var hann sannarlega fjölfróður
menntamaður og heimsmaður, þrátt
fyrir uppruna í litlu samfélagi við
ysta haf og litla formlega skóla-
göngu. Andrés las alla tíð mikið og
fylgdist vandlega með fréttum og
framvindu þjóðmála. Minnið var gott
og hvergi var komið að tómum kofa
hjá honum. Enda var gaman að ræða
við hann þjóðlegan fróðleik, landsins
gagn og nauðsynjar og stærri heims-
mál.
Í hjarta Andrésar bjó alla tíð
frjálslynd jafnaðarhugsjón, mörkuð
af kynnum af kjörum alþýðufólks og
víðsýni þess sem er skynsamur og
vill bæta samfélagið í þágu allra.
Hvergi gætti einstrengingslegra
sjónarmiða né óraunsæis og því
mátti alltaf treysta mati Andrésar á
álitaefnum dægurmálanna. Mann
langaði oft að gerast þátttakandi í
þjóðmálabaráttu og taka duglega á
með honum þegar eldarnir brunnu í
fjörugum samræðum.
En Andrés var ekki aðeins fjöl-
fróður, víðsýnn og réttlátur í hugsun
og þroska. Hann var einnig mikill
listamaður. Málari af guðs náð og
handverksmaður hinn mesti. Eftir
hann liggur mikið safn vandaðra
málverka, sem sumar hafa farið víða
um land og lönd, enda hélt hann
margar sýningar á ferlinum. Sér-
staklega hugleikin voru myndefni
frá Vík, Vestmannaeyjum og héðan
af suðvesturhorni landsins. Í Bryde-
búð í Vík er nú geymt handgert líkan
Andrésar af bátnum Skaftfellingi,
sem var mikilvirkt samgöngutæki á
bernskuárum hans þar eystra. Það
er listasmíð hin besta.
Andrés starfaði lengi í Hvalstöð-
inni í Hvalfirði og kynntist þar fjöl-
mörgu góðu fólki. Hann átti góðar
minningar frá þeim tíma. Vinabönd
frá árunum í hvalnum eru enda sterk
og langvarandi. Því miður öftruðu
veikindi honum frá því að taka þátt í
nýju upphafi hvalveiða, en það hefði
orðið honum mikið fagnaðarefni að
geta lagt hönd á þann plóg.
Andrés var mikill gæfumaður.
Hann kynntist Svövu konu sinni árið
1945 er hann var á vertíð í Vest-
mannaeyjum. Þar fór kvenkostur
hinn besti og saman byggðu þau sína
fjölskyldu sem vel hefur ávaxtast.
Samband Andrésar og Svövu var af-
ar traust og gott og einstaklega
aðdáunarvert hversu vel hún stóð við
bak hans er erfið veikindi mörkuðu
síðasta spölinn. Við í fjölskyldunni
kveðjum eðalmann, vin og velgjörða-
mann, með söknuði. Missir Svövu er
mikill og hugur allra er hjá henni.
Stefán Ólafsson.
Elsku afi, mér finnst svo sárt að
hugsa til þess að þú sért ekki lengur
hér hjá okkur.
Hugurinn fer á flug og allar góðu
minningarnar í gegnum árin koma
upp.
Ég man þegar ég var yngri, hvað
mér fannst spennandi að koma í
Hvalfjörðinn til ykkar ömmu. Fara
til þín á planið, haldandi fyrir nefið
því lyktin var svo vond.
Hlaupa út í eldhús til ömmu og
fylgjast með bakstrinum, kaupa
nammi í braggasjoppunni. Og í
minningunni er alltaf sól.
Það var svo notalegt að heimsækja
ykkur á Kleppsveginn, amma með
nýbakað og þú vildir fá að vita um
allt sem var að gerast í Eyjum og þið
Gummi gátuð mikið spjallað um sjó-
mennskuna, áhugamál ykkar
beggja.
Oft var farið með þér niður í kjall-
ara til að skoða það sem þú varst bú-
inn að skera svo listilega vel út og
myndirnar sem þú varst að mála,
ófáar úr Eyjum.
Þegar við kvöddum þá stóðuð þið
amma brosandi úti í glugga og veif-
uðuð til okkar þangað til við vorum
komin úr augsýn, mikið á ég eftir að
sakna þess.
Síðast þegar þið komuð til Eyja
var það í ferminguna hennar Ásu
Guðrúnar. Gummi eldaði hafragraut
handa þér og hvað þú varst nú
ánægður.
Það þurfti ekki mikið til að gleðja
þig og þú máttir aldrei neitt aumt
sjá.
Elsku afi, þó að þú sért farinn héð-
an þá verður þú alltaf í hjarta mínu
og eiga minningarnar um þig eftir að
ylja mér um ókomin ár.
Takk fyrir allt. Þín dótturdóttir
Andrea Inga.
Þótt afi ynni mikið alla ævi og líka
þegar ég var lítill var eins og hann
hefði alltaf nógan tíma. Hann hafði
alla vega alltaf tíma fyrir okkur
barnabörnin sín. Það var alltaf hægt
að leita til hans og fá ráð þegar maður
þurfti.
Afi hafði gaman af handbolta og
einnig fótbolta og ég horfði oft á leiki
með honum. Afi kenndi mér að veiða
og fór líka oft með okkur í silungs-
veiðar. Hann gaf okkur líka margar
gamlar bækur sem var gaman að
lesa og fást ekki í bókabúðum nú til
dags.
Afi var sá fyrsti sem kom mér í
það að teikna og mála. Ég man að ein
jól gaf hann mér vatnslitasett og
nokkur blöð til þess að sýna tilfinn-
ingar mínar með litríkum og
ánægjulegum myndum. Ég er viss
um það að ég mun teikna afa oft í
framtíðinni og ég er viss um að allar
myndirnar verða svo sannarlega
ánægjulegar.
Í gegnum tíðina var afi alltaf svo
góður og hjálplegur. Jafnvel þó að ég
mundi skrifa eina síðu eða margar
síður um afa þá væri samt ekki hægt
að lýsa því með orðum hversu miklar
tilfinningar ég ber til hans og hvern-
ig ég man allt sem hann gerði fyrir
mig. Ég þakka honum fyrir allt. Ég
mun aldrei gleyma honum né því
sem hann gerði fyrir mig.
Sindri.
Ég vil minnast afa míns með
nokkrum orðum. Efst í hugann koma
minningar um afa í Hvalfirðinum,
þar sem hann var verkstjóri. Það var
spennandi að koma þangað í heim-
sókn á sumrin þegar hvalvertíðin
stóð sem hæst og mest gaman þegar
við hittum hann á planinu og hann
gaf sér tíma til að skjótast með okk-
ur inn í verkstjórakompu. Svo var
farið í eldhúsið þar sem amma sá um
allan bakstur og fékk maður þá eitt-
hvað gott að borða. Yfir þessu var
ævintýraljómi sem seint gleymist.
Afi hafði líka gaman af að veiða á
stöng og áttum við góðar stundir við
Grenlæk þar sem hann naut sín vel.
Við veiddum líka í Heiðarvatni og
Dyrhólaós seinni árin og var gaman
að vera þar með afa. Þar var hann á
sínum gömlu heimaslóðum og naut
þess að koma í Víkina þar sem hann
var fæddur og uppalinn.
Sjómennskuna áttum við sameig-
inlega og gaman var að heyra hann
segja frá sínum sjómannsárum og
ólíku saman að jafna, sjómennsku í
þá daga og nú, og gaman að hlusta á
frásagnir hans.
Takk fyrir samveruna, afi minn.
Guð geymi þig.
Tryggvi Rúnar Sigurðsson.
Þegar ég lít aftur og hugsa um afa
man ég fyrst eftir hringlinu í lykl-
unum hans þegar hann kom gang-
andi inn í herbergið mitt með græn-
an hundraðkrónuseðil. Ég setti hann
beint ofan í skúffu þar sem hann lá
óhreyfður þangað til hann fór í bank-
ann. Mér fannst verðmæti gjafarinn-
ar svo mikið að ég tímdi ekki að
kaupa fyrir hana.
Að hafa kynnst afa var ómetanleg
reynsla fyrir mig. Hann sýndi mér
ávallt mikinn stuðning og hafði trú á
því sem ég gerði.
Hann eyddi miklum tíma með okk-
ur bræðrum og fór oft með okkur í
Hvalfjörð að tína glópagull og að
veiða í Heiðarvatni auk þess sem
hann gaf okkur liti og pensla til að
mála með.
Síðasta samtalið sem ég átti við
afa í einrúmi var um síðustu jól.
Hann spurði hvort ég teiknaði ennþá
og ég játti því. Hann sagði að það
væri mikilvægt að hafa eitthvað til að
dunda sér við og skapa.
Það er erfitt að lýsa því hversu
mikils virði það er að hafa þekkt
mann eins og hann. Eiginlega ná
engin orð yfir það.
Í huga mínum verður minningin
um hann geymd á góðum stað sem
ég mun aldrei gleyma.
Andri.
Kveðja til afa
Ó, faðir, gjör mig lítið ljós
um lífs míns stutta skeið,
til hjálpar hverjum hal og drós,
sem hefur villst af leið.
Ó, faðir, gjör mig blómstur blítt,
sem brosir öllum mót
og kvíðalaust við kalt og hlýtt
er kyrrt á sinni rót.
Ó, faðir, gjör mig ljúflingslag,
sem lífgar hug og sál
og vekur sól og sumardag,
en svæfir storm og bál.
Ó, faðir, gjör mig styrkan staf
að styðja hvern sem þarf,
uns allt það pund, sem Guð mér gaf,
ég gef sem bróðurarf.
Ó, faðir, gjör mig sigursálm,
eitt signað trúarlag,
sem afli blæs í brotinn hálm
og breytir nótt í dag.
(Matthías Jochumsson)
Takk fyrir allt elsku afi minn.
Viðar Máni.
Þegar fyrsta langreyðurin var
dregin upp á planið nú á dögunum
söknuðum við Andrésar úr hópnum
gamlir flensarar og karlar úr Hvaln-
um. Hann hafði veikst snögglega í
sumar og átt erfiða daga og nú hefur
hann kvatt, þessi góði vinur okkar.
Andrés byrjaði í Hvalnum árið
1958. Þá veiddust 507 hvalir ef ég
man rétt og við vorum 10 á hvorri
vakt, svo að mikið var um frívaktir
og langur vinnutími. En það vildum
við líka og Andrés hlífði sér hvergi.
En samt fann hann sér stundir til að
mála. Ég á frá þessu sumri fallegt
málverk af planinu. Auðvitað sjást
ekki andlitsdrættir, en við þekkj-
umst allir á Þórisvakt af stöðu okkar
á planinu. Helgi á Fossá situr við
spilið og Kristján Sigurgeirsson er
að flensa. Andrés hefur staðið með
trönurnar fyrir ofan viktarskúrinn.
Andrés var mikill mannþekkjari
og lagði upp úr, að menn væru ær-
legir og duglegir. „Hann er hörku-
maður,“ var mesta hrósyrði sem
hann gat sagt um nokkurn mann. Og
sjálfur var hann hörkumaður. Hann
vildi að menn legðu sig fram, ef mik-
ið barst að, svo að kjötið súrnaði
ekki. Það var gaman að vinna með
honum. Hann fyllti alla eldmóði, sem
í kringum hann voru. Síðar varð
hann verkstjóri og eftirlitsmaður
með eignum Hvals. Hann vann fyr-
irtækinu vel og þótti vænt um það.
Andrés var hörkugreindur, hafði
sterka athyglisgáfu og glöggt auga
fyrir hinu skoplega og skemmtilega.
Í rauninni var hann viðkvæmur í
lund eins og títt er um listamenn, en
harkaði af sér og vildi ekki af því
vita. Hann hélt sýningar og málaði
fram á síðustu stund. Myndirnar eru
margar gullfallegar og lýsa mannin-
um, áhugamálum hans og tryggð.
Andrés var meðal þeirra manna,
sem ég hef metið hvað mest. Því
veldur drengskapur hans og góðir
eðliskostir. Guð blessi minningu
hans.
Halldór Blöndal.
Elsku langafi.
Við þökkum þér fyrir tímann sem
við áttum saman en við vildum óska
að hann hefði orðið lengri. Við hugg-
um okkur við það að vita að þér líður
vel núna.
Við eigum eftir að sakna þess að
fara frá Kleppsveginum og sjá ykkur
ömmu ekki saman að veifa okkur
bless.
Hver minning dýrmæt perla að liðnum
lífsins degi,
hin ljúfu og góðu kynni af alhug þakka hér.
Þinn kærleikur í verki var gjöf, sem
gleymist eigi,
og gæfa var það öllum, er fengu að kynnast
þér.
(Ingibjörg Sigurðardóttir.)
Saknaðarkveðjur frá langafabörn-
um.
Sigurður Ingi, Ása Guðrún,
Ásdís Ósk og Daníel.
Andrés Magnússon
Vertu yfir og allt um kring
með eilífri blessun þinni,
sitji Guðs englar saman í hring
sænginni yfir minni.
(Sig. Jónsson frá Presthólum.)
Guð geymi þig elsku afi minn.
Kær kveðja, þín
Svava.
Elsku afi minn
Hvíldu í friði, afi minn kær
í þögn grafarinnar.
Himnaríki nálgast nær og nær
við leið fararinnar.
Í hita og kulda þú verður með oss
þar sem lífið gengur sinn gang
í huga okkar þú verður foss
hinn fegursti við okkar vanga.
Hvíldu í friði afi minn kær
í hjarta okkar þú verður alltaf
aldrei hverfurðu né ferð fjær eða fjær
því þú verður okkur sem kraftur.
(Höf. ók.)
Kveðja, þín
Ólöf.
HINSTA KVEÐJA
Fleiri minningargreinar
um Andrés Magnússon bíða birting-
ar og munu birtast í blaðinu næstu
daga. Höfundar eru: Jóhann Svavar
Þorgeirsson, Bjarni Þórðarson, Sig-
urður Bjarnason, Sigurður Gott-
harð frá Kirkjubæ, Jón Eysteinsson
og Þórunn Magnúsdóttir